ENDATÍMASÝN TOMMY HICKS

 

Hinn þekkti trúboði Tommy Hicks (1909 – 1973) fékk eftirfarandi sýn árið 1961. Þessi sýn hefur verið birt í bók sem heitir Pertinent Prophecies I, eftir John M. og Dorothea M. Gardner og einnig í bókinni How to Heal the Sick eftir Charles og Frances Hunter.

 

Formáli eftir Colin Winfield

 

Tommy Hicks var trúboði, sem starfaði á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Hann var gestkomandi hjá Demos Shakarian 26. desember árið 1952, en þá nótt gaf Guð bróður Demos sýn, þar sem hann sá hvernig Guð myndi láta félagsskapinn sem hann hafði stofnað (Full Gospel Business  Men’s Fellowship) vaxa og dafna.


Tommy Hicks með
Juan Perón forseta

 Þessa sömu nótt talaði Drottinn til Tommy Hicks um að fara til Argentínu og predika fagnaðarerindið.

 

Tveimur árum síðar, þegar Tommy Hicks kom fyrst til Argentínu reyndi hann í upphafi að hitta Juan Perón forseta. Tommy var sagt af opinberum starfsmanni að umsókn hans hefði verið hafnað. Þegar embættismaðurinn gekk í burtu, sá Tommy að hann haltraði. Tommy spurði manninn hvað væri að honum. Maðurinn svaraði að hann hefði þjáðst mikið í mörg ár. Tommy spurði hvort hann mætti biðja fyrir honum, og skipaði svo sársaukanum að fara í Jesú nafni. Maðurinn gekk burtu, en stoppaði skyndilega þegar hann áttaði sig á því að hann var læknaður. Tommy var sagt að hann gæti hitt forsetann næsta dag.

 

Þegar Tommy Hicks hitti Perón forseta, sagði forsetinn honum frá afleitum húðsjúkdómi sem þjáði hann. Tommy bað fyrir forsetanum og hann læknaðist samstundis. Perón forseti gaf Tommy Hicks leyfi til að nota íþróttaleikvanginn í Buenos Aires fyrir samkomuherferðina.

 

Þessi samkomuherferð er einn af stærstu atburðunum í allri trúboðssögunni. Á sex vikum, fengu 6,5 milljónir einstaklinga að heyra fagnaðarerindið. Hundruð þúsunda gáfu Jesú Kristi líf sitt. Þúsundir fengu lækningu. Einn eftirmiðdaginn, þegar Tommy var að predika um skugga Péturs, þá féll skugginn af predikaranum á hóp af fólki sem var alvarlega sjúkt (á hækjum, í hjólastólum og á sjúkrabörum). Fólkið læknaðist samstundis og byrjaði að hrópa hástöfum. Fólkið á leikvanginum stóð upp og fór að hrópa og fólk læknaðist um allan leikvanginn.

 

Hinn 25. júlí árið 1961, fékk Tommy Hicks spámannlega sýn um líkama Krists og þjónustu endatímanna.

 

 

 

SÝN UM LÍKAMA KRISTS OG ÞJÓNUSTU ENDATÍMANS

 

Boðskapur minn byrjar þann 25. júlí, um það bil 2:30 að morgni í Winnipeg í Kanada. Ég var nýlega sofnaður þegar sýn og opinberun sem Guð gaf mér, átti sér stað. Sýnin kom þrisvar sinnum, í smáatriðum um morguninn 25. júlí 1961. Ég var svo uppveðraður og hrærður af þessari opinberun, að skoðanir mínar á líkama Krists og þjónustu endatímans hafa gjörbreyst.

 

Það stórkostlegasta sem kirkju Jesú Krists hefur nokkru sinni verið gefið, er beint framundan. Það er svo erfitt að hjálpa mönnum og konum að gera sér grein fyrir og skilja það sem Guð er að reyna að gefa sínu fólki á endatímanum.

 

Fyrir nokkrum vikum síðan, fékk ég bréf frá einum af trúboðum okkar í Nairobi í Afríku. Þessi trúboði og konan hans voru á leiðinni til Tanganyika. Þau kunnu hvorki að lesa né skrifa, en við höfðum stutt þau í meira en tvö ár. Þegar þau komu til Tanganyika, komu þau inn í lítið þorp. Þorpsbúar voru að yfirgefa þorpið, vegna þess að svartidauði hafði komið upp í þorpinu. Hann hitti nokkra af íbúunum sem grétu og spurði þá hvað væri að.

 

Þeir sögðu trúboðanum að foreldrar þeirra hefðu dáið skyndilega fyrir þremur dögum. Nú þurftu þau að fara. Þau voru hrædd við að fara inn í kofann og ætluðu að skilja líkin eftir þar. Hann spurði hvar þau látnu væru. Þau bentu honum á kofa og hann bað þau um að koma með sér, en þau neituðu. Þau óttuðust að fara þarna inn.

 

Trúboðinn og kona hans fóru inn í þennan litla kofa og sáu manninn og konuna sem höfðu verið látin í þrjá daga. Hann rétti einfaldlega fram hönd sína í nafni Drottins Jesú Krists og sagði nafn mannsins og konunnar sem voru látin og sagði: “Í nafni Drottins Jesú Krists, þá skipa ég lífi að koma aftur í líkama ykkar.” Samstundis þá settist þetta heiðna fólk upp, sem hafði aldrei þekkt Jesús Krist sem frelsara sinn og byrjaði samstundis að lofa Guð. Andinn og kraftur Guðs kom inn í líf þessa fólks.

 

Okkur kann að þykja þetta undarlegt fyrirbæri, en þetta er upphafið að þessari endatíma-þjónustu. Guð mun taka þá sem ekkert hafa gert, þá sem einskis eru metnir, þá sem enginn hefur heyrt um. Hann mun taka hvern mann og hverja konu og hann mun gefa þeim úthellingu af anda Guðs.

 

Í Postulasögunni lesum við: Það mun verða á efstu dögum,” segir Guð “að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn.”  Skyldum við hafa gert okkur grein fyrir hvað Guð átti við, þegar hann sagði: “Ég mun úthella anda mínum yfir alla menn.”  Ég held að ég hafi ekki fullkomlega áttað mig á því eða skilið til fullnustu og síðan las ég í spádómsbók Jóels:  “Og þér Síonbúar, fagnið og gleðjist í Drottni, Guði yðar, því að hann gefur yður regn í réttum mæli og lætur skúrirnar ofan til yðar koma, haustregn og vorregn, eins og áður.” (Jóel 2:23) Það mun ekki aðeins verða regnið, haustregn og vorregn, heldur mun Guð gefa fólki sínu á hinum síðustu dögum tvöfaldan hlut af krafti Guðs!

 

Þar sem sýnin átti sér stað meðan ég var í svefni, þá fannst mér ég skyndilega vera staddur hátt uppi. Ég veit ekki hvar ég var, en ég horfði niður á jörðina. Skyndilega sá ég alla jörðina. Sérhver þjóð, sérhver þjóðflokkur, sérhvert tungumál kom fyrir auglit mitt frá austri til vesturs og norðri til suðurs. Ég þekkti hvert einasta land og margar borgir sem ég hafði komið til og ég upplifði næstum ugg og ótta þegar ég virti fyrir mér þessa miklu sýn fyrir framan mig. Á þeirri stundu, sem heimurinn kom í augsýn, þá komu þrumur og eldingar.

 

Þegar ein eldingin leiftraði á yfirborði jarðarinnar, beindi ég sjónum mínum niður og ég horfði á norðurhluta hennar. Skyndilega sá ég það sem líktist miklum risa, og þegar ég starði og horfði betur á þetta, varð ég næstum ráðvilltur af því sem ég sá. Þetta var svo risavaxið og svo mikið. Fætur hans virtust ná til norðurpólsins og höfuðið við suðurpólinn. Handleggirnir voru útréttir og náðu frá hafi til hafs. Ég gat ekki áttað mig á því hvort þetta væri fjall eða risi, en meðan ég horfði á þetta, þá sá ég skyndilega mikinn risa.  Ég sá að höfuð hans barðist að halda lífi. Hann langaði til að lifa, en líkami hans var þakinn af rusli frá höfði að fótum og af og til þá hreyfði þessi mikli risi líkamann og stundum virtist hann ætla að rísa upp. Og þegar hann gerði það, þá voru þúsundir af litlum verum, sem virtust flýja burt. Forljótar verur hlupu burt frá þessum risa, og þegar hann varð kyrr aftur, komu þær til baka.

 

Skyndilega þá lyfti þessi mikli risi hönd sinni til himins og svo lyfti hann hinni hendinni og þegar hann gerði það, þá virtust þessar verur flýja frá risanum í þúsundavís og fara inn í myrkur næturinnar.

 

Smám saman fór þessi mikli risi að rísa  á fætur og þegar hann gerði það, þá hurfu hendur hans og höfuð upp í skýin. Þegar hann reis á fætur, þá virtist hann hafa hreinsað sig af ruslinu og óþverranum sem var á honum, og hann byrjaði að lyfta höndum til himins eins og hann ætlaði að lofa Drottin, og þegar hann lyfti höndum, hurfu þær inn í skýin.

 

Skyndilega varð sérhvert ský silfurlitað. Þetta var fallegasti silfurlitur sem ég hef nokkru sinni séð. Meðan ég horfði á þetta fyrirbæri fannst mér það stórkostlegt, en ég hafði ekki skilning á því hvað það merkti. Ég var svo hugfanginn þegar ég horfði á þetta og ég hrópaði á Drottinn og sagði: “Ó Drottinn, hvað merkir þetta allt saman” og mér fannst eins og ég væri í andanum og gæti fundið fyrir nærveru Drottins, jafnvel þótt ég væri sofandi.

 

Og skyndilega fór að rigna úr skýjunum stórum dropum af fljótandi ljósi yfir þennan máttuga risa, og hægt og sígandi þá fór risinn að bráðna, og síga niður í jörðina og þegar hann bráðnaði þá virtist hann hafa bráðnað niður á yfirborð jarðar og svo kom mikið regn. Fljótandi dropar af ljósi byrjuðu að flæða yfir jörðina og meðan ég horfði á risann bráðna, þá breyttist hann skyndilega í milljónir af fólki á yfirborði jarðarinnar. Meðan ég horfði á þetta, þá var fólk að standa upp út um allan heim. Þau lyftu höndum og lofuðu Drottin.

 

Á því augnabliki kom mikil þruma sem virtist vera frá himnum. Ég beindi sjónum mínum til himins og skyndilega sá ég veru í hvítum klæðum – í skínandi hvítum klæðum –þarna var það dýrðlegasta sem ég hef séð á minni ævi. Ég sá ekki andlitið, en einhvern veginn vissi ég að þetta var Drottinn Jesús Kristur. Hann rétti út hönd sína og þegar hann gerði það, þá beindi hann henni að hverjum einstaklingnum á fætur öðrum. Og þegar hann rétti út hönd sína yfir þjóðirnar og fólkið á jörðinni – karla og konur – þegar hann benti á þau þá virtist þetta fljótandi ljós flæða frá hönd hans inn í þau, og máttug smurning Guðs kom yfir þau og þetta fólk fór út að starfa í nafni Drottins.

 

Ég veit ekki hversu lengi ég horfði á þetta. Þetta virtist taka daga, vikur og mánuði. Og ég horfði á Krist, meðan hann hélt áfram að rétta út hönd sína, en þá sá ég líka sorglega hluti. Margt af því fólki, sem Drottinn hafði rétt út hönd sína til, hafnaði smurningu Guðs og köllun Guðs. Ég sá menn og konur sem ég þekkti. Fólk sem ég hélt að myndi örugglega taka við köllun frá Guði. En þegar hann rétti fram hönd sína til þessa eða hins, þá beygðu þeir höfuðið niður og byrjuðu að fara til baka. Og sérhver þeirra sem beygði höfuðið og fór til baka, virtist fara inn í myrkur. Sorti virtist gleypa þau alls staðar.

 

Ég var ráðvilltur meðan ég horfði á þetta, en fólkið sem hann hafði smurt, hundruð þúsunda af fólki um allan heim, í Afríku, Englandi, Rússlandi, Kína, Ameríku, um allan heim – smurning Guðs var yfir þessu fólki þegar það fór út í nafni Drottins. Ég sá þetta fólk þegar það fór út. Þetta voru verkamenn, þvottakonur, þetta voru ríkir menn og þarna voru fátækir menn. Ég sá fólk sem var fjötrað af lömun og sjúkleika, blindu og heyrnarleysi. Þegar Drottinn rétti fram hönd sína til að gefa þeim þessa smurningu, þá læknuðust þau og fóru af stað!

 

Og þetta er kraftaverkið – þetta er hið dýrðlega kraftaverk sem kom út úr þessu öllu. Þetta sama fólk rétti út hönd sína nákvæmlega eins og Drottinn gerði og það virtist eins og sami fljótandi eldurinn væri í höndum þeirra. Þegar þau réttu fram hönd sína sögðu þau: “Samkvæmt mínu orði, vertu heill!”

 

Meðan þetta fólk hélt áfram þessari máttugu endatíma-þjónustu (ég hafði ekki skilið að fullu hvað þetta var) leit ég á Drottin og sagði: “Hvað merkir þetta?” Og hann sagði: “Þetta er það sem ég mun framkvæma á hinum síðustu dögum. Ég mun bæta upp allt það sem átvargurinn, flysjarinn og nagarinn hafa eyðilagt. Ég mun endurreisa allt sem þeir hafa eytt. Þetta er mitt fólk, sem mun stíga fram á endatímanum. Þau munu geysast yfir allt yfirborð jarðarinnar sem máttugur her.”

 

Þar sem ég var staddur hátt uppi, þá gat ég séð alla jörðina. Ég horfði á þetta fólk, þegar það fór fram og til baka um jörðina. Skyndilega var maður nokkur í Afríku og á augnabliki var hann fluttur af anda Guðs, og ef til vill lenti hann í Rússlandi eða Kína eða Ameríku eða einhverjum öðrum stað, eða öfugt. Þetta fólk fór út um alla jörðina og þau fóru í gegnum eld, drepsóttir og hungursneyð. Hvorki eldur eða ofsókn – ekkert virtist stöðva þau.

 

Reiður múgur réðst að þeim með sverðum og með byssum. Og eins og Jesús, þá gengu þau í gegnum mannfjöldann og fólkið gat ekki fundið þau, en þau fóru fram í nafni Drottins, og alls staðar þar sem þau réttu þau fram hendur sínar, þá læknuðust sjúkir - blind augu opnuðust. Það voru ekki langar bænir, og eftir að ég hafði margsinnis farið yfir sýnina í huganum og ég hafði oftsinnis hugsað um hana, þá áttaði ég mig á því að ég sá aldrei neina kirkju og ég sá aldrei eða heyrði um neina kirkjudeild, en þetta fólk fór fram í nafni Drottins Hersveitanna. Halleljúja!

 

Þegar þessi hópur sótti fram sem þjónusta Krists á endatímanum, þá þjónaði þetta fólk til mannfjöldans um alla jörð. Tugir þúsunda, jafnvel milljónir virtust koma til Krists, þegar þjónar hans stigu fram og komu með boðskapinn um Guðsríkið á þessum síðasta tíma. Þetta var dýrðlegt, en það leit út fyrir að það væru einnig aðrir sem risu upp gegn þessu og þeir urðu reiðir og reyndu að ráðast gegn þeim sem fluttu boðskapinn.

 

Guð mun gefa þessum heimi sýnikennslu undir lokinn sem heimurinn hefur aldrei þekkt. Þessir menn og konur voru úr öllum stéttum lífsins – prófgráður hafa enga þýðingu. Ég sá þessa þjóna þegar þeir fóru um allt yfirborð jarðar. Þegar einn hrasaði og féll, þá kom annar og reisti hann upp. Það voru engin “stór ég” og “lítill þú”, en sérhvert fell varð að lægjast og sérhver dalur hlaut að fyllast og þau virtust hafa eitt sameiginlegt – það var guðlegur kærleikur sem virtist streyma fram frá þessu fólki þegar þau störfuðu og lifðu saman. Þetta var dýrðlegasta sýn sem ég hef nokkru sinni þekkt. Jesús Kristur var kjarni lífs þeirra. Þau héldu áfram og það virtist eins og dagarnir liðu hjá, meðan ég horfði á þetta. Ég gat aðeins grátið og stundum hlegið . Það var svo stórkostlegt þegar þetta fólk fór um alla jörðina og þjónaði við lok endatímans.

 

Þegar ég horfði á þetta frá himni, þá sá ég tíma þegar mikil flóð af þessu fljótandi ljósi virtist falla yfir stóra söfnuði, og söfnuðurinn lyfti upp höndum sínum og virtist lofa Guð klukkustundum eða dögum saman þegar andi Guðs kom yfir þau. Guð sagði: “Ég mun úthella anda mínum yfir allt hold,” og þetta var nákvæmlega að gerast þarna. Og sérhver maður og sérhver kona, sem fékk þennan kraft og smurningu Guðs, sá kraftaverk Guðs. Það tók engan enda.

 

Við höfum talað um kraftaverk. Við höfum talað um tákn og undur, en ég gat ekki varist því að gráta þegar ég las aftur þennan morgun (það var um kl. 4 um morguninn), bréfið frá innfæddu trúboðunum. Þetta er aðeins vitnisburður um upphafið hjá einum manni (úr hópi þeirra sem ekkert hafði gert, sem enginn hefur heyrt um) sem gekk fram, rétti út hönd sína og sagði: “Í nafni Drottins Jesú Krists skipa ég lífi að koma inn í líkama þinn.” Ég féll á kné og byrjaði aftur að biðja, og ég sagði: “Drottinn, ég veit að þessi tími kemur fljótt!”

 

Og síðan aftur, þegar þetta fólk fór um yfirborð jarðarinnar, þá virtist mikil ofsókn koma úr öllum áttum.

 

Skyndilega kom aftur mikill þrumugnýr, sem virtist bergmála um alla jörðina og ég heyrði aftur röddina - röddina sem talaði: “Þetta er mitt fólk. Þetta er mín elskaða brúður.” Og þegar röddin talaði, þá leit ég á jörðina og ég gat séð vötnin og fjöllin. Grafirnar opnuðust og fólk um allan heim, hinir heilögu allra alda virtust vera að rísa upp. Og þegar þeir risu upp úr gröfinni, þá virtist skyndilega koma fólk úr öllum áttum. Frá austri og vestri, norðri og suðri, og það virtist aftur vera að mynda þennan risavaxna líkama. Þeir sem dánir voru í Kristi virtust fyrst upp rísa. Ég gat varla skilið þetta, það var svo stórkostlegt. Þetta var langt umfram nokkuð sem mig hefði getað dreymt eða ég ímyndað mér.

 

En þegar þessi líkami byrjaði skyndilega að myndast og taka aftur á sig form, þá tók hann aftur á sig form hins máttuga risa, en í þetta sinn var hann breyttur. Hann var klæddur í gullfalleg hvít klæði. Klæðin voru án bletts eða hrukku þegar þessi líkami byrjaði að myndast og fólk allra alda virtist safnast inn í þennan líkama og hægt og hægt, þegar hann byrjaði að lyftast til himins, þá kom Drottinn Jesús skyndilega af himni ofan og varð höfuðið og ég heyrði annan þrumugný sem sagði: “Þetta er mín elskaða brúður, sem ég hef beðið eftir. Hún mun koma fram reynd í eldi. Þetta er hún sem ég hef elskað frá upphafi.”

 

Þegar ég horfði á þetta, þá beindust augu mín skyndilega til norðurs og ég sá að því er virtist eyðingu koma yfir. Menn og konur hrópuðu af skelfingu og byggingar voru eyddar. Þá heyrði ég röddina aftur í fjórða sinn: “Nú er reiði minni úthellt yfir jörðina.” Frá endimörkum heimsins virtist reiði Guðs vera úthellt og það virtist sem stórum skálum af reiði Guðs væri hellt yfir jörðina. Ég man þetta eins og það hefði gerst fyrir augnabliki. Ég titraði og skalf þegar ég sá þessa skelfilegu sýn, þegar borgum og heilum þjóðum var eytt.

 

Ég gat heyrt grátinn og kveinin. Ég gat heyrt fólkið gráta. Það virtist gráta þegar það fór inn í hella, en hellarnir í fjöllunum opnuðust.

 

Fólkið reyndi að hoppa út í vatn, en vatnið leyfði þeim ekki að drukkna. Það var ekkert sem gat eytt þeim. Það langaði til að taka líf sitt, en gat það ekki. Þá snéri ég augum mínum á ný að þessari dýrðlegu sjón, þessum líkama sem var klæddur í fögur hvít klæði – skínandi klæði. Hæg og hægt, þá fór hann að lyftast frá jörðu, og þegar hann gerði það þá vaknaði ég. Hvílík sýn var það sem ég hafði fengið að sjá! Ég hafði séð þjónustu endatímanna – síðustu klukkustundina. Þetta gerðist svo aftur 27. júlí, kl. 2:30 að nóttu að sama opinberunin - sama sýnin kom aftur nákvæmlega eins og áður.

 

Líf mitt hefur breyst, eftir að ég gerði mér grein fyrir að við lifum á þessum endatíma, því um allan heim er Guð að smyrja menn og konur með þessari þjónustu. Það verður ekki ný kenning. Það verður ekki dauð kirkjurækni. Það verður Jesús Kristur. Þau munu fara út með orð Drottins og munu segja (ég heyrði það svo oft í sýninni): “Samkvæmt mínu orði mun það verða!”