DANÍEL

 

Daníel og vinir hans í Babýlon

1
1Á þriðja ríkisári Jójakíms konungs í Júda kom Nebúkadnesar konungur í Babýlon til Jerúsalem og settist um hana. 2Og Drottinn gaf Jójakím Júdakonung á vald hans og nokkuð af áhöldum Guðs húss, og hann flutti þau til Sínearlands í musteri guðs síns, og áhöldin flutti hann í fjárhirslu guðs síns.

3Og konungur bauð Aspenasi hirðstjóra að velja meðal Ísraelsmanna, bæði af konungsættinni og af höfðingjunum, 4sveina nokkra, er engin líkamslýti hefðu og væru fríðir sýnum, vel að sér í hvers konar vísindum, fróðir og vel viti bornir og hæfir til að þjóna í konungshöllinni, og kenna þeim bókmenntir og tungu Kaldea. 5Og konungur ákvað þeim daglegan skammt frá konungsborði og af víni því, er hann sjálfur drakk, og bauð að uppala þá í þrjú ár, og að þeim liðnum skyldu þeir þjóna frammi fyrir konunginum. 6Og meðal þeirra voru af Júdamönnum þeir Daníel, Hananja, Mísael og Asarja. 7En hirðstjórinn breytti nöfnum þeirra og kallaði Daníel Beltsasar, Hananja Sadrak, Mísael Mesak og Asarja Abed-Negó.

8En Daníel einsetti sér að saurga sig ekki á matnum frá konungsborði né á víni því, er konungur drakk, og beiddist þess af hirðstjóra, að hann þyrfti ekki að saurga sig. 9Og Guð lét Daníel verða náðar og líknar auðið hjá hirðstjóranum. 10En hirðstjórinn sagði við Daníel: "Ég er hræddur um að minn herra konungurinn, sem tiltekið hefir mat yðar og drykk, sjái yður fölari í bragði en aðra sveina á yðar aldri, og verðið þér svo þess valdandi, að ég fyrirgjöri lífi mínu við konunginn."

11Þá sagði Daníel við tilsjónarmanninn, er hirðstjórinn hafði sett yfir þá Daníel, Hananja, Mísael og Asarja: 12"Gjör tilraun við oss þjóna þína í tíu daga og lát gefa oss kálmeti að eta og vatn að drekka. 13Skoða síðan yfirbragð vort og yfirbragð sveina þeirra, er eta við konungsborð, og gjör því næst við oss eftir því, sem þér þá líst á oss." 14Og hann veitti þeim bón þessa og gjörði tilraun við þá í tíu daga. 15Og að tíu dögum liðnum reyndust þeir fegurri ásýndum og feitari á hold en allir sveinarnir, sem átu við konungsborð. 16Eftir það lét tilsjónarmaðurinn bera burt matinn og vínið, sem þeim hafði verið ætlað, og gaf þeim kálmeti.

17Og þessum fjórum sveinum gaf Guð kunnáttu og skilning á alls konar rit og vísindi, en Daníel kunni og skyn á alls konar vitrunum og draumum.

18Og er liðinn var sá tími, er konungur hafði tiltekið, að þá skyldi leiða á sinn fund, þá leiddi hirðstjórinn þá fyrir Nebúkadnesar. 19Og konungur átti tal við þá, en eigi fannst neinn af þeim öllum slíkur sem þeir Daníel, Hananja, Mísael og Asarja, og gengu þeir í þjónustu konungs. 20Og í öllum hlutum, sem viturleik og skilning þurfti við að hafa og konungur spurði þá um, reyndust þeir tíu sinnum fremri en allir spásagnamenn og særingamenn í öllu ríki hans. 21Og Daníel dvaldist þar allt til fyrsta árs Kýrusar konungs.


Fyrri draumur Nebúkadnesars

2
1Á öðru ríkisári Nebúkadnesars dreymdi Nebúkadnesar draum, og varð honum órótt í skapi og mátti eigi sofa. 2Þá bauð konungur að kalla til sín spásagnamenn og særingamenn og galdramenn og Kaldea, að þeir segðu konungi, hvað hann hefði dreymt, og þeir komu og gengu fyrir konung. 3Þá sagði konungur við þá: "Mig hefir dreymt draum og mér er órótt í skapi, uns ég fæ að vita drauminn."

4Þá sögðu Kaldearnir við konunginn á arameísku: "Konungurinn lifi eilíflega! Seg þjónum þínum drauminn, og munum vér þá segja þýðing hans."

5Konungur svaraði og sagði við Kaldea: "Ásetningur minn er óhagganlegur: Ef þér segið mér ekki drauminn og þýðing hans, skuluð þér verða höggnir sundur og hús yðar gjörð að sorphaug. 6En ef þér segið mér drauminn og þýðing hans, munuð þér af mér þiggja margs konar gjafir og mikla sæmd. Segið mér því drauminn og þýðing hans!"

7Þá svöruðu þeir aftur og sögðu: "Konungurinn segi þjónum sínum drauminn, og þá skulum vér segja, hvað hann þýðir."

8Konungur svaraði og sagði: "Ég veit með vissu, að þér ætlið að leita yður frests, þar eð þér sjáið að ásetningur minn er óhagganlegur. 9En ef þér segið mér ekki drauminn, þá bíður yðar dómur, sem ekki verður nema á einn veg. Þér hafið komið yður saman um að fara með lygatal og skaðsemdar frammi fyrir mér, þar til er tímarnir breytast. Segið mér því drauminn, svo að ég fái skilið, að þér megið einnig segja mér þýðing hans."

10Kaldearnir svöruðu konungi og sögðu: "Enginn er sá maður í heimi, er sagt geti það, er konungurinn mælist til, né heldur hefir nokkur mikill og voldugur konungur krafist slíks af nokkrum spásagnamanni, særingamanni eða Kaldea. 11Því að það er torvelt, sem konungurinn heimtar, og enginn getur kunngjört konunginum það nema guðirnir einir, en bústaður þeirra er ekki hjá dauðlegum mönnum."

12Af þessu varð konungur gramur og mjög reiður og bauð að taka af lífi alla vitringa í Babýlon. 13Gekk þá sú skipun út, að lífláta skyldi vitringana, og var leitað að þeim Daníel og félögum hans til að lífláta þá.


Guð birtir Daníel ráðningu draumsins

14Þá sneri Daníel sér með viturleik og skynsemd til Arjóks, lífvarðarforingja konungs, sem út var genginn til þess að lífláta vitringana í Babýlon. 15Hann tók til máls og sagði við Arjók valdsmann konungs: "Hví er skipun konungs svo hörð?" Arjók skýrði þá Daníel frá málavöxtum. 16Og Daníel gekk upp til konungs og bað hann gefa sér frest, að hann mætti kunngjöra konungi þýðinguna.

17Þá gekk Daníel heim til húss síns til þess að segja þeim Hananja, Mísael og Asarja, félögum sínum, frá þessu, 18og til þess að biðja Guð himinsins líknar um leyndardóm þennan, svo að Daníel og félagar hans yrðu ekki líflátnir með hinum vitringunum í Babýlon.

19Þá var leyndardómurinn opinberaður Daníel í nætursýn. Þá lofaði Daníel Guð himnanna. 20Daníel tók til máls og sagði:

"Lofað veri nafn Guðs frá eilífð til eilífðar, því að hans er viskan og mátturinn.

21Hann breytir tímum og tíðum, hann rekur konunga frá völdum og hann setur konunga til valda, hann gefur spekingunum speki og hinum hyggnu hyggindi.

22Hann opinberar hina dýpstu og huldustu leyndardóma, hann veit, hvað í myrkrinu gjörist, og ljósið býr hjá honum.

23Ég þakka þér, Guð feðra minna, og vegsama þig fyrir það, að þú hefir gefið mér visku og mátt og nú látið mig vita það, er vér báðum þig um, því að þú hefir opinberað oss það, er konungur vildi vita."

24Daníel fór nú til Arjóks, sem konungur hafði falið að lífláta vitringana í Babýlon. Hann fór og mælti til hans á þessa leið: "Ekki skalt þú lífláta vitringana í Babýlon. Leið mig inn fyrir konung, og mun ég segja konungi þýðinguna."

25Síðan leiddi Arjók Daníel í skyndi inn fyrir konung og mælti svo til hans: "Ég hefi fundið mann meðal hinna herleiddu frá Júda, sem ætlar að segja konunginum þýðing draumsins."


Líkneskið

26Konungur svaraði og sagði við Daníel, sem kallaður var Beltsasar: "Getur þú sagt mér drauminn, sem mig dreymdi, og þýðing hans?"

27Daníel svaraði konungi og sagði: "Leyndardóm þann, sem konungurinn spyr um, geta hvorki vitringar, særingamenn, spásagnamenn né stjörnuspekingar sagt konunginum. 28En sá Guð er á himnum, sem opinberar leynda hluti, og hann hefir kunngjört Nebúkadnesar konungi það, er verða mun á hinum síðustu dögum. Draumur þinn og vitranir þær, er fyrir þig bar í rekkju þinni, voru þessar:

29Þá er þú hvíldir í rekkju þinni, konungur, stigu upp hugsanir hjá þér um, hvað verða mundi eftir þetta, og hann, sem opinberar leynda hluti, hefir kunngjört þér, hvað verða muni. 30En hvað mig snertir, þá er það ekki fyrir nokkurrar visku sakir, sem ég hafi til að bera umfram alla menn aðra, þá er nú eru uppi, að þessi leyndardómur er mér opinber orðinn, heldur til þess að þýðingin yrði kunngjörð konunginum og þú fengir að vita hugsanir hjarta þíns.

31Þú horfðir fram fyrir þig, konungur, og stóð þar líkneski mikið. Líkneski þetta var stórt og yfirtaks-ljómandi. Það stóð frammi fyrir þér og var ógurlegt ásýndum. 32Höfuð líkneskis þessa var af skíru gulli, brjóstið og armleggirnir af silfri, kviðurinn og lendarnar af eiri, 33leggirnir af járni, fæturnir sums kostar af járni, sums kostar af leir.

34Þú horfðir á það, þar til er steinn nokkur losnaði, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann. Hann lenti á fótum líkneskisins, sem voru af járni og leir, og molaði þá. 35Þá muldist sundur í sama bili járnið, leirinn, eirinn, silfrið og gullið, og varð eins og sáðir á sumarláfa, vindurinn feykti því burt, svo að þess sá engan stað. En steinninn, sem lenti á líkneskinu, varð að stóru fjalli og tók yfir alla jörðina.

36Þetta er draumurinn, og nú viljum vér segja konunginum þýðing hans.

37Þú, konungur, yfirkonungur konunganna, sem Guð himnanna hefir gefið ríkið, valdið, máttinn og tignina, 38þú, sem hann hefir mennina á vald selt, hvar svo sem þeir búa, dýr merkurinnar og fugla himinsins, og sett þig drottnara yfir því öllu, - þú ert gullhöfuðið. 39En eftir þig mun hefjast annað konungsríki, minni háttar en þitt er, og því næst hið þriðja ríki af eiri, sem drottna mun yfir allri veröldu. 40Þá mun hefjast fjórða ríkið, sterkt sem járn, - því að járnið sundurbrýtur og mölvar allt -, og eins og járnið molar sundur, eins mun það sundurbrjóta og mola öll hin ríkin. 41En þar er þú sást fæturna og tærnar, að sumt var af pottaraleir, sumt af járni, það merkir að ríkið mun verða skipt. Þó mun það nokkru í sér halda af hörku járnsins, þar sem þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn. 42En þar er tærnar á fótunum voru sums kostar af járni og sums kostar af leir, þá mun það ríki að nokkru leyti verða öflugt og að nokkru leyti veikt. 43Og þar er þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn, þá munu þeir með kvonföngum saman blandast, og þó ekki samþýðast hvorir öðrum, eins og járnið samlagar sig ekki við leirinn.

44En á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu, 45þar sem þú sást að steinn nokkur losnaði úr fjallinu, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann, og mölvaði járnið, eirinn, leirinn, silfrið og gullið. Mikill Guð hefir kunngjört konunginum hvað hér eftir muni verða. Draumurinn er sannur og þýðing hans áreiðanleg."

46Þá féll Nebúkadnesar konungur fram á ásjónu sína og laut Daníel og bauð að fórna honum matfórn og reykelsi. 47Konungur mælti til Daníels og sagði: "Í sannleika er yðar Guð yfirguð guðanna og herra konunganna og opinberari leyndra hluta, með því að þú máttir þennan leyndardóm auglýsa." 48Eftir það hóf konungur Daníel til mikilla mannvirðinga og gaf honum miklar og margar gjafir, setti hann höfðingja yfir allt Babel-hérað og gjörði hann að æðsta forstjóra yfir öllum vitringum í Babýlon. 49Og fyrir tilmæli Daníels gjörði konungur þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó að sýslumönnum yfir Babel-héraði, en sjálfur var Daníel við hirð konungs.


Boðið að tilbiðja líkneskið

3
1Nebúkadnesar konungur lét gjöra líkneski af gulli, sextíu álna á hæð og sex álna á breidd. Hann lét reisa það í Dúradal í Babel-héraði. 2Og Nebúkadnesar konungur sendi út menn til þess að stefna saman jörlunum, landstjórunum, landshöfðingjunum, ráðherrunum, féhirðunum, dómurunum, lögmönnunum og öllum embættismönnum í skattlöndunum, að þeir skyldu koma til vígslu líkneskisins, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið. 3Þá söfnuðust saman jarlarnir, landstjórarnir, landshöfðingjarnir, ráðherrarnir, féhirðarnir, dómararnir, lögmennirnir og allir embættismenn í skattlöndunum til vígslu líkneskisins, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið, og námu staðar frammi fyrir líkneskinu, er Nebúkadnesar hafði látið reisa. 4Þá kallaði kallarinn hárri röddu: "Svo er yður öllum boðið, hverrar þjóðar og hvaða landsmenn sem þér eruð og á hverja tungu sem þér mælið: 5Þegar er þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, þá skuluð þér falla fram og tilbiðja gull-líkneskið, sem Nebúkadnesar konungur hefir reisa látið. 6En hver sá, er eigi fellur fram og tilbiður, honum skal á samri stundu kastað verða inn í brennandi eldsofn." 7Þess vegna, undireins og allt fólkið heyrði hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna og alls konar hljóðfæra, þá féllu allir fram, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem voru, og tilbáðu gull-líkneskið, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið.


Vinir Daníels óhlýðnast boðinu

8Fyrir því gengu og fram á sömu stundu kaldverskir menn og ákærðu Gyðingana. 9Þeir tóku svo til máls og sögðu við Nebúkadnesar konung: "Konungurinn lifi eilíflega! 10Þú hefir, konungur, skipað svo fyrir, að hver maður skuli, þá er hann heyrir hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, falla fram og tilbiðja gull-líkneskið, 11og að hver sá, er eigi fellur fram og tilbiður, honum skuli kastað inn í brennandi eldsofn. 12Nú eru hér nokkrir Gyðingar, er þú hefir gjört að sýslumönnum yfir Babel-héraði, þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó. Þessir menn virða þig að engu, konungur. Þeir dýrka ekki þína guði og tilbiðja ekki gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið."

13Þá fylltist Nebúkadnesar reiði og heift og bauð að leiða fram þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó, og voru þessir menn leiddir fyrir konunginn. 14Nebúkadnesar tók til máls og sagði við þá: "Er það af ásettu ráði, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, að þér dýrkið ekki minn guð og tilbiðjið ekki gull-líkneskið, sem ég hefi reisa látið? 15Ef þér nú eruð viðbúnir, jafnskjótt og þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, að falla fram og tilbiðja líkneski það, er ég hefi gjöra látið, þá nær það ekki lengra. En ef þér tilbiðjið það ekki, þá skal yður samstundis verða kastað inn í eldsofn brennandi, og hver er sá guð, er yður megi frelsa úr mínum höndum?"

16Þá svöruðu þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó og sögðu við Nebúkadnesar konung: "Vér þurfum ekki að svara þér einu orði upp á þetta. 17Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi og af þinni hendi, konungur. 18En þótt hann gjöri það ekki, þá skalt þú samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði né tilbiðja gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið."

19Þá fylltist Nebúkadnesar heiftarreiði við þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó, svo að ásjóna hans afmyndaðist, og hann skipaði að kynda ofninn sjöfalt heitara en vanalegt var að kynda hann. 20Og hann bauð rammefldum mönnum, sem voru í her hans, að binda þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó og kasta þeim inn í brennandi eldsofninn. 21Síðan voru þessir menn bundnir í nærfötum sínum, kyrtlum, skikkjum og öðrum klæðnaði sínum og þeim kastað inn í hinn brennandi eldsofn. 22Og sökum þess að skipun konungs var svo strengileg, en ofninn kyntur ákaflega, þá varð eldsloginn að bana mönnunum, sem báru þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó. 23En þeir þrír menn, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, féllu bundnir niður í hinn brennandi eldsofn.


Kraftaverk í eldsofninum

24Þá varð Nebúkadnesar konungur forviða og spratt upp skyndilega. Hann tók til máls og sagði við ráðgjafa sína: "Höfum vér ekki kastað þremur mönnum fjötruðum inn í eldinn?" Þeir svöruðu konunginum og sögðu: "Jú, vissulega, konungur!" 25Hann svaraði og sagði: "Ég sé þó fjóra menn ganga lausa inni í eldinum, án þess að nokkuð hafi orðið þeim að grandi, og er ásýnd hins fjórða því líkust sem hann sé sonur guðanna."

26Þá gekk Nebúkadnesar að dyrum hins brennandi eldsofns, tók til máls og sagði: "Sadrak, Mesak og Abed-Negó, þjónar hins hæsta Guðs, gangið út og komið hingað!" Þá gengu þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó út úr eldinum. 27Og jarlarnir, landstjórarnir, landshöfðingjarnir og ráðgjafar konungs söfnuðust saman og sáu, að eldurinn hafði ekki unnið á líkama þessara manna og að hárið á höfði þeirra var ekki sviðnað, að ekkert sá á nærfötum þeirra og enginn eldseimur fannst af þeim.

28Þá tók Nebúkadnesar til máls og sagði: "Lofaður sé Guð þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sem sendi engil sinn og frelsaði þjóna sína, er treystu honum og óhlýðnuðust boði konungsins, en lögðu líkami sína í sölurnar, til þess að þeir þyrftu ekki að dýrka né tilbiðja neinn annan guð en sinn Guð. 29Nú gef ég út þá skipun, að hver sá, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem er, er mælir lastmæli gegn Guði þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sá skal höggvinn verða sundur og hús hans gjört að sorphaug, því að enginn annar guð er til, sem eins getur frelsað og hann." 30Síðan hóf konungur þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó til stórra mannvirðinga í Babel-héraði.


Nebúkadnesar segir síðari draum sinn

4
1Nebúkadnesar konungur sendir kveðju sína öllum mönnum, sem á jörðinni búa, hverrar þjóðar, hvaða lands og hverrar tungu sem eru:

"Gangi yður allt til gæfu! 2Mér hefir þóknast að kunngjöra þau tákn og furðuverk, sem hinn hæsti Guð hefir gjört við mig.

3Hversu mikil eru tákn hans og hversu máttug eru furðuverk hans! Ríki hans er eilíft ríki og máttarveldi hans varir frá kyni til kyns.

4Ég, Nebúkadnesar, lifði áhyggjulaus í húsi mínu og átti góða daga í höll minni. 5Þá dreymdi mig draum, sem gjörði mig óttasleginn, og hugsanirnar í rekkju minni og sýnirnar, sem fyrir mig bar, skelfdu mig. 6Ég lét því þá skipun út ganga, að leiða skyldi fyrir mig alla vitringa í Babýlon til þess að segja mér þýðing draumsins. 7Þá komu spásagnamennirnir, særingamennirnir, Kaldearnir og stjörnuspekingarnir, og sagði ég þeim drauminn, en þeir gátu ekki sagt mér þýðing hans. 8En loks kom Daníel til mín, sem kallaður er Beltsasar eftir nafni guðs míns. Í honum býr andi hinna heilögu guða, og ég sagði honum drauminn:

9Beltsasar, þú æðsti forstjóri spásagnamannanna! Ég veit að í þér býr andi hinna heilögu guða og að enginn leyndardómur er þér ofvaxinn. Seg mér sýnir draums míns, þær er fyrir mig bar, og hvað þær þýða. 10Sýnir þær, er fyrir mig bar í rekkju minni, voru þessar:

Ég horfði, og sjá, tré nokkurt stóð á jörðinni, og var það geysihátt. 11Tréð var mikið og sterkt, og svo hátt að upp tók til himins, og mátti sjá það alla vega frá endimörkum jarðarinnar. 12Limar þess voru fagrar og ávöxturinn mikill, og fæðsla handa öllum var á því. Skógardýrin lágu í forsælu undir því, fuglar himinsins bjuggu á greinum þess, og allar skepnur nærðust af því. 13Ég horfði á í sýnum þeim, sem fyrir mig bar í rekkju minni, og sá heilagan vörð stíga niður af himni. 14Hann kallaði hárri röddu og mælti svo:

,Höggvið upp tréð, sníðið af greinarnar, slítið af því limarnar og dreifið ávöxtunum víðs vegar, svo að dýrin flýi burt undan því og fuglarnir af greinum þess. 15Samt skuluð þér láta stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi. Hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrunum í grösum jarðarinnar. 16Hjarta hans skal umbreytast, svo að í honum skal ekki mannshjarta vera, heldur skal honum dýrshjarta fengið verða, og sjö tíðir skulu yfir hann líða. 17Skipunin hvílir á ályktun varðanna, og þetta eru fyrirmæli hinna heilögu, til þess að hinir lifandi viðurkenni, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og gefur hann hverjum sem hann vill, og að hann getur upphafið hinn lítilmótlegasta meðal mannanna til konungdóms.'

18Þetta er draumurinn, sem mig, Nebúkadnesar konung, dreymdi, en þú, Beltsasar, seg þýðingu hans, fyrst enginn af vitringunum í ríki mínu getur sagt mér, hvað hann þýðir. En þú getur það, því að í þér býr andi hinna heilögu guða."


Daníel ræður drauminn

19Þá stóð Daníel, sem kallaður var Beltsasar, agndofa um stund, og hugsanir hans skelfdu hann. En konungur tók til máls og sagði: "Beltsasar! Lát eigi drauminn né þýðing hans skelfa þig."

Beltsasar svaraði og sagði: "Ég vildi óska, herra, að draumurinn rættist á óvinum þínum og þýðing hans á mótstöðumönnum þínum. 20Tréð, sem þú sást og bæði var mikið og sterkt og svo hátt að upp tók til himins og séð varð um alla jörðina, 21limar þess fagrar og ávöxturinn mikill og fæðsla á því handa öllum, skógardýrin bjuggu undir því og fuglar himinsins hreiðruðu sig í greinum þess, 22það ert þú, konungur, sem ert orðinn mikill og voldugur og mikilleiki þinn vaxinn svo mjög, að hann nær til himins og veldi þitt til endimarka jarðar.

23En þar er konungurinn sá heilagan vörð stíga niður af himni og segja: ,Höggvið upp tréð og eyðileggið það, en látið samt stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi, hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrum merkurinnar, uns sjö tíðir eru yfir hann liðnar,' - 24þá er þýðingin þessi, konungur, og ráðstöfun Hins hæsta er það, sem komið er fram við minn herra, konunginn: 25Þú munt út rekinn verða úr mannafélagi og eiga byggð með dýrum merkurinnar. Þér mun gefið verða gras að eta eins og uxum, og þú munt vökna af dögg himinsins, og sjö tíðir munu yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill.

26En þar er sagt var, að stofn trésins með rótum sínum skyldi eftir verða, það merkir, að þú skalt halda ríki þínu, er þú kannast við, að allt valdið er á himnum. 27Lát þér því, konungur, geðjast ráð mitt: Losa þig af syndum þínum með réttlætisverkum og af misgjörðum þínum með líknsemi við aumingja, ef vera mætti, að hamingja þín yrði við það langærri."


Nebúkadnesar brjálast

28Allt þetta kom fram við Nebúkadnesar konung. 29Þegar konungur tólf mánuðum síðar einu sinni var á gangi í konungshöllinni í Babýlon, 30tók hann til máls og sagði: "Er þetta ekki sú hin mikla Babýlon, sem ég hefi reist að konungssetri með veldisstyrk mínum og tign minni til frægðar?"

31Áður en þessi orð voru liðin af vörum konungs, kom raust af himni: "Þér gjörist hér með vitanlegt, Nebúkadnesar konungur, að konungdómurinn er vikinn frá þér. 32Þú munt út rekinn verða úr mannafélagi og eiga byggð með dýrum merkurinnar. Þér mun gefið verða gras að eta eins og uxum, og sjö tíðir munu yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill."

33Þessi ummæli rættust samstundis á Nebúkadnesar. Hann var út rekinn úr mannafélagi og át gras eins og uxar, og líkami hans vöknaði af dögg himinsins, og um síðir óx hár hans sem arnarfjaðrir og neglur hans sem fuglaklær.

34"Ég, Nebúkadnesar, hóf að liðnum þessum tíma augu mín til himins, og fékk ég þá vit mitt aftur. Og ég lofaði Hinn hæsta og vegsamaði og tignaði þann, sem lifir eilíflega, því að veldi hans er eilíft veldi, og ríki hans varir frá kyni til kyns. 35Allir þeir, sem á jörðinni búa, eru sem ekkert hjá honum, og hann fer með himnanna her og byggjendur jarðarinnar eins og hann sjálfur vill, og enginn er sá, er fái honum tálmun gjört og við hann sagt: ,Hvað gjörir þú?'

36Samstundis fékk ég vit mitt aftur, og til heiðurs fyrir ríki mitt komst ég aftur til tignar og vegsemdar. Ráðgjafar mínir og stórmenni leituðu mín, og ég var aftur skipaður yfir ríki mitt, og mér var gefið enn meira veldi en áður.

37Nú vegsama ég, Nebúkadnesar, göfga og tigna konung himnanna, því að allar gjörðir hans eru sannleikur, vegir hans réttlæti og hann megnar að lægja þá, sem fram ganga í dramblæti."


Veisla Belsasars konungs og letrið á veggnum

5
1Belsasar konungur hélt veislu mikla þúsund stórmennum sínum og drakk vín í augsýn þeirra þúsund. 2En er menn tóku að gjörast vínhreifir, bauð Belsasar að sækja þau gullker og silfurker, sem Nebúkadnesar faðir hans hafði haft á burt úr musterinu í Jerúsalem, til þess að konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur mættu drekka af þeim. 3Þá voru fram borin gullker þau, sem tekin höfðu verið úr musterinu, húsi Guðs í Jerúsalem, og konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur drukku af þeim. 4Þeir drukku vín og vegsömuðu guði sína úr gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini.

5Á sömu stundu komu fram fingur af mannshendi og rituðu á kalkið á veggnum í konungshöllinni, gegnt ljósastikunni, og konungurinn sá fingur handarinnar, sem ritaði. 6Þá gjörðist konungur litverpur, og hugsanir hans skelfdu hann, og var sem mjaðmarliðir hans gengju sundur, og kné hans skulfu. 7Konungur kallaði hástöfum, að sækja skyldi særingamennina, Kaldeana og stjörnuspekingana. Konungur tók til máls og sagði við vitringana í Babýlon: "Hver sem les þetta letur og segir mér þýðing þess, skal klæddur verða purpura og bera gullfesti á hálsi sér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu!" 8Þá komu allir vitringar konungs þangað, en þeir gátu ekki lesið letrið og sagt konungi þýðing þess. 9Þá varð Belsasar konungur mjög felmtsfullur og gjörðist litverpur, en fát mikið kom á stórmenni hans.

10Út af orðræðu konungs og stórmenna hans gekk drottning inn í veislusalinn. Drottning tók til máls og sagði: "Konungurinn lifi eilíflega! Lát eigi hugsanir þínar skelfa þig og gjörst eigi svo litverpur. 11Sá maður er í ríki þínu, er andi hinna heilögu guða býr í, og á dögum föður þíns fannst með honum skýrleikur, þekking og speki, lík speki guðanna, og Nebúkadnesar konungur, faðir þinn, gjörði hann að yfirhöfðingja spásagnamannanna, særingamannanna, Kaldeanna og stjörnuspekinganna. Þetta gjörði faðir þinn, konungur, 12af því að með Daníel, er konungurinn kallaði Beltsasar, fannst frábær andi og kunnátta og þekking til að þýða drauma, ráða gátur og greiða úr vandamálum. Lát nú kalla Daníel, og mun hann segja, hvað þetta merkir."


Daníel þýðir letrið

13Þá var Daníel leiddur inn fyrir konung. Konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Ert þú Daníel, einn af þeim herleiddu Gyðingum, sem konungurinn, faðir minn, flutti burt frá Júda? 14Ég hefi um þig heyrt, að andi guðanna búi í þér og að skýrleikur, þekking og frábær speki finnist með þér. 15Nú hefi ég látið leiða inn fyrir mig vitringana og særingamennina til þess að lesa þetta letur og segja mér þýðing þess, en þeir geta ekki sagt, hvað þessi orð þýða. 16En ég hefi heyrt um þig, að þú kunnir þýðingar að finna og úr vandamálum að greiða. Ef þú nú getur lesið þetta letur og sagt mér þýðing þess, þá skalt þú klæddur verða purpura, bera gullfesti á hálsi þér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu."

17Þá tók Daníel til máls og sagði við konung: "Haltu sjálfur gáfum þínum og gef einhverjum öðrum gjafir þínar, en letrið mun ég lesa fyrir konunginn og segja honum þýðing þess.

18Þú konungur! Guð hinn hæsti veitti Nebúkadnesar föður þínum ríki, vald, vegsemd og tign. 19Og sökum þess veldis, sem hann hafði veitt honum, hræddust hann allir lýðir, þjóðir og tungur, og stóð þeim ótti af honum. Hann tók af lífi hvern sem hann vildi og hann lét lífi halda hvern sem hann vildi, hann hóf hvern er hann vildi og hann lægði hvern er hann vildi. 20En er hjarta hans metnaðist og hugur hans gjörðist ofdrambsfullur, þá var honum hrundið úr konungshásætinu og tignin tekin frá honum. 21Hann var rekinn úr mannafélagi og hjarta hans varð líkt dýrshjarta. Hann átti byggð meðal skógarasna, og honum var gefið gras að eta eins og uxum, og líkami hans vöknaði af dögg himins, þar til er hann kannaðist við, að Guð hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og veitir hann hverjum sem hann vill.

22Og þú, Belsasar, sonur hans, hefir ekki lítillætt hjarta þitt, þótt þú vissir allt þetta, 23heldur hefir þú sett þig upp á móti Drottni himnanna og látið færa þér kerin úr húsi hans, og þú og stórmenni þín, konur þínar og hjákonur hafið drukkið vín af þeim. Og þú hefir vegsamað guði úr silfri, gulli, eiri, járni, tré og steini, sem ekki sjá, ekki heyra og ekkert vita, en þann Guð, sem hefir lífsanda þinn í hendi sér og ráð hefir á öllum högum þínum, hann hefir þú ekki tignað. 24Samstundis voru fingur handarinnar frá honum sendir og þetta letur ritað. 25En letrið, sem ritað er, er þetta: mene, mene, tekel ufarsin. 26Þessi er þýðing orðanna:mene, Guð hefir talið ríkisár þín og leitt þau til enda; 27tekel, þú ert veginn á skálum og léttvægur fundinn; 28peres, ríki þitt er deilt og gefið Medum og Persum."

29Því næst bauð Belsasar að klæða Daníel purpura og láta gullfesti um háls honum og gjöra heyrinkunnugt, að hann skyldi vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu.

30Á hinni sömu nótt var Belsasar Kaldeakonungur drepinn.


Daníel í ljónagryfjunni

6
1Daríus frá Medalandi tók við ríkinu og hafði þá tvo vetur um sextugt. 2Daríusi þóknaðist að setja yfir ríkið hundrað og tuttugu jarla, er skipað skyldi niður um allt ríkið, 3og yfir þá þrjá yfirhöfðingja, og var Daníel einn af þeim. Skyldu jarlarnir gjöra þeim skilagrein, svo að konungur biði engan skaða. 4Þá bar Daníel þessi af yfirhöfðingjunum og jörlunum, sökum þess að hann hafði frábæran anda, og hugði konungur að setja hann yfir allt ríkið.

5Þá leituðu yfirhöfðingjarnir og jarlarnir að finna Daníel eitthvað til saka viðvíkjandi ríkisstjórninni, en gátu enga sök eða ávirðing fundið, því að hann var trúr, svo að ekkert tómlæti né ávirðing fannst hjá honum. 6Þá sögðu þessir menn: "Vér munum ekkert fundið geta Daníel þessum til saka, nema ef vér finnum honum eitthvað að sök í átrúnaði hans." 7Þá þustu þessir yfirhöfðingjar og jarlar til konungs og sögðu svo við hann: "Daríus konungur lifi eilíflega! 8Öllum yfirhöfðingjum ríkisins, landstjórum, jörlum, ráðgjöfum og landshöfðingjum hefir komið ásamt um að gefa út þá konungsskipun og staðfesta það forboð, að hver sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju. 9Nú skalt þú, konungur, gefa út forboð þetta og láta það skriflegt út ganga, svo að því verði ekki breytt, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa." 10Samkvæmt þessu lét konungur gefa skriflega út skipunina og bannið.

11En er Daníel varð þess vísari, að þessi skipun var út gefin, gekk hann inn í hús sitt. Þar hafði hann uppi í loftstofu sinni opna glugga, er sneru móti Jerúsalem, og þrem sinnum á dag kraup hann á kné, bað til Guðs síns og vegsamaði hann, eins og hann hafði áður verið vanur að gjöra. 12Þá þustu þessir menn að og fundu Daníel, þar sem hann var að biðja og ákalla Guð sinn.

13Síðan gengu þeir inn fyrir konung og spurðu hann viðvíkjandi konungsforboðinu: "Hefir þú eigi gefið út það forboð, að hver sá maður, sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju?" Konungur svaraði og sagði: "Það stendur fast, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa." 14Þá svöruðu þeir og sögðu við konung: "Daníel, einn af hinum herleiddu Gyðingum, skeytir hvorki um þig, konungur, né um það forboð, sem þú hefir út gefið, heldur gjörir bæn sína þrem sinnum á dag." 15Þegar konungur heyrði þetta, féll honum það næsta þungt, og lagði hann allan hug á að frelsa Daníel, og allt til sólarlags leitaði hann alls við, að hann fengi borgið honum.

16Þá þustu þessir sömu menn til konungs og sögðu við hann: "Þú veist, konungur, að það eru lög hjá Medum og Persum, að ekki má raska því banni eða boði, sem konungur hefir út gefið."

17Þá bauð konungur að leiða Daníel fram og kasta honum í ljónagryfjuna. Og konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Guð þinn, sem þú dýrkar án afláts, frelsi þig!" 18Síðan var sóttur steinn og lagður yfir gryfjumunnann, og innsiglaði konungur hann með innsiglishring sínum og með innsiglishringum stórhöfðingja sinna, til þess að sú ráðstöfun, sem gjörð hafði verið við Daníel, skyldi eigi raskast.

19Eftir það gekk konungur heim til hallar sinnar og var þar um nóttina fastandi. Frillur lét hann eigi leiða inn til sín, og eigi kom honum dúr á auga.

20Síðan reis konungur á fætur í dögun, þá er lýsa tók, og skundaði til ljónagryfjunnar. 21Og er hann kom að gryfjunni, kallaði hann á Daníel með sorgfullri raust. Konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Daníel, þú þjónn hins lifanda Guðs, hefir Guð þinn, sá er þú dýrkar án afláts, megnað að frelsa þig frá ljónunum?" 22Þá sagði Daníel við konung: "Konungurinn lifi eilíflega! 23Guð minn sendi engil sinn og hann lokaði munni ljónanna, svo að þau gjörðu mér ekkert mein, af því að ég er saklaus fundinn frammi fyrir honum, og hefi ekki heldur framið neitt brot gagnvart þér, konungur!" 24Þá varð konungur næsta glaður og bauð að draga Daníel upp úr gryfjunni. Var Daníel þá dreginn upp úr gryfjunni, og fannst ekki að honum hefði neitt að skaða orðið, því að hann hafði treyst Guði sínum. 25En konungur bauð að leiða fram menn þá, er rægt höfðu Daníel, og kasta þeim, börnum þeirra og konum í ljónagryfjuna. Og áður en þeir komust til botns í gryfjunni, hremmdu ljónin þá og muldu sundur öll bein þeirra.

26Síðan ritaði Daríus konungur öllum lýðum, þjóðum og tungum, sem búa á allri jörðinni: "Gangi yður allt til gæfu! 27Ég læt þá skipun út ganga, að í öllu veldi ríkis míns skulu menn hræðast og óttast Guð Daníels, því að hann er hinn lifandi Guð og varir að eilífu. Ríki hans gengur ekki á grunn og veldi hans varir allt til enda. 28Hann frelsar og bjargar, hann gjörir tákn og furðuverk á himni og jörðu, hann sem frelsaði Daníel undan ljónunum."

29Og Daníel þessi var í miklu gengi á ríkisstjórnarárum Daríusar og á ríkisstjórnarárum Kýrusar hins persneska.

 

 

Draumar Daníels og sýnir


Fyrsta sýn: Dýrin fjögur

7
1Á fyrsta ríkisári Belsasars konungs í Babýlon dreymdi Daníel draum, og sýnir bar fyrir hann í rekkju hans. Síðan skrásetti hann drauminn og sagði frá aðalatriðunum. 2Daníel hóf upp og sagði:

Ég sá í sýn minni á næturþeli, hversu þeir fjórir vindar himinsins rótuðu upp hinu mikla hafi. 3Og fjögur stór dýr stigu upp af hafinu, hvert öðru ólíkt. 4Fyrsta dýrið líktist ljóni og hafði arnarvængi. Ég horfði á það, þar til er vængir þess voru reyttir af því, og því var lyft upp frá jörðinni og reist á fæturna eins og maður, og því var fengið mannshjarta.

5Og sjá, þá kom annað dýr, hið annað í röðinni. Það var líkt bjarndýri. Það var risið upp á aðra hliðina og hafði þrjú rif í munni sér milli tannanna. Til þess var mælt: "Statt upp og et mikið kjöt."

6Eftir þetta sá ég enn dýr, líkt pardusdýri, og hafði það fjóra fuglsvængi á síðunum. Þetta dýr hafði fjögur höfuð, og því var vald gefið.

7Eftir þetta sá ég í nætursýnum fjórða dýrið. Það var hræðilegt, ógurlegt og yfirtaks öflugt. Það hafði stórar járntennur, át og muldi sundur, og það, sem eftir varð, tróð það sundur með fótunum. Það var ólíkt öllum fyrri dýrunum og hafði tíu horn.

8Ég athugaði hornin og sá þá, hvar annað lítið horn spratt upp milli þeirra, og þrjú af fyrri hornunum voru slitin upp fyrir það. Og sjá, þetta horn hafði augu, eins og mannsaugu, og munn, sem talaði gífuryrði.


Hinn aldraði og mannssonurinn

9Ég horfði og horfði, þar til er stólar voru settir fram og hinn aldraði settist niður. Klæði hans voru hvít sem snjór og höfuðhár hans sem hrein ull. Hásæti hans var eldslogar og hjólin undir því eldur brennandi. 10Eldstraumur gekk út frá honum, þúsundir þúsunda þjónuðu honum og tíþúsundir tíþúsunda stóðu frammi fyrir honum. Dómendurnir settust niður og bókunum var flett upp.

11Ég horfði og horfði vegna hinna háværu stóryrða, sem hornið talaði, þar til er dýrið var drepið, líkami þess eyðilagður og honum kastað í eld til að brennast. 12Vald hinna dýranna var og frá þeim tekið og þeim afmarkað lífskeið til ákveðins tíma og stundar.

13Ég horfði í nætursýnunum, og sjá, einhver kom í skýjum himins, sem mannssyni líktist. Hann kom þangað, er hinn aldraði var fyrir, og var leiddur fyrir hann. 14Og honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.


Skýring sýnarinnar

15Út af þessu varð ég, Daníel, sturlaður, og sýnirnar, sem fyrir mig bar, skelfdu mig. 16Ég gekk þá til eins af þeim, er þar stóðu, og bað hann um áreiðanlega skýring á öllu þessu. Hann talaði til mín og sagði mér svofellda þýðing alls þessa:

17Þessi stóru dýr, fjögur að tölu, merkja það, að fjórir konungar munu hefjast á jörðinni, 18en hinir heilögu Hins hæsta munu eignast ríkið, og þeir munu halda ríkinu ævinlega og um aldir alda.

19Þá vildi ég fá áreiðanlega vitneskju um fjórða dýrið, sem var ólíkt öllum hinum dýrunum, ógurlegt mjög, með járntönnum og eirklóm, sem át, knosaði og sundur tróð með fótunum það, sem það leifði, 20svo og um hornin tíu, sem voru á höfði þess, og um hitt hornið, sem þar spratt upp og þrjú hornin féllu fyrir, þetta horn, sem hafði augu og munn, er talaði gífuryrði og meira var ásýndum en hin. 21Ég horfði á, hvernig horn þetta háði stríð við hina heilögu og hafði sigur yfir þeim, 22þar til er hinn aldraði kom og hinir heilögu Hins hæsta fengu náð rétti sínum og sá tími kom, að hinir heilögu settust að völdum. 23Hann sagði svo:

Fjórða dýrið merkir, að fjórða konungsríkið mun rísa upp á jörðinni, sem ólíkt mun verða öllum hinum konungsríkjunum, og það mun upp svelgja öll lönd, niður troða þau og sundur merja. 24Og hornin tíu merkja það, að af þessu ríki munu upp koma tíu konungar, og annar konungur mun upp rísa eftir þá, og hann mun verða ólíkur hinum fyrri, og þremur konungum mun hann steypa. 25Hann mun orð mæla gegn Hinum hæsta, kúga hina heilögu Hins hæsta og hafa í hyggju að umbreyta helgitíðum og lögum, og þeir munu honum í hendur seldir verða um eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð. 26En dómurinn mun settur verða og hann sviptur völdum til þess að afmá þau með öllu og að engu gjöra. 27En ríki, vald og máttur allra konungsríkja, sem undir himninum eru, mun gefið verða heilögum lýð Hins hæsta. Ríki hans mun verða eilíft ríki, og öll veldi munu þjóna því og hlýða.

28Hér er það mál á enda. En mig, Daníel, skelfdu hugsanir mínar mjög, svo að ég gjörðist litverpur, og ég geymdi þetta í hjarta mínu.


Önnur sýn: Hrúturinn og geithafurinn

8
1Á þriðja ríkisári Belsasars konungs birtist mér, Daníel, sýn, eftir þá, sem áður hafði birst mér. 2Og ég horfði í sýninni, og var þá, er ég horfði, sem ég væri í borginni Súsa, sem er í Elamhéraði, og ég horfði í sýninni og var ég staddur við Úlaífljótið. 3Þá hóf ég upp augu mín og leit hrút nokkurn standa fram við fljótið. Hann var tvíhyrndur, og há hornin, og þó annað hærra en hitt, og spratt hærra hornið síðar upp. 4Ég sá hrútinn stanga hornum mót vestri, norðri og suðri, og engin dýr gátu við honum staðist, og enginn gat frelsað nokkurn undan valdi hans. Hann gjörði sem honum leist og framkvæmdi mikla hluti.

5En er ég gaf nákvæmlega gætur að, sá ég að geithafur nokkur kom vestan. Leið hann yfir alla jörðina án þess að koma við hana, og hafurinn hafði afar stórt horn milli augnanna. 6Hann kom til tvíhyrnda hrútsins, sem ég sá standa fram við fljótið, og rann á hann í heiftaræði. 7Og ég sá hann hitta hrútinn á síðuna, og hann varð mjög illur við hann og laust hrútinn og braut bæði horn hans, svo að hrúturinn hafði ekki mátt til að veita honum viðnám. Og hann fleygði honum til jarðar og tróð hann undir, og mátti enginn frelsa hrútinn undan valdi hans.

8Og geithafurinn framkvæmdi mjög mikla hluti, en er máttur hans var sem mestur, brotnaði hornið mikla, og í þess stað spruttu upp önnur fjögur, gegnt höfuðáttunum fjórum.

9Og út frá einu þeirra spratt annað lítið horn og óx mjög til suðurs og austurs og mót prýði landanna. 10Það óx og móti her himnanna og varpaði til jarðar nokkrum af hernum og af stjörnunum, og tróð þá undir. 11Já, það óx móti höfðingja hersins, og það lét afnema hina daglegu fórn, og hans heilagi bústaður var niður rifinn. 12Og herinn var framseldur ásamt hinni daglegu fórn vegna misgjörðarinnar, og hornið varp sannleikanum til jarðar, já, slíkt gjörði það og var giftudrjúgt.

13Þá heyrði ég einn heilagan tala, og annar heilagur sagði við hinn, sem talaði: "Hvað á hún sér langan aldur þessi sýn um hina daglegu fórn og um hinn hræðilega glæp, frá því er hann framselur helgidóminn og herinn, svo að hann verði niður troðinn?" 14Og hann sagði við hann: "Tvö þúsund og þrjú hundruð kveld og morgnar, og þá mun helgidómurinn aftur verða kominn í samt lag."


Engillinn Gabríel útskýrir sýnina

15Þegar ég, Daníel, sá þessa sýn og leitaðist við að skilja hana, þá stóð allt í einu einhver frammi fyrir mér, líkur manni ásýndar. 16Og ég heyrði mannsraust milli Úlaí-bakka, sem kallaði og sagði: "Gabríel, útskýr þú sýnina fyrir þessum manni." 17Og hann gekk til mín, þar sem ég stóð, en er hann kom, varð ég hræddur og féll fram á ásjónu mína. En hann sagði við mig: "Gef gætur að, þú mannsson, því að sýnin á við tíð endalokanna." 18Og meðan hann talaði við mig, leið ég í ómegin til jarðar fram á ásjónu mína, en hann snart mig og reisti mig aftur á fætur, þar er ég hafði staðið. 19Og hann sagði: "Sjá, ég kunngjöri þér, hvað verða muni, þá er hin guðlega reiði tekur enda, því að sýnin á við tíð endalokanna.

20Tvíhyrndi hrúturinn, sem þú sást, merkir konungana í Medíu og Persíu, 21og hinn loðni geithafur merkir Grikklands konung, og hornið mikla milli augna hans er fyrsti konungurinn. 22Og að það brotnaði og fjögur spruttu aftur upp í þess stað, það merkir, að fjögur konungsríki munu hefjast af þjóðinni, og þó ekki jafnvoldug sem hann var.

23En er ríki þeirra tekur enda, þá er trúrofarnir hafa fyllt mælinn, mun konungur nokkur upp rísa, bæði illúðlegur og hrekkvís. 24Vald hans mun mikið verða, og þó eigi fyrir þrótt sjálfs hans. Hann mun gjöra ótrúlega mikið tjón og verða giftudrjúgur í því, er hann tekur sér fyrir hendur. Hann mun voldugum tjón vinna og hugur hans beinast gegn hinum heilögu. 25Vélræðum mun hann til vegar koma með hendi sinni og hyggja á stórræði og steypa mörgum í glötun, er þeir eiga sér einskis ills von. Já, hann mun rísa gegn höfðingja höfðingjanna, en þó sundur mulinn verða án manna tilverknaðar.

26Og sýnin um ,kveld og morgun', sem um var talað, hún er sönn, en leyn þú þeirri sýn, því að hún á sér langan aldur."

27En ég, Daníel, varð sjúkur um hríð. Því næst komst ég á fætur aftur og þjónaði að erindum konungs, og ég var mjög undrandi yfir sýn þessari, en skildi hana eigi.


Bæn Daníels

9
1Á fyrsta ríkisári Daríusar Ahasverussonar, sem var medískur að ætt og orðinn konungur yfir ríki Kaldea, 2á fyrsta ári ríkisstjórnar hans, hugði ég, Daníel, í ritningunum að áratölu þeirri, er Jerúsalem átti að liggja í rústum, samkvæmt orði Drottins, því er til Jeremía spámanns hafði komið, sem sé sjötíu ár.

3Ég sneri þá ásjónu minni til Drottins Guðs til þess að bera fram bæn mína og grátbeiðni með föstu, í sekk og ösku. 4Ég bað til Drottins, Guðs míns, gjörði játningu mína og sagði:

"Æ, Drottinn, þú mikli og ógurlegi Guð, sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans. 5Vér höfum syndgað og illa gjört, vér höfum breytt óguðlega og verið þér mótsnúnir og vikið frá boðum þínum og setningum. 6Vér höfum ekki hlýtt þjónum þínum, spámönnunum, sem töluðu í þínu nafni til konunga vorra, höfðingja og feðra og til alls landslýðsins. 7Þú, Drottinn, ert réttlátur, en vér megum blygðast vor, sem vér og gjörum í dag, vér Júdamenn og Jerúsalembúar og allur Ísrael, bæði þeir sem nálægir eru og þeir sem fjarlægir eru í öllum þeim löndum, þangað sem þú hefir rekið þá fyrir tryggðrof þeirra, er þeir hafa í frammi við þig haft.

8Drottinn, vér megum blygðast vor, konungar vorir, höfðingjar vorir og feður vorir, því að vér höfum syndgað móti þér.

9En hjá Drottni, Guði vorum, er miskunnsemi og fyrirgefning, því að vér höfum verið honum mótsnúnir 10og ekki hlýtt raustu Drottins Guðs vors, að breyta eftir boðorðum hans, þeim er hann fyrir oss lagði fyrir munn þjóna sinna, spámannanna. 11Já, allur Ísrael hefir brotið lögmál þitt, hefir vikið frá þér, svo að hann hlýðir eigi framar raustu þinni.

Þá var þeirri eiðfestu bölvan úthellt yfir oss, sem skrifuð er í lögmáli Móse, þjóns Guðs, því að vér höfum syndgað móti honum. 12Og hann efndi orð sín, þau er hann hafði talað gegn oss og dómurum vorum, þeim er yfirráð höfðu yfir oss, að hann skyldi láta mikla ógæfu yfir oss koma, svo að hvergi á jarðríki hefir slík ógæfa orðið sem í Jerúsalem. 13Eins og skrifað er í lögmáli Móse um alla þessa ógæfu, svo er hún yfir oss komin. Og vér höfum ekki blíðkað Drottin Guð vorn með því að hverfa frá misgjörðum vorum og gefa gætur að trúfesti þinni. 14Og Drottinn vakti yfir ógæfunni og lét hana yfir oss koma, því að Drottinn Guð vor er réttlátur í öllum verkum sínum, þeim er hann gjörir, en vér höfum eigi hlýtt raustu hans.

15Og nú, Drottinn Guð vor, þú sem útleiddir lýð þinn af Egyptalandi með sterkri hendi og afrekaðir þér mikið nafn fram á þennan dag, vér höfum syndgað, vér höfum breytt óguðlega. 16Drottinn, lát þú samkvæmt réttlæti því, er þú ávallt hefir sýnt, gremi þína og heiftarreiði þína hverfa frá borg þinni Jerúsalem, þínu heilaga fjalli, því að fyrir syndir vorar og misgjörðir feðra vorra er Jerúsalem og lýður þinn orðinn að háðung hjá öllum þeim, sem umhverfis oss búa.

17Heyr nú, Guð vor, bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans og lát ásjónu þína lýsa, fyrir sjálfs þín sakir, Drottinn, yfir helgidóm þinn, sem nú er í eyði. 18Hneig, Guð minn, eyra þitt og heyr, ljúk upp augum þínum og sjá eyðing vora og borgina, sem nefnd er eftir nafni þínu, því að ekki framberum vér auðmjúkar bænir fyrir þig í trausti til vors eigin réttlætis, heldur í trausti til þinnar miklu miskunnsemi.

19Drottinn, heyr! Drottinn, fyrirgef! Drottinn, hygg að og framkvæm! Tef eigi, fyrir sjálfs þín sakir, Guð minn, því að eftir þínu nafni er borg þín nefnd og lýður þinn!"


Sjötíu vikur

20Meðan ég enn var að tala, baðst fyrir og játaði syndir mínar og syndir lýðs míns, Ísraels, og frambar fyrir Drottin Guð minn auðmjúka bæn fyrir hinu heilaga fjalli Guðs míns, 21já, meðan ég enn var að tala í bæninni, kom að mér um það bil, er kveldfórn er fram borin, maðurinn Gabríel, sem ég hafði áður séð í sýninni, þá er ég hné í ómegin. 22Hann kom og talaði við mig og sagði:

"Daníel, nú er ég út genginn til þess að veita þér glöggan skilning. 23Þegar þú byrjaðir bæn þína, út gekk orð, og er ég hingað kominn til að kunngjöra þér það, því að þú ert ástmögur Guðs. Tak því eftir orðinu og gef gætur að vitraninni.

24Sjötíu sjöundir eru ákveðnar lýð þínum og þinni heilögu borg til þess að drýgja glæpinn til fulls og fylla mæli syndanna og til þess að friðþægja fyrir misgjörðina og leiða fram eilíft réttlæti, til þess að innsigla vitrun og spámann og vígja hið háheilaga.

25Vit því og hygg að: Frá því, er orðið um endurreisn Jerúsalem út gekk, til hins smurða höfðingja, eru sjö sjöundir, og í sextíu og tvær sjöundir skulu torg hennar og stræti endurreist verða, þó að þrengingartímar séu. 26Og eftir þær sextíu og tvær sjöundir mun hinn smurði afmáður verða, og hann mun ekkert eiga, og borgina og helgidóminn mun eyða þjóð höfðingja nokkurs, sem koma á, en hann mun farast í refsidómsflóðinu, og allt til enda mun ófriður haldast við og sú eyðing, sem fastráðin er. 27Og hann mun gjöra fastan sáttmála við marga um eina sjöund, og um miðja sjöundina mun hann afnema sláturfórn og matfórn, og á vængjum viðurstyggðarinnar mun eyðandinn koma, en eftir það mun gjöreyðing, og hún fastráðin, steypast yfir eyðandann."


Maður klæddur línklæðum

10
1Á þriðja ári Kýrusar Persakonungs fékk Daníel, sem kallaður var Beltsasar, opinberun, og opinberunin er sönn og boðar miklar þrengingar. Og hann gaf gætur að opinberuninni og hugði að sýninni.

2Á þeim dögum var ég, Daníel, harmandi þriggja vikna tíma. 3Ég neytti engrar dýrindisfæðu, kjöt og vín kom ekki inn fyrir varir mínar, og ég smurði mig ekki fyrr en þrjár vikur voru liðnar.

4En tuttugasta og fjórða dag hins fyrsta mánaðar var ég staddur á bakka hins mikla Tígrisfljóts. 5Þá hóf ég upp augu mín og sá mann nokkurn, klæddan línklæðum og gyrtan skíragulli um lendar. 6Líkami hans var sem krýsolít, ásjóna hans sem leiftur, augu hans sem eldblys, armleggir hans og fætur sem skyggður eir og hljómurinn af orðum hans eins og mikill gnýr.

7Ég, Daníel, sá einn sýnina, og mennirnir, sem með mér voru, sáu ekki sýnina, en yfir þá kom mikil hræðsla, og flýðu þeir í felur. 8Ég varð þá einn eftir og sá þessa miklu sýn. En hjá mér var enginn máttur eftir orðinn, og yfirlitur minn var til lýta umbreyttur, og ég hélt engum styrk eftir. 9Og ég heyrði hljóminn af orðum hans, og er ég heyrði hljóminn af orðum hans, hné ég í ómegin á ásjónu mína, með andlitið að jörðinni.

10Og sjá, hönd snart mig og hjálpaði mér óstyrkum upp á knén og hendurnar. 11Og hann sagði við mig: "Daníel, þú ástmögur Guðs, tak eftir þeim orðum, er ég tala við þig, og statt á fætur, því að ég er nú einmitt til þín sendur." Og er hann mælti til mín þessum orðum, stóð ég upp skjálfandi. 12Því næst sagði hann við mig: "Óttast þú ekki, Daníel, því að frá því er þú fyrst hneigðir hug þinn til að öðlast skilning og þú lítillættir þig fyrir Guði þínum, eru orð þín heyrð, og ég er vegna orða þinna hingað kominn. 13En verndarengill Persaríkis stóð í móti mér tuttugu og einn dag, en sjá, Míkael, einn af fremstu verndarenglunum, kom mér til hjálpar, og hann skildi ég eftir þar hjá Persakonungum. 14Og nú er ég kominn til að fræða þig á því, sem fram við þjóð þína mun koma á hinum síðustu tímum, því að enn á sýnin við þá daga."

15Og er hann talaði þessum orðum til mín, leit ég til jarðar og þagði. 16Og sjá, einhver í mannslíki snart varir mínar, og ég lauk upp munni mínum, talaði og sagði við þann, sem stóð frammi fyrir mér: "Herra minn, sökum sýnarinnar eru kvalir þessar yfir mig komnar, og kraftur minn er þrotinn. 17Og hvernig ætti ég, þjónn þinn, herra, að geta talað við slíkan mann sem þú ert, herra? Og nú er allur kraftur minn að þrotum kominn, og enginn lífsandi er í mér eftir orðinn."

18Sá sem í mannslíki var, snart mig þá aftur, styrkti mig 19og sagði: "Óttast þú ekki, ástmögur, friður sé með þér! Vertu hughraustur, vertu hughraustur!" Og er hann talaði við mig, fann ég að ég styrktist og sagði: "Tala þú, herra minn, því að þú hefir gjört mig styrkan."

20Þá sagði hann: "Veistu, hvers vegna ég er til þín kominn? En nú verð ég að snúa aftur til þess að berjast við verndarengil Persíu, og þegar ég fer af stað, sjá, þá kemur verndarengill Grikklands. 21Þó vil ég gjöra þér kunnugt, hvað skrifað er í bók sannleikans, þótt enginn veiti mér lið móti þeim, nema Míkael, verndarengill yðar.

11
1Hann stendur mér við hlið til þess að veita mér lið og vernd." 2Og nú vil ég kunngjöra þér sannleika:


Konungar Sýrlands og Egyptalands

Sjá, enn munu þrír konungar koma fram í Persíu, en hinn fjórði mun afla meiri auðs en allir aðrir, og er hann er voldugur orðinn fyrir auð sinn, mun hann bjóða öllu út gegn Grikklands ríki.

3Eftir það mun rísa hraustur konungur og drottna yfir víðlendu ríki og til leiðar koma því, er hann vill. 4En þegar uppgangur hans er sem mestur, þá mun sundrast ríki hans og skiptast eftir fjórum áttum himinsins, en þó ekki til eftirkomenda hans, og ekki með slíku veldi, er hann hafði, því að ríki hans mun eytt verða og fengið öðrum en þeim.

5Og konungurinn suður frá mun öflugur verða, en einn af höfðingjum hans mun verða öflugri en hann, og hann mun ríki ráða. Ríki hans mun verða stórveldi.

6Og að nokkrum árum liðnum munu þeir mægjast hvor við annan. Þá mun dóttir konungsins suður frá koma til konungsins norður frá til þess að koma á sáttum. En sú hjálp mun að engu haldi koma, stuðningur hans mun og eigi standa. Og hún mun framseld verða, hún og þeir, sem hana höfðu flutt þangað, og faðir hennar og sá, er gekk að eiga hana, á sínum tíma.

7Því næst mun í hans stað kvistur upp spretta af rótum hennar. Hann mun fara í móti liðsaflanum og komast inn í virki konungsins norður frá og fara með þá sem honum líkar, og verða voldugur. 8Já, jafnvel guði þeirra, ásamt steyptum líkneskjum þeirra og dýrindiskerum af silfri og gulli, mun hann flytja hernumda til Egyptalands. Þá mun hann í nokkur ár láta konunginn norður frá í friði. 9En hann mun gjöra árás á ríki konungsins suður frá og hverfa þó aftur heim í sitt land. 10Og synir hans munu leggja út í ófrið og draga saman afar mikinn her. Og hann mun koma og vaða yfir og brjótast fram, en hann mun snúa aftur, og þeir munu herja allt að virki hans.

11Þetta mun konunginum suður frá gremjast, og hann mun leggja af stað og berjast við hann, við konunginn norður frá. Hann mun kveðja upp mikinn her, en herinn mun seldur verða hinum á vald. 12Og herinn mun rekinn verða burt. Hjarta hans mun ofmetnast, og hann mun tíþúsundir að velli leggja, og þó ekki reynast öflugur.

13Þá mun konungurinn norður frá enn kveðja upp her, meiri en hinn fyrri, og að liðnum nokkrum árum mun hann koma með fjölmennum liðsafla og miklum útbúnaði.

14Um þær mundir munu margir rísa gegn konunginum suður frá, og ofríkisfullir menn af þjóð þinni munu hefja uppreisn til þess að láta vitrunina rætast, en þeir munu steypast. 15Og konungurinn norður frá mun koma og hlaða virkisvegg og vinna víggirta borg, og herir suðurríkisins munu eigi fá staðist og einvalalið hans mun eigi þrótt hafa til að veita viðnám. 16Og sá sem fer í móti honum, mun gjöra það, er honum þóknast, með því að enginn fær honum viðnám veitt, og hann mun fá fótfestu í prýði landanna, og eyðing er í hendi hans. 17Síðan mun hann ásetja sér að koma með öllum herafla ríkis síns, en hann mun gjöra sátt við hann og gefa honum unga stúlku, landinu til tjóns. En ráðagjörð hans mun eigi framgang fá og eigi takast. 18Og hann mun snúa sér að eyjunum og vinna margar, en hershöfðingi nokkur mun gjöra enda á smánan hans, já, hann mun láta smánan hans koma yfir sjálfan hann. 19Þá mun hann snúa sér að virkjum síns eigin lands, og hann mun hrasa og falla, og hans mun engan stað sjá framar.

20Í hans stað mun annar koma, er senda mun skattheimtumann til þess landsins, sem er prýði ríkisins, en eftir nokkra daga mun hann drepinn verða, þó ekki í reiði né bardaga.


Hinn illi konungur Sýrlands

21Í hans stað mun koma fyrirlitlegur maður, er þeir höfðu eigi ætlað konungstignina. Hann mun koma að óvörum og ná undir sig ríkinu með fláttskap. 22Og yfirvaðandi herflokkar munu skolast burt fyrir honum og eyddir verða, svo og sáttmálshöfðinginn. 23Og upp frá því, er menn hafa bundið félagsskap við hann, mun hann beita svikum. Hann mun leggja af stað fáliðaður og bera hærri hlut. 24Að óvörum mun hann brjótast inn í frjósömustu sveitir landsins og gjöra það, sem hvorki feður hans né forfeður hafa gjört: Herfangi, rændu fé og auðæfum mun hann úthluta þeim ríkulega, og gegn virkjum mun hann hafa ráðagjörðir með höndum. Þó mun það aðeins verða um hríð.

25Því næst mun hann beita styrk sínum og hugrekki gegn konunginum suður frá með miklum her, og konungurinn suður frá mun hefja ófrið við hann með miklum her og mjög öflugum, en þó mun hann ekki fá í móti staðið, því að menn brugga ráð í móti honum. 26Þeir sem eta við borð hans, munu fella hann, og her hans skolast burt, og margir særðir í val falla. 27Og báðir konungarnir munu hafa illt í hyggju og tala flærðarsamlega að hinu sama borði, en eigi mun það ná fram að ganga, því að enn er hinn tiltekni tími eigi liðinn á enda. 28Og hann mun hverfa aftur heim í land sitt með miklum fjárhlut og snúa huga sínum í móti hinum heilaga sáttmála, og hann mun koma fram áformi sínu og hverfa síðan aftur heim í land sitt.

29Á ákveðnum tíma mun hann aftur brjótast inn í suðurlandið, og mun síðari förin ekki takast jafnvel og hin fyrri. 30Því að skip Rómverja munu koma í móti honum, og hann mun láta hugfallast og halda heimleiðis og snúa reiði sinni gegn hinum heilaga sáttmála og láta hann kenna á henni. Síðan mun hann hverfa heim aftur og gefa þeim gætur, sem yfirgefa hinn heilaga sáttmála.

31Herflokkar hans munu bera hærri hlut og vanhelga helgidóminn, vígið, afnema hina daglegu fórn og reisa þar viðurstyggð eyðingarinnar. 32Og þá sem syndga gegn sáttmálanum, mun hann með fláttskap tæla til fráhvarfs, en þeir menn, sem þekkja Guð sinn, munu stöðugir standa og drýgja dáð. 33Hinir vitru meðal lýðsins munu kenna mörgum hyggindi, en um hríð munu þeir falla fyrir sverði og báli, fyrir herleiðingum og fjárránum. 34Og þá er þeir falla, mun þeim veitast dálítil hjálp. Þá munu margir fylla flokk þeirra af yfirdrepskap. 35En þar sem nokkrir af hinum vitru falla, þá er það til að skíra, reyna og hreinsa aðra meðal þeirra, allt til endalokanna, því að hinn ákveðni tími er enn ekki liðinn.

36En konungurinn mun fram fara eftir geðþótta sínum. Hann mun hefja sig upp yfir og ofmetnast gegn sérhverjum guði og mæla afaryrði í gegn Guði guðanna. Og hann mun giftudrjúgur verða þar til reiðinni er lokið, því að það, sem ályktað hefir verið, er þá fram komið. 37Og hann mun ekki skeyta guðum feðra sinna, né heldur uppáhaldsgoði kvennanna, já, engum guði mun hann skeyta, heldur hreykja sér yfir allt. 38En guð virkjanna mun hann í stað þess heiðra, guð, sem feður hans þekktu ekki, mun hann heiðra, með gulli og silfri, með dýrum steinum og gersemum, 39og í hin rammgjörðu vígin mun hann afla sér manna, er tilheyra útlendum guði. Þeim sem hann viðurkenna, mun hann veita mikla sæmd og láta þá ríkja yfir mörgum og úthluta þeim landi að verðlaunum.


Tími endalokanna og upprisunnar

40Þegar að endalokunum líður, mun konungurinn suður frá heyja stríð við hann, og konungurinn norður frá mun þeysast í móti honum með vögnum, riddurum og mörgum skipum, og brjótast inn í lönd hans og vaða yfir þau og geysast áfram. 41Þá mun hann og brjótast inn í það landið, sem er prýði landanna, og tíþúsundir munu að velli lagðar. En þessir munu bjarga sér undan hendi hans: Edómítar, Móabítar og kjarni Ammóníta. 42Og hann mun rétta hönd sína út yfir löndin, og Egyptaland mun ekki komast undan. 43Hann mun kasta eign sinni á fjársjóðu Egyptalands af gulli og silfri og á allar gersemar þess, og Líbýumenn og Blálendingar munu vera í för með honum. 44En fregnir frá austri og norðri munu skelfa hann. Mun hann þá í mikilli bræði hefja ferð sína til þess að eyða og tortíma mörgum. 45Hann mun slá skrauttjöldum sínum milli hafsins og fjalls hinnar helgu prýði. Þá mun hann undir lok líða og enginn hjálpa honum.

12
1En á þeim tíma mun Míkael, hinn mikli verndarengill, sá er verndar landa þína, fram ganga. Og það skal verða svo mikil hörmungatíð, að slík mun aldrei verið hafa, frá því er menn urðu fyrst til og allt til þess tíma. Á þeim tíma mun þjóð þín frelsuð verða, allir þeir sem skráðir finnast í bókinni. 2Og margir þeirra, sem sofa í dufti jarðarinnar, munu upp vakna, sumir til eilífs lífs, sumir til smánar, til eilífrar andstyggðar. 3Og hinir vitru munu skína eins og ljómi himinhvelfingarinnar og þeir, sem leitt hafa marga til réttlætis, eins og stjörnurnar um aldur og ævi. 4En þú, Daníel, halt þú þessum orðum leyndum og innsigla bókina, þar til er að endalokunum líður. Margir munu rannsaka hana, og þekkingin mun vaxa."


"Hversu langt mun til endisins?"

5Ég, Daníel, sá og sjá, tveir aðrir englar stóðu þar, á sínum fljótsbakkanum hvor. 6Annar þeirra sagði við manninn í línklæðunum, sem var uppi yfir fljótsvötnunum: "Hversu langt mun til endisins á þessum undursamlegu hlutum?" 7Þá heyrði ég til mannsins í línklæðunum, sem var uppi yfir fljótsvötnunum. Hann fórnaði hægri og vinstri hendi til himins og sór við þann, sem lifir eilíflega, og sagði: "Eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð. Og þegar vald hans, sem eyðir hina helgu þjóð, er á enda, mun allt þetta fram koma."

8Ég heyrði þetta, en skildi það ekki, og sagði því: "Herra minn, hver mun endir á þessu verða?" 9En hann sagði:

"Far þú, Daníel, því að orðunum er leyndum haldið og þau innsigluð, þar til er endirinn kemur. 10Margir munu verða klárir, hreinir og skírir, en hinir óguðlegu munu breyta óguðlega, og engir óguðlegir munu skilja það, en hinir vitru munu skilja það. 11Og frá þeim tíma, er hin daglega fórn verður afnumin og viðurstyggð eyðingarinnar upp reist, munu vera eitt þúsund tvö hundruð og níutíu dagar. 12Sæll er sá, sem þolugur þreyr og nær eitt þúsund þrjú hundruð þrjátíu og fimm dögum. 13En þú, gakk áfram til endalokanna, og þú munt hvílast og upp rísa til að taka þitt hlutskipti við endi daganna."

 


Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997