FYRRI  BÓK  KONUNGANNA

Hirðsaga Davíðs


Davíð í elli sinni

1
1Davíð konungur var nú orðinn gamall og hniginn að aldri, og þótt hann væri þakinn sængurfötum, gat honum ekki hitnað. 2Fyrir því sögðu þjónar hans við hann: "Það ætti að leita að yngismey handa mínum herra konunginum til þess að þjóna konunginum og hjúkra honum. Skal hún liggja við brjóst þitt, til þess að mínum herra konunginum megi hitna." 3Síðan var leitað að fríðri stúlku í öllu Ísraelslandi, og fundu menn Abísag frá Súnem og fóru með hana til konungs. 4En stúlkan var forkunnar fríð og hjúkraði konungi og þjónaði honum, en konungur kenndi hennar ekki.


Adónía hyggur á konungdóm

5Adónía sonur Haggítar hreykti sér upp og hugsaði með sér: "Ég vil verða konungur." Og hann fékk sér vagna og hesta og fimmtíu menn, sem fyrir honum hlupu. 6En faðir hans hafði aldrei angrað hann á ævinni með því að segja við hann: "Hví hefir þú gjört þetta?" Auk þess var hann mjög fríður sýnum og næstur Absalon að aldri. 7Hann átti og ráðstefnur við Jóab Serújuson og Abjatar prest, og fylgdu þeir Adónía að málum. 8En Sadók prestur, Benaja Jójadason, Natan spámaður, Símeí, Reí og kappar Davíðs fylgdu eigi Adónía.

9Adónía slátraði sauðum og nautum og alikálfum hjá Höggormssteini, sem er hjá Rógel-lind, og bauð til öllum bræðrum sínum, konungssonunum, og öllum Júdamönnum, þegnum konungs. 10En Natan spámanni, Benaja og köppunum og Salómon bróður sínum bauð hann ekki.


Salómon smurður til konungs

11Þá mælti Natan við Batsebu, móður Salómons, á þessa leið: "Hefir þú ekki heyrt, að Adónía sonur Haggítar er orðinn konungur, og Davíð, herra vor, veit það ekki? 12Kom þú nú, og vil ég leggja þér ráð, hversu þú megir forða lífi þínu og lífi Salómons sonar þíns. 13Far þú og gakk fyrir Davíð konung og seg við hann: ,Hefir þú ekki, minn herra konungur, unnið ambátt þinni eið og sagt: Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu? Hví er þá Adónía orðinn konungur?' 14Sjá, meðan þú enn ert að tala þar við konung, skal ég koma á eftir þér og staðfesta orð þín."

15Þá gekk Batseba fyrir konung inn í svefnhúsið, en konungur var þá gamall mjög, og Abísag frá Súnem þjónaði honum. 16Batseba hneigði sig og laut konungi. Konungur mælti: "Hvað er þér á höndum?"

17Hún sagði við hann: "Herra minn, þú hefir unnið ambátt þinni svolátandi eið við Drottin, Guð þinn: ,Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu.' 18En sjá, nú er Adónía orðinn konungur, og þú veist það ekki, minn herra konungur! 19Hann hefir slátrað fjölda af uxum, alikálfum og sauðum og boðið til öllum konungssonum og Abjatar presti og Jóab hershöfðingja, en Salómon þjóni þínum hefir hann ekki boðið. 20Og nú standa augu allra Ísraelsmanna á þér, minn herra konungur, að þú gjörir kunnugt, hver sitja skuli í hásæti míns herra konungsins eftir þinn dag. 21Ella mun svo fara, þegar minn herra konungurinn hvílir hjá feðrum sínum, að ég og Salómon sonur minn munum talin óbótamenn."

22En meðan hún var að tala við konung, kom Natan spámaður. 23Og konungi var sagt: "Natan spámaður er hér kominn." Gekk hann þá inn fyrir konung og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi 24og mælti: "Minn herra konungur, hefir þú sagt: ,Adónía skal vera konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu?' 25Því að hann fór niður eftir í dag og slátraði fjölda af uxum, alikálfum og sauðum og bauð til öllum konungssonunum, hershöfðingjunum og Abjatar presti. Þeir eru nú að eta og drekka hjá honum og hrópa: ,Adónía konungur lifi!' 26En mér, þjóni þínum, Sadók presti, Benaja Jójadasyni og Salómon þjóni þínum bauð hann ekki. 27Er þetta orðið að tilhlutun míns herra konungsins, þar sem þú hefir ekki gjört þjónum þínum kunnugt, hver sitja skuli í hásæti míns herra konungsins eftir þinn dag?"

28Þá svaraði Davíð konungur og mælti: "Kallið á Batsebu!" Gekk hún þá inn fyrir konung. Og er hún stóð frammi fyrir konungi, 29sór konungur og sagði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er frelsað hefir líf mitt úr öllum nauðum: 30Eins og ég sór þér við Drottin, Ísraels Guð, og sagði: Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu í minn stað - svo vil ég staðfesta það í dag."

31Þá hneigði Batseba ásjónu sína til jarðar, laut konungi og mælti: "Minn herra Davíð konungur lifi eilíflega!"

32Þá sagði Davíð konungur: "Kallið á Sadók prest, Natan spámann og Benaja Jójadason." Þeir gengu síðan fyrir konung. 33Og konungur sagði við þá: "Takið með yður þjóna herra yðar, setjið Salómon son minn á múl minn og farið með hann til Gíhonlindar. 34Skal Sadók prestur og Natan spámaður smyrja hann þar til konungs yfir Ísrael. Þeytið síðan lúðurinn og hrópið: ,Salómon konungur lifi!' 35Komið síðan með honum hingað, og skal hann þá koma og setjast í hásæti mitt og vera konungur í minn stað, því að hann hefi ég skipað til að vera höfðingja yfir Ísrael og Júda."

36Þá svaraði Benaja Jójadason konungi og mælti: "Veri það svo; Drottinn, Guð míns herra konungsins, gefi það. 37Eins og Drottinn hefir verið með mínum herra konunginum, svo sé hann og með Salómon og hefji hásæti hans enn hærra en hásæti míns herra, Davíðs konungs."

38Þá fóru þeir Sadók prestur, Natan spámaður, Benaja Jójadason og Kretar og Pletar og settu Salómon á múl Davíðs konungs og fóru með hann til Gíhonlindar. 39Þá tók Sadók prestur olíuhornið úr tjaldinu og smurði Salómon. Þá þeyttu þeir lúðurinn, og allur lýðurinn hrópaði: "Lifi Salómon konungur!" 40Síðan fór allur lýðurinn heim aftur með honum, og menn blésu á hljóðpípur og létu feginslátum, svo að við sjálft lá, að jörðin rifnaði af ópi þeirra.


Adónía lýtur í lægra haldi

41Adónía og allir þeir, sem hann hafði í boði sínu, heyrðu þetta, er þeir höfðu lokið máltíðinni. Þegar Jóab heyrði lúðurhljóminn, mælti hann: "Hví er öll borgin í uppnámi?" 42En er hann var þetta að mæla, kom Jónatan, sonur Abjatars prests. Þá sagði Adónía: "Kom þú hingað, því að þú ert sæmdarmaður og munt flytja góð tíðindi."

43Þá svaraði Jónatan og sagði við Adónía: "Það er nú svo! Herra vor, Davíð konungur, hefir gjört Salómon að konungi. 44Konungur hefir sent með honum Sadók prest, Natan spámann, Benaja Jójadason og Kreta og Pleta, og þeir hafa sett hann á múl konungs. 45Og þeir Sadók prestur og Natan spámaður hafa smurt hann til konungs við Gíhonlind. Þaðan fóru þeir heim fagnandi, svo að öll borgin er komin í uppnám. Þetta er hávaðinn, sem þér hafið heyrt. 46Salómon hefir meira að segja sest í konungshásætið. 47Sömuleiðis komu þjónar konungs til þess að árna herra vorum, Davíð konungi, heilla, og sögðu: ,Guð þinn gjöri nafn Salómons enn víðfrægara en nafn þitt, og hefji hásæti hans enn hærra en hásæti þitt!' og hneigði konungur sig í hvílu sinni. 48Konungur hefir og mælt svo: ,Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, sem í dag hefir skipað eftirmann í hásæti mitt og látið mér auðnast að líta það.'"

49Þá skelfdust allir boðsgestir Adónía, héldu af stað, og fór hver leiðar sinnar. 50En Adónía var hræddur við Salómon, hélt af stað og fór burt og greip um altarishornin. 51Var Salómon sagt frá því með svofelldum orðum: "Sjá, Adónía er hræddur við Salómon konung, heldur um altarishornin og segir: ,Salómon konungur sverji mér í dag, að hann skuli ekki láta taka þjón sinn af lífi.'"

52Þá sagði Salómon: "Komi hann fram sem góður drengur skal ekki eitt af hárum hans falla til jarðar, en reynist hann ódrengur skal hann lífi týna." 53Þá sendi Salómon konungur og lét taka hann frá altarinu, og er hann kom og laut Salómon konungi, sagði Salómon við hann: "Far þú heim til þín."


Síðustu orð Davíðs við Salómon

2
1Þegar dauðadagur Davíðs nálgaðist, lagði hann svo fyrir Salómon son sinn: 2"Ég geng nú veg allrar veraldar, en ver þú hugrakkur og lát sjá, að þú sért maður. 3Gæt þú þess, sem Drottinn, Guð þinn, af þér heimtar, að þú gangir á vegum hans og haldir lög hans, boðorð, ákvæði og fyrirmæli, eins og skrifað er í lögmáli Móse, svo að þú verðir lánsamur í öllu, sem þú gjörir og hvert sem þú snýr þér, 4svo að Drottinn efni orð sín, þau er hann hefir við mig talað, er hann sagði: ,Ef synir þínir varðveita vegu sína, með því að ganga dyggilega fyrir augliti mínu af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni, þá skal þig,' - mælti hann - ,ekki vanta eftirmann í hásæti Ísraels.' 5Þú veist og sjálfur, hvað Jóab Serújuson hefir gjört mér, hversu hann hefir farið með báða hershöfðingja Ísraels, þá Abner Nersson og Amasa Jetersson, þar sem hann myrti þá og vann þannig víg í griðum og ataði blóði beltið um lendar sér og skóna á fótum sér, eins og í ófriði væri. 6Neyt þú hygginda þinna og lát eigi hærur hans fara til Heljar í friði. 7En sýn þú mildi sonum Barsillaí Gíleaðíta og lát þá vera meðal þeirra, sem eta við borð þitt, því að svo gjörðu þeir til mín, þá er ég flýði fyrir Absalon, bróður þínum. 8Símeí Gerasson Benjamíníti frá Bahúrím er og með þér. Hann formælti mér gífurlega, þá er ég fór til Mahanaím. En hann kom til móts við mig niður að Jórdan, og vann ég honum svolátandi eið við Drottin: ,Ég skal eigi láta drepa þig.' 9En þú skalt eigi láta honum óhegnt, því að þú ert maður vitur og munt vita, hvað þú átt að gjöra við hann, til þess að þú getir sent hærur hans blóðugar til Heljar."


Dauði Davíðs

10Síðan lagðist Davíð til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg. 11En sá tími, sem Davíð hafði ríkt yfir Ísrael, var fjörutíu ár. Í Hebron ríkti hann sjö ár og í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú ár. 12Og Salómon settist í hásæti Davíðs föður síns, og efldist ríki hans mjög.


Líflát Adónía

13Þá fór Adónía, sonur Haggítar, til Batsebu, móður Salómons. Hún sagði: "Kemur þú góðu heilli?"

Hann svaraði: "Svo er víst." 14Síðan mælti hann: "Ég á erindi við þig."

Hún mælti: "Tala þú!"

15Þá mælti hann: "Þú veist sjálf, að konungdómurinn tilheyrði mér og að allur Ísrael hafði augastað á mér sem konungsefni, en nú hefir þetta farið á annan veg og konungdómurinn lent hjá bróður mínum, því að Drottinn hafði ákvarðað honum hann. 16Nú bið ég þig einnar bónar. Vísa þú mér ekki frá."

Hún sagði við hann: "Tala þú!"

17Þá mælti hann: "Bið þú Salómon konung - því að hann mun ekki vísa þér frá - að gefa mér Abísag frá Súnem fyrir konu."

18Batseba mælti: "Gott og vel, ég skal sjálf túlka mál þitt við konung."

19Þá gekk Batseba á fund Salómons konungs til þess að tala máli Adónía við hann. Konungur stóð upp á móti henni, laut henni og settist síðan í hásæti sitt og lét setja fram stól handa konungsmóður. Settist hún til hægri handar konungi. 20Þá mælti hún: "Ég bið þig einnar lítillar bónar. Vísa þú mér eigi frá."

Konungur sagði við hana: "Bið þú, móðir mín. Eigi mun ég vísa þér frá."

21Þá mælti hún: "Leyf þú, að Abísag frá Súnem verði gefin Adónía, bróður þínum, fyrir konu."

22Þá svaraði Salómon konungur og sagði við móður sína: "Hví biður þú um Abísag frá Súnem til handa Adónía? Bið heldur um konungsríkið honum til handa, því að hann er bróðir minn mér eldri, og Abjatar prestur og Jóab Serújuson eru stuðningsmenn hans." 23Og Salómon konungur sór við Drottin og mælti: "Guð gjöri við mig hvað sem hann vill nú og síðar: Fyrir beiðni þessa skal Adónía lífinu týna. 24Og nú, svo sannarlega sem Drottinn lifir, er mér hefir til valda komið og sett mig í hásæti Davíðs föður míns og reist mér hús, eins og hann hafði heitið: Adónía skal líflátinn þegar í dag!" 25Síðan sendi Salómon konungur Benaja Jójadason með þessu erindi. Vann hann á honum, og lét Adónía þannig líf sitt.


Útlegð Abjatars. Dauði Jóabs

26En við Abjatar prest sagði konungur: "Far þú til bús þíns í Anatót, því að þú ert dauða sekur. En eigi vil ég drepa þig að sinni, því að þú hefir borið örk Drottins Guðs fyrir Davíð föður mínum og allar þær nauðir, sem faðir minn þoldi, hefir þú þolað með honum." 27Síðan rak Salómon Abjatar burt, svo að hann væri eigi lengur prestur Drottins, til þess að orð Drottins skyldu rætast, þau er hann talaði um hús Elí í Síló.

28Nú spyr Jóab þessi tíðindi. En Jóab hafði fylgt Adónía að málum, en Absalon hafði hann eigi fylgt að málum. Jóab flýði þá til tjalds Drottins og greip um altarishornin. 29Salómon konungi var þá sagt: "Jóab er flúinn í tjald Drottins og stendur við altarið." Sendi þá Salómon Benaja Jójadason og sagði: "Far þú og vinn á honum." 30Fór þá Benaja til tjalds Drottins og mælti til Jóabs: "Svo segir konungur: Gakk þú út."

Jóab svaraði: "Nei, hér vil ég deyja." Færði Benaja þá konungi svar hans og sagði: "Svo mælti Jóab, og svo svaraði hann mér."

31Konungur sagði við hann: "Gjör sem hann sagði. Vinn þú á honum og jarða hann og hreinsa þannig af mér og ætt minni blóð það, er Jóab úthellti án saka. 32Drottinn láti blóð hans koma honum í koll, þar sem hann vó tvo menn, er réttlátari voru og betri en hann, og myrti þá með sverði, án þess að Davíð faðir minn vissi af því, þá Abner Nersson, hershöfðingja Ísraels, og Amasa Jetersson, hershöfðingja Júda. 33Skal blóð þeirra koma Jóab í koll og niðjum hans að eilífu, en Davíð og niðjar hans, hús hans og hásæti hljóti að eilífu heill af Drottni." 34Síðan fór Benaja Jójadason, vann á honum og drap hann, og var hann grafinn í húsi sínu í eyðimörkinni. 35Og konungur skipaði Benaja Jójadason yfir herinn í hans stað, og Sadók prest skipaði hann í stað Abjatars.


Líflát Símeí

36Því næst sendi konungur boð og lét kalla Símeí og sagði við hann: "Reis þér hús í Jerúsalem og bú þar, en eigi mátt þú fara neitt þaðan. 37En það skaltu vita fyrir víst, að á þeim degi, sem þú fer þaðan og gengur yfir Kídronlæk, skaltu deyja. Mun þá blóð þitt sjálfum þér í koll koma."

38Símeí svaraði konungi: "Það læt ég mér vel líka. Eins og minn herra konungurinn hefir sagt, svo skal þjónn þinn gjöra." Og Símeí bjó í Jerúsalem langa hríð.

39Eftir þrjú ár bar svo við, að tveir þrælar Símeí struku til Akís Maakasonar, konungs í Gat. Og Símeí var sagt svo frá: "Þrælar þínir eru í Gat." 40Þá tók Símeí sig til, söðlaði asna sinn og hélt til Gat til Akís til þess að leita að þrælum sínum, og Símeí fór og hafði heim með sér þræla sína frá Gat. 41Var nú Salómon sagt frá því, að Símeí hefði farið frá Jerúsalem til Gat og væri kominn heim aftur.

42Þá sendi konungur boð og lét kalla Símeí og sagði við hann: "Hefi ég ekki sært þig við Drottin og lagt ríkt á við þig og sagt: ,Það skaltu vita fyrir víst, að á þeim degi, sem þú gengur að heiman og fer eitthvað burt, skaltu deyja.' Og þú sagðir við mig: ,Ég hefi heyrt það og læt mér vel líka.' 43Hvers vegna hefir þú ekki haldið eið þann, er Drottni var svarinn, og skipun þá er ég fyrir þig lagði?" 44Enn fremur mælti konungur við Símeí: "Þú þekkir alla þá illsku og ert þér hennar meðvitandi, er þú hafðir í frammi við Davíð föður minn, og mun nú Drottinn láta þér illsku þína í koll koma. 45En Salómon konungur blessist og hásæti Davíðs standi stöðugt fyrir Drottni að eilífu." 46Og konungur bauð Benaja Jójadasyni, og hann fór og vann á honum, og lét hann þannig líf sitt.



Salómon


Salómon kvænist egypskri prinsessu

3
1Þegar Salómon konungur var orðinn fastur í sessi, mægðist hann við Faraó Egyptalandskonung og fékk dóttur Faraós og flutti hana til Davíðsborgar, uns hann hafði lokið við að reisa höll sína, musteri Drottins og múra umhverfis Jerúsalem. 2En lýðurinn fórnaði enn á fórnarhæðunum, því að allt til þess tíma var ekkert hús reist nafni Drottins. 3En Salómon elskaði Drottin, svo að hann hélt lög Davíðs föður síns, en þó færði hann sláturfórnir og reykelsisfórnir á fórnarhæðunum.


Draumur Salómons

4Konungur fór til Gíbeon til þess að fórna þar, því að það var aðalfórnarhæðin. Fórnaði Salómon þúsund brennifórnum á því altari. 5Í Gíbeon vitraðist Drottinn Salómon í draumi um nótt, og Guð sagði: "Bið mig þess, er þú vilt að ég veiti þér."

6Þá sagði Salómon: "Þú auðsýndir þjóni þínum, Davíð föður mínum, mikla miskunn, þar eð hann gekk fyrir augliti þínu í trúmennsku, réttlæti og hjartans einlægni við þig. Og þú lést haldast við hann þessa miklu miskunn og gafst honum son, sem situr í hásæti hans, eins og nú er fram komið. 7Nú hefir þú þá, Drottinn Guð minn, gjört þjón þinn að konungi í stað Davíðs föður míns. En ég er unglingur og kann ekki fótum mínum forráð. 8Og þjónn þinn er mitt á meðal þjóðar þinnar, er þú hefir útvalið, mikillar þjóðar, er eigi má telja eða tölu á koma fyrir fjölda sakir. 9Gef því þjóni þínum gaumgæfið hjarta til að stjórna þjóð þinni og til að greina gott frá illu. Því að hver gæti annars stjórnað þessari fjölmennu þjóð þinni?"

10Drottni líkaði vel, að Salómon bað um þetta. 11Þá sagði Guð við hann: "Af því að þú baðst um þetta, en baðst ekki um langlífi þér til handa eða auðlegð eða líf óvina þinna, heldur baðst um vitsmuni til að skynja, hvað rétt er í málum manna, 12þá vil ég veita þér bæn þína. Ég gef þér hyggið og skynugt hjarta, svo að þinn líki hefir ekki verið á undan þér og mun ekki koma eftir þig. 13Og líka gef ég þér það, sem þú baðst ekki um, bæði auðlegð og heiður, svo að þinn líki skal eigi verða meðal konunganna alla þína daga. 14Og ef þú gengur á mínum vegum og varðveitir boðorð mín og skipanir, eins og Davíð faðir þinn gjörði, þá mun ég gefa þér langa lífdaga."

15Síðan vaknaði Salómon, og sjá: Það var draumur. Og er hann var kominn til Jerúsalem, gekk hann fyrir sáttmálsörk Drottins og bar fram brennifórnir og fórnaði heillafórnum og gjörði veislu öllum þjónum sínum.


Salómon kveður upp dóm

16Tvær portkonur komu til konungs og gengu fyrir hann. 17Og önnur konan sagði: "Með leyfi, herra minn! Ég og kona þessi búum í sama húsinu, og ól ég barn í húsinu hjá henni. 18En á þriðja degi eftir að ég hafði alið barnið, ól og kona þessi barn. Og við vorum saman og enginn annar hjá okkur í húsinu. Við vorum tvær einar í húsinu. 19Þá dó sonur þessarar konu um nótt, af því að hún hafði lagst ofan á hann. 20En hún reis á fætur um miðja nótt og tók son minn frá mér, meðan ambátt þín svaf, og lagði hann að brjósti sér, en dauða soninn sinn lagði hún að brjósti mér. 21En er ég reis um morguninn og ætlaði að gefa syni mínum að sjúga, sjá, þá var hann dauður! Og er ég virti hann fyrir mér um morguninn, sjá, þá var það ekki sonur minn, sá er ég hafði fætt."

22En hin konan sagði: "Nei, það er minn sonur, sem er lifandi, en þinn sonur er dauður."

En sú fyrri sagði: "Nei, það er þinn sonur, sem er dauður, en minn sonur, sem er lifandi." Þannig þráttuðu þær frammi fyrir konungi.

23Þá mælti konungur: "Önnur segir: ,Það er minn sonur, sem er lifandi, og þinn sonur, sem er dauður.' En hin segir: ,Nei, það er þinn sonur, sem er dauður, en minn sonur, sem er lifandi.'" 24Og konungur sagði: "Færið mér sverð." Og þeir færðu konungi sverðið. 25Þá mælti konungur: "Höggvið sundur barnið, sem lifir, í tvo hluti og fáið sinn helminginn hvorri."

26Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konung, - því að ástin til barnsins brann í brjósti hennar -, hún mælti: "Æ, herra minn, gefið henni barnið, sem lifir, en deyðið það ekki."

En hin sagði: "Njóti þá hvorug okkar þess. Höggvið það sundur!"

27Þá svaraði konungur og sagði: "Fáið hinni konunni barnið, sem lifir, en deyðið það ekki. Hún er móðir þess." 28Og allur Ísrael heyrði dóminn, sem konungur hafði dæmt. Og þeir óttuðust konung, því að þeir sáu, að hann var gæddur guðlegri speki til þess að kveða upp dóma.


Skrá um embættismenn Salómons

4
1Salómon konungur var konungur yfir öllum Ísrael, og
2þessir voru æðstu embættismenn hans:
Asarja Sadóksson var prestur,
3Elíhóref og Ahía Sísasynir voru kanslarar,
Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari,
4Benaja Jójadason var yfir hernum,
Sadók og Abjatar voru prestar,
5Asarja Natansson var yfir fógetunum,
Sabúð Natansson var prestur og vinur konungs.
6Ahísar var stallari,
Adóníram Abdason var yfir kvaðarmönnum.

7Salómon hafði tólf fógeta yfir öllum Ísrael. Skyldu þeir birgja konung og hirð hans að vistum sinn mánuðinn hver á ári hverju. 8Og þetta eru nöfn þeirra:

Ben Húr á Efraímfjöllum,

9Ben Deker í Makas og í Saalbím og Bet Semes og Elon, allt að Bet Hanan.

10Ben Heseð í Arúbbót, honum tilheyrði Sókó og allt Heferland,

11Ben Abínadab hafði allt Dórhálendi, átti hann Tafat, dóttur Salómons fyrir konu.

12Baana Ahílúðsson: Taanak og Megiddó og allt Bet Sean, sem liggur hjá Saretan fyrir neðan Jesreel, frá Bet Sean til Abel Mehóla, allt vestur fyrir Jokmeam,

13Ben Geber í Ramót í Gíleað, honum tilheyrðu þorp Jaírs Manassesonar í Gíleað og landsspildan Argób í Basan, sextíu stórar borgir, með múrveggjum og slagbröndum af eiri,

14Ahínadab Íddóson í Mahanaím,
15Akímaas í Naftalí, hann hafði og gengið að eiga Basmat, dóttur Salómons.
16Baana Húsaíson í Asser og Bealót,
17Jósafat Parúason í Íssakar,
18Símeí Elason í Benjamín,
19Geber Úríson í Gíleaðlandi, landi Síhons Amorítakonungs og Ógs, konungs í Basan.
Og einn fógeti var í Júda.


Ríkisskipan Salómons

20Júda og Ísrael voru fjölmennir, sem sandur á sjávarströndu, þeir átu og drukku og voru glaðir.

21Salómon drottnaði yfir öllum konungaríkjum frá Efrat til Filistalands og til landamæra Egyptalands. Færðu þeir Salómon skatt og voru þegnskyldir honum alla ævi hans. 22Og Salómon þurfti daglega til matar þrjátíu kór af hveiti og sextíu kór af mjöli, 23tíu alda uxa og tuttugu uxa haggenga og hundrað sauði, auk hjarta, skógargeita, dáhjarta og alifugla. 24Því að hann réð yfir öllu landi fyrir vestan Efrat, frá Tífsa til Gasa, yfir öllum konungum fyrir vestan Efrat, og hafði frið á allar hliðar hringinn í kring, 25svo að Júda og Ísrael bjuggu öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré, frá Dan til Beerseba, alla ævi Salómons. 26Og Salómon hafði fjörutíu þúsund vagnhesta og tólf þúsund ríðandi menn. 27Og fógetar þessir birgðu Salómon konung að vistum og alla þá, er komu að borði Salómons konungs, sinn mánuðinn hver. Létu þeir ekkert skorta. 28Og bygg og hey handa akhestunum og gæðingunum fluttu þeir þangað, er hann var, hver eftir því sem honum bar.


Speki Salómons

29Og Guð veitti Salómon afar mikla speki og visku og djúpsæi andans, sem sandur er margur á sjávarströnd, 30og speki Salómons var meiri en speki allra austurbyggja og öll speki Egyptalands. 31Og hann var allra manna vitrastur, vitrari en Etan Esrahíti og Heman og Kalkól og Darda Mahólssynir, og hann var nafnfrægur með öllum þjóðum umhverfis. 32Hann mælti þrjú þúsund orðskviðu, og ljóð hans voru eitt þúsund og fimm að tölu. 33Og hann talaði um trén, allt frá sedrustrjánum á Líbanon til ísópsins, sem sprettur á múrveggnum. Og hann talaði um fénað og fugla, orma og fiska, 34og menn komu af öllum þjóðum til þess að heyra speki Salómons, frá öllum konungum jarðarinnar, er heyrðu speki hans getið.


Samningar við Föníkíumenn um musterissmíði

5
1Híram konungur í Týrus sendi þjóna sína til Salómons, því hann hafði heyrt að hann hefði verið smurður til konungs í stað föður síns, en Híram hafði ætíð verið góðvinur Davíðs. 2Og Salómon sendi boð til Hírams og lét segja honum: 3"Þú veist sjálfur, að Davíð faðir minn mátti eigi reisa hús nafni Drottins, Guðs síns, vegna ófriðar þess, er hann varð að eiga í á allar hliðar, uns Drottinn lagði óvini hans undir iljar honum. 4En nú hefir Drottinn, Guð minn, veitt mér frið allt umhverfis. Á ég engan mótstöðumann og ekkert er framar að meini. 5Fyrir því hefi ég í hyggju að reisa hús nafni Drottins, Guðs míns, eins og Drottinn sagði við Davíð, föður minn, er hann mælti: ,Sonur þinn, er ég set í hásæti þitt í þinn stað, hann skal reisa hús mínu nafni.' 6Bjóð því nú að höggva sedrustré á Líbanon handa mér, og þjónar mínir skulu vera með þínum þjónum. Skal ég greiða þér kaup fyrir þjóna þína, slíkt er þú sjálfur tiltekur. Því að þú veist sjálfur, að með oss er enginn maður, er kunni að skógarhöggi sem Sídoningar."

7Þegar Híram heyrði orðsending Salómons, varð hann harla glaður og sagði: "Lofaður sé Drottinn í dag, er gefið hefir Davíð vitran son til að ríkja yfir þessari fjölmennu þjóð." 8Og Híram sendi menn til Salómons og lét segja honum: "Ég hefi heyrt þá orðsending, er þú gjörðir mér. Skal ég gjöra að ósk þinni um sedrusviðinn og kýpresviðinn. 9Mínir menn skulu flytja viðinn ofan frá Líbanon til sjávar, og ég skal láta leggja hann í flota í sjónum og flytja þangað sem þú segir til um. Þar læt ég taka sundur flotana, en þú lætur sækja. En þú skalt gjöra að ósk minni og láta mig fá vistir handa hirð minni." 10Og Híram lét Salómon fá eins mikið af sedrusviði og kýpresviði og hann vildi. 11En Salómon lét Híram fá tuttugu þúsund kór af hveiti til matar fyrir hirð hans og tuttugu þúsund bat af olíu úr steyttum olífuberjum. Þetta lét Salómon Híram fá á ári hverju. 12Og Drottinn hafði veitt Salómon speki, eins og hann hafði heitið honum. Og það fór vel á með þeim Híram og Salómon, og þeir gjörðu sáttmála sín á milli.


Skipan kvaðarvinnunnar

13Salómon konungur bauð út kvaðarmönnum úr öllum Ísrael, og urðu kvaðarmennirnir þrjátíu þúsundir að tölu. 14Og hann sendi þá til skiptis til Líbanon, tíu þúsundir á mánuði hverjum. Skyldu þeir vera einn mánuð á Líbanon, en tvo mánuði heima hjá sér. Adóníram var yfir kvaðarmönnum. 15Og Salómon hafði sjötíu þúsund burðarmenn og áttatíu þúsund steinhöggvara í fjöllunum, 16auk yfirfógeta Salómons, er fyrir verkinu stóðu, þrjú þúsund og þrjú hundruð að tölu. Skyldu þeir hafa umsjón með þeim mönnum, er verkið unnu. 17Og að boði konungs hjuggu þeir stóra steina, úthöggna steina, til þess að byggja musterisgrunninn úr höggnu grjóti. 18Og smiðir Salómons og Hírams og Gíblítar hjuggu þá til, undirbjuggu viðinn og steinana til þess að reisa musterið.


Musterið byggt

6
1Á fjögur hundruð og áttugasta ári frá því, er Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi, fjórða árið, sem Salómon ríkti yfir Ísrael, í sívmánuði - það er öðrum mánuðinum - reisti hann Drottni musterið.

2Musterið, sem Salómon konungur reisti Drottni, var sextíu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og þrjátíu álnir á hæð. 3Forsalurinn fyrir framan musterishúsið var tuttugu álnir á breidd fram með musterisendanum og tíu álnir á dýpt fram af musterinu. 4Hann gjörði glugga á musterið með föstum grindum fyrir. 5Og upp að musterisveggnum hringinn í kring reisti hann þriggja hæða hliðarhús - upp að musterisveggjunum, hringinn í kringum aðalhúsið og innhúsið og gjörði stúkur allt í kring. 6Fyrsta hæð þessa hliðarhúss var fimm álnir á breidd, miðhæðin sex álnir á breidd, og efsta hæðin sjö álnir á breidd, því að hann hafði sett stalla utan á musterið hringinn í kring, til þess að bitarnir skyldu ekki ganga inn í musterisveggina.

7Þegar musterið var reist var byggt úr steinum, sem höfðu verið höggnir til, er grjótið var tekið, svo að hvorki heyrðist hamarshljóð né axar, né nokkurs annars járntóls, meðan á byggingu musterisins stóð.

8Dyrnar á fyrstu hæð hliðarhússins voru á suðurhlið musterisins, og var gengið upp um hringstiga upp á miðhæðina og þaðan upp á efstu hæð. 9Þannig reisti hann musterið og lauk við það og þakti musterið með bjálkum og þiljum úr sedrusviði. 10Hann reisti hliðarhús utan um allt musterið, fimm álnir á hæð hver hæð, og tengdi þau við musterið með sedrusviði.

11Þá kom orð Drottins til Salómons svolátandi: 12"Þú hefir byggt þetta hús. Ef þú gengur eftir boðorðum mínum og breytir eftir lögum mínum og varðveitir allar skipanir mínar með því að ganga eftir þeim, þá mun ég efna heit mitt við þig, er ég gaf Davíð föður þínum, 13og ég mun búa meðal Ísraelsmanna og eigi yfirgefa lýð minn Ísrael."

14Þannig byggði Salómon musterið og lauk við það.


Húsið að innan

15Salómon þiljaði musterisveggina að innan með sedrusviði. Frá gólfi hússins upp að loftbjálkum þiljaði hann það að innan með viði og lagði gólf í húsið úr kýpresviðarborðum. 16Og hann þiljaði tuttugu álnir aftan af húsinu neðan frá gólfi og upp undir bjálka með sedrusviði. Gjörði hann þannig úr því að innan innhús, það er Hið allrahelgasta. 17Húsið var fjörutíu álnir, það er aðalhúsið fyrir framan innhúsið. 18Innan á musterinu var sedrusviður, útskorinn með hnöppum og blómstrum. Var það allt af sedrusviði, og sá hvergi í stein. 19Hann bjó út innhús, Hið allrahelgasta, inni í musterinu, til þess að þangað mætti flytja sáttmálsörk Drottins. 20Og fyrir framan innhúsið - en það var tuttugu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og tuttugu álnir á hæð, og hann lagði það skíru gulli - gjörði hann altari af sedrusviði. 21Salómon lagði musterið með skíru gulli að innan, og dró gullfestar fyrir kórinn og lagði hann gulli. 22Og allt húsið lagði hann gulli - algjörlega allt húsið. Einnig lagði hann gulli allt altarið, sem tilheyrði innhúsinu.

23Hann gjörði í innhúsinu tvo kerúba af olíuviði, tíu álna háa. 24Hvor vængur annars kerúbsins var fimm álnir, og hvor vængur hins kerúbsins fimm álnir, svo að tíu álnir voru frá enda annars vængsins til enda hins vængsins. 25Báðir kerúbarnir voru tíu álnir, báðir voru þeir jafnstórir og eins að gerð. 26Annar kerúbinn var tíu álnir á hæð, svo og hinn kerúbinn. 27Og hann setti kerúbana upp inni í Hinu allrahelgasta, og breiddu þeir út vængina, svo að annar vængur annars nam við vegginn og hinn vængur hins kerúbsins nam við hinn vegginn, en í miðju húsinu námu vængir þeirra hvor við annan. 28Og hann lagði kerúbana gulli.

29Hann lét skera út á veggina hringinn í kring kerúba, pálma og blómfléttur, inni og fyrir utan. 30Gólf hússins lagði hann og gulli, inni og fyrir utan.

31Fyrir dyr innhússins lét hann gjöra vængjahurð úr olíuviði. Umgjörðin yfir dyrunum og dyrastafirnir mynduðu fimmhyrning. 32Á báðar vængjahurðirnar, sem voru úr olíuviði, lét hann skera kerúba, pálma og blómfléttur og leggja gulli, en kerúbana og pálmana lagði hann slegnu gulli. 33Og fyrir dyr aðalhússins lét hann sömuleiðis gjöra ferstrenda dyrastafi af olíuviði 34og tvær vængjahurðir af kýpresviði. Var hvor vængurinn um sig gjörður af tveimur hlerum, er léku á hjörum. 35Og hann lét skera kerúba, pálma og blómfléttur á þá og lagði það gulli, sem út var skorið.

36Hann gjörði vegginn um innri forgarðinn úr þrem lögum af höggnum steini og einu lagi af sedrusbjálkum.

37Á fjórða ári var grundvöllurinn lagður að húsi Drottins, í sívmánuði. 38Og á ellefta ári, í búlmánuði - það er áttunda mánuðinum - var húsið fullgjört í öllum greinum, með öllu sem því tilheyrði. Í sjö ár var hann að byggja það.


Höll Salómons

7
1Höll sína var Salómon að byggja í þrettán ár og fullgjörði þannig allt sitt hús. 2Hann byggði Líbanonsskógarhúsið, er var hundrað álnir á lengd, fimmtíu álnir á breidd og þrjátíu álnir á hæð á þrem sedrussúlnaröðum, og á súlunum hvíldu bjálkar af sedrusviði. 3Og það var þakið sedrusviði uppi yfir hliðarherbergjunum, er hvíldu á fjörutíu og fimm súlum, fimmtán í hverri röð. 4Gluggaraðirnar voru þrjár, og ljóri gegnt ljóra þrem sinnum. 5Og allar dyr og allir ljórar voru ferhyrndir, og ljóri var gegnt ljóra þrem sinnum.

6Hann gjörði súlnasal, fimmtíu álnir á lengd og þrjátíu álnir á breidd, og forsal þar fyrir framan og súlur og pall þar fyrir framan.

7Hann byggði hásætissal, þar sem hann kvað upp dóma - dómhöllina -, og hún var þiljuð sedrusviði frá gólfi til lofts.

8Og hús hans sjálfs, þar er hann bjó, í öðrum garðinum, inn af forsalnum, var gjört á sama hátt. Salómon gjörði og hús, eins og forsalinn, handa dóttur Faraós, er hann hafði gengið að eiga.

9Allt þetta var byggt af úthöggnum steinum, er voru höggnir til eftir máli, sagaðir með sög innan og utan, frá undirstöðum og upp á veggbrúnir, og að utan allt að forgarðinum mikla. 10Og undirstaðan var úr úthöggnum steinum, stórum steinum, tíu álna steinum og átta álna steinum. 11Og þar á ofan voru úthöggnir steinar, höggnir eftir máli, og sedrusviður. 12Og forgarðurinn mikli var gjörður allt um kring af þrem lögum af höggnum steini og einu lagi af sedrusbjálkum, svo og innri forgarður musteris Drottins og forgarðurinn að súlnasal hallarinnar.


Híram koparsmiður

13Salómon konungur sendi menn og lét sækja Híram frá Týrus. 14Hann var sonur ekkju nokkurrar af ættkvísl Naftalí, en faðir hans var ættaður frá Týrus og var koparsmiður. Var hann fullur hagleiks, skilnings og kunnáttu til að gjöra alls konar smíðar af eiri. Hann kom til Salómons konungs og smíðaði allar smíðar fyrir hann.


Súlurnar fyrir framan musterið

15Híram steypti báðar súlurnar af eiri. Önnur súlan var átján álnir á hæð, og tólf álna langan þráð þurfti til þess að ná utan um hana. Súlan var fjögurra fingra þykk, hol að innan. Á sama hátt gjörði hann hina súluna. 16Og hann gjörði tvö höfuð steypt af eiri til þess að setja ofan á súlurnar. Var hvort höfuð fimm álnir á hæð. 17Á höfðunum, sem voru á súlunum, var sem riðið net og fléttur, gjörðar af festum, sjö fyrir hvort höfuð. 18Og hann gjörði granatepli, tvær raðir allt í kring, utan á öðru netinu, til þess að hylja höfuðin, sem voru ofan á súlunum, eins gjörði hann á hinu höfðinu.

19Höfuðin, sem voru ofan á súlunum í forsalnum, voru liljumynduð, fjórar álnir. 20Á báðum súlunum voru höfuð, einnig að ofan, hjá bungunni undir riðna netinu. Granateplin voru tvö hundruð að tölu, í röðum hringinn í kringum hitt höfuðið.

21Hann reisti súlurnar við forsal aðalhússins. Hann reisti hægri súluna og kallaði hana Jakín, og hann reisti vinstri súluna og kallaði hana Bóas. 22Og efst voru súlurnar liljumyndaðar. Þannig var súlnasmíðinu lokið.


,Hafið' í eirkeri

23Og Híram gjörði hafið, og var það steypt af eiri. Það var tíu álnir af barmi og á, kringlótt og fimm álnir á dýpt, og þrjátíu álna snúra lá um það. 24En neðan á barminum allt í kring voru hnappar, tíu á hverri alin, er mynduðu hring utan um hafið, tvær raðir af hnöppum, og voru þeir samsteyptir hafinu. 25Það stóð á tólf nautum. Sneru þrjú í norður, þrjú í vestur, þrjú í suður, þrjú í austur. Hvíldi hafið á þeim, og sneru allir bakhlutir þeirra inn. 26Það var þverhandarþykkt og barmur þess í laginu sem barmur á bikar, líkt og liljublóm. Það tók tvö þúsund bat.


Kerlaugar á hjólum

27Híram gjörði og vagnana, tíu að tölu, af eiri. Var hver vagn fjórar álnir á lengd, fjórar álnir á breidd og þrjár álnir á hæð. 28En hver vagnanna var svo gjörður: Á þeim voru speld milli brúnalistanna. 29En á speldunum, sem voru milli brúnalistanna, voru ljón, naut og kerúbar, og eins á brúnalistunum. Og bæði fyrir ofan og fyrir neðan ljónin og nautin voru hangandi blómfestar. 30Á hverjum vagni voru fjögur hjól af eiri og öxlar af eiri. Á fjórum hornum hvers vagns voru þverslár. Voru þverslárnar steyptar undir kerið. Gegnt hverri þeirra voru blómfestar. 31Opin á kerunum voru fyrir innan þverslárnar, alin á hæð, og voru þau kringlótt, hálf önnur alin. Og einnig á börmum opsins voru grafnar myndir. Speldin voru ferskeytt, ekki kringlótt.

32Hjólin fjögur voru undir speldunum og hjólhaldararnir festir við vagninn. En hvert hjól var hálf önnur alin á hæð. 33Og hjólin voru gjörð eins og vagnhjól. Haldarar þeirra, hringir, spelir og nafir, - allt var það steypt. 34Á fjórum hornum hvers vagns voru fjórar þverslár. Gengu þverslárnar upp af vögnunum. 35Uppi á hverjum vagni var eins konar standur, hálf alin á hæð, alls staðar sívalur. Og ofan á vagninum voru haldarar hans og speld og gengu upp úr honum. 36Á fleti haldara hans og á speld hans gróf hann kerúba, ljón og pálma, eftir því sem rúm var til á hverju, og blómfestar í kring.

37Á þennan hátt gjörði hann vagnana tíu. Þeir voru allir eins steyptir, jafnstórir og af sömu gerð.

38Þá gjörði hann tíu ker af eiri. Tók hvert ker fjörutíu bat, og var hvert þeirra fjórar álnir að þvermáli. Eitt ker var á hverjum pallanna tíu. 39Og hann setti fimm vagnanna hægra megin í húsið og fimm vinstra megin. En hafið setti hann hægra megin við húsið, í austur, gegnt suðri.


Skrá um gripi úr eir og gulli

40Og Híram gjörði kerin, eldspaðana og fórnarskálarnar, og þannig lauk hann við allar þær smíðar, er hann hafði gjört fyrir Salómon konung í hús Drottins: 41tvær súlur og tvær kúlur á súlnahöfðunum og bæði riðnu netin, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum, 42og fjögur hundruð granateplin á bæði netin, tvær raðir af granateplum á hvort net, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum. 43Enn fremur vagnana tíu og kerin tíu á vögnunum, 44og hafið og tólf nautin undir hafinu, 45og katlana, eldspaðana og fórnarskálarnar. Öll þessi áhöld, er Híram hafði gjört fyrir Salómon konung í hús Drottins, voru úr skyggðum eiri. 46Lét konungur steypa þau á Jórdansléttlendinu í leirmótum, milli Súkkót og Saretan.

47Salómon lét áhöldin vera óvegin, af því að þau voru afar mörg. Þyngd eirsins var eigi rannsökuð.

48Og Salómon gjörði öll þau áhöld, sem voru í húsi Drottins: gullaltarið og borðið, sem skoðunarbrauðin lágu á, af gulli, 49og ljósastikurnar, fimm hægra megin og fimm vinstra megin, fyrir framan innhúsið af skíru gulli, og blómin, lampana og ljósasöxin af gulli, 50og katlana, skarbítana, fórnarskálarnar, bollana, eldpönnurnar af skíru gulli. Hjarirnar á vængjahurðum innsta hússins, Hins allrahelgasta, og á vængjahurðum musterisins, aðalhússins, voru og af gulli.

51Og er öllu því verki var lokið, er Salómon konungur lét gjöra í húsi Drottins, þá flutti hann helgigjafir Davíðs föður síns inn í það, silfrið og gullið, en áhöldin lét hann í féhirslur Drottins húss.


Örkin flutt í musterið

8
1Þá safnaði Salómon saman öldungum Ísraels og öllum foringjum kynþáttanna, ætthöfðingjum Ísraelsmanna, til sín í Jerúsalem til þess að flytja sáttmálsörk Drottins upp eftir frá Davíðsborg, það er Síon. 2Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn til Salómons konungs í etaním-mánuði á hátíðinni (er sá mánuður hinn sjöundi). 3Þá komu allir öldungar Ísraels, og prestarnir tóku örkina. 4Og þeir fluttu örk Drottins og samfundatjaldið og öll hin helgu áhöld, er í tjaldinu voru. Fluttu prestarnir og levítarnir þau upp eftir. 5En Salómon konungur og allur Ísraelssöfnuður, er safnast hafði til hans, stóð ásamt honum frammi fyrir örkinni. Fórnuðu þeir sauðum og nautum, er eigi varð tölu né ætlan á komið fyrir fjölda sakir. 6Og prestarnir fluttu sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í innhús musterisins, inn í Hið allrahelgasta, inn undir vængi kerúbanna. 7Kerúbarnir breiddu út vængina þar yfir, er örkin stóð, og þannig huldu þeir örkina og stengur hennar ofan frá. 8Stengurnar voru svo langar, að stangarendarnir sáust frá helgidóminum fyrir framan innhúsið, en utan að sáust þeir ekki. Og þær hafa verið þar fram á þennan dag. 9Í örkinni var ekkert nema steintöflurnar tvær, er Móse hafði lagt þar við Hóreb, töflur sáttmálans, er Drottinn gjörði við Ísraelsmenn, þá er þeir fóru af Egyptalandi.

10En er prestarnir gengu út úr helgidóminum, fyllti ský hús Drottins, 11og máttu prestarnir eigi inn ganga fyrir skýinu til þess að gegna þjónustu, því að dýrð Drottins fyllti hús Drottins. 12Þá mælti Salómon:

Sólina setti hann á himininn,
en Drottinn hefir sjálfur sagt, að hann vilji búa í dimmu.
13 Nú hefi ég byggt þér hús til bústaðar,
aðseturstað handa þér um eilífð.

Svo er ritað í ljóðabókinni.


Salómon ávarpar söfnuðinn

14Þá sneri konungur sér við og blessaði allan Ísraelssöfnuð, en allur Ísraelssöfnuður stóð. 15Og hann mælti: "Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, er talaði með munni sínum við Davíð föður minn og efndi með hendi sinni það, er hann lofaði, þá er hann sagði: 16,Frá því er ég leiddi lýð minn Ísrael út af Egyptalandi, hefi ég ekki útvalið neina borg af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að byggja þar hús, þar sem nafn mitt skyldi búa. En nú hefi ég útvalið Jerúsalem, til þess að nafn mitt búi þar, og ég útvaldi Davíð, til þess að hann skyldi ríkja yfir lýð mínum Ísrael.' 17Davíð faðir minn hafði í hyggju að reisa hús nafni Drottins, Ísraels Guðs, 18en Drottinn sagði við Davíð föður minn: ,Vel gjörðir þú, er þú ásettir þér að reisa hús nafni mínu. 19En eigi skalt þú reisa húsið, heldur skal sonur þinn, sá er út gengur af lendum þínum, reisa hús nafni mínu.' 20Og Drottinn hefir efnt orð sín, þau er hann talaði, því að ég kom í stað Davíðs föður míns og settist í hásæti Ísraels, svo sem Drottinn hafði heitið, og hefi nú reist hús nafni Drottins, Ísraels Guðs. 21Og þar bjó ég örkinni stað, sem í er sáttmál Drottins, það er hann gjörði við feður vora, þá er hann leiddi þá út af Egyptalandi."


Vígslubæn

22Og Salómon gekk fyrir altari Drottins í viðurvist alls Ísraelssafnaðar, fórnaði höndum til himins 23og mælti:

"Drottinn, Guð Ísraels, enginn guð er sem þú á himnum uppi eða á jörðu niðri, þú sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þjóna þína, þá er ganga fyrir augliti þínu af öllu hjarta sínu, 24þú sem hefir haldið það við þjón þinn, Davíð föður minn, er þú hést honum. Þú talaðir það með munni þínum og efndir það með hendi þinni, eins og nú er fram komið. 25Efn nú, Drottinn, Ísraels Guð, við þjón þinn Davíð föður minn, það er þú hést honum, þá er þú sagðir: ,Eigi skal þig vanta eftirmann frammi fyrir mér, er sitji í hásæti Ísraels, ef synir þínir aðeins varðveita vegu mína með því að ganga fyrir augliti mínu, eins og þú hefir gengið fyrir augliti mínu.' 26Lát nú, Ísraels Guð, rætast orð þín, þau er þú talaðir við þjón þinn, Davíð föður minn.

27En mun Guð í sannleika búa á jörðu? Sjá, himinninn og himnanna himnar taka þig ekki, hve miklu síður þá þetta hús, sem ég hefi reist. 28En snú þér, Drottinn Guð minn, að bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans, að þú heyrir ákall það og bæn, er þjónn þinn ber fram fyrir þig í dag: 29að augu þín séu opin yfir þessu húsi dag og nótt, yfir þeim stað, er þú hefir um sagt: ,Þar skal nafn mitt búa' - að þú heyrir bæn þá, er þjónn þinn biður á þessum stað. 30Og heyr þú grátbeiðni þjóns þíns og lýðs þíns Ísraels, er þeir fram bera á þessum stað, já heyr þú hana þar er þú býr á himnum, og fyrirgef, er þú heyrir.

31Ef einhver gjörir á hluta náunga síns, og hann verður eiðs krafinn og látinn sverja, og hann kemur og vinnur eiðinn fyrir altari þínu í húsi þessu, þá heyr þú það á himnum. 32Lát til þín taka og dæm þjóna þína með því að sakfella hinn seka og láta honum gjörðir hans í koll koma, en sýkna hinn saklausa og umbuna honum eftir réttlæti hans.

33Ef lýður þinn Ísrael bíður ósigur fyrir óvinum sínum, af því að þeir hafa syndgað í móti þér, og þeir snúa sér til þín og játa þitt nafn og biðja og grátbæna þig í þessu húsi, 34þá heyr þú það á himnum og fyrirgef synd lýðs þíns Ísraels og leið þá aftur heim til þess lands, sem þú gafst feðrum þeirra.

35Ef himinninn er byrgður, svo að eigi nær að rigna, af því að þeir hafa syndgað í móti þér, og þeir biðja á þessum stað og játa nafn þitt og snúa sér frá syndum sínum, af því að þú auðmýkir þá, 36þá heyr þú það á himnum og fyrirgef synd þjóna þinna og lýðs þíns Ísraels, því að þú kennir þeim þann góða veg, sem þeir eiga að ganga, og gef regn yfir land þitt, það er þú hefir gefið þínum lýð til eignar.

37Ef hallæri verður í landinu, ef drepsótt kemur, eða korndrep eða gulnan, engisprettur eða jarðvargar, ef óvinir hans þrengja að honum í einhverri af borgum hans, eða plágu eða sótt ber að höndum, þá heyr þú, 38ef einhver maður af lýð þínum Ísrael ber fram bæn eða grátbeiðni, af því að hann kennir angurs í hjarta sínu, og fórnar höndum til þessa húss - 39þá heyr þú það á himnum, aðseturstað þínum, og fyrirgef og lát til þín taka og gef sérhverjum eins og hann hefir til unnið og svo sem þú þekkir hjarta hans - því að þú einn þekkir hjörtu allra manna - 40til þess að þeir óttist þig alla þá stund, er þeir lifa í landinu, er þú gafst feðrum vorum.

41Ef útlendingur, sem eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi vegna nafns þíns - 42því að þeir munu heyra getið um þitt mikla nafn, þína sterku hönd og útréttan armlegg þinn - ef hann kemur hingað og biður frammi fyrir þessu húsi, 43þá heyr þú það á himnum, aðseturstað þínum, og gjör allt það, sem útlendingurinn biður þig um, til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt og þær óttist þig, eins og lýður þinn Ísrael, og til þess að þær megi vita, að hús þetta, sem ég hefi byggt, er kennt við þig.

44Ef lýður þinn fer í ófrið í móti óvinum sínum, þangað sem þú sendir þá, og þeir biðja til Drottins og snúa sér í áttina til borgarinnar, sem þú hefir útvalið, og hússins, sem ég hefi reist þínu nafni, 45þá heyr þú á himnum bæn þeirra og grátbeiðni og rétt þú hlut þeirra.

46Ef þeir syndga í gegn þér - því að enginn er sá, er eigi syndgi - og þú reiðist þeim og gefur þá á vald óvinum þeirra, og sigurvegarar þeirra flytja þá hernumda til fjandmannalandsins, hvort sem þangað er langt eða skammt, 47og þeir taka sinnaskipti í landinu, þar sem þeir eru hernumdir, og þeir snúa sér og grátbæna þig í landi sigurvegara sinna og segja: ,Vér höfum syndgað og vér höfum misgjört, vér höfum breytt óguðlega,' 48og þeir snúa sér til þín af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni í landi óvina sinna, er hafa flutt þá burt hernumda, og þeir biðja til þín og snúa sér í áttina til lands síns, þess er þú gafst feðrum þeirra, til borgarinnar, sem þú hefir útvalið, og til hússins, sem ég hefi reist þínu nafni, 49þá heyr þú á himnum, aðseturstað þínum, bæn þeirra og grátbeiðni, og rétt þú hlut þeirra 50og fyrirgef lýð þínum það, sem þeir misgjörðu í móti þér, og öll afbrotin, sem þeir drýgðu gegn þér, og lát þá hljóta miskunn af hendi þeirra, er þá hafa hernumið, svo að þeir miskunni þeim. 51Því að þeir eru þinn lýður og þín eign, sem þú leiddir út af Egyptalandi, út úr járnbræðsluofninum.

52Lát opin vera augu þín fyrir grátbeiðni þjóns þíns og grátbeiðni lýðs þíns Ísraels, að þú bænheyrir þá, hvenær sem þeir biðja þig. 53Því að þú hefir skilið þá frá öllum þjóðum jarðarinnar þér til eignar, eins og þú hést fyrir þjón þinn Móse, þá er þú, Drottinn Guð, leiddir feður vora af Egyptalandi."


Bæn um blessun

54Þegar Salómon hafði lokið þessari bæn og grátbeiðni til Drottins, þá stóð hann upp frammi fyrir altari Drottins, þar sem hann hafði kropið á kné og fórnað höndum til himins. 55Gekk hann nú fram og blessaði allan Ísraelssöfnuð hárri röddu og mælti:

56"Lofaður sé Drottinn, sem veitt hefir hvíld lýð sínum Ísrael, eins og hann hefir heitið. Ekkert af öllum hans dýrlegu fyrirheitum, sem hann gaf fyrir þjón sinn Móse, hefir brugðist.

57Drottinn, Guð vor, sé með oss, eins og hann hefir verið með feðrum vorum. Hann yfirgefi oss ekki og útskúfi oss ekki, 58heldur hneigi hjörtu vor til sín, svo að vér göngum jafnan á hans vegum og varðveitum öll hans boðorð, lög og ákvæði, þau er hann lagði fyrir feður vora.

59Og þessi mín orð, er ég hefi fram borið fyrir Drottin með grátbeiðni, séu nálæg Drottni, Guði vorum, dag og nótt, svo að hann rétti hlut þjóns síns og lýðs síns Ísraels, eftir því sem þörf gjörist á degi hverjum, 60til þess að allar þjóðir á jörðinni komist að raun um, að Drottinn er Guð og enginn annar.

61Hjörtu yðar séu heil og óskipt gagnvart Drottni, Guði vorum, svo að þér breytið eftir lögum hans og haldið boðorð hans, eins og nú."


Vígsla musterisins á nýárshátíð

62Þá fórnaði konungur og allur Ísrael með honum sláturfórnum frammi fyrir Drottni. 63Salómon fórnaði tuttugu og tvö þúsund nautum og hundrað og tuttugu þúsund sauðum í heillafórn, er hann færði Drottni. Þannig vígði konungur og allir Ísraelsmenn hús Drottins. 64Þann dag vígði konungur miðhluta forgarðsins, sem er fyrir framan hús Drottins, því að þar fórnaði hann brennifórninni og matfórninni og hinum feitu stykkjum heillafórnanna, því að eiraltarið, sem stóð frammi fyrir Drottni, var of lítið til þess að geta tekið brennifórnina, matfórnina og hin feitu stykki heillafórnanna.

65Þannig hélt Salómon hátíðina og allur Ísrael með honum, mikill söfnuður, norðan þaðan er leið liggur til Hamat, allt suður til Egyptalandsár. Þeir héldu hátíð frammi fyrir Drottni, Guði vorum, í sjö daga, og aðra sjö daga, fjórtán daga alls. 66En áttunda daginn lét hann fólkið frá sér fara. Og þeir kvöddu konung og fóru heim til sín, glaðir og í góðu skapi yfir öllum þeim gæðum, sem Drottinn hafði veitt Davíð þjóni sínum og lýð sínum Ísrael.


Áminning um að halda tryggð við Guð

9
1Þá er Salómon hafði lokið að byggja musteri Drottins og konungshöllina og allt annað, er hann fýsti að gjöra, 2þá vitraðist Drottinn honum í annað sinn, eins og hann hafði vitrast honum í Gíbeon. 3Og Drottinn sagði við hann: "Ég hefi heyrt bæn þína og grátbeiðni, sem þú barst fram fyrir mig. Ég hefi helgað þetta hús, sem þú hefir reist, með því að ég læt nafn mitt búa þar að eilífu, og augu mín og hjarta skulu dvelja þar alla daga. 4Ef þú nú gengur fyrir augliti mínu, eins og Davíð faðir þinn gjörði, í hreinskilni hjartans og einlægni, svo að þú gjörir allt, sem ég hefi fyrir þig lagt, og heldur lög mín og ákvæði, 5þá vil ég staðfesta hásæti konungdóms þíns yfir Ísrael að eilífu, eins og ég hét Davíð föður þínum, er ég sagði: ,Eigi skal þig vanta eftirmann í hásæti Ísraels.' 6En ef þér snúið baki við mér, þér og synir yðar, og varðveitið eigi boðorð mín og lög, þau er ég hefi lagt fyrir yður, en farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim, 7þá mun ég uppræta Ísrael úr því landi, sem ég gaf þeim, og húsinu, sem ég hefi helgað nafni mínu, mun ég burt snara frá augliti mínu, og Ísrael skal verða að orðskvið og spotti meðal allra þjóða. 8Og þetta hús, svo háreist sem það er - hver sem gengur fram hjá því, honum mun blöskra og hann mun blístra. Og er menn spyrja: ,Hvers vegna hefir Drottinn leikið svo hart þetta land og þetta hús?' 9munu menn svara: ,Af því að þeir yfirgáfu Drottin, Guð sinn, er leiddi feður þeirra af Egyptalandi, og héldu sér að öðrum guðum, féllu fram fyrir þeim og þjónuðu þeim. Fyrir því hefir Drottinn leitt yfir þá alla þessa ógæfu.'"


Kaupmáli Hírams og Salómons

10Að tuttugu árum liðnum, þá er Salómon hafði reist bæði húsin, musteri Drottins og konungshöllina - 11en Híram konungur í Týrus hafði hjálpað Salómon um sedrusvið, kýpresvið og gull, eins og hann vildi -, þá gaf Salómon konungur Híram tuttugu borgir í Galíleuhéraði. 12Og Híram fór frá Týrus til þess að skoða borgirnar, er Salómon hafði gefið honum, en honum líkuðu þær ekki. 13Þá sagði hann: "Hvaða borgir eru þetta, sem þú hefir gefið mér, bróðir?" Fyrir því hafa þær verið kallaðar Kabúlhérað fram á þennan dag. 14En Híram sendi konungi hundrað og tuttugu talentur gulls.


Kvaðarvinna

15Svo stóð á vinnuskyldu þeirri, er Salómon konungur lagði á til þess að byggja musteri Drottins og höll sína, Milló og múra Jerúsalem, Hasór, Megiddó og Geser: 16Faraó Egyptalandskonungur hafði farið herferð og unnið Geser og lagt eld í hana, en drepið Kanaanítana, sem bjuggu í borginni, og síðan gefið hana dóttur sinni, konu Salómons, í heimanmund. 17En Salómon reisti Geser að nýju - og Neðri Bethóron, 18og Baalat og Tamar í óbyggðinni í landinu, 19og allar vistaborgirnar, sem Salómon átti, og vagnliðsborgirnar og riddaraborgirnar, og allt sem Salómon fýsti að byggja í Jerúsalem, á Líbanon og í öllu ríki sínu:

20Allt það fólk, sem eftir var af Amorítum, Hetítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, sem eigi heyrðu til Ísraelsmönnum, 21niðjar þeirra, sem enn voru eftir í landinu og Ísraelsmenn eigi höfðu getað helgað banni - á þá lagði Salómon skylduvinnu, og er svo enn í dag. 22En af Ísraelsmönnum gjörði Salómon enga að þrælum, en þeir voru hermenn, embættismenn hans, hershöfðingjar hans, vagnkappar hans og foringjar fyrir vagnliði hans og riddaraliði. 23Æðstu fógetarnir, er settir voru yfir verk Salómons, voru fimm hundruð og fimmtíu að tölu. Höfðu þeir eftirlit með mönnum þeim, er að verkinu unnu.

24Óðara en dóttir Faraós var farin úr Davíðsborg í hús sitt, það er hann hafði reist handa henni, byggði hann Milló.

25Þrisvar sinnum á ári fórnaði Salómon brennifórnum og heillafórnum á altarinu, er hann hafði reist Drottni, og færði auk þess reykelsisfórnir á því altari, sem stóð frammi fyrir Drottni. Þannig fullgjörði hann musterið.


Flotahöfn Salómons við Rauðahaf

26Salómon konungur lét og smíða skip í Esjón Geber, sem liggur hjá Elat á strönd Rauðahafs, í Edómlandi. 27Og Híram sendi á skipin menn sína, farmenn vana sjómennsku, ásamt mönnum Salómons. 28Og þeir fóru til Ófír og sóttu þangað gull - fjögur hundruð og tuttugu talentur - og færðu það Salómon konungi.


Drottningin frá Saba

10
1Þegar drottningin í Saba spurði orðstír Salómons og orðróminn af húsinu, sem Salómon hafði reisa látið nafni Drottins, kom hún til þess að reyna hann með gátum. 2Hún kom til Jerúsalem með mjög miklu föruneyti, með úlfalda, klyfjaða kryddjurtum og afar miklu gulli og gimsteinum. Og er hún kom til Salómons, bar hún upp fyrir honum allt, sem henni bjó í brjósti. 3En Salómon svaraði öllum spurningum hennar. Var enginn hlutur hulinn konungi, er hann eigi gæti úr leyst fyrir hana. 4Og er drottningin frá Saba sá alla speki Salómons og húsið, sem hann hafði reisa látið, 5matinn á borði hans, bústaði þjóna hans og frammistöðu skutilsveina hans og klæði þeirra, byrlara hans og brennifórn hans, þá er hann fram bar í húsi Drottins, þá varð hún frá sér numin 6og sagði við konung: "Satt var það, er ég heyrði í landi mínu um þig og speki þína. 7En ég trúði ekki orðrómnum, fyrr en ég kom og sá það með eigin augum. Og þó hafði ég ekki frétt helminginn. Þú ert miklu vitrari og auðugri en ég hafði frétt. 8Sælir eru menn þínir, sælir þessir þjónar þínir, sem stöðugt standa frammi fyrir þér og heyra speki þína. 9Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem hafði þóknun á þér, svo að hann setti þig í hásæti Ísraels. Af því að Drottinn elskar Ísrael eilíflega, gjörði hann þig að konungi til að iðka rétt og réttlæti."

10Síðan gaf hún konungi hundrað og tuttugu talentur gulls og afar mikið af kryddjurtum og gimsteina. Hefir aldrei síðan hingað komið eins mikið af kryddjurtum eins og það, er drottningin frá Saba gaf Salómon konungi.

11Sömuleiðis komu skip Hírams, er sóttu gull til Ófír, með afar mikið af rauðum sandelviði og gimsteinum frá Ófír. 12Konungur lét gjöra handrið í hús Drottins og konungshöllina af sandelviðnum, svo og gígjur og hörpur handa söngmönnunum. Hefir aldrei slíkur sandelviður hingað komið eða sést hér fram á þennan dag.

13Salómon konungur gaf drottningunni frá Saba allt, er hún girntist og kaus sér, auk þess er hann gaf henni af sinni konunglegu rausn. Hélt hún síðan heimleiðis og fór í land sitt með föruneyti sínu.


Umsvif Salómons

14Gullið, sem Salómon fékk á einu ári, var sex hundruð sextíu og sex talentur gulls að þyngd 15auk þess, sem kom inn í tollum frá varningsmönnum og við verslun kaupmanna og frá öllum konungum Araba og jörlum landsins.

16Og Salómon konungur lét gjöra tvö hundruð skildi af slegnu gulli - fóru sex hundruð siklar gulls í hvern skjöld -, 17og þrjú hundruð buklara af slegnu gulli, fóru þrjár mínur gulls í hvern buklara. Lét konungur leggja þá í Líbanonsskógarhúsið.

18Konungur lét og gjöra hásæti mikið af fílabeini og lagði það skíru gulli. 19Gengu sex þrep upp að hásætinu, og efst var hásætið kringlótt að aftan. Bríkur voru báðumegin sætisins, og stóðu tvö ljón við bríkurnar. 20Og tólf ljón stóðu á þrepunum, sex hvorumegin. Slík smíð hefir aldrei verið gjörð í nokkru konungsríki.

21Öll voru drykkjarker Salómons konungs af gulli, og öll áhöld í Líbanonsskógarhúsinu voru af skíru gulli, ekkert af silfri, því að silfur var einskis metið á dögum Salómons. 22Konungur hafði Tarsis-skip í förum með skipum Hírams. Þriðja hvert ár komu Tarsis-skipin heim hlaðin gulli og silfri, fílabeini, öpum og páfuglum.

23Salómon konungur bar af öllum konungum jarðarinnar að auðlegð og visku. 24Og allan heiminn fýsti að sjá Salómon til þess að heyra visku hans, sem Guð hafði lagt honum í brjóst. 25Komu þeir þá hver með sína gjöf, silfurgripi og gullgripi, klæði og vopn, kryddjurtir, hesta og múla, ár eftir ár. 26Og Salómon safnaði vögnum og riddurum, og hafði hann fjórtán hundruð vagna og tólf þúsund riddara. Lét hann þá vera í vagnliðsborgunum og með konungi í Jerúsalem. 27Og konungur gjörði silfur eins algengt í Jerúsalem og grjót og sedrusvið eins og mórberjatrén, sem vaxa á láglendinu.

28Hesta sína fékk Salómon frá Egyptalandi, og sóttu kaupmenn konungs þá í hópum og guldu fé fyrir, 29svo að hver vagn, sem fenginn var sunnan af Egyptalandi, kostaði sex hundruð sikla silfurs, en hver hestur hundrað og fimmtíu. Og á þennan hátt voru og hestar fluttir út fyrir milligöngu þeirra til allra konunga Hetíta og konunga Sýrlendinga.


Salómon dýrkar aðra guði

11
1Salómon konungur unni mörgum útlendum konum auk dóttur Faraós, móabítískum, ammónítískum, edómítískum, sídonskum og hetítskum - 2konum af þeim þjóðum, er Drottinn hafði sagt um við Ísraelsmenn: ,Þér skuluð ekki eiga mök við þær, og þær skulu ekki eiga mök við yður. Þær munu vissulega snúa hjörtum yðar til guða sinna' - til þeirra felldi Salómon ástarhug. 3Hann átti sjö hundruð eiginkonur og þrjú hundruð hjákonur, og konur hans sneru hjarta hans afleiðis. 4Og er Salómon var kominn á gamalsaldur, sneru konur hans hjarta hans til annarra guða, og hjarta hans var ekki einlægt gagnvart Drottni, Guði hans, eins og hjarta Davíðs föður hans hafði verið. 5Og Salómon elti Astarte, goð Sídoninga, og Milkóm, viðurstyggð Ammóníta. 6Salómon gjörði það sem illt var í augum Guðs og sýndi ekki Drottni fullkomna hlýðni, eins og gjört hafði Davíð faðir hans. 7Þá reisti Salómon fórnarhæð fyrir Kamos, viðurstyggð Móabíta, á fjallinu sem liggur fyrir austan Jerúsalem, og fyrir Mólok, viðurstyggð Ammóníta. 8Og svo gjörði hann fyrir allar hinar útlendu konur sínar, sem færðu goðum sínum reykelsisfórnir og sláturfórnir.

9En Drottinn reiddist Salómon fyrir það, að hann sneri hjarta sínu frá Drottni, Ísraels Guði, sem þó hafði vitrast honum tvisvar 10og bannað honum að elta aðra guði, en hann hafði ekki haldið það, sem Drottinn bauð honum. 11Fyrir því sagði Drottinn við Salómon: "Sökum þess, að þú hefir farið svo að ráði þínu og eigi haldið sáttmálann við mig, né skipanir þær, er ég fyrir þig lagði, þá mun ég rífa frá þér konungdóminn og fá hann í hendur þjóni þínum. 12Þó mun ég ekki gjöra það meðan þú ert á lífi, vegna Davíðs föður þíns, en frá syni þínum mun ég rífa hann. 13Samt mun ég eigi rífa frá honum allt konungsríkið. Eina ættkvísl mun ég fá syni þínum í hendur, vegna Davíðs þjóns míns og vegna Jerúsalem, sem ég hefi útvalið."


Heimsveldi Salómons riðar til falls

14Drottinn vakti Salómon upp mótstöðumann, Hadad Edómíta. Hann var af konungsættinni í Edóm. 15Þá er Davíð var að eyða Edómítum og Jóab hershöfðingi fór til þess að grafa hina föllnu og drap alla karlmenn í Edóm (16Jóab og allur Ísrael var þar sex mánuði, uns hann hafði gjöreytt öllum karlmönnum í Edóm), 17þá flýði Hadad með nokkra Edómíta, er verið höfðu þjónar föður hans, og hélt til Egyptalands, en Hadad var þá unglingur. 18Þeir tóku sig upp frá Midían og komu til Paran. Og þeir tóku menn með sér frá Paran og komu til Egyptalands, til Faraós Egyptalandskonungs. Hann gaf Hadad hús og fékk honum uppeldi og gaf honum land.

19Hadad varð mjög þokkaður af Faraó, og gifti hann honum eldri systur Takpenes konu sinnar. 20Og systir Takpenes fæddi honum Genúbat, son hans. En Takpenes ól hann upp í höll Faraós, og þannig varð Genúbat kyrr í höll Faraós meðal barna Faraós.

21En er Hadad frétti til Egyptalands, að Davíð væri lagstur til hvíldar hjá feðrum sínum og að Jóab hershöfðingi væri dáinn, þá sagði Hadad við Faraó: "Veit mér orlof, að ég megi fara til ættlands míns."

22Faraó svaraði honum: "Hvers er þér vant hjá mér, fyrst þú vilt fara til ættlands þíns?"

Hadad svaraði: "Einskis, en veit mér þó fararleyfi."

23Og Guð vakti Salómon upp annan mótstöðumann, Resón Eljadason, er hlaupist hafði á brott frá Hadadeser, konungi í Sóba, húsbónda sínum. 24Hann safnaði að sér mönnum og gjörðist foringi fyrir ránsflokki, þá er Davíð eyddi Sýrlendingum. Hann vann Damaskus, settist þar að og varð konungur í Damaskus. 25Hann var mótstöðumaður Ísraels meðan Salómon var á lífi, auk þess óskunda, er Hadad gjörði. Hann hafði óbeit á Ísrael og var konungur yfir Sýrlandi.


Forsögn um konungdæmi Jeróbóams

26Jeróbóam Nebatsson, Efraímíti frá Sereda, þjónn Salómons, gjörði og uppreisn gegn konungi. Móðir hans hét Serúa og var ekkja. 27Þannig atvikaðist uppreisnin:

Salómon var að byggja Milló og byggði fyrir skarðið, sem var á borg Davíðs föður hans. 28Jeróbóam þessi var mesti dugnaðarmaður, og er Salómon sá, að þessi ungi maður var iðjumaður, setti hann hann yfir alla kvaðarmenn Jósefs ættar. 29En svo bar til um þetta leyti, að Jeróbóam fór burt úr Jerúsalem, og Ahía spámaður frá Síló mætti honum á leiðinni. Ahía var klæddur nýrri yfirhöfn, og voru þeir tveir einir úti á víðavangi. 30Þá þreif Ahía nýju yfirhöfnina, sem hann var í, reif hana sundur í tólf hluti 31og sagði við Jeróbóam: "Tak þú þér tíu hluti. Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Sjá, ég ríf konungdóminn frá Salómon og gef þér tíu ættkvíslirnar, 32en einni ættkvíslinni skal hann halda, sakir þjóns míns Davíðs og sakir Jerúsalem, borgarinnar, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels, 33sökum þess að þeir hafa yfirgefið mig og fallið fram fyrir Astarte, goði Sídoninga, Kamos, goði Móabíta, og Milkóm, goði Ammóníta, og eigi gengið á mínum vegum með því að gjöra það, sem rétt er í mínum augum, og halda lög mín og ákvæði, eins og gjörði Davíð faðir hans. 34En eigi vil ég taka af honum allt ríkið, heldur vil ég láta hann vera þjóðhöfðingja alla ævi, sakir Davíðs þjóns míns, er ég útvaldi, en hann hélt ákvæði mín og lög. 35En ég vil taka konungdóminn frá syni hans og gefa þér hann, tíu ættkvíslirnar. 36En syni hans mun ég gefa eina ættkvísl, svo að þjónn minn Davíð hafi ávallt lampa fyrir augliti mínu í Jerúsalem, borginni, sem ég hefi útvalið til þess að láta nafn mitt búa þar. 37En þig vil ég taka til þess að ríkja yfir öllu, sem þú girnist, og til að vera konungur yfir Ísrael. 38Og ef þú hlýðir öllu, sem ég býð þér, og gengur á mínum vegum, gjörir það sem rétt er í mínum augum og heldur lög mín og boðorð, eins og Davíð þjónn minn gjörði, þá vil ég vera með þér og reisa þér stöðugt hús, eins og ég reisti Davíð, og fá þér Ísrael. 39En niðja Davíðs mun ég auðmýkja sakir þessa, þó eigi um aldur og ævi."

40En Salómon leitaðist við að ráða Jeróbóam af dögum, en Jeróbóam tók sig upp og flýði til Egyptalands, til Sísaks konungs í Egyptalandi, og var hann í Egyptalandi, þar til er Salómon andaðist.


Dauði Salómons

41Það, sem meira er að segja um Salómon og allt það, er hann gjörði, og um speki hans, það er ritað í Annálum Salómons. 42Og sá tími, er Salómon var konungur í Jerúsalem yfir öllum Ísrael, var fjörutíu ár. 43Og Salómon lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í borg Davíðs föður síns. Og Rehabeam sonur hans tók ríki eftir hann.



Konungsríkin tvö Ísrael og Júda


Rehabeam hafnað í Síkem

12
1Rehabeam fór til Síkem, því að allur Ísrael var kominn þangað til þess að taka hann til konungs. 2En er Jeróbóam Nebatsson frétti (hann var enn í Egyptalandi, þangað sem hann hafði flúið undan Salómon konungi), að Salómon væri dáinn, sneri hann heim frá Egyptalandi. 3Þeir sendu boð og létu kalla hann. Þá kom Jeróbóam og allur söfnuður Ísraels og mæltu til Rehabeams á þessa leið: 4"Faðir þinn lagði á oss hart ok, en gjör þú nú léttari hina hörðu ánauð föður þíns og hið þunga ok, er hann á oss lagði, og munum vér þjóna þér."

5Hann svaraði þeim: "Farið nú burt og komið aftur til mín að þrem dögum liðnum." Og lýðurinn fór burt.

6Þá ráðgaðist Rehabeam konungur við öldungana, sem þjónað höfðu Salómon föður hans meðan hann lifði, og mælti: "Hver andsvör ráðið þér mér að gefa þessum mönnum?"

7Þeir svöruðu honum og mæltu: "Ef þú í dag verður lýð þessum eftirlátur, lætur að orðum þeirra, gjörir að vilja þeirra og tekur vel máli þeirra, munu þeir verða þér eftirlátir alla daga."

8En Rehabeam hafnaði ráði því, er öldungarnir réðu honum, en ráðgaðist við unga menn, er vaxið höfðu upp með honum og nú þjónuðu honum, 9og sagði við þá: "Hver ráð gefið þér til, hversu vér skulum svara lýð þessum, er talað hefir til mín á þessa leið: ,Gjör léttara ok það, er faðir þinn á oss lagði'?"

10Þá svöruðu honum hinir ungu menn, er vaxið höfðu upp með honum: "Svo skalt þú svara lýð þessum, er sagði við þig: ,Faðir þinn gjörði ok vort þungt, en gjör þú oss það léttara' - svo skalt þú mæla til þeirra: ,Litlifingur minn er digrari en lendar föður míns. 11Hafi faðir minn lagt á yður þungt ok, mun ég gjöra ok yðar enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum.'"

12Og Jeróbóam og allur lýðurinn kom til Rehabeams á þriðja degi, eins og konungur hafði sagt, þá er hann mælti: "Komið til mín aftur á þriðja degi." 13Þá veitti konungur lýðnum hörð andsvör og fór eigi að ráðum þeim, er öldungarnir höfðu ráðið honum, 14en talaði til þeirra á þessa leið, að ráði hinna ungu manna: "Faðir minn gjörði ok yðar þungt, en ég mun gjöra ok yðar enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum." 15Þannig veitti konungur lýðnum enga áheyrn, því að svo var til stillt af Drottni, til þess að hann gæti látið rætast orð sín, þau er hann hafði talað til Jeróbóams Nebatssonar fyrir munn Ahía frá Síló.

16Er allur Ísrael sá, að konungur veitti þeim enga áheyrn, þá lét lýðurinn þessi svör í móti koma:

"Hverja hlutdeild eigum vér í Davíð?
Engan erfðahlut eigum vér í Ísaísyni.
Far heim til þín, Ísrael!
Gæt þú þíns eigin húss, Davíð!"

Síðan fór Ísrael heim til sín. 17En yfir þeim Ísraelsmönnum, er bjuggu í Júdaborgum, var Rehabeam konungur.

18Rehabeam konungur sendi til þeirra Adóníram, sem var yfir kvaðarmönnum, en allur Ísrael lamdi hann grjóti til bana, og Rehabeam konungur hljóp í skyndi á vagn sinn og flýði til Jerúsalem. 19Þannig gekk Ísrael undan ætt Davíðs, og stendur svo enn í dag.


Jeróbóam konungur í Norðurríkinu

20Þegar Ísraelslýður heyrði, að Jeróbóam væri aftur kominn, sendu þeir og kölluðu hann á þingið og tóku hann til konungs yfir allan Ísrael. En enginn fylgdi Davíðsætt, nema Júda-ættkvísl ein.

21Er Rehabeam kom til Jerúsalem, safnaði hann saman öllum Júdamönnum og Benjamíns-ættkvísl, hundrað og áttatíu þúsundum einvalaliðs, til þess að berjast við Ísraelsríki og ná konungdóminum aftur undir Rehabeam, son Salómons. 22En orð Guðs kom til Semaja guðsmanns, svolátandi: 23"Tala þú svo til Rehabeams, sonar Salómons, konungs í Júda, og til Júdamanna og Benjamíns-ættkvíslar og til alls hins lýðsins: 24Svo segir Drottinn: Farið eigi og berjist eigi við bræður yðar Ísraelsmenn. Fari hver heim til sín, því að að minni tilhlutun er þetta orðið." Og er þeir heyrðu orð Drottins, hurfu þeir aftur, eins og Drottinn bauð.


Jeróbóam efnir til guðsdýrkunar í Betel og Dan

25Jeróbóam víggirti Síkem á Efraímfjöllum og settist þar að. Þaðan fór hann og víggirti Penúel. 26Og Jeróbóam hugsaði með sér: "Nú mun konungdómurinn aftur hverfa undir Davíðsætt. 27Ef lýður þessi fer upp til Jerúsalem til þess að færa sláturfórnir í musteri Drottins, þá mun hjarta lýðs þessa aftur hverfa til Rehabeams Júdakonungs, herra hans, en mig munu þeir myrða og ganga svo aftur á hönd Rehabeam Júdakonungi."

28Þá hugsaði konungur ráð sitt, lét gjöra tvo gullkálfa og mælti til lýðsins: "Nógu lengi hafið þér farið upp til Jerúsalem. Sjá, hér er guð þinn, Ísrael, sá er leiddi þig út af Egyptalandi." 29Setti hann annan í Betel, en hinn setti hann í Dan. 30En þetta varð til syndar, og lýðurinn gekk fram fyrir annan þeirra alla leið til Dan. 31Hann gjörði og hof á hæðunum og gjörði að prestum óvalda menn, er ekki voru niðjar Leví.

32Og Jeróbóam setti hátíð fimmtánda dag hins áttunda mánaðar, eins og hátíðina, sem haldin var í Júda, og hann gekk upp að altarinu. Þannig gjörði hann í Betel til þess að færa fórnir kálfunum, er hann hafði gjöra látið, og hann setti hæðaprestana, er hann hafði skipað, til þjónustu í Betel.


Spámaður fordæmir guðsdýrkun í Betel

33Jeróbóam gekk upp að altarinu, er hann hafði gjöra látið í Betel á fimmtánda degi hins áttunda mánaðar, í þeim mánuði er hann hafði ákveðið að eigin geðþótta til hátíðahalds fyrir Ísraelsmenn. Hann gekk upp að altarinu til þess að færa reykelsisfórn.

13
1Og sjá, þegar Jeróbóam stóð fyrir altarinu til þess að færa þar reykelsisfórn, kom guðsmaður nokkur frá Júda til Betel að boði Drottins 2og æpti gegn altarinu að boði Drottins og mælti: "Altari, altari! Svo segir Drottinn: Sonur mun fæðast húsi Davíðs, Jósía að nafni. Hann mun á þér slátra hæðaprestunum, þeim er færa reykelsisfórnir á þér, og mannabeinum mun á þér brennt verða." 3Og hann boðaði tákn þann dag og mælti: "Þetta er tákn þess, að Drottinn hafi talað: Sjá, altarið mun rifna og askan, sem á því er, steypast niður."

4Þegar konungur heyrði orð guðsmannsins, þau er hann æpti gegn altarinu í Betel, þá bandaði Jeróbóam með hendinni frá altarinu og mælti: "Takið hann höndum!" Þá visnaði hönd hans, er hann hafði bandað með móti honum, og hann gat ekki dregið hana að sér aftur. 5En altarið rifnaði og askan steyptist niður af altarinu, samkvæmt tákninu, er guðsmaðurinn hafði boðað eftir skipun Drottins. 6Þá tók konungur til máls og mælti við guðsmanninn: "Blíðka þú Drottin, Guð þinn, og bið fyrir mér, svo að ég geti aftur dregið höndina að mér." Þá blíðkaði guðsmaðurinn Drottin, svo að konungur gat aftur dregið að sér höndina, og varð hún jafngóð. 7Því næst mælti konungur við guðsmanninn: "Kom þú heim með mér og hress þig, og mun ég gefa þér gjöf nokkra."

8En guðsmaðurinn mælti við konung: "Þótt þú gæfir mér hálfa aleigu þína, þá mundi ég samt eigi með þér fara, og eigi mundi ég matar neyta og eigi vatn drekka á þessum stað. 9Því að svo hefir mér boðið verið fyrir orð Drottins, er var á þessa leið: ,Þú skalt eigi matar neyta né vatn drekka, og þú skalt eigi snúa aftur sömu leiðina sem þú komst.'" 10Síðan fór hann burt aðra leið og sneri eigi aftur sömu leiðina sem hann hafði farið til Betel.


Gamli spámaðurinn í Betel

11Í Betel bjó gamall spámaður. Og synir hans komu og sögðu honum frá öllu því, sem guðsmaðurinn hafði gjört í Betel þennan dag, og orð þau, er hann hafði talað til konungs. Og er þeir sögðu föður sínum frá þessu, 12mælti faðir þeirra til þeirra: "Hvaða leið fór hann?" Og synir hans sýndu honum, hvaða leið guðsmaðurinn, sem kominn var frá Júda, hefði farið. 13Og hann sagði við sonu sína: "Söðlið mér asnann." Og þeir söðluðu asnann fyrir hann og hann steig á bak, 14hélt á eftir guðsmanninum og fann hann, þar sem hann sat undir eik nokkurri. Hann mælti til hans: "Ert þú guðsmaðurinn, sem kom frá Júda?"

Hinn svaraði: "Er ég víst."

15Þá sagði gamli spámaðurinn við hann: "Kom þú heim með mér og neyt matar."

16Hinn mælti: "Ég get eigi snúið við með þér né með þér farið, mun og hvorki matar neyta né vatn drekka á þessum stað. 17Því að við mig hefir verið sagt fyrir orð Drottins: ,Þú skalt hvorki neyta þar matar né vatn drekka, þú skalt ekki snúa aftur sömu leiðina sem þú komst.'"

18Gamli spámaðurinn sagði þá við hann: "Ég er einnig spámaður, eins og þú, og engill hefir talað við mig eftir orði Drottins á þessa leið: ,Far þú með hann aftur heim til þín, að hann megi matar neyta og vatn drekka.'" En hann laug að honum.

19Sneri hann þá við með honum og neytti matar í húsi hans og drakk vatn. 20En er þeir sátu undir borðum, kom orð Drottins til spámannsins, er snúið hafði hinum aftur. 21Og hann kallaði til guðsmannsins, er kominn var frá Júda, og mælti: "Svo segir Drottinn: Sökum þess að þú óhlýðnaðist skipun Drottins og varðveittir eigi boð það, er Drottinn, Guð þinn, fyrir þig lagði, 22heldur snerir við og neyttir matar og drakkst vatn á þeim stað, er hann sagði um við þig: ,Þú skalt þar eigi matar neyta né vatn drekka' - þá skal lík þitt eigi koma í gröf feðra þinna."

23En er gamli spámaðurinn hafði etið og drukkið, lét hann söðla asnann fyrir spámanninn, er hann hafði snúið aftur. 24Hélt hann nú af stað, en ljón mætti honum á leiðinni og drap hann. Og lík hans lá þar endilangt á veginum, og asninn stóð yfir því, og ljónið stóð yfir líkinu. 25Og er menn fóru þar fram hjá, sáu þeir líkið liggja endilangt á veginum og ljónið standandi yfir líkinu. Þá komu þeir og sögðu frá því í borginni, þar sem gamli spámaðurinn átti heima.

26Og er spámaðurinn, er snúið hafði hinum aftur, heyrði þetta, mælti hann: "Það er guðsmaðurinn, sem óhlýðnaðist skipun Drottins. Fyrir því hefir Drottinn gefið hann ljóninu. Það hefir mulið hann sundur og drepið hann eftir orði Drottins, er hann hafði til hans talað." 27Þá mælti hann til sona sinna: "Söðlið mér asnann." Þeir gjörðu svo. 28Síðan hélt hann af stað og fann lík hans liggjandi endilangt á veginum, og asnann og ljónið standandi yfir líkinu. En ljónið hafði hvorki etið líkið né mulið sundur asnann. 29Þá tók spámaðurinn upp lík guðsmannsins, lagði það á asnann og flutti það til borgarinnar til þess að harma hann og jarða. 30Og hann lagði lík hans í gröf sína, og menn hörmuðu hann, segjandi: "Æ, bróðir minn!" 31En er hann hafði jarðað hann, sagði hann við sonu sína: "Þegar ég dey, þá jarðið mig í þeirri gröf, sem guðsmaðurinn er jarðaður í. Leggið mín bein hjá hans beinum. 32Því að orðin, sem hann að boði Drottins æpti gegn altarinu í Betel og gegn öllum hæðahofunum í borgum Samaríu, munu vissulega rætast."

33Ekki sneri Jeróbóam sér eftir þennan atburð frá sínum vonda vegi, heldur gjörði að nýju óvalda menn að hæðaprestum. Hann vígði hvern sem vildi, og varð sá hinn sami þannig hæðaprestur. 34En þetta varð húsi Jeróbóams til syndar og til þess að uppræta það og afmá af jörðinni.


Ahía spámaður fordæmir Jeróbóam

14
1Í þann tíma sýktist Abía, sonur Jeróbóams. 2Þá sagði Jeróbóam við konu sína: "Far nú og klæð þig dularbúningi, svo að enginn megi kenna, að þú ert kona Jeróbóams, og far til Síló. Þar er Ahía spámaður, sá er um mig sagði, að ég mundi verða konungur yfir lýð þessum. 3Og tak með þér tíu brauð og kökur og krús með hunangi og gakk þú inn til hans. Hann mun segja þér, hvernig fara mun um sveininn." 4Kona Jeróbóams gjörði svo, lagði af stað og fór til Síló, og gekk inn í hús Ahía.

Ahía mátti ekki sjá, því að augu hans voru stirðnuð af elli. 5En Drottinn hafði sagt við Ahía: "Sjá, kona Jeróbóams kemur til þess að leita frétta hjá þér um son sinn, því að hann er sjúkur. Svo og svo skalt þú til hennar mæla."

Þegar hún kom og lést vera önnur en hún var, 6og Ahía heyrði fótatak hennar, er hún kom að dyrunum, þá sagði hann: "Kom þú inn, kona Jeróbóams! Hvers vegna læst þú vera önnur en þú ert, þar sem ég þó er sendur til þín með hörð tíðindi? 7Far þú og seg Jeróbóam: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Sakir þess að ég hóf þig upp af alþýðu manna og gjörði þig að höfðingja yfir lýð mínum Ísrael, 8og svipti ætt Davíðs konungdóminum og fékk þér hann í hendur, en þú hefir eigi verið sem þjónn minn Davíð, er hélt boðorð mín og var mér hlýðinn af öllu hjarta, svo að hann gjörði það eitt, er rétt var í mínum augum, 9heldur hefir þú gjört meira illt en allir þeir, sem á undan þér voru, og hefir farið og gjört þér aðra guði, og það steypt líkneski, til þess að egna mig til reiði, og hefir kastað mér aftur fyrir þig - 10sakir þessa leiði ég ógæfu yfir hús Jeróbóams og mun uppræta fyrir honum hvern karlmann, bæði þræl og frelsingja í Ísrael. Og ég mun sópa burt húsi Jeróbóams, eins og saur er sópað burt, uns úti er um hann með öllu. 11Hvern þann er deyr af ættmennum Jeróbóams innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, sem deyr úti á víðavangi, munu fuglar himins eta, því að Drottinn hefir talað það. 12En statt þú nú upp og far heim til þín. Þegar þú stígur fæti inn í borgina, mun sveinninn deyja. 13Og allur Ísrael mun harma hann, og menn munu grafa hann, því að hann er sá eini af ætt Jeróbóams, er greftrun mun hljóta, af því að eitthvað hefir það verið í fari hans, er Drottni, Guði Ísraels, geðjaðist að í ætt Jeróbóams. 14Og Drottinn mun skipa konung yfir Ísrael, er uppræta mun hús Jeróbóams. Þetta er dagurinn, og hvað er nú þegar farið að koma fram? 15Drottinn mun slá Ísrael, eins og reyrinn riðar í vatninu, og hann mun útrýma Ísrael úr þessu góða landi, er hann gaf feðrum þeirra, og tvístra þeim fyrir austan Efrat, af því að þeir hafa gjört sér asérur og egnt Drottin til reiði. 16Og hann mun ofurselja Ísrael vegna synda þeirra, er Jeróbóam hefir drýgt og komið Ísrael til að drýgja."

17Þá stóð kona Jeróbóams upp, hélt af stað og kom til Tirsa, en er hún steig yfir þröskuld hússins, dó sveinninn. 18Og þeir grófu hann og allur Ísrael harmaði hann, og rættist þannig orð Drottins, er hann hafði talað fyrir munn þjóns síns, Ahía spámanns.


Dauði Jeróbóams

19Það sem meira er að segja um Jeróbóam, hvernig hann herjaði og hvernig hann ríkti, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 20Og sá tími, sem Jeróbóam ríkti, var tuttugu og tvö ár. Þá lagðist hann til hvíldar hjá feðrum sínum, en Nadab sonur hans tók ríki eftir hann.


Rehabeam konungur í Júda

21Rehabeam sonur Salómons varð konungur í Júda. Rehabeam hafði einn um fertugt, þá er hann varð konungur, og seytján ár ríkti hann í Jerúsalem, borginni, sem Drottinn hafði útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að láta nafn sitt búa þar. Móðir hans hét Naama og var ammónítísk.

22Júda gjörði það sem illt var í augum Drottins, og þeir vöktu vandlæting hans enn meir en feður þeirra höfðu gjört með öllum þeim syndum, er þeir drýgðu. 23Því að einnig þeir gjörðu sér fórnarhæðir, merkissteina og asérur á öllum háum hólum og undir hverju grænu tré. 24Þeir menn voru og í landinu, er helguðu sig saurlifnaði. Þeir aðhöfðust alla þá sömu svívirðing, sem þær þjóðir frömdu, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.

25Á fimmta ríkisári Rehabeams fór Sísak Egyptalandskonungur herför móti Jerúsalem 26og tók fjársjóðu Drottins húss og fjársjóðu konungshallarinnar, tók það allt saman. Hann tók og alla gullskildina, sem Salómon hafði gjöra látið. 27En Rehabeam konungur lét í þeirra stað gjöra eirskildi og fékk þá höfuðsmönnum lífvarðarins til geymslu, þeim er geyma dyra á höll konungs. 28Og í hvert sinn er konungur gekk í hús Drottins, báru varðliðsmennirnir skildina, og fóru síðan með þá aftur í herbergi varðliðsmannanna.

29Það sem meira er að segja um Rehabeam, og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 30Þeir áttu ávallt í ófriði saman, Rehabeam og Jeróbóam. 31Og Rehabeam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður hjá feðrum sínum í Davíðsborg. En móðir hans hét Naama og var ammónítísk. Og Abía sonur hans tók ríki eftir hann.


Abía konungur í Júda

15
1Á átjánda ríkisári Jeróbóams Nebatssonar varð Abía konungur yfir Júda. 2Þrjú ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka, dóttir Absalons. 3Hann drýgði allar sömu syndirnar, er faðir hans hafði fyrir honum haft, og hjarta hans var ekki óskipt gagnvart Drottni, Guði hans, eins og hjarta Davíðs forföður hans. 4Því að það var eingöngu Davíðs vegna, að Drottinn, Guð hans, gaf honum lampa í Jerúsalem, að hann hóf sonu hans eftir hann og lét Jerúsalem standa, 5af því að Davíð hafði gjört það sem rétt var í augum Drottins og aldrei á ævi sinni vikið frá neinu því, er hann hafði fyrir hann lagt, nema hvernig hann fór með Úría Hetíta.

6Rehabeam átti í ófriði við Jeróbóam alla ævi. 7Það, sem meira er að segja um Abía, og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. Og þeir áttu í ófriði saman, Abía og Jeróbóam. 8Og Abía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Davíðsborg. Og Asa sonur hans tók ríki eftir hann.


Asa konungur í Júda

9Á tuttugasta ríkisári Jeróbóams, konungs í Ísrael, varð Asa konungur yfir Júda. 10Fjörutíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka, dóttir Absalons. 11Asa gjörði það sem rétt var í augum Drottins, eins og Davíð forfaðir hans. 12Hann rak þá menn úr landi, er helgað höfðu sig saurlifnaði, og útrýmdi öllum skurðgoðum, sem forfeður hans höfðu gjöra látið. 13Hann svipti jafnvel Maöku móður sína drottningartigninni, fyrir það að hún hafði gjöra látið hræðilegt asérulíkneski. Og Asa hjó sundur þetta hræðilega líkneski hennar og brenndi það í Kídrondal. 14En hæðirnar voru ekki afnumdar. Þó var hjarta Asa óskipt gagnvart Drottni alla ævi hans. 15Hann lét og flytja í hús Drottins helgigjafir föður síns, svo og helgigjafir sínar - silfur, gull og áhöld.

16En þeir áttu ófrið saman alla ævi, Asa og Basa konungur í Ísrael. 17Og Basa, konungur í Ísrael, fór herför á móti Júda og víggirti Rama, svo að enginn maður gæti komist út eða inn hjá Asa Júdakonungi. 18Þá tók Asa allt silfrið og gullið, sem enn var eftir í féhirslum húss Drottins, og fjársjóðu konungshallarinnar og seldi í hendur mönnum sínum. Síðan sendi Asa konungur þá til Benhadads Tabrimmonssonar, Hesíonssonar, konungs á Sýrlandi, er bjó í Damaskus, með þessa orðsending: 19"Sáttmáli er milli mín og þín, milli föður míns og föður þíns. Sjá, ég sendi þér gjöf í silfri og gulli. Skalt þú nú rjúfa bandalag þitt við Basa Ísraelskonung, svo að hann hafi sig á burt frá mér."

20Benhadad tók vel máli Asa konungs og sendi hershöfðingja sína móti borgum Ísraels og vann Íjón og Dan og Abel-Bet-Maaka og allt Kinnerót, svo og allt Naftalí-land. 21Þegar Basa spurði það, hætti hann að víggirða Rama og sneri heim til Tirsa.

22En Asa konungur bauð út öllum Júdamönnum - enginn var undanskilinn. Og þeir fluttu burt steinana og viðinn, sem Basa hafði víggirt Rama með, og víggirti Asa konungur með þeim Geba í Benjamín og Mispa.

23Það sem meira er að segja um Asa og hreystiverk hans og allt það, er hann gjörði, og borgirnar, sem hann víggirti, það er allt ritað í Árbókum Júdakonunga. Þó má geta þess, að á efri árum gjörðist hann fótaveikur. 24Og Asa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs, forföður síns. Og Jósafat sonur hans tók ríki eftir hann.


Nadab konungur í Ísrael

25Nadab, sonur Jeróbóams, varð konungur yfir Ísrael á öðru ríkisári Asa, konungs í Júda, og ríkti hann tvö ár yfir Ísrael. 26Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins og fetaði í fótspor föður síns og drýgði þær syndir, er hann hafði drýgt og komið Ísrael til að drýgja.

27En Basa, sonur Ahía af ætt Íssakars, hóf samsæri gegn honum og vann sigur á honum við Gibbeton, sem Filistar áttu. En Nadab og allur Ísrael sátu þá um Gibbeton. 28Þannig drap Basa hann á þriðja ríkisári Asa, konungs í Júda, og tók ríki eftir hann. 29En er hann var konungur orðinn, drap hann alla ætt Jeróbóams. Hann lét engan eftir verða af konungsættinni, þann er anda dró, uns hann hafði gjöreytt henni, og rættist þannig orð Drottins, sem hann hafði talað fyrir munn þjóns síns, Ahía frá Síló, 30vegna synda Jeróbóams, þeirra er hann hafði drýgt og komið Ísrael til að drýgja, er hann egndi Drottin, Guð Ísraels, til reiði.

31Það sem meira er að segja um Nadab og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 32En þeir áttu ófrið saman alla ævi, Asa og Basa, konungur í Ísrael.


Basa konungur í Ísrael

33Á þriðja ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Basa, sonur Ahía, konungur yfir öllum Ísrael, og ríkti hann tuttugu og fjögur ár í Tirsa. 34Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins og fetaði í fótspor Jeróbóams og drýgði þær syndir, er hann hafði drýgt og komið Ísrael til að drýgja.

16
1En orð Drottins kom til Jehú Hananísonar gegn Basa, svolátandi: 2"Sakir þess að ég hefi hafið þig úr duftinu og gjört þig höfðingja yfir lýð mínum Ísrael, en þú fetar í fótspor Jeróbóams og kemur lýð mínum Ísrael til að syndga, svo að þeir egna mig til reiði með syndum sínum, 3þá mun ég sópa burt Basa og ætt hans, og fara með ætt þína eins og ætt Jeróbóams Nebatssonar. 4Hvern þann, er deyr af ætt Basa innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, er deyr af henni úti á víðavangi, munu fuglar himins eta."

5Það sem meira er að segja um Basa og það er hann gjörði og hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 6Og Basa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Tirsa, og Ela sonur hans tók ríki eftir hann.

7En fyrir munn Jehú spámanns Hananísonar kom dómsorð Drottins yfir Basa og ætt hans, bæði vegna alls þess illa, er hann hafði aðhafst í augsýn Drottins með því að egna hann til reiði með handaverkum sínum, svo að fyrir honum færi sem fyrir ætt Jeróbóams, og líka vegna þess, að hann hafði eytt henni.


Ela konungur í Ísrael

8Á tuttugasta og sjötta ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Ela, sonur Basa, konungur yfir Ísrael og ríkti hann tvö ár í Tirsa. 9En Simrí, þjónn hans, foringi fyrir helmingi vagnliðsins, hóf samsæri gegn honum. Og er Ela drakk sig drukkinn í Tirsa, í húsi Arsa, dróttseta í Tirsa, 10þá kom þar Simrí og vann á honum og drap hann, á tuttugasta og sjöunda ríkisári Asa, konungs í Júda, og tók ríki eftir hann. 11En er hann var konungur orðinn og sestur í hásæti, drap hann alla ættmenn Basa - lét hann engan karlmann eftir verða af konungsættinni - svo og vandamenn hans og vini. 12Þannig gjöreyddi Simrí allri ætt Basa, og rættist svo orð Drottins, sem hann hafði talað gegn Basa fyrir munn Jehú spámanns, 13sakir allra synda hans og synda Ela sonar hans, þeirra er þeir höfðu drýgt og komið Ísrael til að drýgja, að þeir egndu Drottin, Guð Ísraels, til reiði með hinum fánýtu goðum sínum.

14Það sem meira er að segja um Ela og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.


Simrí konungur í Ísrael

15Á tuttugasta og sjöunda ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Simrí konungur og ríkti sjö daga í Tirsa. En liðið sat þá um Gibbeton, sem Filistar áttu. 16Og er liðið, sem lá í herbúðunum, frétti að Simrí hefði hafið samsæri og drepið konung, þá tók allur Ísrael Omrí, hershöfðingja í Ísrael, til konungs þann dag þar í herbúðunum. 17Þá hélt Omrí og allur Ísrael með honum frá Gibbeton og settist um Tirsa. 18En er Simrí sá að borgin var unnin, gekk hann inn í vígi konungshallarinnar og lagði eld í konungshöllina yfir höfði sér og beið svo bana 19sakir synda þeirra, er hann hafði drýgt með því að gjöra það sem illt var í augum Drottins, með því að feta í fótspor Jeróbóams og drýgja sömu syndirnar, sem hann hafði drýgt, með því að koma Ísrael til að syndga.

20Það sem meira er að segja um Simrí og samsærið, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

21Þá skiptist Ísraelslýður. Fylgdi annar hluti lýðsins Tibní Gínatssyni og vildi gjöra hann að konungi, en hinn hlutinn fylgdi Omrí. 22En þeir, sem Omrí fylgdu, urðu hinum yfirsterkari, er fylgdu Tibní Gínatssyni. En er Tibní var dauður, varð Omrí konungur.


Omrí konungur í Ísrael

23Á þrítugasta og fyrsta ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Omrí konungur yfir Ísrael og ríkti tólf ár. Sex ár ríkti hann í Tirsa. 24Hann keypti Samaríufjall af Semer fyrir tvær talentur silfurs, og reisti byggð á fjallinu og kenndi borgina, sem hann byggði, við Semer, er átt hafði fjallið, og nefndi Samaríu.

25Omrí gjörði það sem illt var í augum Drottins og hegðaði sér verr en allir þeir, sem verið höfðu á undan honum, 26og fetaði að öllu leyti í fótspor Jeróbóams Nebatssonar og drýgði sömu syndirnar, sem hann hafði komið Ísrael til að drýgja, svo að þeir egndu Drottin, Guð Ísraels, til reiði með hinum fánýtu goðum sínum.

27Það sem meira er að segja um Omrí og allt sem hann gjörði og hreystiverk hans, þau er hann vann, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 28Og Omrí lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Samaríu. Og Akab sonur hans tók ríki eftir hann.


Akab konungur í Ísrael. Jesebel

29Akab, sonur Omrí, varð konungur yfir Ísrael á þrítugasta og áttunda ríkisári Asa, konungs í Júda, og hann ríkti yfir Ísrael í Samaríu tuttugu og tvö ár.

30Akab, sonur Omrí, gjörði það sem illt var í augum Drottins, og hegðaði sér verr en allir þeir, sem verið höfðu á undan honum. 31Og hann lét sér ekki nægja að drýgja sömu syndirnar og Jeróbóam Nebatsson, heldur gekk hann að eiga Jesebel, dóttur Etbaals Sídoningakonungs. Fór hann þá og þjónaði Baal og tilbað hann. 32Og hann reisti Baal altari í musteri Baals, er hann hafði gjöra látið í Samaríu. 33Akab lét og gjöra aséru. Og hann gjörði enn fleira til að egna Drottin, Guð Ísraels, til reiði, framar öllum Ísraelskonungum, sem á undan honum höfðu verið.

34Á hans dögum reisti Híel frá Betel Jeríkó að nýju. Missti hann frumgetning sinn, Abíram, er hann lagði undirstöður hennar, og yngsta son sinn, Segúb, er hann reisti hlið hennar. Var það samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Jósúa Núnssonar.



Elía spámaður


Elía við lækinn Krít

17
1Elía Tisbíti, frá Tisbe í Gíleað, sagði við Akab: "Svo sannarlega sem Drottinn, Guð Ísraels, lifir, sá er ég þjóna, skal þessi árin hvorki drjúpa dögg né regn, nema ég segi." 2Og orð Drottins kom til hans, svolátandi: 3"Far þú héðan og hald austur á bóginn, og fel þig við lækinn Krít, sem er fyrir austan Jórdan. 4Og þú skalt drekka úr læknum, og hröfnunum hefi ég boðið að fæða þig þar." 5Hann gjörði sem Drottinn bauð honum, fór og settist að við lækinn Krít, sem er fyrir austan Jórdan. 6Og hrafnarnir færðu honum brauð og kjöt á morgnana og brauð og kjöt á kveldin, og úr læknum drakk hann.


Ekkjan í Sarefta

7En eftir nokkurn tíma þornaði lækurinn upp, því að eigi hafði komið skúr á jörð. 8Þá kom orð Drottins til hans, svolátandi: 9"Tak þig upp og far til Sarefta, sem tilheyrir Sídon, og sest þar að. Sjá, ég hefi boðið ekkju nokkurri þar að fæða þig." 10Þá tók hann sig upp og fór til Sarefta. Og er hann kom að borgarhliðinu, var ekkja þar að tína saman viðarkvisti. Hann kallaði til hennar og mælti: "Sæk þú mér dálítið af vatni í ílátinu, að ég megi drekka." 11Og hún fór að sækja það, en hann kallaði á eftir henni og mælti: "Færðu mér líka brauðbita."

12Hún svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, á ég enga köku til, heldur aðeins hnefa mjöls í skjólu og lítið eitt af viðsmjöri í krús. Og sjá, ég er að tína saman fáeina viðarkvisti. Síðan ætla ég heim og matbúa þetta handa mér og syni mínum, að við megum eta það og deyja síðan."

13En Elía sagði við hana: "Óttast ekki! Far þú heim og gjör sem þú sagðir. Gjör þú mér samt fyrst litla köku af því og fær mér út hingað, en matreið síðan handa þér og syni þínum. 14Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölskjólan skal eigi tóm verða og viðsmjörið í krúsinni ekki þrjóta, allt til þess dags, er Drottinn gefur regn á jörð." 15Þá fór hún og gjörði eins og Elía hafði sagt, og hún hafði nóg að eta, bæði hún og hann og sonur hennar, um langa hríð. 16Mjölskjólan varð ekki tóm og viðsmjörið í krúsinni þraut ekki, samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Elía.


Sonur ekkjunnar í Sarefta

17Eftir þetta bar svo við, að sonur húsfreyju sýktist, og elnaði honum svo mjög sóttin, að hann dró eigi lengur andann. 18Þá mælti hún við Elía: "Hvað á ég saman við þig að sælda, guðsmaður? Þú ert til mín kominn til að minna á misgjörð mína og til að láta son minn deyja."

19En Elía sagði við hana: "Fá þú mér son þinn." Og hann tók hann úr kjöltu hennar og bar hann upp á loft, þar sem hann hafðist við, og lagði hann í rekkju sína. 20Og hann kallaði til Drottins og mælti: "Drottinn, Guð minn, ætlar þú líka að fara svo illa með ekkjuna, sem ég gisti hjá, að láta son hennar deyja?" 21Og hann teygði sig þrisvar yfir sveininn og kallaði til Drottins og mælti: "Drottinn, Guð minn, lát sál þessa sveins aftur til hans hverfa!" 22Og Drottinn heyrði bæn Elía, og sál sveinsins kom aftur í hann, svo að hann lifnaði við. 23En Elía tók sveininn og bar hann ofan af loftinu niður í húsið og fékk hann móður hans. Og Elía mælti: "Sjá þú, sonur þinn er lifandi." 24Þá sagði konan við Elía: "Nú veit ég, að þú ert guðsmaður og að orð Drottins í munni þínum er sannleikur."


Barátta Elía gegn Baalsspámönnum
Fórnin á Karmel

18
1Löngu síðar kom orð Drottins til Elía, á þriðja ári þurrksins, svolátandi: "Far og lát Akab sjá þig. Ég ætla að gefa regn á jörð." 2Þá fór Elía, til þess að láta Akab sjá sig.

Hallærið var mikið í Samaríu. 3Kallaði Akab þá Óbadía dróttseta fyrir sig. En Óbadía óttaðist Drottin mjög. 4Fyrir því tók Óbadía, þá er Jesebel útrýmdi spámönnum Drottins, hundrað spámenn og fal þá, sína fimmtíu menn í hvorum helli, og birgði þá upp með brauði og vatni.

5Akab sagði við Óbadía: "Kom þú, við skulum fara um landið og leita uppi allar vatnslindir og alla læki. Vera má, að við finnum gras, svo að við getum haldið lífinu í hestum og múlum og þurfum ekki að fella nokkurn hluta af skepnunum." 6Síðan skiptu þeir með sér landinu til yfirferðar. Akab fór einn sér í aðra áttina, og Óbadía fór einn sér í hina áttina.

7En er Óbadía var á leiðinni, sjá, þá mætti Elía honum. Og er hann þekkti hann, féll hann fram á ásjónu sína og mælti: "Ert það þú, herra minn Elía?"

8Hann svaraði honum: "Er ég víst. Far og seg herra þínum: Elía er hér!"

9En Óbadía mælti: "Hvað hefi ég misgjört, er þú vilt selja þjón þinn í hendur Akab, svo að hann drepi mig? 10Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, er engin sú þjóð til og ekkert það konungsríki, að herra minn hafi ekki sent þangað til þess að leita þín, og ef sagt var: ,Hann er hér ekki!' þá lét hann konungsríkið og þjóðina vinna eið að því, að enginn hefði hitt þig. 11Og þó segir þú nú: ,Far og seg herra þínum: Elía er hér!' 12En færi ég nú frá þér, þá mundi andi Drottins hrífa þig, ég veit ekki hvert, og ef ég þá kæmi til þess að segja Akab frá þessu, og hann fyndi þig ekki, þá mundi hann drepa mig, og þó hefir þjónn þinn óttast Drottin í frá barnæsku. 13Hefir ekki herra minn frétt, hvað ég gjörði, er Jesebel drap spámenn Drottins, að ég fal hundrað manns af spámönnum Drottins, sína fimmtíu manns í hvorum helli, og birgði þá upp með brauði og vatni? 14Og þó segir þú nú: ,Far og seg herra þínum: Elía er hér!' til þess að hann drepi mig."

15En Elía svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn allsherjar lifir, sá er ég þjóna, mun ég láta Akab sjá mig þegar í dag."

16Þá fór Óbadía til móts við Akab og sagði honum frá þessu. Fór þá Akab til fundar við Elía. 17En er Akab sá Elía, sagði Akab við hann: "Ert þú þar, skaðvaldur Ísraels?"

18Elía svaraði: "Eigi hefi ég valdið Ísrael skaða, heldur þú og ætt þín, þar sem þér hafið virt boð Drottins að vettugi og þú elt Baalana. 19En send þú nú og stefn til mín öllum Ísrael á Karmelfjalli, svo og þeim fjögur hundruð og fimmtíu Baalsspámönnum og þeim fjögur hundruð Aséruspámönnum, er eta við borð Jesebelar." 20Þá sendi Akab út á meðal allra Ísraelsmanna og stefndi spámönnunum til Karmelfjalls.

21Þá gekk Elía fram fyrir allan lýðinn og mælti: "Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða? Sé Drottinn hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum." En lýðurinn svaraði honum engu orði. 22Þá mælti Elía til lýðsins: "Ég er einn eftir af spámönnum Drottins, en spámenn Baals eru fjögur hundruð og fimmtíu. 23Fáið oss nú tvö naut. Skulu Baalsspámenn velja sér annað nautið og hluta það sundur og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að, en ég mun fórna hinu nautinu og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að. 24Ákallið síðan nafn yðar guðs, en ég mun ákalla nafn Drottins. Sá guð, sem svarar með eldi, er hinn sanni Guð."

Þá svaraði allur lýðurinn og sagði: "Þetta er vel mælt."

25Þá sagði Elía við spámenn Baals: "Veljið yður nú annað nautið og fórnið fyrst, því að þér eruð svo margir, og ákallið nafn yðar guðs, en leggið eigi eld að."

26Þá tóku þeir nautið og fórnuðu því og ákölluðu nafn Baals frá morgni og til hádegis og sögðu: "Baal, svara þú oss!" En þar var steinhljóð og ekkert svar. Og þeir höltruðu kringum altarið, sem þeir höfðu gjört.

27En er komið var hádegi, tók Elía að gjöra gys að þeim og mælti: "Kallið hárri röddu, því að hann er guð. Hann er hugsi, eða hefir brugðið sér burt, eða er farinn í ferð. Ef til vill er hann sofnaður og verður fyrst að vakna." 28En þeir kölluðu hárri röddu og ristu á sig skinnsprettur að sínum sið með sverðum og spjótum, uns þeim blæddi. 29En er komið var fram yfir hádegi, komust þeir í guðmóð, þar til bera átti fram matfórnina. En þar var steinhljóð og ekkert svar og engin áheyrn.

30Þá sagði Elía við allan lýðinn: "Gangið hingað til mín!" Og allur lýðurinn gekk til hans. Þá reisti hann við altari Drottins, er niður hafði verið rifið. 31Og Elía tók tólf steina, eftir ættkvíslatölu sona Jakobs - þess manns er orð Drottins hafði komið til, svolátandi: ,Ísrael skalt þú heita!' - 32og reisti af steinunum altari í nafni Drottins og gjörði skurð umhverfis altarið, á stærð við reit, er í fara tvær seur útsæðis. 33Síðan lagði hann viðinn á altarið, hlutaði sundur nautið og lagði það ofan á viðinn. 34Því næst mælti hann: "Fyllið fjórar skjólur með vatni og hellið yfir brennifórnina og viðinn." Þeir gjörðu svo. Þá mælti hann: "Gjörið það aftur." Og þeir gjörðu það aftur. Og enn mælti hann: "Gjörið það í þriðja sinn." Og þeir gjörðu það í þriðja sinn. 35Og vatnið rann allt í kringum altarið. Jafnvel skurðinn fyllti hann vatni.

36En í það mund, er matfórnina skyldi fram bera, gekk Elía spámaður fram og mælti: "Drottinn, Guð Abrahams, Ísaks og Ísraels! Lát í dag kunnugt verða, að þú ert Guð í Ísrael og ég þjónn þinn og að ég hefi gjört alla þessa hluti að þínu boði. 37Bænheyr mig, Drottinn! Bænheyr mig, að lýður þessi megi komast að raun um, að þú, Drottinn, ert hinn sanni Guð, og að þú snýrð aftur hjörtum þeirra."

38Þá féll eldur Drottins niður og eyddi brennifórninni, viðnum, steinunum og grassverðinum, og vatnið í skurðinum þurrkaði hann einnig upp.

39Og er allur lýðurinn sá það, féllu þeir fram á ásjónur sínar og sögðu: "Drottinn er hinn sanni Guð, Drottinn er hinn sanni Guð!" 40En Elía sagði við þá: "Takið höndum spámenn Baals. Látið engan þeirra komast undan!" Og þeir handtóku þá, og Elía fór með þá niður að Kísonlæk og banaði þeim þar.

41Síðan mælti Elía við Akab: "Far þú upp eftir, et og drekk, því að ég heyri þyt af regni." 42Þá fór Akab upp eftir til þess að eta og drekka. En Elía fór efst upp á Karmel, beygði sig til jarðar og setti andlitið milli hnjánna. 43Því næst sagði hann við svein sinn: "Gakk þú upp og lít út til hafs." Hann gekk upp, litaðist um og mælti: "Það er ekkert að sjá." Elía mælti: "Far þú aftur." Og sveinninn fór aftur og aftur, sjö sinnum. 44En í sjöunda sinnið sagði hann: "Nú stígur lítið ský, sem mannshönd, upp úr hafinu."

Þá sagði Elía: "Far og seg Akab: ,Beit fyrir vagninn og far ofan, svo að regnið teppi þig ekki.'"

45Eftir örskamma stund varð himinninn dimmur af skýjum og vindi, og það kom hellirigning. En Akab steig á vagn sinn og ók til Jesreel. 46En hönd Drottins hreif Elía, og hann gyrti lendar sínar og hljóp á undan Akab alla leið til Jesreel.


Elía flýr til Hórebfjalls

19
1Akab sagði Jesebel frá öllu því, sem Elía hafði gjört og hversu hann hafði drepið alla spámennina með sverði. 2Þá sendi hún mann á fund Elía og lét segja honum: "Guðirnir gjöri mér hvað sem þeir vilja nú og síðar: Á morgun í þetta mund skal ég fara svo með líf þitt, sem farið hefir verið með líf sérhvers þeirra." 3Þá varð hann hræddur, tók sig upp og hélt af stað til þess að forða lífi sínu. Hann kom til Beerseba, sem er í Júda. Þar lét hann eftir svein sinn. 4En sjálfur fór hann eina dagleið á eyðimörku og kom þar sem gýfilrunnur var og settist undir hann. Þá óskaði hann sér að hann mætti deyja og mælti: "Mál er nú, Drottinn, að þú takir líf mitt, því að mér er eigi vandara um en feðrum mínum." 5Síðan lagðist hann fyrir undir gýfilrunninum og sofnaði.

Og sjá, engill snart hann og mælti til hans: "Statt upp og et." 6Litaðist hann þá um og sá, að eldbökuð kaka lá að höfði honum og vatnskrús. Át hann þá og drakk og lagðist síðan aftur fyrir.

7En engill Drottins kom aftur öðru sinni, snart hann og mælti: "Statt upp og et, því að annars verður leiðin þér of löng." 8Stóð hann þá upp, át og drakk og hélt áfram fyrir kraft fæðunnar fjörutíu daga og fjörutíu nætur, uns hann kom að Hóreb, fjalli Guðs. 9Þar gekk hann inn í helli og hafðist þar við um nóttina.

Þá kom orð Drottins til hans: "Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?"

10Hann svaraði: "Ég hefi verið vandlætingasamur vegna Drottins, Guðs allsherjar, því að Ísraelsmenn hafa virt að vettugi sáttmála þinn, rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði, svo að ég er einn eftir orðinn, og sitja þeir nú um líf mitt." 11Þá sagði Drottinn: "Gakk þú út og nem staðar á fjallinu frammi fyrir mér."

Og sjá, Drottinn gekk fram hjá, og mikill og sterkur stormur, er tætti fjöllin og molaði klettana, fór fyrir Drottni, en Drottinn var ekki í storminum. 12Og eftir storminn kom landskjálfti, en Drottinn var ekki í landskjálftanum. Og eftir landskjálftann kom eldur, en Drottinn var ekki í eldinum. En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla. 13Og er Elía heyrði það, huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og nam staðar við hellisdyrnar. Sjá, þá barst rödd að eyrum honum og mælti: "Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?"

14Hann svaraði: "Ég hefi verið vandlætingasamur vegna Drottins, Guðs allsherjar, því að Ísraelsmenn hafa virt að vettugi sáttmála þinn, rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði, svo að ég er einn eftir orðinn, og sitja þeir nú um líf mitt."

15En Drottinn sagði við hann: "Far þú aftur leiðar þinnar til Damaskuseyðimerkur og far inn í borgina og smyr Hasael til konungs yfir Sýrland. 16Jehú Nimsíson skalt þú smyrja til konungs yfir Ísrael, og Elísa Safatsson frá Abel Mehóla skalt þú smyrja til spámanns í þinn stað. 17Hvern þann, er kemst undan sverði Hasaels, mun Jehú drepa, og hvern þann, er kemst undan sverði Jehú, mun Elísa drepa. 18Þó vil ég láta eftir verða í Ísrael sjö þúsundir, öll þau kné, sem eigi hafa beygt sig fyrir Baal, og alla þá munna, er eigi hafa kysst hann."


Köllun Elísa

19Síðan fór Elía þaðan og hitti Elísa Safatsson. Hann var að plægja. Gengu tólf sameyki á undan honum, og sjálfur var hann með hinu tólfta. Þá gekk Elía til hans og lagði skikkju sína yfir hann. 20Þá skildi hann eftir yxnin, rann eftir Elía og mælti: "Leyf þú mér fyrst að minnast við föður minn og móður, síðan skal ég fara með þér."

Elía svaraði honum: "Far og snú aftur, en mun hvað ég hefi gjört þér." 21Þá sneri hann aftur og skildi við hann, tók sameykin og slátraði þeim og sauð kjötið af þeim við aktygin af yxnunum og gaf fólkinu að eta. Síðan tók hann sig upp og fór á eftir Elía og gjörðist þjónn hans.


Styrjöld við Sýrlendinga

20
1Benhadad konungur á Sýrlandi dró saman allan her sinn. Voru þrjátíu og tveir konungar með honum, með hestum og vögnum, og hann fór, settist um Samaríu og gjörði áhlaup á hana. 2Og hann sendi menn til Akabs Ísraelskonungs inn í borgina 3og lét segja honum: "Svo segir Benhadad: Silfur þitt og gull er mitt, svo og hinar fegurstu konur þínar og synir."

4Ísraelskonungur svaraði og sagði: "Eins og þú vilt vera láta, minn herra konungur. Ég er þinn og allt, sem ég á."

5Og sendimennirnir komu aftur og sögðu: "Svo segir Benhadad: Ég hefi gjört þér þessa orðsending: Þú skalt gefa mér silfur þitt og gull, konur þínar og sonu. 6Þegar ég á morgun í þetta mund sendi menn mína til þín, munu þeir rannsaka hús þitt og hús þinna manna, og skulu þeir taka og hafa á burt með sér sérhvað það, sem þeir ágirnast."

7Þá kallaði Ísraelskonungur alla öldunga landsins fyrir sig og mælti: "Hyggið að og sjáið, að hann býr yfir illu, því að hann sendi til mín eftir konum mínum og sonum, silfri mínu og gulli, og synjaði ég honum þess ekki."

8Þá sögðu allir öldungarnir og allur lýðurinn við hann: "Gegn þú eigi þessu og samþykk þú það eigi."

9Þá sagði Akab við sendimenn Benhadads: "Segið mínum herra konunginum: Allt það, sem þú gjörðir þjóni þínum orð um í fyrstu, vil ég gjöra, en þetta get ég ekki gjört." Þá fóru sendimennirnir og færðu honum svarið.

10Þá sendi Benhadad til hans og lét segja: "Guðirnir gjöri mér hvað sem þeir vilja, nú og síðar: Rykið í Samaríu mun eigi nægja til þess að fylla lúkurnar á öllu þessu liði, sem með mér er."

11En Ísraelskonungur svaraði og sagði: "Segið honum: Eigi skyldi sá, er hervæðist, hrósa sér sem sá, er leggur af sér vopnin."

12Þegar Benhadad heyrði þetta svar, þar sem hann sat að drykkju með konungunum í laufskálunum, mælti hann til sinna manna: "Færið fram hervélarnar." Og þeir færðu þær fram gegnt borginni.

13En spámaður nokkur gekk fyrir Akab Ísraelskonung og mælti: "Svo segir Drottinn: Sér þú allan þennan mikla manngrúa? Hann gef ég þér í hendur í dag, svo að þú viðurkennir, að ég er Drottinn."

14Þá mælti Akab: "Fyrir hvers fulltingi?"

Spámaðurinn svaraði: "Svo segir Drottinn: Fyrir fulltingi sveina héraðshöfðingjanna."

Þá spurði Akab: "Hver á að hefja orustuna?"

Hinn svaraði: "Þú."

15Þá kannaði Akab sveina héraðshöfðingjanna, og voru þeir tvö hundruð þrjátíu og tveir. Og að því búnu kannaði hann allt liðið, alla Ísraelsmenn, sjö þúsund manns.

16Um hádegið réðu þeir til útgöngu, en Benhadad sat þá ölvaður að drykkju í laufskálunum, hann og þeir þrjátíu og tveir konungar, er komnir voru honum til liðs. 17Sveinar héraðshöfðingjanna fóru fremstir. Þá sendi Benhadad menn til að njósna. Þeir sögðu honum svo frá: "Menn fara út frá Samaríu."

18Þá sagði hann: "Hvort sem þeir fara út til þess að biðjast friðar eða til þess að berjast, þá takið þá höndum lifandi." 19Og er sveinar héraðshöfðingjanna og liðið, sem þeim fylgdi, fóru út af borginni 20drápu þeir hver sinn mann. Flýðu þá Sýrlendingar, en Ísraelsmenn eltu þá. Og Benhadad Sýrlandskonungur komst undan á vagnhesti með nokkra riddara. 21En Ísraelskonungur fór út og náði hestunum og vögnunum. Og hann vann mikinn sigur á Sýrlendingum.

22Þá gekk spámaður fyrir Ísraelskonung og mælti til hans: "Ver hugrakkur og hygg vandlega að, hvað þú skulir gjöra, því að næsta ár mun Sýrlandskonungur fara með her á hendur þér."


Annað áhlaup Sýrlendinga

23Menn Sýrlandskonungs sögðu við hann: "Guð Ísraelsmanna er fjallaguð, þess vegna urðu þeir oss yfirsterkari, en ef vér mættum berjast við þá á jafnsléttu, mundum vér vissulega vinna sigur á þeim. 24En gjör þú þetta: Vík öllum konungunum frá völdum og set jarla í þeirra stað. 25Safna síðan að þér jafnfjölmennu liði sem það lið var, er þú misstir, og jafnmörgum hestum og jafnmörgum vögnum sem þú misstir, og skulum vér berjast við þá á jafnsléttu, og munum vér vissulega sigrast á þeim." Fór hann að ráðum þeirra og gjörði svo.

26Árið eftir kannaði Benhadad Sýrlendinga og hélt til Afek til þess að berjast við Ísraelsmenn. 27En Ísraelsmenn voru og kannaðir og birgðir að vistum, og fóru þeir í móti þeim, og settu Ísraelsmenn herbúðir gegnt þeim. Voru þeir sem tveir geitfjárhópar, en Sýrlendingar fylltu landið.

28Þá gekk guðsmaður nokkur fram, talaði til Ísraelskonungs og mælti: "Svo segir Drottinn: Sakir þess að Sýrlendingar hafa sagt: ,Drottinn er fjallaguð, en enginn dalaguð' - þá vil ég gefa þennan mikla manngrúa í þínar hendur, svo að þér kannist við, að ég er Drottinn."

29Þannig lágu þeir í herbúðunum, hverir gegnt öðrum, í sjö daga, en á sjöunda degi tókst orusta, og felldu Ísraelsmenn hundrað þúsundir fótgönguliðs af Sýrlendingum á einum degi. 30En þeir, sem eftir urðu, flýðu til Afek, inn í borgina, en þá féll borgarmúrinn á þau tuttugu og sjö þúsund manns, sem eftir voru.

Benhadad var og flúinn og komst inn í borgina, úr einu herberginu í annað. 31Þá sögðu menn hans við hann: "Vér höfum heyrt, að konungar Ísraelshúss séu miskunnsamir konungar. Skulum vér nú gyrðast hærusekk um lendar vorar og vefja bandi um höfuð vor og ganga síðan fyrir Ísraelskonung. Má vera að hann gefi þér líf." 32Síðan gyrtust þeir hærusekk um lendar sér, vöfðu bandi um höfuð sér og gengu síðan á fund Ísraelskonungs og sögðu: "Þjónn þinn Benhadad segir: Gef þú mér líf."

Akab svaraði: "Er hann enn á lífi? Hann er bróðir minn."

33Þetta þótti mönnunum góðs viti, og flýttu þeir sér að taka hann á orðinu og sögðu: "Benhadad er bróðir þinn!"

En Akab mælti: "Farið og sækið hann." Þá gekk Benhadad út til hans, og hann lét hann stíga upp í vagninn til sín. 34Og Benhadad sagði við hann: "Borgunum, sem faðir minn tók frá föður þínum, skal ég skila aftur, og þú mátt gjöra þér torg í Damaskus, eins og faðir minn gjörði í Samaríu."

"Hvað mig snertir," mælti Akab, "þá vil ég láta þig lausan með þessum skilmálum." Og hann gjörði við hann sáttmála og lét hann í brott fara.


Spámaður fordæmir Akab

35Maður nokkur af spámannasveinunum sagði við félaga sinn eftir orði Drottins: "Slá þú mig!" En maðurinn færðist undan að slá hann. 36Þá sagði spámaðurinn við hann: "Sökum þess að þú hlýddir ekki raust Drottins, þá mun ljón ljósta þig jafnskjótt og þú gengur burt frá mér." Og er hann gekk í burt frá honum, mætti ljón honum og drap hann.

37Og spámaðurinn hitti annan mann og mælti: "Slá þú mig!" Og maðurinn sló hann, svo að hann varð sár. 38Síðan fór spámaðurinn burt og gekk í veg fyrir konung og gjörði sig ókennilegan með því að binda fyrir augun. 39En er konungur fór fram hjá, kallaði hann til konungs og mælti: "Þjónn þinn fór í bardagann. Þá gekk maður fram úr fylkingunni, færði mér mann og sagði: ,Geymdu þennan mann. Komist hann í burt, þá skal líf þitt við liggja, eða þú skalt greiða talentu silfurs.' 40En svo fór, að þar sem þjónn þinn hafði í hinu og þessu að snúast, þá varð maðurinn allur á burtu."

Ísraelskonungur sagði við hann: "Það er þinn dómur. Þú hefir sjálfur kveðið hann upp." 41Þá tók hann í skyndi bandið frá augunum, og Ísraelskonungur þekkti hann, að hann var einn af spámönnunum.

42Spámaðurinn mælti þá til hans: "Svo segir Drottinn: Sökum þess að þú slepptir þeim manni úr hendi þér, sem ég hafði banni helgað, þá skal líf þitt koma fyrir hans líf og þín þjóð fyrir hans þjóð." 43Og Ísraelskonungur hélt heim til sín, hryggur og reiður, og kom til Samaríu.


Víngarður Nabóts

21
1Eftir þetta bar það til, er nú skal greina: Nabót Jesreelíti átti víngarð í Jesreel, rétt hjá höll Akabs konungs í Samaríu. 2Og Akab kom að máli við Nabót og sagði: "Lát mig fá víngarð þinn, að ég megi hafa hann að matjurtagarði, því að hann er í nánd við hús mitt, og ég skal láta þig fá fyrir hann betri víngarð, eða, ef þú vilt það heldur, þá skal ég greiða þér andvirði hans í peningum."

3En Nabót sagði við Akab: "Drottinn forði mér frá að farga til þín arfleifð feðra minna." 4Þá kom Akab heim í höll sína, hryggur og reiður út af því, sem Nabót Jesreelíti hafði sagt við hann, er hann mælti: ,Ég farga ekki til þín arfleifð feðra minna.' Og hann lagðist í rekkju og sneri sér til veggjar og neytti eigi matar.

5Þá kom Jesebel kona hans til hans og sagði við hann: "Hví ert þú svo hryggur í skapi, að þú vilt ekki matar neyta?"

6Hann svaraði henni: "Komi ég að máli við Nabót Jesreelíta og segi við hann: ,Lát mig fá víngarð þinn fyrir peninga, eða, ef þú vilt það heldur, þá skal ég láta þig fá fyrir hann annan víngarð,' þá segir hann: ,Ég farga ekki víngarði mínum til þín.'"

7Þá mælti Jesebel kona hans við hann: "Ert þú sá, sem nú hefir konungsvald í Ísrael? Rís þú upp, neyt matar og lát liggja vel á þér. Ég skal útvega þér víngarð Nabóts Jesreelíta." 8Síðan skrifaði hún bréf undir nafni Akabs og innsiglaði það með innsigli hans og sendi bréfið til öldunga og tignarmanna borgar Nabóts, samborgarmanna hans. 9En í bréfinu skrifaði hún á þessa leið: "Látið boða föstu og látið Nabót sitja efstan meðal fólksins, 10og látið tvö varmenni sitja gegnt honum, er vitni gegn honum, og segi: ,Þú hefir lastmælt Guði og konunginum!' Leiðið hann síðan út og grýtið hann til bana."

11Og samborgarmenn hans, öldungarnir og tignarmennirnir, sem bjuggu í borg hans, gjörðu eins og Jesebel hafði gjört þeim boð um, eins og skrifað var í bréfinu, sem hún hafði sent þeim. 12Þeir létu boða föstu og létu Nabót sitja efstan meðal fólksins. 13Síðan komu varmennin tvö og settust gegnt honum. Og varmennin vitnuðu gegn Nabót í áheyrn fólksins og sögðu: "Nabót hefir lastmælt Guði og konunginum." Og þeir leiddu hann út fyrir borgina og lömdu hann grjóti til bana. 14Síðan sendu þeir til Jesebelar og létu segja: "Nabót var grýttur og er dauður."

15Þegar Jesebel heyrði, að Nabót hefði grýttur verið og væri dauður, þá sagði hún við Akab: "Rís nú á fætur og kasta eign þinni á víngarð Nabóts Jesreelíta, sem hann vildi eigi láta falan við þig fyrir peninga, því að Nabót er nú ekki á lífi, heldur er hann dauður." 16Og er Akab heyrði, að Nabót væri dauður, reis hann á fætur og fór ofan í víngarð Nabóts Jesreelíta til þess að kasta á hann eign sinni.

17En orð Drottins kom til Elía Tisbíta, svolátandi: 18"Tak þú þig upp, far ofan eftir, til fundar við Akab Ísraelskonung, sem býr í Samaríu. Hann er nú í víngarði Nabóts. Er hann farinn þangað ofan til þess að kasta á hann eign sinni. 19Mæl þú til hans á þessa leið: ,Svo segir Drottinn: Hefir þú myrt og líka tekið eignina?' Og mæl enn fremur til hans: ,Svo segir Drottinn: Þar sem hundarnir sleiktu blóð Nabóts, þar skulu og hundar sleikja þitt blóð.'"

20Og Akab sagði við Elía: "Hefir þú fundið mig, fjandmaður minn?"

Hann svaraði: "Hefi ég víst. Af því að þú hefir ofurselt þig til að gjöra það, sem illt er í augum Drottins, 21þá leiði ég ógæfu yfir þig og sópa þér burt og uppræti hvern karlmann af ætt Akabs, bæði þræl og frelsingja í Ísrael. 22Og ég mun fara með ætt þína eins og með ætt Jeróbóams Nebatssonar og ætt Basa Ahíasonar vegna reiði þeirrar, er þú hefir egnt mig til, og af því að þú hefir komið Ísrael til að syndga."

23Og einnig um Jesebel talaði Drottinn á þessa leið: "Hundar skulu eta Jesebel hjá Jesreelmúrum. 24Hvern þann, er deyr af Akabsætt innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, sem deyr úti á víðavangi, munu fuglar himins eta."

25Alls enginn hefir verið, er ofurselt hafi sig, eins og Akab, til að gjöra það sem illt var í augum Drottins, og ginnti Jesebel kona hans hann til þess. 26Og hann breytti mjög svívirðilega með því að elta skurðgoðin, alveg eins og Amorítar gjörðu, þeir er Drottinn stökkti burt undan Ísraelsmönnum.

27En er Akab heyrði þessi orð, reif hann klæði sín og lagði hærusekk á bert hold sitt og fastaði. Og hann svaf í hærusekknum og gekk hljóðlega. 28Þá kom orð Drottins til Elía Tisbíta, svolátandi: 29"Hefir þú séð, hversu Akab lægir sig fyrir mér? Af því að hann hefir lægt sig fyrir mér, mun ég eigi leiða ógæfuna yfir meðan hann lifir, en á dögum sonar hans mun ég leiða ógæfuna yfir ætt hans."


Míka spámaður

22
1Nú héldu þeir kyrru fyrir í þrjú ár, og var enginn ófriður milli Sýrlands og Ísraels. 2En á þriðja ári fór Jósafat konungur í Júda á fund Ísraelskonungs.

3Og Ísraelskonungur sagði við þjóna sína: "Vita munuð þér, að vér eigum Ramót í Gíleað, en vér höfumst eigi að og tökum hana ekki frá Sýrlandskonungi." 4Þá mælti hann við Jósafat: "Hvort munt þú fara með mér í hernað til Ramót í Gíleað?"

Jósafat sagði við Ísraelskonung: "Eitt skal yfir báða ganga, mig og þig, mína þjóð og þína þjóð, mína hesta og þína hesta." 5Og Jósafat sagði við Ísraelskonung: "Gakk þú fyrst til frétta og vit hvað Drottinn segir."

6Þá stefndi Ísraelskonungur saman spámönnunum, um fjögur hundruð manns, og sagði við þá: "Á ég að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða á ég að hætta við það?"

Spámennirnir svöruðu: "Far þú, og Drottinn mun gefa hana í hendur konungi."

7En Jósafat mælti: "Er hér ekki enn einhver spámaður Drottins, að vér mættum leita frétta hjá honum?"

8Ísraelskonungur mælti til Jósafats: "Enn er einn eftir, er vér gætum látið ganga til frétta við Drottin, en mér er lítið um hann gefið, því að hann spáir mér aldrei góðu, heldur illu einu. Hann heitir Míka Jimlason."

Jósafat sagði: "Eigi skyldi konungur svo mæla."

9Þá kallaði Ísraelskonungur einn af hirðmönnunum og mælti: "Sæk sem skjótast Míka Jimlason." 10En Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur sátu hvor í sínu hásæti skrýddir purpuraklæðum úti fyrir borgarhliði Samaríu, og allir spámennirnir spáðu frammi fyrir þeim. 11Þá gjörði Sedekía Kenaanason sér horn úr járni og mælti: "Svo segir Drottinn: Með þessum munt þú reka Sýrlendinga undir, uns þú hefir gjöreytt þeim." 12Og allir spámennirnir spáðu á sömu leið og sögðu: "Far þú til Ramót í Gíleað. Þú munt giftudrjúgur verða, og Drottinn mun gefa hana í hendur þér."

13Sendimaðurinn, sem farinn var að sækja Míka, mælti til hans á þessa leið: "Sjá, spámennirnir hafa einum munni boðað konungi hamingju. Mæl þú sem þeir og boða þú hamingju."

14En Míka svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, það sem Drottinn til mín talar, það mun ég mæla."

15Þegar hann kom til konungs, mælti konungur til hans: "Míka, eigum vér að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða eigum vér að hætta við það?"

Þá sagði Míka við hann: "Far þú. Þú munt giftudrjúgur verða, og Drottinn mun gefa hana í hendur konungi!"

16Þá sagði konungur við hann: "Hversu oft á ég að særa þig um, að þú segir mér eigi annað en sannleikann í nafni Drottins?"

17Þá mælti Míka: "Ég sá allan Ísrael tvístrast um fjöllin, eins og hirðislausa sauði, og Drottinn sagði: ,Þessir hafa engan herra. Fari þeir í friði hver heim til sín.'"

18Þá sagði Ísraelskonungur við Jósafat: "Fer nú eigi sem ég sagði þér: Hann spáir mér aldrei góðu, heldur illu einu?"

19Þá mælti Míka: "Eigi er svo! Heyr orð Drottins! Ég sá Drottin sitja í hásæti sínu og allan himins her standa á tvær hendur honum. 20Og Drottinn sagði: ,Hver vill ginna Akab til þess að fara til Ramót í Gíleað og falla þar?' Og einn sagði þetta og annar hitt. 21Þá gekk fram andi, staðnæmdist frammi fyrir Drottni og mælti: ,Ég skal ginna hann.' Og Drottinn sagði við hann: ,Með hverju?' 22Hann mælti: ,Ég ætla að fara og verða lygiandi í munni allra spámanna hans.' Þá mælti Drottinn: ,Þú skalt ginna hann og þér mun takast það. Far og gjör svo!' 23Þannig hefir þá Drottinn lagt lygianda í munn öllum þessum spámönnum þínum, þar sem Drottinn hefir þó ákveðið að leiða yfir þig ógæfu."

24Þá gekk að Sedekía Kenaanason, laust Míka kinnhest og mælti: "Hvaða leið hefir andi Drottins farið frá mér til þess að tala við þig?"

25Þá mælti Míka: "Það munt þú sjá á þeim degi, er þú fer í felur úr einu herberginu í annað."

26Þá mælti Ísraelskonungur: "Takið Míka og færið hann Amón borgarstjóra og Jóas konungssyni 27og segið: ,Svo segir konungur: Kastið manni þessum í dýflissu og gefið honum brauð og vatn af skornum skammti, þar til er ég kem aftur heill á húfi.'"

28Þá mælti Míka: "Komir þú aftur heill á húfi, þá hefir Drottinn eigi talað fyrir minn munn," og hann mælti: "Heyri það allir lýðir!"


Fall Akabs

29Síðan fóru þeir Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur til Ramót í Gíleað. 30Og Ísraelskonungur sagði við Jósafat: "Ég mun klæðast dularbúningi og ganga í orustuna, en þú skalt vera klæddur búningi þínum." Klæddist þá Ísraelskonungur dularbúningi og gekk í orustuna. 31En Sýrlandskonungur hafði boðið foringjunum fyrir vagnliði sínu, sem voru þrjátíu og tveir, á þessa leið: "Þér skuluð eigi berjast við neinn, hvorki smáan né stóran, nema Ísraelskonung einan." 32Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu Jósafat, sögðu þeir: "Þetta er vissulega Ísraelskonungurinn," og sneru í móti honum til þess að berjast við hann. Þá kallaði Jósafat hátt. 33Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu, að það var ekki Ísraelskonungur, þá hættu þeir að elta hann.

34En maður nokkur lagði ör á streng og skaut af handahófi og kom á Ísraelskonung milli brynbeltis og pansara. Þá mælti hann við kerrusvein sinn: "Snú þú við og kom mér burt úr bardaganum, því að ég er sár." 35Var bardaginn hinn harðasti um daginn, og konungur stóð í vagninum andspænis Sýrlendingum allt til kvölds, og blóðið úr sárinu rann ofan í vagninn, og dó hann um kvöldið. 36En um sólsetur kvað svolátandi óp við um allan herinn: "Hver fari heim til sinnar borgar og síns lands, 37því að konungur er dauður." Og þeir komu til Samaríu og jörðuðu konung í Samaríu. 38En er vagninn var þveginn við Samaríutjörn, þá sleiktu hundar blóðið og portkonur lauguðu sig þar eftir orði Drottins, því er hann hafði talað.

39Það sem meira er að segja um Akab og allt, sem hann gjörði, og um fílabeinshúsið, sem hann reisti, og allar borgirnar, sem hann byggði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 40Og Akab lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Ahasía sonur hans tók ríki eftir hann.


Jósafat konungur í Júda

41Jósafat, sonur Asa, varð konungur yfir Júda á fjórða ríkisári Akabs, konungs í Ísrael. 42Jósafat var þrjátíu og fimm ára að aldri, er hann tók ríki, og tuttugu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Asúba Sílhídóttir. 43Hann fetaði að öllu í fótspor Asa föður síns og veik ekki frá þeim, með því að hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins. 44Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum. 45Og Jósafat hafði frið við Ísraelskonung.

46Það sem meira er að segja um Jósafat og hreystiverk hans, þau er hann vann, og hvernig hann herjaði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 47Hann eyddi og úr landinu leifum þeirra manna, er helgað höfðu sig saurlifnaði og eftir höfðu orðið á dögum Asa föður hans.

48Þá var enginn konungur í Edóm. Jarl nokkur var þar konungur.

49Jósafat hafði gjöra látið Tarsisskip, er fara skyldu til Ófír að sækja gull, en eigi varð af ferðinni, því að skipin brotnuðu við Esjón Geber. 50Þá sagði Ahasía Akabsson við Jósafat: "Lát mína menn fara með þínum mönnum á skipunum." En Jósafat vildi ekki. 51Og Jósafat lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs forföður síns. Og Jóram sonur hans tók ríki eftir hann.


Ahasía konungur í Ísrael

52Ahasía sonur Akabs varð konungur í Samaríu yfir Ísrael á seytjánda ríkisári Jósafats, konungs í Júda, og hann ríkti yfir Ísrael tvö ár. 53Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins og fetaði í fótspor föður síns og móður og í fótspor Jeróbóams Nebatssonar, er komið hafði Ísrael til að syndga. 54Og hann dýrkaði Baal og tilbað hann og egndi Drottin, Ísraels Guð, til reiði, alveg eins og faðir hans hafði gjört.



Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997