Open Heavens spámannleg ráðstefna

í Jerúsalem 6. – 10. júní 2008

 

 Neville Johnson frá Ástralíu

 

Stutt sögulegt yfirlit

 

Fyrir 35 árum, var ég með samkomur í Argentínu. Ég þurfti að stöðva samkomurnar skyndilega, vegna þess að Drottinn kallaði mig hingað til Ísrael. Ég og konan mín, við flugum fyrst til London og síðan hingað til Ísrael.

 

Við komum hingað í árslok 1972. Guð sendi okkur hingað til að biðja. Þú þarft að biðja, til að afstýra hörmungum hér. Hér kom samt hræðilegt stríð, sem Ísraelsþjóðin þurfti að ganga í gegnum. Tilgangurinn með þessu stríði var að gjöreyða Ísrael.

 

Við fórum frá Ísrael nokkrum vikum eftir að stríðinu lauk og Drottinn hefur ekki viljað leyfa mér að koma aftur til Ísrael, fyrr en núna. Hann hefur alltaf stöðvað mig í því að koma hingað.

 

Núna er óvinurinn að reyna að endurtaka það sem átti sér stað í Yom Kippur stríðinu. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því, hvað hann hefur í hyggju. Guð hefur leitt okkur hingað, til að hindra að það gerist.

 

Það er stríð sem bíður við sjóndeildarhringinn. Þetta stríð mun reyndar hefjast, en ef við biðjum þá verður það stöðvað snögglega. Við þurfum að biðja og því þurfum við að skilja þetta.

 

Nú á þessu ári erum við að koma að mikilvægri hátíð, sem er Laufskálahátíðin. Þessi hátíð verður ögurstund fyrir þessa þjóð. Og við erum hér núna til þess að forða hörmungum. Staðan er grafalvarleg.

 

Óvinurinn mun reyna að hefja Harmagedón fyrir tímann og það er ástæða fyrir því. Ef hann nær að gera það, þá munum við missa af uppskerunni. Hann veit að kirkjan mun fá inn mikla uppskeru, en ef hann nær að stytta tímann með því að færa Harmagedón framar, þá glatast uppskeran. Þetta er einn hluti af áætlun óvinarins og við þurfum að vera meðvituð um það sem er að gerast þarna úti.

 

Hallelúja, ég er glaður yfir því að þið eruð hér. Bænastundirnar eru afar mikilvægar. Þið eruð komin hingað til að bjarga þessari þjóð.

 

Mig langar til að ræða aðeins við ykkur um sögu Ísraels. Í 5. Mósebók kafla 15 og versi 1, segir eftirfarandi: “Sjöunda hvert ár skalt þú veita umlíðun skulda.”

 

Og þetta er tekið upp í Jeremía 34:14: “Að sjö árum liðnum skuluð þér hver og einn gefa lausan hebreskan bróður yðar, sem kann að hafa selt sig þér.”

 

Sjáið til. Guð gaf þessi lagaákvæði til að hindra varanlegan þrældóm og varanlega fjötra.

Biblían segir okkur að vínviðurinn og fíkjutréð verði endurreist samhliða. Við skulum fara í Jóel 2. kafla, vers 22-23. Þar sjáum við hvað sagt er um vínviðinn og fíkjutréð.

 

“Óttist eigi, þér dýr merkurinnar, því að grashagar eyðimerkurinnar grænka, því að trén bera ávöxt, fíkjutrén og víntrén gefa sinn gróða.

Og þér Síonbúar, fagnið og gleðjist í Drottni, Guði yðar, því að hann gefur yður regn í réttum mæli og lætur skúrirnar ofan til yðar koma, haustregn og vorregn, eins og áður.”

 

Þarna segir að vínviðurinn og fíkjutréð verði endurreist samhliða og það verði þegar Guð úthellir anda sínum yfir allt hold. Í ritningunni táknar vínviðurinn kirkjuna, því Jesús segir ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar, en fíkjutréð er tákn fyrir Ísrael. Við þurfum að skilja að Ísrael og kirkjan verða endurreist samhliða.

 

Og í versi 24 segir: Láfarnir verða fullir af korni…”, það er uppskeran.

 

Af þessu sjáum við að Ísrael og kirkjan verða endurreist samhliða. Þessi tvö tré munu þroskast saman og þetta tengist allt úthellingu Heilags anda.

 

Jesús segir í Matteus 24:32: “Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd.”

 

Hann er að segja að þegar þið sjáið fíkjutréð blómstra, þá vitið þið að endirinn er nærri. Við höfum sannarlega séð fíkjutréð blómstra.

 

Í Matteus 24:3 segir: “Þá er hann sat á Olíufjallinu, gengu lærisveinarnir til hans og spurðu hann einslega: ‘Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?’”

 

Nú, Jesús hafði rætt við þá um marga hluti. Jarðskjálfta, hungursneyð og eyðingu musterisins.

 

Jesús sagði þeim að musterið yrði eyðilagt. Og við erum hér á þessu sama fjalli og horfum yfir musterið. En lærisveinarnir sögðu: “Hvenær verður þetta og hvert verður tákn komu þinnar og endaloka aldarinnar?”

 

Jesús svaraði þeim að fyrst yrði musterið eyðilagt og kynslóð lærisveinanna myndi sjá það.

 

Það tók 60 ár að byggja þetta musteri. Sumir steinarnir eru 8 metra langir og 2,5 metrar á breidd og vega meira en 70 tonn. Þeir voru settir saman með þeim hætti að þú kemur ekki hnífsblaði á milli þeirra.

 

Jesús sagði: “Þið munuð sjá þegar musterið verður eyðilagt og þar verður ekki skilinn eftir stein yfir steini.” Hann sagði: “Ykkar kynslóð mun sjá það.” En þetta var allt of langsótt fyrir lærisveinana.

 

En Jesús hafði séð þetta gerast. Hann sat og grét yfir borginni, því hann sá hvað myndi gerast næstu 40 árin í þessari borg. 40 árum síðar settist Títus um Jerúsalem. Jesú hafði varað lærisveinana við og sagt þeim að þegar þeir sæju þetta hefjast, skyldu þeir flýja úr borginni.

 

Þegar Títus og rómverski herinn fóru í gegnum Palestínu, segir sagnaritarinn Jósefus frá því að meira en 1 milljón kristinna manna fór í burtu. Borgin var umkringd. Títus sat um borgina. Margir Gyðingar reyndu að yfirgefa borgina og Rómverjar krossfestu svo marga, að þeir urðu uppiskroppa með staura. Þeir voru búnir að höggva trén niður.

 

Rómverjum blöskraði það sem þeir sáu þegar þeir komust inn í borgina. Það var enginn matur. Menn átu börnin sín. Rómverjar voru afarreiðir. Þeir hófu að eyðileggja borgina og musterið. Þeir tóku musterið í sundur, stein fyrir stein, til að reyna að útrýma öllu sem tengdist gyðinglegri trú.

 

Kynslóð lærisveinanna sá þetta gerast. Ísrael hætti að vera þjóð. Fíkjutréð hafði verið höggvið niður. En Gyðingar viðhéldu samt þjóðareinkennum sínum. Í tvö þúsund ár þá héldu þeir í þjóðareinkennin.

 

Sagan segir okkur að enginn þjóð hefur lifað af utan heimalandsins, lengur en í 3 kynslóðir. Þegar þjóð tapar landi sínu, þá er hún horfin eftir 3 kynslóðir.

 

Það er kraftaverk að þeir viðhéldu þjóðararfinum allan þennan tíma, í 2000 ár.

 

Job segir í Gamla testamentinu: “Því að tréð hefir von, sé það höggvið, þá skýtur það nýjum frjóöngum, og teinungurinn kemur áreiðanlega upp. Jafnvel þótt rót þess eldist í jörðinni, og stofn þess deyi í moldinni, þá brumar það við ilminn af vatninu, og á það koma greinar eins og unga hríslu.”

 

Það þarf úthellingu Heilags anda, ilminn af vatninu.

 

Við endi aldarinnar og komu Jesú. Þegar þið sjáið að fíkjutréð fer að blómstra, þá vitið þið að þið eruð að koma að endi aldarinnar.

 

Jesú sagði lærisveinunum að læra af dæmisögunni um fíkjutréð. Þegar það fer að laufgast, þá vitið þið að allt sem ég hef verið að segja ykkur frá mun eiga sér stað.

 

Í ritningunni er kynslóð um það bil 40 ár. Það er þess vegna, að 40 árum síðar sáu lærisveinarnir eyðingu borgarinnar. En þegar fíkjutréð blómstrar, þá mun ég úthella anda mínum og ég gef ykkur haustregn og vorregn í sama mánuðinum.

 

Ég skal segja ykkur dálítið. Frumkirkjan fékk aðeins vorregnið, en kirkjan í dag mun fá haustregn og vorregn í sama mánuðinum.

 

Haustregnið er 7 sinnum meira en frumkirkjan. Við erum um það bil að stíga inn á það svið. Tíminn er kominn fyrir það. Hvítasunnan, frumkirkjan var aðeins lítill hluti.

 

Við þurfum að komast inn í Laufskálahátíðina og hann segir ég mun gefa ykkur haustregnið og vorregnið samhliða. Getið þið ímyndað ykkur hverju það mun líkjast. Sjöfalt meira en frumkirkjan fékk.

 

Hallelúja.

 

Árið 1917. Hvað voru mörg ykkar fædd fyrir 1917? Allt í lagi. Svo þið munið ekki eftir þeim tíma. Svo leyfið mér að segja ykkur frá því.

 

Árið 1917, var Balfour lávarður utanríkisráðherra Breta. Hann gaf út yfirlýsingu um að ákveðið landsvæði (Palestína) yrði gefið Gyðingum til að koma á fót þjóðarheimili.

 

Árið 1917 byrjaði fíkjutréð aftur að blómstra. Á sama tíma úthellti Guð anda sínum mikillega yfir kirkjuna. Allar þær hvítasunnuhreyfingar sem við þekkjum í dag, fæddust á þessum tíma. Assemblies of God, Church of God, The Apostolic Church. Hvítasunnukirkjudeildirnar komu út úr þessari úthellingu Heilags anda.

 

Drottin var að segja: “Ég mun endurreisa fíkjutréð og kirkjuna með úthellingu andans.”

 

Svo komum við að árinu 1948, þegar ísraelsþjóðin eignaðist aftur eigið ríki. Þetta var fyrir 60 árum og við höldum það hátíðlegt einmitt núna. Á því ári voru 7 myrkvar á jörðinni. Guð hóf aftur að endurreisa kirkjuna. Hann reisti upp stórkostlega þjónustu í kirkjunni. Við getum nefnt Billy Graham, William Branham, T.L. Osborn, Oral Roberts, A.A. Allan og við gætum lengi haldið áfram að telja. Þarna var stórkostleg þjónusta á ferðinni. Fagnaðarerindið var predikað um allan heim og því fylgdu tákn og undur. Þetta var tímaskeið trúboðsins. Þetta var stórkostlegur tími. Guð endurreisti Ísrael og kirkjuna á sama tíma.

 

Þá komum við að 6. júní árið 1967. Þetta var 50 árum eftir að Balfour lávarður lýsti því yfir að Gyðingar ættu að fá sitt eigið land. Árabilið 1917 til 1967 er sjö sjöundir, 49 ár. Ísrael steig inn í sitt fyrsta fagnaðarár. Árið 1967, hafði alla eiginleika til að verða mikilvægt ár í Guðsríkinu. Það voru líka 7 myrkvar þetta ár.

 

Ísrael var að halda upp á Hvítasunnu- eða viknahátíðina, þegar sex daga stríðið braust út. Við þurfum að skilja, að stríðið braust út þegar þeir voru að halda upp á þessa hátíð. Þegar Ísrael var mitt í því að halda upp á Hvítasunnu, braust stríðið út.

 

Heimurinn sagði: “Þetta er nú bara enn ein skæran milli Ísraels og Araba sem gengur yfir.” Þetta var reyndar ekki afar stórt eða víðtækt stríð. En Egyptaland hafði flutt 100.000 hermenn inn í Sínaíeyðimörkina og þeir höfðu stillt þar upp 1000 skriðdrekum.

 

Ísrael þurfti að berjast við heri Egyptalands, Sýrlands og Jórdaníu og Ísrael hefði átt að þurrkast út. Og hefði Guð ekki gripið í taumana, þá hefðu þeir verið þurrkaðir út. Þeir voru miklu fámennari og hægt að skjóta þá margsinnis í tætlur. En stríðinu lauk á sex dögum. Það er ótrúlegt kraftaverk og öll Jerúsalem kom undir stjórn Gyðinga. Áður var Jerúsalem skipt í tvo hluta.

 

Títus hafði höggvið fíkjutréð niður, en nú komu Gyðingar aftur inn í alla Jerúsalem. Hjarta Ísraels var við grátmúrinn. Dýrð sé Guði, hann komst aftur í hendur ísraelsmanna og þingið í Ísrael, Knesset samþykkti lögin um Jerúsalem. Þar segir að Jerúsalem sé eilíf, sameinuð höfuðborg Ísraels. Og við þurfum að biðja heitt fyrir því að Jerúsalem verði aldrei skipt aftur.

 

Bandaríkin létu undan þrýstingi um að leyfa skiptingu Jerúsalem. Þeir lögðu blessun sína yfir skiptingu Jerúsalem. Ég vil segja ykkur að fellibylurinn Katrina var dómur yfir Bandaríkjunum vegna þeirrar ákvörðunar. Þið þurfið að biðja fyrir því að ríkisstjórnir í ykkar heimalandi verði hliðhollar Ísrael.

 

Það má aldrei aftur skipta Jerúsalem sundur, jafnvel þótt það þýði að skipta þurfi um ríkisstjórn hér í Ísrael. Ritningin segir: “Þeir hafa skipt sundur landi mínu.”

 

Svo eftir næstum 2000 ár, var Jerúsalem aftur í höndum ísraelsmanna. En þetta voru mjög erfiðir bardagar. Flestir bardagarnir í Jerúsalem fóru fram með handvopnum, vegna þess að Ísraelsmenn vildu ekki eyðileggja borgina. Mannfallið var mikið.

 

Þessir bardagar áttu sér stað um Hvítasunnuna árið 1967.

 

Hvað átti sér stað í kirkjunni á þessum tíma? Karismatíska vakningin hún fæddist. Jesúbyltingin fór af stað. Það var mikil úthelling Heilags anda. Guð var að gera nýja hluti í kirkjunni. Þetta var stórkostlegur tími. Kirkjan mín hún fór úr því að vera 300 manns í 2000 á einu ári. Það sem gerist í Ísrael mun gerast í kirkjunni. Þess vegna segir Ritningin biðjið Jerúsalem friðar. Þetta tvennt tengist saman, ávallt.

 

Hallelúja. Víntréð og fíkjutréð verða endurreist.

 

Nú, sex árum síðar komum við að árinu 1973. Ég flaug hingað árið 1972. Ísrael var að halda upp á friðþægingardaginn. Hann er hátíð föstu og iðrunar. Á því ári voru 7 myrkvar sem áttu sér stað.

 

Flestir í Ísrael föstuðu þennan dag og herinn meðtalinn. Allt var stopp í Ísrael eins og venja er á friðþægingardaginn. Rússar höfðu skotið upp tveimur nýjum gervitunglum til að fylgjast með atburðum í Mið-Austurlöndum. Þeir komu skilaboðum til sýrlendinga um að nú væri allt stopp í Ísrael. Nú væri gott tækifæri til að fara í stríð við þá, því þeir væru óviðbúnir.

 

Það var mjög lítið um hreyfingu hjá hernum í Ísrael. Margir í hernum voru fastandi.

 

Skyndilega fóru sírenur af stað um allt Ísrael. Ég þekki það, því ég var hér á staðnum. Hér varð mikil ringulreið. Hátalarar í synagógunum sögðu frá því að árás væri hafin á landið. Margir halda að sex daga stríðið hafi verið slæmt, en það var ekki neitt í samanburði við þetta Yom Kippur stríð.

 

Þetta stríð markaði upphafið að viðhorfsbreytingu hjá þjóðunum. Flestar Vesturlandaþjóðirnar héldu að þetta væri bara enn ein skæran. En við þurfum að skilja að Sýrland í norðri, fór af stað með 1200 skriðdreka á 30 km víglínu. Ísraelsmenn voru með 70 skriðdreka staðsetta í Gólanhæðum. Stærsta skriðdrekaorusta sögunnar var í uppsiglingu. Sýrlendingar stefndu á Gólanhæðir, þar sem ísraelsmenn höfðu aðeins 70 skriðdreka.

 

Samt náðu sýrlendingar ekki að leggja undir sig Gólanhæðirnar. Það er ótrúlegt kraftaverk. Sögur bárust af því, að sýrlendingar hafi séð skriðdreka sem voru með allt öðrum lit en þeir áttu von á. Þeir voru hvítir og það lýsti af þeim. Þeir sáu líka heilu hersveitirnar af hermönnum sem voru í hvítum fötum. Og ísraelsmenn unnu þessa orrustu.

 

Á suðurlandamærunum, réðust Egyptar inn í Ísrael með 3000 skriðdrekum, 1000 flugvélum og hálfri milljón hermanna. Þið getið sjálf reiknað út líkindin á því að ísraelsmenn gætu sigrað slíkan her. Það er útilokað í hinu náttúrulega.

 

Markmiðið með þessu stríði var algjör eyðing Ísraels.

 

Tveimur klukkutímum eftir að stríðið hófst, fóru Rússar að fljúga með vopn og skotfæri. Flugvélar þeirra lentu á tveggja mínútna fresti í einhverju arabaríki. Þessar flugvélar höfðu augljóslega lagt af stað frá Rússlandi áður en stríðið hófst.

 

Á fyrstu tveimur dögunum, voru heilu hersveitirnar hjá ísraelsmönnum gjöreyddar. Mannfallið var gífurlegt. Ísraelsmenn höfðu haft þá aðferð að mynda herdeildir eftir þorpum, þannig að öll herdeildin kom frá sama þorpinu. Ef slík herdeild var þurrkuð út, þá kom enginn karlmaður aftur heim lifandi í það þorp.

 

Þetta var sannkallaður friðþægingardagur fyrir Ísrael.

 

Það fór að skorta skotfæri í Ísrael. Það fóru ekki að koma flugvélar með hergögn frá Bandaríkjunum fyrr en á 10. degi stríðsins. Það voru Bretar sem orsökuðu töfina, því þeir vildu ekki leyfa bandarísku flugvélunum að taka eldsneyti í Bretlandi. Að lokum voru það portúgalir, sem leyfðu flugvélunum að millilenda á Azóreyjum í Atlantshafi.

 

Ísraelsmenn notuðu breska Centurion skriðdreka. Það fór fljótlega að skorta skotfæri og varahluti fyrir skriðdrekana. Skotfærum og varahlutum hafði verið komið um borð í ísraelskt skip í breskri höfn. Það var búið að greiða fyrir allt saman. Þegar stríðið braust út neituðu Bretar að leyfa skipinu að halda úr höfn.

 

Þá skammaðist ég mín fyrir að vera af breskum uppruna. Á sama tíma voru bretar að senda vopn til Kuwait, sem sendu þau áfram til Egyptalands.

 

Alkirkjuráðið sendi arabaþjóðunum meira en 4 milljónir dollara í aðstoð. Rauði krossinn neitaði allri aðstoð við ísraelska hermenn, því Rauði krossinn viðurkenndi Ísrael ekki sem lögmætt þjóðríki. Staðan var afarslæm, næstum vonlaus.

 

Umsjónarmaður Garden Tomb hér í Jerúsalem, Doby hershöfðingi sendi boð út um allan heim að biðja. Staðan var svo alvarleg að þeir byrjuðu að biðja í Garden Tomb. Á þriðja degi fékk hann sýn, þar sem hann sá ský koma æðandi frá himni. Þessi ský huldu Jórdaníu. Þeir fóru að biðja fyrir því að jórdanir yrðu svo ruglaðir í ríminu að þeir mundu ekki taka þátt í stríðinu.

 

Það er merkilegt að síðar sagði Hussein konungur í útvarpsþætti, að þeir hefðu verið svo óvissir um hvað væri að gerast, að þeir ákváðu að taka ekki þátt í stríðinu.

 

Hér sjáið þið kraft bænarinnar. Skiljið þið betur af hverju þið eruð hér á þessum tíma?

 

Þeir fóru að biðja fyrir því að 3. her egypta, yrði umkringdur og gæfist upp og sýrlendingar myndu hörfa. Skyndilega varð breyting. Ljónið af Júda ættkvísl skarst í leikinn. 3. her egypta var umkringdur og þeir gáfust upp.

 

Ísraelskar hersveitir voru nú við landamæri Egyptalands. Og í norðri höfðu ísraelsmenn rekið sýrlendinga burt, þannig að þeir voru nú aðeins 20 kílómetra frá Damaskus.

 

Henry Kissinger hrindi til Kremlar og aðvaraði Rússa, að blanda sér ekki í þetta stríð.

Rússar svöruðu. Rússar sendu Nixon svohljóðandi skeyti. “Sovétríkin hafa tekið einhliða ákvörðun um að taka á þeim málum er varða Ísrael.”

Þetta skeyti þýddi það að annað hvort myndu Rússar ráðast inn í Ísrael, eða beita kjarnorkuvopnum gegn þeim. Svona alvarlegt varð þetta stríð.

 

Á sama tíma langt í burtu í biblíuskóla í Wales, var maður sem hét Samuel Howells. Hann var sonur Rees Howells. Samuel fékk gífurlega bænaneyð. Drottinn kom til hans og sagði: “Óvinurinn er að reyna að flýta Harmagedón, þú verður að biðja!”

 

Óvinurinn er að reyna að leika sama leikinn núna á þessu ári. Svona alvarleg er staðan. Menn fóru að biðja. Í millitíðinni komu rússnesk skip í höfnina í Alexandríu. Uppi á dekki á þessum skipum voru kjarnavopn. Menn komust að því eftir stríðið, að þessar kjarnaflaugar voru forritaðar til að springa í öllum helstu borgum Ísraels.

 

Rússneskar hersveitir söfnuðust saman á flugvöllum um allt Rússland. Undirbúningur var hafinn að mestu loftflutningum sögunnar.

 

Nixon forseti kallaði bandaríkjaher til vopna um allan heim. Hann setti 2,5 milljónir hermanna í viðbragsstöðu. Þetta var ekki lengur stríð milli ísraelsmanna og araba. Nú var heimurinn að dragast inn í þetta. Hlutirnir gerðust nú mjög hratt.

 

Bandaríkjamenn undirbjuggu að fljúga með hersveitir til Mið-Austurlanda. Skyndilega snéru rússnesku herskipin við og sigldu aftur heim til Rússlands. Stríðinu lauk endanlega í byrjun árs 1974. Mannfallið var skelfileg. Það var enginn karlmaður eftir í fjölmörgum þorpum í Ísrael.

 

Heimurinn varð ekki hinn sami eftir þetta. Hinn vestræni heimur náði aldrei að jafna sig á þessu. Því það sem gerðist í framhaldinu var það, að í hefndarskyni tóku arabaþjóðirnar olíufyrirtækin og þjóðnýttu þau. Þar með gátu fáeinir arabaleiðtogar stjórnað flæði olíunnar til alls heimsins. Þeir ákváðu undireins að minnka olíuframleiðsluna og verð á olíu fór upp úr öllu valdi. Hljómar þetta kunnuglega? Er þetta eitthvað líkt því sem er að gerast á okkar dögum.?

 

Á þessum tíma kostaði olíutunnan 1 dollara. Verðið fór upp í 17 dollara á einni nóttu. Verðbólga í Japan varð 24%, á Ítalíu varð hún 25%, í Bretlandi 18%. Þarna fór að grafa undan hinni efnahagslegu undirstöðu Vesturlanda og það hefur ekkert breyst.

 

Heimurinn jafnaði sig aldrei á þessu. Ísrael náði að sigra þrátt fyrir ótrúlega yfirburði andstæðinganna. Ísraelska þjóðin syrgði hina látnu í mörg ár. Þetta var sannarlega dagur þjáningar. Þið hefðuð þurft að vera hér til að skynja það.

 

Fólkið sem gekk um á götunum, vissi að þjóðin hafði unnið stríðið, en þetta fólk var grátandi.

 

Og nú er Ísrael aftur ógnað. Það eru alvarlegar áætlanir í gangi um að útrýma Ísraelsríki. Óvinurinn mun aftur reyna að flýta Harmagedón. Með því móti getur hann hindrað að kirkjan fái uppskeruna. Það er þess vegna sem við verðum að biðja. Næsta tilraun til að útrýma Ísrael verður kveikjan að 14 ára niðurtalningu.

 

Þið þurfið að gera ykkur grein fyrir að við erum rétt við lok tímanna. Ef óvinurinn getur stytt ferlið, glatast uppskeran.

 

 Heimsókn fjögurra ættfeðra

 

Nú langar mig að deila með ykkur reynslu sem ég fékk, daginn sem ég lagði af stað til Ísrael. Þetta gerðist laugardaginn 31. maí.

 

Ég vaknaði snemma að morgni til að biðja. Ég fór niður í stofu og fyrst ætlaði ég að útbúa tebolla. Þegar ég gekk inn í stofuna, þá var þar kominn stigi úr ljósi inni í stofunni og hann fór upp í gegnum loftið.

 

Ég snarstoppaði. Hvaðan kom þessi stigi eiginlega. Þá sá ég að það voru fjórir menn í herberginu. Ég vissi hverjir þessir menn voru. Þetta voru Abraham, Ísak, Jakob og Jósef.

 

Abraham

 

Abraham sagði: “Nafn mitt þýðir faðir mannhafs. Vilt þú gera sáttmála við okkur um að annast okkar þjóð, Ísrael. Ofsóknirnar sem eru að koma yfir Gyðingaþjóðina, gera helför Nasista að barnaleik í samanburði. Flestir þeirra Gyðinga sem nú eru dreifðir um heiminn, munu ekki ná að komast heim til Ísrael.” Hann horfði beint í augu mín og sagði: “Vilt þú verða þeirra örugga skjól? Viljið þið útbúa meðal ykkar þjóða staði til að taka við þeim og vernda þá?”

 

Þegar hann sagði þetta við mig, þá breyttist sviðið og ég sá marga staði um allan heim. Ég sá marga sem voru að kaupa land. Fólk var að byggja hús með földum herbergjum.

Svo sá ég þjóðir. Ein þeirra var Kanada, önnur var Nýja Sjáland, enn önnur var Ástralía. Það voru margir staðir í Skandinavíu. Sumir staðirnir voru afskekktir. Sumir voru í borgum og aðrir voru á geysistórum landsvæðum. Sumir voru í Bandaríkjunum.

 

Jósef

 

Annar maður talaði við mig. “Það hefur mikið verið rætt á þínum dögum um mína þjónustu. Ég er Jósef. Nafn mitt þýðir sá sem mun vaxa. Mörg ykkar skilja þetta ekki. Þetta snýst ekki um peninga og auð. Það nafn sem Faraó gaf mér, þýðir frelsari aldarinnar. Ég færðist í aukana og varð frelsari minnar aldar.

 

(Síðar þá fletti ég þessu upp í 1. Mósebók 41:45 “Og Faraó kallaði Jósef Safenat-panea og gaf honum fyrir konu Asenat, dóttur Pótífera, prests í Ón.” Og þegar ég skoðaði merkinguna, þá sá ég að nafnið þýðir frelsari aldarinnar.)

 

Hann sagði: “Þjónusta mín fól í sér að brauðfæða og frelsa nýfædda þjóð, Ísrael. Fæðan getur verið þrenns konar. Hún er náttúruleg, andleg og líka fjárhagsleg.”

 

Hann sagði: “Guð mun sjá fyrir fjármunum til að byggja upp ríki Hans, ef við leitum fyrst ríkis Hans, þá mun Hann sjá um okkur.”

 

Svo leit hann á mig með stingandi augum. Hann sagði: “Mikil hungursneyð er að koma yfir heiminn. Hún mun taka á sig ýmsar myndir.” Hann leit á mig, benti með fingri og sagði: “Vertu viðbúinn.”

 

Hann hélt áfram að tala: “Ég var staðgengill eins valdamesta ráðamanns á mínum dögum, en samt varð ég sem Guð fyrir Faraó. Ég varð málpípa hins hæsta Guðs. Mín orð voru lög. Þetta er hin sanna Jósefs-þjónusta. Það eru margskonar falskar útgáfur þarna úti. Mín köllun var að frelsa líf margra. Segðu fólkinu að það eigi að verða frelsarar sinnar aldar.

 

Síðan vitnaði hann í Ritninguna: (Obadía 1:21) “Og frelsendur munu fara upp til Síonfjalls til þess að dæma Esaúfjöll, og Drottin mun hljóta konungsvaldið.”

 

Hann hafði konunglegt útlit. Hann sagði: “Það er takmarkað sem við getum gert fyrir þig. Við getum hvatt þig áfram, en þetta er þín öld. Þú verður að undirbúa þig. Hin sanna Jósefs-þjónusta verður nú að rísa upp.”

 

Ísak

 

Önnur rödd talaði til mín. Hann sagði: “Ég var barn fyrirheitsins.” Ég leit á þennan mann og vissi að þetta var Ísak. Hann sagði: “Nafn mitt þýðir hlátur. Móðir mín hló, þegar henni var sagt að hún mundi eignast son í elli sinni.”

 

Svo sagði hann þetta: “Margir munu hlæja í kirkjunni, þegar boðskapurinn um syni Guðs, kemur fram að fullu. En þú mátt ekki lengur, halda aftur af sannleikanum.”

 

Ég leit á þennan mann og reyndi að átta mig á þessu öllu.

 

Hann leit á mig og sagði: “Margir synir munu koma fram á þínum dögum, til að verða frelsarar þinnar aldar. Þetta hefur verið frátekið fyrir þína kynslóð. Þetta eru fyrirrennarar að nýrri ætt á jörðinni, ætt þeirra sem koma að fullu inn í fyllingu og líkingu Jesú. Margir af þessum sonum hafa það hlutverk að vernda Ísraelsþjóðina.”

 

Síðan sagði hann við mig: “Mundu þetta.” (Matt. 25:40)

 

“Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.'”

 

Jakob

 

Annar maður talaði. Hann sagði: “Mitt hlutskipti fól í sér að mynda Ísraelsþjóðina.” Þessi maður var mjög hávaxinn, konunglegur í útliti og það kom birta frá honum. Hann sagði: “Veikleikar mínir urðu mér til mikillar sorgar. Nafn mitt þýðir svikahrappur, en það hefur líka aðra merkingu sem er hringur. Líf mitt fór í hringi þar til Guð náði taki á mér og breytti mér.”

 

Hann sagði: “Ég mætti Drottni í Betel. Og ég var aldrei samur maður á eftir. Veikleikar munu valda því að þú ferð í hringi og missir af köllun þinni og hlutskipti. Þú verður að leggja líf þitt fullkomlega niður fyrir Drottin. Það er betra að deyja í þjónustu Drottins, en að deyja í þeim hörmungum sem eru að koma yfir þennan heim. Þú getur aðeins höndlað það sem þú varst kallaður til, þegar þú nærð sambandi við Guð og þegar þú gengur undir opnum himni.”

 

Hann sagði: “Það liðu mörg ár, meðan ég gekk í gegnum prófraunir, en að lokum kom ég til Peníel, þar sem ég glímdi við engil Drottins. Þessi glíma fól í sér endanlegan dauða fyrir egóið í mínu lífi. Minn náttúrulegi styrkur var nú yfirtekinn af styrk Drottins.

 

Nafni mínu var breytt í Ísrael. Það þýðir ‘prins með Guði’, en hefur einnig merkinguna ‘að ríkja með Guði’. Nafnbreytingin endurspeglaði innri breytingu sem hafði átt sér stað í mér.

 

Tíminn er stuttur. Þið verðið að höndla útvalningu ykkar og stíga hvert og eitt inn í ykkar köllun.”

 

 Biddu lýð Guðs að hjálpa okkar fólki, Ísrael

 

Að lokum leit Abraham á mig og sagði: “Biddu lýð Guðs um að hjálpa okkar fólki, Ísrael.” Í rödd hans var mikil áhersla á hvað þetta væri aðkallandi. “Við munum vera með þér, þegar þú ferð til Ísrael.”

 

--------------------------

 

Vinir, mig langar til að segja ykkur í kvöld að þetta er grafalvarlegur tími. Nú er sá tími kominn, að ekki er lengur hægt að halda aftur af hönd Guðs.

 

Ég sagði við Drottin: “Drottinn, við erum að predika hluti sem virðast valda alls konar sundrungu.” Þá sagði Drottinn við mig, og það jaðraði við að hann væri reiður: “Ég segi þér, lát hina andlega dauðu jarða sína dauðu, en far þú og byggðu upp Guðsríki.”

 

Þetta er sá tími sem við lifum á núna. Við erum í Guðsríkinu einmitt fyrir þennan tíma. Þess vegna verðum við að biðja fyrir Ísrael. Við erum ekki stödd hér til að hlusta á góðar predikanir. Við erum hér til að forða hörmungum. Þetta er alvarlegur tími. Það er ekki tilviljun að Guð sendi mig aftur hingað til Ísrael. Og það sem Hann sagði var: “Það verður gerð tilraun til að endurtaka Yom Kippur stríðið.” Við þurfum að biðja.

 

Guð vill koma á tímabili friðar. Hann vill koma á stöðugleika á þessu svæði um ákveðinn tíma. Þá verður líka stöðugleiki í heiminum. Á meðan verður uppskeran. Eftir það verða tímarnir mjög erfiðir.

 

Þetta er eins og hjá Jósef: “Það munu verða sjö góð ár.” Ég sagði ekki að þetta yrðu auðveld ár, ég sagði góð ár. Og við þurfum að vinna meðan enn er dagur, því nóttin kemur þegar við getum ekki unnið. Tíminn er stuttur. Þið verðið að stíga inn í köllun ykkar núna. Þær ákvarðanir sem þið takið núna, munu ráða lífi ykkar næstu fjórtán árin. Þið verðið að taka réttar ákvarðanir núna.