LÚKASARGUÐSPJALL



1
1Margir hafa tekið sér fyrir hendur að rekja sögu þeirra viðburða, er gjörst hafa meðal vor, 2samkvæmt því, sem oss hafa flutt þeir menn, er frá öndverðu voru sjónarvottar og þjónar orðsins. 3Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu fyrir þig, göfugi Þeófílus, 4svo að þú megir ganga úr skugga um sannindi þeirra frásagna, sem þú hefur fræðst um.


Bæn heyrð

5Á dögum Heródesar, konungs í Júdeu, var uppi prestur nokkur að nafni Sakaría, af sveit Abía. Kona hans var og af ætt Arons og hét Elísabet. 6Þau voru bæði réttlát fyrir Guði og lifðu vammlaus eftir öllum boðum og ákvæðum Drottins. 7En þau áttu ekki barn, því að Elísabet var óbyrja, og bæði voru þau hnigin að aldri.

8En svo bar við, er röðin kom að sveit hans og hann var að gegna þjónustu fyrir Guði, 9að það féll í hans hlut, samkvæmt venju prestdómsins, að ganga inn í musteri Drottins og fórna reykelsi. 10En allur fólksfjöldinn var fyrir utan á bæn, meðan reykelsisfórnin var færð.

11Birtist honum þá engill Drottins, sem stóð hægra megin við reykelsisaltarið. 12Sakaría varð hverft við sýn þessa, og ótta sló á hann. 13En engillinn sagði við hann: "Óttast þú eigi, Sakaría, því bæn þín er heyrð. Elísabet kona þín mun fæða þér son, og þú skalt láta hann heita Jóhannes. 14Og þér mun veitast gleði og fögnuður, og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans. 15Því að hann mun verða mikill í augliti Drottins. Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk, en fyllast heilögum anda þegar frá móðurlífi. 16Og mörgum af Ísraels sonum mun hann snúa til Drottins, Guðs þeirra. 17Og hann mun ganga fyrir honum í anda og krafti Elía til að snúa hjörtum feðra til barna og óhlýðnum til hugarfars réttlátra og búa Drottni altygjaðan lýð."

18Sakaría sagði við engilinn: "Af hverju get ég vitað þetta? Ég er gamall og kona mín hnigin að aldri."

19En engillinn svaraði honum: "Ég er Gabríel, sem stend frammi fyrir Guði, ég var sendur til að tala við þig og flytja þér þessa gleðifregn. 20Og þú munt verða mállaus og ekki geta talað til þess dags, er þetta kemur fram, vegna þess að þú trúðir ekki orðum mínum, en þau munu rætast á sínum tíma."

21Og fólkið beið eftir Sakaría og undraðist, hve honum dvaldist í musterinu. 22En er hann kom út, gat hann ekki talað við þá, og skildu þeir, að hann hafði séð sýn í musterinu. Hann gaf þeim bendingar og var mállaus áfram. 23Og er þjónustudagar hans voru liðnir, fór hann heim til sín.

24En eftir þessa daga varð Elísabet kona hans þunguð, og hún leyndi sér í fimm mánuði og sagði: 25"Þannig hefur Drottinn gjört við mig, er hann leit til mín að afmá hneisu mína í augum manna."


Boðun Maríu

26En á sjötta mánuði var Gabríel engill sendur frá Guði til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, 27til meyjar, er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs, en mærin hét María. 28Og engillinn kom inn til hennar og sagði: "Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér."

29En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri. 30Og engillinn sagði við hana: "Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. 31Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ. 32Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, 33og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða."

34Þá sagði María við engilinn: "Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?"

35Og engillinn sagði við hana: "Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs. 36Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni, og þetta er sjötti mánuður hennar, sem kölluð var óbyrja, 37en Guði er enginn hlutur um megn."

38Þá sagði María: "Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum." Og engillinn fór burt frá henni.


María og Elísabet

39En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum Júda. 40Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu. 41Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar, og Elísabet fylltist heilögum anda 42og hrópaði hárri röddu: "Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. 43Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? 44Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu. 45Sæl er hún, sem trúði því, að rætast mundi það, sem sagt var við hana frá Drottni."


Lofsöngur Maríu

46Og María sagði:

Önd mín miklar Drottin,
47 og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
48 Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
49 Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört,
og heilagt er nafn hans.
50 Miskunn hans við þá, er óttast hann,
varir frá kyni til kyns.
51 Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
52 Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja, 53 hungraða hefur hann fyllt gæðum,
en látið ríka tómhenta frá sér fara.
54 Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
55 eins og hann talaði til feðra vorra,
við Abraham og niðja hans ævinlega.

56En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín.


Fæðing Jóhannesar

57Nú kom sá tími, að Elísabet skyldi verða léttari, og ól hún son. 58Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu, hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni, og samfögnuðu henni.

59Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn, og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum. 60Þá mælti móðir hans: "Eigi skal hann svo heita, heldur Jóhannes."

61En þeir sögðu við hana: "Enginn er í ætt þinni, sem heitir því nafni." 62Bentu þeir þá föður hans, að hann léti þá vita, hvað sveinninn skyldi heita.

63Hann bað um spjald og reit: "Jóhannes er nafn hans," og urðu þeir allir undrandi. 64Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga, og hann fór að tala og lofaði Guð. 65En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu. 66Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: "Hvað mun barn þetta verða?" Því að hönd Drottins var með honum.


Lofsöngur Sakaría

67En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift:

68 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels,
því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.
69 Hann hefur reist oss horn hjálpræðis
í húsi Davíðs þjóns síns,
70 eins og hann talaði fyrir munn sinna heilögu spámanna frá öndverðu,
71 frelsun frá óvinum vorum
og úr höndum allra, er hata oss.
72 Hann hefur auðsýnt feðrum vorum miskunn
og minnst síns heilaga sáttmála,
73 þess eiðs, er hann sór Abraham föður vorum
74 að hrífa oss úr höndum óvina
og veita oss að þjóna sér óttalaust
75 í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora.
76 Og þú, sveinn! munt nefndur verða spámaður hins hæsta,
því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans
77 og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu,
sem er fyrirgefning synda þeirra.
78 Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors.
Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
79 og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans,
og beina fótum vorum á friðar veg.

80En sveinninn óx og varð þróttmikill í anda. Hann dvaldist í óbyggðum til þess dags, er hann skyldi koma fram fyrir Ísrael.


Lagður í jötu

2
1En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. 2Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. 3Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

4Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, 5að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. 6En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. 7Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.


Frelsari fæddur

8En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. 9Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, 10en engillinn sagði við þá: "Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: 11Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. 12Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu."

13Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

14 Dýrð sé Guði í upphæðum,
og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.

15Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: "Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss." 16Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu. 17Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta. 18Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim. 19En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. 20Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.


Látinn heita Jesús

21Þegar átta dagar voru liðnir, skyldi umskera hann, og var hann látinn heita Jesús, eins og engillinn nefndi hann, áður en hann var getinn í móðurlífi.


Jesús færður Drottni

22En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse, fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, - 23en svo er ritað í lögmáli Drottins: "Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni," - 24og til að færa fórn eins og segir í lögmáli Drottins, "tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur."


Símeon

25Þá var í Jerúsalem maður, er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti huggunar Ísraels, og yfir honum var heilagur andi. 26Honum hafði heilagur andi vitrað, að hann skyldi ekki dauðann sjá, fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. 27Hann kom að tillaðan andans í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins, 28tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:

29 "Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara,
eins og þú hefur heitið mér,
30 því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,
31 sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,
32 ljós til opinberunar heiðingjum
og til vegsemdar lýð þínum Ísrael."

33Faðir hans og móðir undruðust það, er sagt var um hann. 34En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: "Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael og til tákns, sem móti verður mælt, 35og sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar."


Anna

36Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hafði hún lifað sjö ár með manni sínum frá því hún var mær 37og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum, en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi. 38Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem.

39Og er þau höfðu lokið öllu eftir lögmáli Drottins, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret. 40En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.


Jesús tólf ára

41Foreldrar hans ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. 42Og þegar hann var tólf ára gamall, fóru þau upp þangað eins og siður var á hátíðinni. 43Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis, varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem, og vissu foreldrar hans það eigi. 44Þau hugðu, að hann væri með samferðafólkinu, og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. 45En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.

46Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. 47En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. 48Og er þau sáu hann þar, brá þeim mjög, og móðir hans sagði við hann: "Barn, hví gjörðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin."

49Og hann sagði við þau: "Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?" 50En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.

51Og hann fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. 52Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum.


Jóhannes skírir og kennir

3
1Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus bróðir hans í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene, 2í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni. 3Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda, 4eins og ritað er í bók Jesaja spámanns:

Rödd hrópanda í eyðimörk:
Greiðið veg Drottins,
gjörið beinar brautir hans.
5 Öll gil skulu fyllast,
öll fell og hálsar lægjast.
Krókar skulu verða beinir
og óvegir sléttar götur.
6 Og allir menn munu sjá hjálpræði Guðs.

7Við mannfjöldann, sem fór út til að skírast af honum, sagði hann: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði? 8Berið þá ávexti samboðna iðruninni, og farið ekki að segja með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.' Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum. 9Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað."

10Mannfjöldinn spurði hann: "Hvað eigum vér þá að gjöra?"

11En hann svaraði þeim: "Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur."

12Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: "Meistari, hvað eigum vér að gjöra?"

13En hann sagði við þá: "Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt."

14Hermenn spurðu hann einnig: "En hvað eigum vér að gjöra?"

Hann sagði við þá: "Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið yður nægja mála yðar."

15Nú var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur. 16En Jóhannes svaraði öllum og sagði: "Ég skíri yður með vatni, en sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi. 17Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gjörhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi."

18Með mörgu öðru áminnti hann og flutti lýðnum fagnaðarboðin.


Varpað í fangelsi

19Hann vítti Heródes fjórðungsstjóra vegna Heródíasar, konu bróður hans, og fyrir allt hið illa, sem hann hafði gjört. 20Þá bætti Heródes einnig því ofan á allt annað, að hann varpaði Jóhannesi í fangelsi.


Jesús skírður

21Er allur lýðurinn lét skírast, var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gjörði bæn sína, að himinninn opnaðist, 22og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."


Ættartala

23En Jesús var um þrítugt, er hann hóf starf sitt.
Var hann, eftir því sem haldið var, sonur Jósefs,
sonar Elí, 24sonar Mattats,
sonar Leví, sonar Melkí,
sonar Jannaí, sonar Jósefs,
25sonar Mattatíass, sonar Amoss,
sonar Naúms, sonar Eslí,
sonar Naggaí, 26sonar Maats,
sonar Mattatíass, sonar Semeíns,
sonar Jóseks, sonar Jóda,
27sonar Jóhanans, sonar Hresa,
sonar Serúbabels, sonar Sealtíels,
sonar Nerí, 28sonar Melkí,
sonar Addí, sonar Kósams,
sonar Elmadams, sonar Ers,
29sonar Jesú, sonar Elíesers,
sonar Jóríms, sonar Mattats,
sonar Leví, 30sonar Símeons,
sonar Júda, sonar Jósefs,
sonar Jónams, sonar Eljakíms,
31sonar Melea, sonar Menna,
sonar Mattata, sonar Natans,
sonar Davíðs, 32sonar Ísaí,
sonar Óbeðs, sonar Bóasar,
sonar Salmons, sonar Naksons,
33sonar Ammínadabs, sonar Admíns,
sonar Arní, sonar Esroms,
sonar Peres, sonar Júda,
34sonar Jakobs, sonar Ísaks,
sonar Abrahams, sonar Tara,
sonar Nakórs, 35sonar Serúgs,
sonar Reú, sonar Pelegs,
sonar Ebers, sonar Sela,
36sonar Kenans, sonar Arpaksads,
sonar Sems, sonar Nóa,
sonar Lameks, 37sonar Metúsala,
sonar Enoks, sonar Jareds,
sonar Mahalalels, sonar Kenans,
38sonar Enoss, sonar Sets,
sonar Adams, sonar Guðs.


Freistingar

4
1En Jesús sneri aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda. Leiddi andinn hann um óbyggðina 2fjörutíu daga, en djöfullinn freistaði hans. Ekki neytti hann neins þá daga, og er þeir voru liðnir, var hann hungraður.

3En djöfullinn sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú steini þessum, að hann verði að brauði."

4Og Jesús svaraði honum: "Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði.'"

5Þá fór hann með hann upp og sýndi honum á augabragði öll ríki veraldar. 6Og djöfullinn sagði við hann: "Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess, því að mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil. 7Ef þú fellur fram og tilbiður mig, skal það allt verða þitt."

8Jesús svaraði honum: "Ritað er:

Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja
og þjóna honum einum."

9Þá fór hann með hann til Jerúsalem, setti hann á brún musterisins og sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér hér ofan, 10því að ritað er:

Hann mun fela englum sínum að gæta þín

11og:

þeir munu bera þig á höndum sér,
að þú steytir ekki fót þinn við steini."

12Jesús svaraði honum: "Sagt hefur verið: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns.'"

13Og er djöfullinn hafði lokið allri freistni, vék hann frá honum að sinni.


Í Nasaret

14En Jesús sneri aftur til Galíleu í krafti andans, og fóru fregnir af honum um allt nágrennið. 15Hann kenndi í samkundum þeirra, og lofuðu hann allir.

16Hann kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. 17Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er:

18 Andi Drottins er yfir mér,
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
19 og kunngjöra náðarár Drottins.

20Síðan lukti hann aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður, en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. 21Hann tók þá að tala til þeirra: "Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar."

22Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans, og sögðu: "Er hann ekki sonur Jósefs?"

23En hann sagði við þá: "Eflaust munuð þér minna mig á orðtakið: ,Læknir, lækna sjálfan þig!' Vér höfum heyrt um allt, sem gjörst hefur í Kapernaum. Gjör nú hið sama hér í ættborg þinni." 24Enn sagði hann: "Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu. 25En satt segi ég yður, að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía, þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði, og mikið hungur í öllu landinu, 26og þó var Elía til engrar þeirra sendur, heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi. 27Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns, og enginn þeirra var hreinsaður, heldur aðeins Naaman Sýrlendingur."

28Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði, er þeir heyrðu þetta, 29spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess, sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan. 30En hann gekk gegnum miðja mannþröngina og fór leiðar sinnar.


Í Kapernaum

31Hann kom nú ofan til Kapernaum, borgar í Galíleu, og kenndi þeim á hvíldardegi. 32Undruðust menn mjög kenningu hans, því að vald fylgdi orðum hans.

33Í samkunduhúsinu var maður nokkur, er haldinn var óhreinum, illum anda. Hann æpti hárri röddu: 34"Æ, hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs."

35Jesús hastaði þá á hann og mælti: "Þegi þú, og far út af honum." En illi andinn slengdi honum fram fyrir þá og fór út af honum, en varð honum ekki að meini.

36Felmtri sló á alla, og sögðu þeir hver við annan: "Hvaða orð er þetta? Með valdi og krafti skipar hann óhreinum öndum, og þeir fara." 37Og orðstír hans barst út til allra staða þar í grennd.


Jesús læknar

38Úr samkundunni fór hann í hús Símonar. En tengdamóðir Símonar var altekin sótthita, og báðu þeir hann að hjálpa henni. 39Hann gekk að, laut yfir hana og hastaði á sótthitann, og fór hann úr henni. En hún reis jafnskjótt á fætur og gekk þeim fyrir beina.

40Um sólsetur komu allir þeir, er höfðu á sínum vegum sjúklinga haldna ýmsum sjúkdómum, og færðu þá til hans. En hann lagði hendur yfir hvern þeirra og læknaði þá. 41Þá fóru og illir andar út af mörgum og æptu: "Þú ert sonur Guðs." En hann hastaði á þá og bannaði þeim að tala, því að þeir vissu, að hann var Kristur.


Til annarra borga

42Þegar dagur rann, gekk hann burt á óbyggðan stað, en mannfjöldinn leitaði hans. Þeir fundu hann og vildu aftra því, að hann færi frá þeim. 43En hann sagði við þá: "Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur." 44Og hann prédikaði í samkundunum í Júdeu.


Fiskidráttur Péturs

5
1Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. 2Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. 3Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.

4Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: "Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar."

5Símon svaraði: "Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin." 6Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna. 7Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.

8Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: "Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður." 9En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið. 10Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: "Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða."

11Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.


Jesús læknar líkþráan

12Svo bar við, er hann var í einni borginni, að þar var maður altekinn líkþrá. Hann sá Jesú, féll fram á ásjónu sína og bað hann: "Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."

13Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!" Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin. 14Og hann bauð honum að segja þetta engum. "En far þú," sagði hann, "sýn þig prestinum, og fórna fyrir hreinsun þína, eins og Móse bauð, þeim til vitnisburðar."

15En fregnin um hann breiddist út því meir, og menn komu hópum saman til að hlýða á hann og læknast af meinum sínum. 16En hann dró sig einatt í hlé til óbyggðra staða og var þar á bæn.


Jesús læknar lama mann

17Dag nokkurn var hann að kenna. Þar sátu farísear og lögmálskennendur, komnir úr hverju þorpi í Galíleu og Júdeu og frá Jerúsalem, og kraftur Drottins var með honum til þess að lækna. 18Komu þá menn með lama mann í rekkju og reyndu að bera hann inn og leggja hann fyrir framan Jesú. 19En vegna mannfjöldans sáu þeir engin ráð til að komast inn með hann og fóru því upp á þak og létu hann síga í rekkjunni niður um helluþekjuna beint fram fyrir Jesú. 20Og er hann sá trú þeirra, sagði hann: "Maður, syndir þínar eru þér fyrirgefnar."

21Þá tóku fræðimennirnir og farísearnir að hugsa með sér: "Hver er sá, er fer með slíka guðlöstun? Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?"

22En Jesús skynjaði gjörla hugsanir þeirra og sagði við þá: "Hvað hugsið þér í hjörtum yðar? 23Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru þér fyrirgefnar,' eða segja: ,Statt upp og gakk'? 24En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu til að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér:" - og nú talar hann við lama manninn - "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín."

25Jafnskjótt stóð hann upp frammi fyrir þeim, tók það, sem hann hafði legið á, fór heim til sín og lofaði Guð. 26En allir voru furðu lostnir og lofuðu Guð. Og þeir urðu ótta slegnir og sögðu: "Óskiljanlegt er það, sem vér höfum séð í dag."


Köllun Leví

27Eftir þetta fór hann út. Þá sá hann tollheimtumann, Leví að nafni, sitja hjá tollbúðinni og sagði við hann: "Fylg þú mér!" 28Og hann stóð upp, yfirgaf allt og fylgdi honum.

29Leví bjó honum veislu mikla í húsi sínu, og þar sat að borði með þeim mikill fjöldi tollheimtumanna og annarra. 30En farísearnir og fræðimenn þeirra vönduðu um við lærisveina hans og sögðu: "Hvers vegna etið þér og drekkið með tollheimtumönnum og bersyndugum?"

31Og Jesús svaraði þeim: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru. 32Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara til iðrunar."


Um föstu

33En þeir sögðu við hann: "Lærisveinar Jóhannesar fasta oft og fara með bænir og eins lærisveinar farísea, en þínir eta og drekka."

34Jesús sagði við þá: "Hvort getið þér ætlað brúðkaupsgestum að fasta, meðan brúðguminn er hjá þeim? 35En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta á þeim dögum."

36Hann sagði þeim einnig líkingu: "Enginn rífur bót af nýju fati og lætur á gamalt fat, því að bæði rífur hann þá nýja fatið og bótin af því hæfir ekki hinu gamla. 37Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir nýja vínið belgina og fer niður, en belgirnir ónýtast. 38Nýtt vín ber að láta á nýja belgi. 39Og enginn, sem drukkið hefur gamalt vín, vill nýtt, því að hann segir: ,Hið gamla er gott.'"


Herra hvíldardagsins

6
1En svo bar við á hvíldardegi, að hann fór um sáðlönd, og tíndu lærisveinar hans kornöx, neru milli handanna og átu. 2Þá sögðu farísear nokkrir: "Hví gjörið þér það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?"

3Og Jesús svaraði þeim: "Hafið þér þá ekki lesið, hvað Davíð gjörði, er hann hungraði og menn hans? 4Hann fór inn í Guðs hús, tók skoðunarbrauðin og át og gaf mönnum sínum, en þau má enginn eta nema prestarnir einir." 5Og hann sagði við þá: "Mannssonurinn er herra hvíldardagsins."

6Annan hvíldardag gekk hann í samkunduna og kenndi. Þar var maður nokkur með visna hægri hönd. 7En fræðimenn og farísear höfðu nánar gætur á Jesú, hvort hann læknaði á hvíldardegi, svo að þeir fengju tilefni að kæra hann. 8En hann vissi hugsanir þeirra og sagði við manninn með visnu höndina: "Statt upp, og kom hér fram." Og hann stóð upp og kom. 9Jesús sagði við þá: "Ég spyr yður, hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða granda því?" 10Hann leit í kring á þá alla og sagði við manninn: "Réttu fram hönd þína." Hann gjörði svo, og hönd hans varð heil.

11En þeir urðu æfir við og ræddu sín á milli, hvað þeir gætu gjört Jesú.


Postular valdir

12En svo bar við um þessar mundir, að hann fór til fjalls að biðjast fyrir og var alla nóttina á bæn til Guðs. 13Og er dagur rann, kallaði hann til sín lærisveina sína, valdi tólf úr þeirra hópi og nefndi þá postula. 14Þeir voru: Símon, sem hann nefndi Pétur, Andrés bróðir hans, Jakob og Jóhannes, Filippus og Bartólómeus, 15Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson og Símon, kallaður vandlætari, 16og Júdas Jakobsson og Júdas Ískaríot, sem varð svikari.


Læknir

17Hann gekk ofan með þeim og nam staðar á sléttri flöt. Þar var stór hópur lærisveina hans og mikill fjöldi fólks úr allri Júdeu, frá Jerúsalem og sjávarbyggðum Týrusar og Sídonar, 18er komið hafði til að hlýða á hann og fá lækning meina sinna. Einnig voru þeir læknaðir, er þjáðir voru af óhreinum öndum. 19Allt fólkið reyndi að snerta hann, því að frá honum kom kraftur, er læknaði alla.


Sælir eruð þér

20Þá hóf hann upp augu sín, leit á lærisveina sína og sagði:

"Sælir eruð þér, fátækir,
því að yðar er Guðs ríki.
21 Sælir eruð þér, sem nú hungrar,
því að þér munuð saddir verða.
Sælir eruð þér, sem nú grátið,
því að þér munuð hlæja.

22Sælir eruð þér, þá er menn hata yður, þá er þeir útskúfa yður og smána og bera út óhróður um yður vegna Mannssonarins. 23Fagnið á þeim degi og leikið af gleði, því laun yðar eru mikil á himni, og á sama veg fóru feður þeirra með spámennina.


Vei yður

En vei yður, þér auðmenn,
því að þér hafið tekið út huggun yðar. 25 Vei yður, sem nú eruð saddir,
því að yður mun hungra.
Vei yður, sem nú hlæið,
því að þér munuð sýta og gráta.

26Vei yður, þá er allir menn tala vel um yður, því að á sama veg fórst feðrum þeirra við falsspámennina.


Elskið óvini yðar

27En ég segi yður, er á mig hlýðið: Elskið óvini yðar, gjörið þeim gott, sem hata yður, 28blessið þá, sem bölva yður, og biðjið fyrir þeim, er misþyrma yður. 29Slái þig einhver á kinnina, skaltu og bjóða hina, og taki einhver yfirhöfn þína, skaltu ekki varna honum að taka kyrtilinn líka. 30Gef þú hverjum sem biður þig, og þann, sem tekur þitt frá þér, skaltu eigi krefja. 31Og svo sem þér viljið, að aðrir menn gjöri við yður, svo skuluð þér og þeim gjöra.

32Og þótt þér elskið þá, sem yður elska, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar elska þá líka, sem þá elska. 33Og þótt þér gjörið þeim gott, sem yður gjöra gott, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar gjöra og hið sama. 34Og þótt þér lánið þeim, sem þér vonið að muni borga, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar lána einnig syndurum til þess að fá allt aftur.

35Nei, elskið óvini yðar, og gjörið gott og lánið án þess að vænta nokkurs í staðinn, og laun yðar munu verða mikil, og þér verða börn hins hæsta, því að hann er góður við vanþakkláta og vonda. 36Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.


Dæmið ekki

37Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða. 38Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða."

39Þá sagði hann þeim og líkingu: "Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? 40Ekki er lærisveinn meistaranum fremri, en hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans. 41Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín? 42Hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ,Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér,' en sérð þó eigi sjálfur bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.


Af ávöxtunum þekkist tréð

43Því að ekki er til gott tré, er beri slæman ávöxt, né heldur slæmt tré, er beri góðan ávöxt. 44En hvert tré þekkist af ávexti sínum, enda lesa menn ekki fíkjur af þistlum né vínber af þyrnirunni. 45Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans.


Grundvallað á bjargi

46En hví kallið þér mig herra, herra, og gjörið ekki það, sem ég segi? 47Ég skal sýna yður, hverjum sá er líkur, sem kemur til mín, heyrir orð mín og breytir eftir þeim. 48Hann er líkur manni, er byggði hús, gróf djúpt fyrir og grundvallaði það á bjargi. Nú kom flóð og flaumurinn skall á því húsi, en fékk hvergi hrært það, vegna þess að það var vel byggt. 49Hinn, er heyrir og gjörir ekki, er líkur manni, sem byggði hús á jörðinni án undirstöðu. Flaumurinn skall á því, og það hús féll þegar, og fall þess varð mikið."


Mæl þú eitt orð

7
1Þá er hann hafði lokið máli sínu í áheyrn lýðsins, fór hann til Kapernaum. 2Hundraðshöfðingi nokkur hafði þjón, sem hann mat mikils. Þjónninn var sjúkur og dauðvona. 3Þegar hundraðshöfðinginn heyrði um Jesú, sendi hann til hans öldunga Gyðinga og bað hann koma og bjarga lífi þjóns síns. 4Þeir komu til Jesú, báðu hann ákaft og sögðu: "Verður er hann þess, að þú veitir honum þetta, 5því að hann elskar þjóð vora, og hann hefur reist samkunduna handa oss."

6Jesús fór með þeim. Þegar hann átti skammt til hússins, sendi hundraðshöfðinginn vini sína til hans og lét segja við hann: "Ómaka þig ekki, herra, því að ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. 7Þess vegna hef ég ekki heldur talið sjálfan mig verðan þess að koma til þín. En mæl þú eitt orð, og mun sveinn minn heill verða. 8Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: ,Far þú,' og hann fer, og við annan: ,Kom þú,' og hann kemur, og við þjón minn: ,Gjör þetta,' og hann gjörir það."

9Þegar Jesús heyrði þetta, furðaði hann sig á honum, sneri sér að mannfjöldanum, sem fylgdi honum, og mælti: "Ég segi yður, ekki einu sinni í Ísrael hef ég fundið þvílíka trú." 10Sendimenn sneru þá aftur heim og fundu þjóninn heilan heilsu.


Grát þú eigi

11Skömmu síðar bar svo við, að Jesús hélt til borgar, sem heitir Nain, og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. 12Þegar hann nálgaðist borgarhliðið, þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. 13Og er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: "Grát þú eigi!" 14Og hann gekk að og snart líkbörurnar, en þeir, sem báru, námu staðar. Þá sagði hann: "Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!" 15Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans.

16En ótti greip alla, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: "Spámaður mikill er risinn upp meðal vor," og "Guð hefur vitjað lýðs síns."

17Og þessi fregn um hann barst út um alla Júdeu og allt nágrennið.


Ert þú sá sem koma skal?

18Lærisveinar Jóhannesar sögðu honum frá öllu þessu. Hann kallaði þá til sín tvo lærisveina sína, 19sendi þá til Drottins og lét spyrja: "Ert þú sá sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?"

20Mennirnir fóru til hans og sögðu: "Jóhannes skírari sendi okkur til þín og spyr: ,Ert þú sá sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?'"

21Á þeirri stundu læknaði hann marga af sjúkdómum, meinum og illum öndum og gaf mörgum blindum sýn. 22Og hann svaraði þeim: "Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þið hafið séð og heyrt: Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. 23Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér."


Meira en spámaður

24Þá er sendimenn Jóhannesar voru burt farnir, tók hann að tala til mannfjöldans um Jóhannes: "Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? 25Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, í konungssölum er þá að finna, sem skartklæðin bera og lifa í sællífi. 26Hvað fóruð þér þá að sjá? Spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. 27Hann er sá sem um er ritað:

Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér,
er greiða mun veg þinn fyrir þér.

28Ég segi yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes. En hinn minnsti í Guðs ríki er honum meiri."

29Og allur lýðurinn, sem á hlýddi, og enda tollheimtumenn, viðurkenndu réttlæti Guðs og létu skírast af Jóhannesi. 30En farísear og lögvitringar gjörðu að engu áform Guðs um þá og létu ekki skírast af honum.

31"Við hvað á ég þá að líkja mönnum þessarar kynslóðar? Hverju eru þeir líkir? 32Líkir eru þeir börnum, sem á torgi sitja og kallast á: ,Vér lékum fyrir yður á flautu, og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér gráta.' 33Nú kom Jóhannes skírari, át ekki brauð né drakk vín, og þér segið: ,Hann hefur illan anda.' 34Og Mannssonurinn er kominn, etur og drekkur, og þér segið: ,Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!' 35En spekin hefur rétt fyrir sér, það staðfesta öll börn hennar."


Syndir fyrirgefnar

36Farísei nokkur bauð honum að eta hjá sér, og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. 37En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís, að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, 38nam staðar að baki honum til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. 39Þegar faríseinn, sem honum hafði boðið, sá þetta, sagði hann við sjálfan sig: "Væri þetta spámaður, mundi hann vita, hver og hvílík sú kona er, sem snertir hann, að hún er bersyndug."

40Jesús sagði þá við hann: "Símon, ég hef nokkuð að segja þér."

Hann svaraði: "Seg þú það, meistari."

41"Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara, en hinn fimmtíu. 42Nú gátu þeir ekkert borgað, og þá gaf hann báðum upp. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?"

43Símon svaraði: "Sá, hygg ég, sem hann gaf meira upp."

Jesús sagði við hann: "Þú ályktaðir rétt." 44Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: "Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt, og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína, en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. 45Ekki gafst þú mér koss, en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína, allt frá því ég kom. 46Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu, en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. 47Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar, enda elskar hún mikið, en sá elskar lítið, sem lítið er fyrirgefið." 48Síðan sagði hann við hana: "Syndir þínar eru fyrirgefnar."

49Þá tóku þeir, sem til borðs sátu með honum, að segja með sjálfum sér: "Hver er sá, er fyrirgefur syndir?"

50En hann sagði við konuna: "Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði."


Þær hjálpuðu þeim

8
1Eftir þetta fór hann um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf 2og konur nokkrar, er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, 3Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.


Sæði sáð

4Nú var mikill fjöldi saman kominn, og menn komu til hans úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: 5"Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið, og fuglar himins átu það upp. 6Sumt féll á klöpp. Það spratt, en skrælnaði, af því að það hafði ekki raka. 7Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. 8En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt." Að svo mæltu hrópaði hann: "Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri."

9En lærisveinar hans spurðu hann, hvað þessi dæmisaga þýddi. 10Hann sagði: "Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, ,að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.'

11En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. 12Það er féll hjá götunni, merkir þá, sem heyra orðið, en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. 13Það er féll á klöppina, merkir þá, sem taka orðinu með fögnuði, er þeir heyra það, en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund, en falla frá á reynslutíma. 14Það er féll meðal þyrna, merkir þá er heyra, en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. 15En það er féll í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.


Ljós á ljósastiku

16Enginn kveikir ljós og byrgir það með keri eða setur undir bekk, heldur láta menn það á ljósastiku, að þeir, sem inn koma, sjái ljósið.

17Því að ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, að eigi verði það kunnugt og komi í ljós.

18Gætið því að, hvernig þér heyrið. Því að þeim sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann ætlar sig hafa."


Móðir og bræður

19Móðir hans og bræður komu til hans, en gátu ekki náð fundi hans vegna mannfjöldans. 20Var honum sagt: "Móðir þín og bræður standa úti og vilja finna þig." 21En hann svaraði þeim: "Móðir mín og bræður eru þeir, sem heyra Guðs orð og breyta eftir því."


Í stormi

22Dag einn fór hann út í bát og lærisveinar hans. Hann sagði við þá: "Förum yfir um vatnið." Og þeir létu frá landi. 23En sem þeir sigldu, sofnaði hann. Þá skall stormhrina á vatnið, svo að nær fyllti bátinn og voru þeir hætt komnir. 24Þeir fóru þá til hans, vöktu hann og sögðu: "Meistari, meistari, vér förumst!"

En hann vaknaði og hastaði á vindinn og öldurótið og slotaði þegar og gerði logn. 25Og hann sagði við þá: "Hvar er trú yðar?"

En þeir urðu hræddir og undruðust og sögðu hver við annan: "Hver er þessi? Hann skipar bæði vindum og vatni og hvort tveggja hlýðir honum."


Í byggð Gerasena

26Þeir tóku land í byggð Gerasena, sem er gegnt Galíleu. 27Er hann sté á land, kom á móti honum maður nokkur úr borginni, sem haldinn var illum öndum. Langan tíma hafði hann ekki farið í föt né dvalist í húsi, heldur í gröfunum. 28Þegar hann sá Jesú, æpti hann, féll fram fyrir honum og hrópaði hárri röddu: "Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég bið þig, kvel þú mig eigi!" 29Því að hann hafði boðið óhreina andanum að fara út af manninum. En margsinnis hafði hann gripið hann, og höfðu menn fjötrað hann á höndum og fótum og haft í gæslu, en hann hafði slitið böndin og illi andinn hrakið hann út í óbyggðir.

30Jesús spurði hann: "Hvað heitir þú?" En hann sagði: "Hersing", því að margir illir andar höfðu farið í hann. 31Og þeir báðu Jesú að skipa sér ekki að fara í undirdjúpið.

32En þar var stór svínahjörð á beit í fjallinu. Þeir báðu hann að leyfa sér að fara í þau, og hann leyfði þeim það. 33Illu andarnir fóru þá úr manninum og í svínin, og hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði.

34En er hirðarnir sáu, hvað orðið var, flýðu þeir og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni. 35Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði, komu til Jesú og fundu manninn, sem illu andarnir höfðu farið úr, sitja klæddan og heilvita við fætur Jesú. Og þeir urðu hræddir. 36Sjónarvottar sögðu þeim frá, hvernig sá, sem haldinn var illum öndum, hafði orðið heill. 37Allt fólk í héruðum Gerasena bað hann þá fara burt frá sér, því menn voru slegnir miklum ótta. Og hann sté í bátinn og sneri aftur.

38Maðurinn, sem illu andarnir höfðu farið úr, bað hann að mega vera með honum, en Jesús lét hann fara og mælti: 39"Far aftur heim til þín, og seg þú frá, hve mikið Guð hefur fyrir þig gjört." Hann fór og kunngjörði um alla borgina, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört.


Trú þú aðeins

40En er Jesús kom aftur, fagnaði mannfjöldinn honum, því að allir væntu hans. 41Þá kom þar maður, Jaírus að nafni, forstöðumaður samkundunnar. Hann féll til fóta Jesú og bað hann koma heim til sín. 42Því hann átti einkadóttur, um tólf ára að aldri, og hún lá fyrir dauðanum.

Þegar Jesús var á leiðinni, þrengdi mannfjöldinn að honum. 43Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár. Hún hafði leitað lækna og varið til aleigu sinni, en enginn getað læknað hana. 44Hún kom að baki honum og snart fald klæða hans, og jafnskjótt stöðvaðist blóðlát hennar. 45Jesús sagði: "Hver var það, sem snart mig?"

En er allir synjuðu fyrir það, sagði Pétur: "Meistari, mannfjöldinn treðst að þér og þrýstir á."

46En Jesús sagði: "Einhver snart mig, því að ég fann, að kraftur fór út frá mér." 47En er konan sá, að hún fékk eigi dulist, kom hún skjálfandi, féll til fóta honum og skýrði frá því í áheyrn alls lýðsins, hvers vegna hún snart hann, og hvernig hún hafði jafnskjótt læknast. 48Hann sagði þá við hana: "Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði."

49Meðan hann var að segja þetta, kemur maður heiman frá samkundustjóranum og segir: "Dóttir þín er látin, ómaka þú ekki meistarann lengur."

50En er Jesús heyrði þetta, sagði hann við hann: "Óttast ekki, trú þú aðeins, og mun hún heil verða."

51Þegar hann kom að húsinu, leyfði hann engum að fara inn með sér nema Pétri, Jóhannesi og Jakobi og föður stúlkunnar og móður. 52Og allir grétu og syrgðu hana. Hann sagði: "Grátið ekki, hún er ekki dáin, hún sefur." 53En þeir hlógu að honum, þar eð þeir vissu að hún var dáin. 54Hann tók þá hönd hennar og kallaði: "Stúlka, rís upp!" 55Og andi hennar kom aftur, og hún reis þegar upp, en hann bauð að gefa henni að eta. 56Foreldrar hennar urðu frá sér numdir, en hann bauð þeim að segja engum frá þessum atburði.


Postular sendir

9
1Hann kallaði saman þá tólf og gaf þeim mátt og vald yfir öllum illum öndum og til að lækna sjúkdóma. 2Hann sendi þá að boða Guðs ríki og græða sjúka 3og sagði við þá: "Takið ekkert til ferðarinnar, hvorki staf né mal, brauð né silfur, og enginn hafi tvo kyrtla. 4Og hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar og þaðan skuluð þér leggja upp að nýju. 5En taki menn ekki við yður, þá farið úr borg þeirra og hristið dustið af fótum yðar til vitnisburðar gegn þeim."

6Þeir lögðu af stað og fóru um þorpin, fluttu fagnaðarerindið og læknuðu hvarvetna.


Heródes vill sjá Jesú

7En Heródes fjórðungsstjóri frétti allt, sem gjörst hafði, og vissi ekki, hvað hann átti að halda, því sumir sögðu, að Jóhannes væri risinn upp frá dauðum, 8aðrir, að Elía væri kominn fram, enn aðrir, að einn hinna fornu spámanna væri risinn upp. 9Heródes sagði: "Jóhannes lét ég hálshöggva, en hver er þessi, er ég heyri þvílíkt um?" Og hann leitaði færis að sjá hann.


Jesús mettar fimm þúsundir

10Postularnir komu aftur og skýrðu Jesú frá öllu því, er þeir höfðu gjört, en hann tók þá með sér og vék brott til bæjar, sem heitir Betsaída, að þeir væru einir saman. 11Mannfjöldinn varð þess var og fór á eftir honum. Hann tók þeim vel og talaði við þá um Guðs ríki og læknaði þá, er lækningar þurftu.

12Nú tók degi að halla. Komu þá þeir tólf að máli við hann og sögðu: "Lát þú mannfjöldann fara, að þeir geti náð til þorpa og býla hér í kring og náttað sig og fengið mat, því að hér erum vér á óbyggðum stað."

13En hann sagði við þá: "Gefið þeim sjálfir að eta."

Þeir svöruðu: "Vér eigum ekki meira en fimm brauð og tvo fiska, nema þá vér förum og kaupum vistir handa öllu þessu fólki." 14En þar voru um fimm þúsund karlmenn.

Hann sagði þá við lærisveina sína: "Látið þá setjast í hópa, um fimmtíu í hverjum."

15Þeir gjörðu svo og létu alla setjast. 16En hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði fyrir þau og braut og gaf lærisveinunum að bera fram fyrir mannfjöldann. 17Og þeir neyttu allir og urðu mettir. En leifarnar eftir þá voru teknar saman, tólf körfur brauðbita.


Játning Péturs

18Svo bar við, að hann var einn á bæn og lærisveinarnir hjá honum. Þá spurði hann þá: "Hvern segir fólkið mig vera?"

19Þeir svöruðu: "Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir, að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp."

20Og hann sagði við þá: "En þér, hvern segið þér mig vera?"

Pétur svaraði: "Krist Guðs."


Mannssonurinn á margt að líða

21Hann lagði ríkt á við þá að segja þetta engum 22og mælti: "Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa á þriðja degi."

23Og hann sagði við alla: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér. 24Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því. 25Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en týna eða fyrirgjöra sjálfum sér? 26En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð sinni og föðurins og heilagra engla. 27En ég segi yður með sanni: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki."


Þessi er sonur minn

28Svo bar við um átta dögum eftir ræðu þessa, að hann tók með sér þá Pétur, Jóhannes og Jakob og gekk upp á fjallið að biðjast fyrir. 29Og er hann var að biðjast fyrir, varð yfirlit ásjónu hans annað, og klæði hans urðu hvít og skínandi. 30Og tveir menn voru á tali við hann. Það voru þeir Móse og Elía. 31Þeir birtust í dýrð og ræddu um brottför hans, er hann skyldi fullna í Jerúsalem. 32Þá Pétur og félaga hans sótti mjög svefn, en nú vöknuðu þeir og sáu dýrð hans og mennina tvo, er stóðu hjá honum. 33Þegar þeir voru að skilja við Jesú, mælti Pétur við hann: "Meistari, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina." Ekki vissi hann, hvað hann sagði.

34Um leið og hann mælti þetta, kom ský og skyggði yfir þá, og urðu þeir hræddir, er þeir komu inn í skýið. 35Og rödd kom úr skýinu og sagði: "Þessi er sonur minn, útvalinn, hlýðið á hann!" 36Er röddin hafði talað, var Jesús einn. Og þeir þögðu og sögðu á þeim dögum engum frá neinu því, sem þeir höfðu séð.


Jesús læknar svein

37Daginn eftir, er þeir fóru ofan af fjallinu, kom mikill mannfjöldi á móti honum. 38Og maður nokkur úr mannfjöldanum hrópar: "Meistari, ég bið þig að líta á son minn, því að hann er einkabarnið mitt. 39Það er andi, sem grípur hann, og þá æpir hann skyndilega. Hann teygir hann svo að hann froðufellir, og víkur varla frá honum og er að gjöra út af við hann. 40Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki."

41Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður og umbera yður? Fær þú hingað son þinn."

42Þegar hann var að koma, slengdi illi andinn honum flötum og teygði hann ákaflega. En Jesús hastaði á óhreina andann, læknaði sveininn og gaf hann aftur föður hans. 43Og allir undruðust stórum veldi Guðs.


Þeir skildu ekki

Þá er allir dáðu allt það, er hann gjörði, sagði hann við lærisveina sína: 44"Festið þessi orð í huga: ,Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur.'" 45En þeir skildu ekki þessi orð, og þetta var þeim hulið, svo að þeir skynjuðu það ekki. Og þeir þorðu ekki að spyrja hann um þetta.


Hver er mestur

46Sú spurning kom fram meðal þeirra, hver þeirra væri mestur. 47Jesús vissi, hvað þeir hugsuðu í hjörtum sínum, og tók lítið barn, setti það hjá sér 48og sagði við þá: "Hver sem tekur við þessu barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig. Því að sá sem minnstur er meðal yðar allra, hann er mestur."


Sá sem er ekki á móti yður

49Jóhannes tók til máls: "Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgir oss ekki."

50En Jesús sagði við hann: "Varnið þess ekki. Sá sem er ekki á móti yður, er með yður."


Upp til Jerúsalem

51Nú fullnaðist brátt sá tími, er hann skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. 52Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. 53En þeir tóku ekki við honum, því hann var á leið til Jerúsalem. 54Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það, sögðu þeir: "Herra, eigum vér að bjóða, að eldur falli af himni og tortími þeim?"

55En hann sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: "Ekki vitið þið, hvers anda þið eruð. 56Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa."] Og þeir fóru í annað þorp.


Fylg þú mér

57Þegar þeir voru á ferð á veginum, sagði maður nokkur við hann: "Ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð."

58Jesús sagði við hann: "Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla." 59Við annan sagði hann: "Fylg þú mér!"

Sá mælti: "Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn."

60Jesús svaraði: "Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki."

61Enn annar sagði: "Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima."

62En Jesús sagði við hann: "Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki."


Uppskeran er mikil

10
1Eftir þetta kvaddi Drottinn til aðra, sjötíu og tvo að tölu, og sendi þá á undan sér, tvo og tvo, í hverja þá borg og stað, sem hann ætlaði sjálfur að koma til. 2Og hann sagði við þá: "Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar. 3Farið! Ég sendi yður eins og lömb meðal úlfa. 4Hafið ekki pyngju, ekki mal né skó, og heilsið engum á leiðinni. 5Hvar sem þér komið í hús, þá segið fyrst: ,Friður sé með þessu húsi.' 6Og sé þar friðar sonur, mun friður yðar hvíla yfir honum, ella hverfa aftur til yðar. 7Verið um kyrrt í sama húsi, neytið þess, sem þar er fram boðið í mat og drykk. Verður er verkamaðurinn launa sinna. Eigi skuluð þér flytjast hús úr húsi. 8Og hvar sem þér komið í borg og tekið er við yður, þá neytið þess, sem fyrir yður er sett. 9Læknið þá, sem þar eru sjúkir, og segið þeim: ,Guðs ríki er komið í nánd við yður.' 10En hvar sem þér komið í borg og eigi er við yður tekið, þá farið út á strætin og segið: 11,Jafnvel það dust, sem loðir við fætur vora úr borg yðar, þurrkum vér af oss handa yður. Vitið samt þetta, að Guðs ríki er komið í nánd.' 12Ég segi yður: Bærilegra mun Sódómu á þeim degi en þeirri borg.


Sá sem hafnar mér

13Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þeir löngu iðrast og setið í sekk og ösku. 14En Týrus og Sídon mun bærilegra í dóminum en ykkur. 15Og þú Kapernaum! Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða.

16Sá sem á yður hlýðir, hlýðir á mig, og sá sem yður hafnar, hafnar mér. En sá sem hafnar mér, hafnar þeim er sendi mig."


Þeir sjötíu og tveir koma aftur

17Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: "Herra, jafnvel illir andar eru oss undirgefnir í þínu nafni."

18En hann mælti við þá: "Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. 19Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun yður mein gjöra. 20Gleðjist samt ekki af því, að andarnir eru yður undirgefnir, gleðjist öllu heldur af hinu, að nöfn yðar eru skráð í himnunum."


Ég vegsama þig, faðir

21Á sömu stundu varð hann glaður í heilögum anda og sagði: "Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.

22Allt er mér falið af föður mínum, og enginn veit, hver sonurinn er, nema faðirinn, né hver faðirinn er, nema sonurinn og sá sem sonurinn vill opinbera hann."


Sæl eru þau augu

23Og hann sneri sér að lærisveinum sínum og sagði við þá einslega: "Sæl eru þau augu, sem sjá það sem þér sjáið. 24Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyrðu það ekki."


Hvað á ég að gjöra?

25Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: "Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"

26Jesús sagði við hann: "Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?"

27Hann svaraði: "Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig."

28Jesús sagði við hann: "Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa."

29En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: "Hver er þá náungi minn?"

30Því svaraði Jesús svo: "Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. 31Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. 32Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. 33En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, 34gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. 35Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.'

36Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?"

37Hann mælti: "Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum."

Jesús sagði þá við hann: "Far þú og gjör hið sama."


Eitt er nauðsynlegt

38Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. 39Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. 40En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: "Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér."

41En Drottinn svaraði henni: "Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, 42en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið."


Kenn þú oss að biðja

11
1Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann, þá er hann lauk bæn sinni: "Herra, kenn þú oss að biðja, eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum."

2En hann sagði við þá: "Þegar þér biðjist fyrir, þá segið:

Faðir,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
3 gef oss hvern dag vort daglegt brauð.
4 Fyrirgef oss vorar syndir,
enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni."


Biðjið og yður mun gefast

5Og hann sagði við þá: "Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ,Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, 6því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.' 7Mundi hinn þá svara inni: ,Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð'? 8Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.

9Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. 10Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. 11Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, 12eða sporðdreka, ef hann biður um egg? 13Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann."


Guðs ríki komið

14Jesús var að reka út illan anda, og var sá mállaus. Þegar illi andinn var út farinn, tók málleysinginn að mæla, og undraðist mannfjöldinn. 15En sumir þeirra sögðu: "Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana." 16En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.

17En hann vissi hugrenningar þeirra og sagði við þá: "Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. 18Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist - fyrst þér segið, að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? 19En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. 20En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.

21Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði, sem hann á, 22en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann, tekur sá alvæpni hans, er hann treysti á, og skiptir herfanginu.

23Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.


Sælir þeir, sem heyra Guðs orð

24Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki, segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.' 25Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt, 26fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður."

27Er hann mælti þetta, hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: "Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir."

28Hann sagði: "Já, því sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það."


Hér er meira

29Þegar fólkið þyrptist þar að, tók hann svo til orða: "Þessi kynslóð er vond kynslóð. Hún heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar. 30Því Jónas varð Ninívemönnum tákn, og eins mun Mannssonurinn verða þessari kynslóð. 31Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt mönnum þessarar kynslóðar og sakfella þá, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon. 32Ninívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas.


Augað er lampi líkamans

33Enginn kveikir ljós og setur það í felur né undir mæliker, heldur á ljósastiku, svo að þeir, sem inn koma, sjái ljósið. 34Auga þitt er lampi líkamans. Þegar auga þitt er heilt, þá er og allur líkami þinn bjartur, en sé það spillt, þá er og líkami þinn dimmur. 35Gæt því þess, að ljósið í þér sé ekki myrkur. 36Sé því líkami þinn allur bjartur og hvergi myrkur í honum, verður hann allur í birtu, eins og þegar lampi lýsir á þig með loga sínum."


Hið ytra og innra

37Þá er hann hafði þetta mælt, bauð farísei nokkur honum til dagverðar hjá sér. Hann kom og settist til borðs. 38Faríseinn sá, að hann tók ekki handlaugar á undan máltíðinni, og furðaði hann á því. 39Drottinn sagði þá við hann: "Þér farísear, þér hreinsið bikarinn og fatið utan, en hið innra eruð þér fullir yfirgangs og illsku. 40Þér heimskingjar, hefur sá, sem gjörði hið ytra, ekki einnig gjört hið innra? 41En gefið fátækum það, sem í er látið, og þá er allt yður hreint.

42En vei yður, þér farísear! Þér gjaldið tíund af myntu og rúðu og alls kyns matjurtum, en hirðið ekki um réttlæti og kærleika Guðs. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta. 43Vei yður, þér farísear! Yður er ljúft að skipa æðsta bekk í samkundum og láta heilsa yður á torgum. 44Vei yður, því þér eruð eins og duldar grafir, sem menn ganga yfir án þess að vita."

45Þá tók lögvitringur einn til orða: "Meistari, þú meiðir oss líka með því, sem þú segir."

46En Jesús mælti: "Vei yður líka, þér lögvitringar! Þér leggið á menn lítt bærar byrðar, og sjálfir snertið þér ekki byrðarnar einum fingri. 47Vei yður! Þér hlaðið upp grafir spámannanna, sem feður yðar líflétu. 48Þannig berið þér vitni um athafnir feðra yðar og samþykkið þær. Þeir líflétu þá, en þér hlaðið upp grafirnar. 49Þess vegna hefur og speki Guðs sagt: ,Ég mun senda þeim spámenn og postula, og suma þeirra munu þeir lífláta og ofsækja.' 50Þannig verður kynslóð þessi krafin um blóð allra spámannanna, er úthellt hefur verið frá grundvöllun heims, 51frá blóði Abels til blóðs Sakaría, sem drepinn var milli altarisins og musterisins. Já, segi ég yður, þess mun krafist verða af þessari kynslóð.

52Vei yður, þér lögvitringar! Þér hafið tekið brott lykil þekkingarinnar. Sjálfir hafið þér ekki gengið inn, og þeim hafið þér varnað, sem inn vildu ganga."

53Og er hann var farinn út þaðan, tóku fræðimenn og farísear að ganga hart að honum og spyrja hann í þaula um margt 54og sitja um að veiða eitthvað af vörum hans.


Varað við hræsni

12
1Fólk hafði nú flykkst að í tugum þúsunda, svo að nærri tróð hver annan undir.

Jesús tók þá að tala, fyrst til lærisveina sinna: "Varist súrdeig farísea, sem er hræsnin. 2Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt. 3Því mun allt það, sem þér hafið talað í myrkri, heyrast í birtu, og það, sem þér hafið hvíslað í herbergjum, mun kunngjört á þökum uppi.


Hvern ber að hræðast?

4Það segi ég yður, vinir mínir: Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gjört. 5Ég skal sýna yður, hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann, er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann.

6Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó er ekki einn þeirra gleymdur Guði. 7Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.


Að kannast við Krist fyrir mönnum

8En ég segi yður: Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og Mannssonurinn kannast við fyrir englum Guðs. 9En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun afneitað verða fyrir englum Guðs.

10Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem lastmælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið.

11Og þegar þeir leiða yður fyrir samkundur, höfðingja og yfirvöld, hafið þá ekki áhyggjur af því, hvernig eða með hverju þér eigið að verja yður eða hvað þér eigið að segja. 12Því að heilagur andi mun kenna yður á þeirri stundu, hvað segja ber."


Ríki bóndinn

13Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: "Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum."

14Hann svaraði honum: "Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?" 15Og hann sagði við þá: "Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé."

16Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: "Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. 17Hann hugsaði með sér: ,Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum.' 18Og hann sagði: ,Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. 19Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.'

20En Guð sagði við hann: ,Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?' 21Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði."


Ekki áhyggjufullir

22Og hann sagði við lærisveina sína: "Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. 23Lífið er meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin. 24Hyggið að hröfnunum. Hvorki sá þeir né uppskera, eigi hafa þeir forðabúr eða hlöðu, og Guð fæðir þá. Hve miklum mun eruð þér fremri fuglunum! 25Og hver yðar getur með áhyggjum aukið spönn við aldur sinn? 26Fyrst þér nú orkið ekki svo litlu, hví látið þér allt hitt valda yður áhyggjum? 27Hyggið að liljunum, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.

28Fyrst Guð skrýðir svo grasið á vellinum, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, hve miklu fremur mun hann þá klæða yður, þér trúlitlir!

29Hafið ekki hugann við, hvað þér eigið að eta og hvað að drekka, og kvíðið engu. 30Allt þetta stunda heiðingjar heimsins, en faðir yðar veit, að þér þarfnist þessa. 31Leitið heldur ríkis hans, og þá mun þetta veitast yður að auki.


Fjársjóður, sem fyrnist ekki

32Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið. 33Seljið eigur yðar og gefið ölmusu, fáið yður pyngjur, er fyrnast ekki, fjársjóð á himnum, er þrýtur ekki, þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt. 34Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera.


Verið viðbúnir

35Verið gyrtir um lendar, og látið ljós yðar loga, 36og verið líkir þjónum, er bíða þess, að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra. 37Sælir eru þeir þjónar, sem húsbóndinn finnur vakandi, er hann kemur. Sannlega segi ég yður, hann mun gyrða sig belti, láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim. 38Og komi hann um miðnætti eða síðar og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá. 39Það skiljið þér, að húsráðandi léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi, á hvaða stundu þjófurinn kæmi. 40Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi."

41Þá spurði Pétur: "Herra, mælir þú þessa líkingu til vor eða til allra?"

42Drottinn mælti: "Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður, sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? 43Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. 44Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. 45En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: ,Það dregst, að húsbóndi minn komi,' og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, 46þá mun húsbóndi þess þjóns kom á þeim degi, er hann væntir ekki, á þeirri stundu, er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum.

47Sá þjónn, sem veit vilja húsbónda síns og hefur ekki viðbúnað né gjörir vilja hans, mun barinn mörg högg. 48En hinn, sem veit hann ekki, en vinnur til refsingar, mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið, verður mikils krafinn, og af þeim verður meira heimtað, sem meira er léð.


Eldur á jörðu

49Ég er kominn að varpa eldi á jörðu. Hversu vildi ég, að hann væri þegar kveiktur! 50Skírn á ég að skírast. Hversu þungt er mér, uns hún er fullnuð.

51Ætlið þér, að ég sé kominn að færa frið á jörðu? Nei, segi ég yður, heldur sundurþykki. 52Upp frá þessu verða fimm í sama húsi sundurþykkir, þrír við tvo og tveir við þrjá, 53faðir við son og sonur við föður, móðir við dóttur og dóttir við móður, tengdamóðir við tengdadóttur sína og tengdadóttir við tengdamóður."


Tákn tímanna

54Hann sagði og við fólkið: "Þá er þér sjáið ský draga upp í vestri, segið þér jafnskjótt: ,Nú fer að rigna.' Og svo verður. 55Og þegar vindur blæs af suðri, segið þér: ,Nú kemur hiti.' Og svo fer. 56Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða, en hvernig er því farið, að þér kunnið ekki að meta þennan tíma?

57Hví dæmið þér ekki af sjálfum yður, hvað rétt sé? 58Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald, þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann, til þess að hann dragi þig ekki fyrir dómarann, dómarinn afhendi þig böðlinum, og böðullinn varpi þér í fangelsi. 59Ég segi þér, eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri."


Ef þér gjörið ekki iðrun

13
1Í sama mund komu einhverjir og sögðu honum frá Galíleumönnunum, að Pílatus hefði blandað blóði þeirra í fórnir þeirra. 2Jesús mælti við þá: "Haldið þér, að þessir Galíleumenn hafi verið meiri syndarar en allir aðrir Galíleumenn, fyrst þeir urðu að þola þetta? 3Nei, segi ég yður, en ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast eins. 4Eða þeir átján, sem turninn féll yfir í Sílóam og varð að bana, haldið þér, að þeir hafi verið sekari en allir þeir menn, sem í Jerúsalem búa? 5Nei, segi ég yður, en ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast eins."


Enn þetta ár

6En hann sagði þessa dæmisögu: "Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. 7Hann sagði þá við víngarðsmanninn: ,Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni?' 8En hann svaraði honum: ,Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. 9Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.'"


Leyst úr fjötrum

10Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni. 11Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið haldin sjúkleiks anda og var kreppt og alls ófær að rétta sig upp. 12Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: "Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!" 13Þá lagði hann hendur yfir hana, og jafnskjótt réttist hún og lofaði Guð.

14En samkundustjórinn reiddist því, að Jesús læknaði á hvíldardegi, og mælti til fólksins: "Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna yður og ekki á hvíldardegi."

15Drottinn svaraði honum: "Hræsnarar, leysir ekki hver yðar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? 16En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?" 17Við þessi orð hans urðu allir mótstöðumenn hans sneyptir, en allur lýður fagnaði yfir öllum þeim dýrðarverkum, er hann gjörði.


Hverju er Guðs ríki líkt?

18Hann sagði nú: "Hverju er Guðs ríki líkt? Við hvað á ég að líkja því? 19Líkt er það mustarðskorni, sem maður tók og sáði í jurtagarð sinn. Það óx og varð tré og fuglar himins hreiðruðu sig í greinum þess."

20Og aftur sagði hann: "Við hvað á ég að líkja Guðs ríki? 21Líkt er það súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt."


Að komast inn

22Og hann hélt áfram til Jerúsalem, fór um borgir og þorp og kenndi. 23Einhver sagði við hann: "Herra, eru þeir fáir, sem hólpnir verða?"

Hann sagði við þá: 24"Kostið kapps um að komast inn um þröngu dyrnar, því margir, segi ég yður, munu reyna að komast inn og ekki geta. 25Þegar húsbóndinn stendur upp og lokar dyrum og þér takið þá að standa fyrir utan og knýja á dyr og segja: ,Herra, ljúk þú upp fyrir oss!' mun hann svara yður: ,Ég veit ekki, hvaðan þér eruð.' 26Þá munuð þér segja: ,Vér höfum þó etið og drukkið með þér, og þú kenndir á götum vorum.' 27Og hann mun svara: ,Ég segi yður, ég veit ekki, hvaðan þér eruð, farið frá mér allir illgjörðamenn!' 28Þar verður grátur og gnístran tanna, er þér sjáið Abraham, Ísak og Jakob og alla spámennina í Guðs ríki, en yður út rekna. 29Þá munu menn koma frá austri og vestri, frá norðri og suðri og sitja til borðs í Guðs ríki. 30En til eru síðastir, er verða munu fyrstir, og til eru fyrstir, er verða munu síðastir."


Þér vilduð eigi

31Á þeirri stundu komu nokkrir farísear og sögðu við hann: "Far þú og hald á brott héðan, því að Heródes vill drepa þig."

32Og hann sagði við þá: "Farið og segið ref þeim: ,Í dag og á morgun rek ég út illa anda og lækna og á þriðja degi mun ég marki ná.' 33En mér ber að halda áfram ferð minni í dag og á morgun og næsta dag, því að eigi hæfir, að spámaður bíði dauða annars staðar en í Jerúsalem.

34Jerúsalem, Jerúsalem! Þú, sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum eins og hænan ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. 35Hús yðar verður í eyði látið. Ég segi yður: Þér munuð eigi sjá mig, fyrr en þar er komið, að þér segið: ,Blessaður sé sá er kemur, í nafni Drottins!'"


Gátu engu svarað

14
1Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. 2Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. 3Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: "Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?"

4Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. 5Og Jesús mælti við þá: "Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?"

6Þeir gátu engu svarað þessu.


Set þig ekki í hefðarsæti

7Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: 8"Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, 9og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.' Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. 10Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!' Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. 11Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða."

12Þá sagði hann við gestgjafa sinn: "Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð, bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum. Þeir bjóða þér aftur, og þú færð endurgjald. 13Þegar þú gjörir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum, 14og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér, en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra."


Vonsvikinn veitandi

15Þegar einn þeirra, er að borði sátu, heyrði þetta, sagði hann við Jesú: "Sæll er sá, sem neytir brauðs í Guðs ríki."

16Jesús sagði við hann: "Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. 17Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: ,Komið, nú er allt tilbúið.' 18En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: ,Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.' 19Annar sagði: ,Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.' 20Og enn annar sagði: ,Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.'

21Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: ,Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta.' 22Og þjónninn sagði: ,Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm.' 23Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: ,Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist. 24Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína.'"


Að segja skilið við allt

25Mikill fjöldi fólks var honum samferða. Hann sneri sér við og sagði við þá: 26"Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn. 27Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn.

28Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu? 29Ella má svo fara, að hann leggi undirstöðu, en fái ekki við lokið, og allir, sem það sjá, taki að spotta hann 30og segja: ,Þessi maður fór að byggja, en gat ekki lokið.'

31Eða hvaða konungur fer með hernaði gegn öðrum konungi og sest ekki fyrst við og ráðgast um, hvort honum sé fært að mæta með tíu þúsundum þeim er fer á móti honum með tuttugu þúsundir? 32Sé svo ekki, gerir hann menn á fund hans, meðan hann er enn langt undan, og spyr um friðarkosti. 33Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn, nema hann segi skilið við allt sem hann á.

34Saltið er gott, en ef saltið sjálft dofnar, með hverju á þá að krydda það? 35Hvorki er það hæft á tún né taðhaug. Því er fleygt. Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri."


Týndur sauður

15
1Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann, 2en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: "Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim."

3En hann sagði þeim þessa dæmisögu: 4"Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann? 5Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann. 6Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.' 7Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf.


Týnd drakma

8Eða kona, sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega, uns hún finnur hana? 9Og er hún hefur fundið hana, kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið drökmuna, sem ég týndi.' 10Ég segi yður: Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun."


Tveir synir

11Enn sagði hann: "Maður nokkur átti tvo sonu. 12Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: ,Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber.' Og hann skipti með þeim eigum sínum. 13Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. 14En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. 15Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. 16Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

17En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: ,Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! 18Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. 19Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.'

20Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. 21En sonurinn sagði við hann: ,Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn.' 22Þá sagði faðir hans við þjóna sína: ,Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. 23Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. 24Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.' Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.

25En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. 26Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. 27Hann svaraði: ,Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.'

28Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. 29En hann svaraði föður sínum: ,Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. 30En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.' 31Hann sagði þá við hann: ,Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. 32En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.'"


Gjör reikningsskil

16
1Enn sagði hann við lærisveina sína: "Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans. 2Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: ,Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur.' 3Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: ,Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. 4Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.'

5Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: ,Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum?' 6Hann svaraði: ,Hundrað kvartil viðsmjörs.' Hann mælti þá við hann: ,Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu.' 7Síðan sagði hann við annan: ,En hvað skuldar þú?' Hann svaraði: ,Hundrað tunnur hveitis.' Og hann sagði honum: ,Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.'

8Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.

9Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.


Trúr í því smæsta

10Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu. 11Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði? 12Og ef þér reynist ekki trúir í því sem annars er, hver gefur yður þá það, sem yðar er?

13Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón."


Guð þekkir hjörtu yðar

14En farísearnir, sem voru menn fégjarnir, heyrðu þetta og gjörðu gys að honum. 15En hann sagði við þá: "Þér eruð þeir, sem réttlætið sjálfa yður í augum manna, en Guð þekkir hjörtu yðar. Því það, sem hátt er að dómi manna, er viðurstyggð í augum Guðs.

16Lögmálið og spámennirnir ná fram til Jóhannesar. Þaðan í frá er flutt fagnaðarerindi Guðs ríkis, og hver maður vill ryðjast þar inn.

17En það er auðveldara, að himinn og jörð líði undir lok, en einn stafkrókur lögmálsins falli úr gildi.

18Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann, drýgir hór.


Ríkur og snauður

19Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. 20En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. 21Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. 22En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.

23Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. 24Þá kallaði hann: ,Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.'

25Abraham sagði: ,Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst. 26Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.' 27En hann sagði: ,Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, 28en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað.' 29En Abraham segir: ,Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.' 30Hinn svaraði: ,Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.' 31En Abraham sagði við hann: ,Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum.'"


Vei þeim er veldur

17
1Hann sagði við lærisveina sína: "Eigi verður umflúið, að til ginninga komi, en vei þeim er veldur. 2Betra væri honum að hafa mylnustein um hálsinn og vera varpað í hafið en að tæla einn af þessum smælingjum til falls.


Fyrirgefning

3Hafið gát á sjálfum yður. Ef bróðir þinn syndgar, þá ávíta hann, og ef hann iðrast, þá fyrirgef honum. 4Og þótt hann misgjöri við þig sjö sinnum á dag og snúi sjö sinnum aftur til þín og segi: ,Ég iðrast,' þá skalt þú fyrirgefa honum."


Trú

5Postularnir sögðu við Drottin: "Auk oss trú!"

6En Drottinn sagði: "Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: ,Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum,' og það mundi hlýða yður.


Þjónusta

7Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann, þegar hann kemur inn af akri: ,Kom þegar og set þig til borðs'? 8Segir hann ekki fremur við hann: ,Bú þú mér kvöldverð, gyrð þig og þjóna mér, meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið.' 9Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gjöra það, sem boðið var? 10Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: ,Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.'"


Hvar eru hinir níu?

11Svo bar við á ferð hans til Jerúsalem, að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. 12Og er hann kom inn í þorp nokkurt, mættu honum tíu menn líkþráir. Þeir stóðu álengdar, 13hófu upp raust sína og kölluðu: "Jesús, meistari, miskunna þú oss!"

14Er hann leit þá, sagði hann við þá: "Farið og sýnið yður prestunum." Þeir héldu af stað og nú brá svo við, að þeir urðu hreinir. 15En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu. 16Hann féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. 17Jesús sagði: "Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? 18Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?" 19Síðan mælti Jesús við hann: "Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér."


Innra með yður

20Farísear spurðu hann, hvenær Guðs ríki kæmi. Hann svaraði þeim: "Guðs ríki kemur ekki þannig, að á því beri. 21Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður."


Er Mannssonurinn opinberast

22Og hann sagði við lærisveinana: "Þeir dagar munu koma, að þér þráið að sjá einn dag Mannssonarins og munuð eigi sjá. 23Menn munu segja við yður: Sjá hér, sjá þar. En farið ekki og hlaupið eftir því. 24Eins og elding, sem leiftrar og lýsir frá einu skauti himins til annars, svo mun Mannssonurinn verða á degi sínum. 25En fyrst á hann margt að líða og útskúfaður verða af þessari kynslóð.

26Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins: 27Menn átu og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina, og flóðið kom og tortímdi öllum. 28Eins var og á dögum Lots: Menn átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu. 29En daginn, sem Lot fór úr Sódómu, rigndi eldi og brennisteini af himni og tortímdi öllum. 30Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast.

31Sá sem þann dag er á þaki uppi og á muni sína í húsinu, fari ekki ofan að sækja þá. Og sá sem er á akri, skal ekki heldur hverfa aftur. 32Minnist konu Lots. 33Sá sem vill sjá lífi sínu borgið, mun týna því, en sá sem týnir því, mun öðlast líf. 34Ég segi yður: Á þeirri nóttu verða tveir í einni hvílu, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn. 35Tvær munu mala á sömu kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin. [36Tveir verða á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.]"

37Þeir spurðu hann þá: "Hvar, herra?"

En hann sagði við þá: "Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er."


Eigi þreytast að biðja

18
1Þá sagði hann þeim dæmisögu um það, hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast: 2"Í borg einni var dómari, sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann. 3Í sömu borg var ekkja, sem kom einlægt til hans og sagði: ,Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum.' 4Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: ,Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann. 5En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar, áður en hún gjörir út af við mig með nauði sínu.'"

6Og Drottinn mælti: "Heyrið, hvað rangláti dómarinn segir. 7Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim? 8Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?"


Farísei og tollheimtumaður

9Hann sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra: 10"Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.

11Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: ,Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. 12Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.'

13En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: ,Guð, vertu mér syndugum líknsamur!' 14Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða."


Leyfið börnunum að koma til mín

15Menn færðu og til hans ungbörnin, að hann snerti þau. Lærisveinarnir sáu það og átöldu þá. 16En Jesús kallaði þau til sín og mælti: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. 17Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma."


Auðugur höfðingi

18Höfðingi nokkur spurði hann: "Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"

19Jesús sagði við hann: "Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. 20Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, heiðra föður þinn og móður.'"

21Hann sagði: "Alls þessa hef ég gætt frá æsku."

22Þegar Jesús heyrði þetta, sagði hann við hann: "Enn er þér eins vant: Sel allt, sem þú átt, og skipt meðal fátækra, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér." 23En er hann heyrði þetta, varð hann hryggur við, enda auðugur mjög.

24Jesús sá það og sagði: "Hve torvelt er þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki. 25Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."

26En þeir, sem á hlýddu, spurðu: "Hver getur þá orðið hólpinn?"

27Hann mælti: "Það sem mönnum er um megn, það megnar Guð."


Vér yfirgáfum allt

28Þá sagði Pétur: "Vér yfirgáfum allt, sem vér áttum, og fylgdum þér."

29Jesús sagði við þá: "Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, konu, bræður, foreldra eða börn Guðs ríkis vegna 30án þess að hann fái margfalt aftur á þessum tíma og í hinum komandi heimi eilíft líf."


Allt mun koma fram

31Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: "Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum. 32Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. 33Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa."

34En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var.


Blindur maður

35Svo bar við, er hann nálgaðist Jeríkó, að blindur maður sat þar við veginn og betlaði. 36Hann heyrði, að mannfjöldi gekk hjá, og spurði, hvað um væri að vera.

37Var honum sagt, að Jesús frá Nasaret færi hjá.

38Þá hrópaði hann: "Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!"

39En þeir sem á undan fóru, höstuðu á hann, að hann þegði. En hann hrópaði því meir: "Sonur Davíðs, miskunna þú mér!"

40Jesús nam staðar og bauð að leiða hann til sín. Er hann kom nær, spurði Jesús hann: 41"Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?"

Hinn svaraði: "Herra, að ég fái aftur sjón."

42Jesús sagði við hann: "Fá þú aftur sjónina. Trú þín hefur bjargað þér." 43Jafnskjótt fékk hann sjónina. Og hann fylgdi honum og lofaði Guð. En allt fólkið, er sá þetta, vegsamaði Guð.


Leita hins týnda og frelsa

19
1Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. 2En þar var maður, er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. 3Langaði hann að sjá, hver Jesús væri, en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum, því hann var lítill vexti. 4Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. 5Og er Jesús kom þar að, leit hann upp og sagði við hann: "Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu."

6Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. 7Þeir er sáu þetta, létu allir illa við og sögðu: "Hann fer til að gista hjá bersyndugum manni."

8En Sakkeus sté fram og sagði við Drottin: "Herra, helming eigna minna gef ég fátækum, og hafi ég haft nokkuð af nokkrum, gef ég honum ferfalt aftur."

9Jesús sagði þá við hann: "Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu, enda er þessi maður líka Abrahams sonur. 10Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það."


Pundin

11Meðan þeir hlýddu á, bætti hann við dæmisögu, því að hann var í nánd við Jerúsalem, og þeir ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast. 12Hann sagði: "Maður nokkur tiginborinn fór í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi og koma síðan aftur. 13Hann kallaði tíu þjóna sína, seldi þeim í hendur tíu pund og sagði við þá: ,Verslið með þetta, þangað til ég kem.' 14En landar hans hötuðu hann og gerðu sendimann á eftir honum til að segja: ,Vér viljum ekki, að þessi maður verði konungur yfir oss.'

15Nú kom hann aftur og hafði tekið konungdóm. Þá lét hann kalla fyrir sig þjóna þá er hann hafði selt féð í hendur, til þess að vita, hvað hver hefði grætt. 16Hinn fyrsti kom og sagði: ,Herra, pund þitt hefur ávaxtast um tíu pund.' 17Konungur sagði við hann: ,Gott, þú góði þjónn, þú varst trúr í mjög litlu og því skaltu ráða fyrir tíu borgum.' 18Annar kom og sagði: ,Pund þitt, herra, hefur gefið af sér fimm pund.' 19Hann sagði eins við hann: ,Þú skalt og vera yfir fimm borgum.' 20Enn kom einn og sagði: ,Herra, hér er pund þitt. Ég hef haft það geymt í dúki, 21því að ég var hræddur við þig, en þú ert maður strangur og tekur það út, sem þú lagðir ekki inn, og uppsker það, sem þú sáðir ekki.' 22Hann segir við hann: ,Illi þjónn, eftir orðum þínum dæmi ég þig. Þú vissir, að ég er maður strangur, sem tek það út, sem ég lagði ekki inn, og uppsker það, sem ég sáði ekki. 23Hvers vegna léstu þá ekki fé mitt í banka? Þá hefði ég fengið það með vöxtum, er ég kom heim.'

24Og hann sagði við þá er hjá voru: ,Takið af honum pundið, og fáið þeim, sem hefur tíu pundin.' 25En þeir sögðu við hann: ,Herra, hann hefur tíu pund.' 26Ég segi yður: Hverjum sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. 27En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér."


Jesú fagnað

28Þá er Jesús hafði þetta mælt, hélt hann á undan áfram upp til Jerúsalem. 29Þegar hann nálgaðist Betfage og Betaníu við Olíufjallið, sem svo er nefnt, sendi hann tvo lærisveina sína 30og mælti: "Farið í þorpið hér fram undan. Þegar þið komið þangað, munuð þið finna fola bundinn, sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann og komið með hann. 31Ef einhver spyr ykkur: ,Hvers vegna leysið þið hann?' þá svarið svo: ,Herrann þarf hans við'."

32Þeir sem sendir voru, fóru og fundu svo sem hann hafði sagt þeim. 33Og er þeir leystu folann, sögðu eigendur hans við þá: "Hvers vegna leysið þið folann?"

34Þeir svöruðu: "Herrann þarf hans við," 35og fóru síðan með hann til Jesú. Þeir lögðu klæði sín á folann og settu Jesú á bak. 36En þar sem hann fór, breiddu menn klæði sín á veginn.

37Þegar hann var að koma þar að, sem farið er ofan af Olíufjallinu, hóf allur flokkur lærisveina hans að lofa Guð fagnandi hárri raustu fyrir öll þau kraftaverk, er þeir höfðu séð, 38og segja: "Blessaður sé sá sem kemur, konungurinn, í nafni Drottins. Friður á himni og dýrð í upphæðum!"

39Nokkrir farísear í mannfjöldanum sögðu við hann: "Meistari, hasta þú á lærisveina þína."

40Hann svaraði: "Ég segi yður, ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa."


Jesús grætur

41Og er hann kom nær og sá borgina, grét hann yfir henni 42og sagði: "Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. 43Því að þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. 44Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér, vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma."


Hús mitt bænahús

45Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja 46og mælti við þá: "Ritað er:

Hús mitt á að vera bænahús,
en þér hafið gjört það að ræningjabæli."

47Daglega var hann að kenna í helgidóminum, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum, 48en fundu eigi, hvað gjöra skyldi, því að allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann.


Með hvaða valdi?

20
1Svo bar við einn dag, er hann var að kenna lýðnum í helgidóminum og flutti fagnaðarerindið, að æðstu prestarnir og fræðimennirnir ásamt öldungunum gengu til hans 2og sögðu: "Seg þú oss, með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver hefur gefið þér þetta vald?"

3Hann svaraði þeim: "Ég vil og leggja spurningu fyrir yður. Segið mér: 4Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum?"

5Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: "Ef vér svörum: Frá himni, spyr hann: Hví trúðuð þér honum þá ekki? 6Ef vér svörum: Frá mönnum, mun allur lýðurinn grýta oss, því að hann er sannfærður um, að Jóhannes sé spámaður." 7Þeir kváðust því ekki vita, hvaðan hún væri.

8Jesús sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta."


Vondir vínyrkjar

9Og hann tók að segja lýðnum dæmisögu þessa: "Maður nokkur plantaði víngarð og seldi hann vínyrkjum á leigu, fór síðan úr landi til langdvala. 10Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna, að þeir fengju honum hlut af ávexti víngarðsins, en vínyrkjarnir börðu hann og sendu burt tómhentan. 11Aftur sendi hann annan þjón. Þeir börðu hann einnig og svívirtu og sendu burt tómhentan. 12Og enn sendi hann hinn þriðja, en þeir veittu honum einnig áverka og köstuðu honum út. 13Þá sagði eigandi víngarðsins: ,Hvað á ég að gjöra? Ég sendi son minn elskaðan. Má vera, þeir virði hann.' 14En er vínyrkjarnir sáu hann, báru þeir saman ráð sín og sögðu: ,Þetta er erfinginn. Drepum hann, þá fáum vér arfinn.' 15Og þeir köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.

Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við þá? 16Hann mun koma, tortíma vínyrkjum þessum og fá öðrum víngarðinn."

Þegar þeir heyrðu þetta, sögðu þeir: "Verði það aldrei."

17Jesús horfði á þá og mælti: "Hvað merkir þá ritning þessi:

Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn? 18 Hver sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja."

19Fræðimennirnir og æðstu prestarnir vildu leggja hendur á hann á sömu stundu, en óttuðust lýðinn. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögu þessari.


Keisarinn og Guð

20Þeir höfðu gætur á honum og sendu njósnarmenn, er létust vera einlægir. Þeir áttu að hafa á orðum hans, svo að þeir mættu framselja hann í hendur og á vald landstjórans. 21Þeir spurðu hann: "Meistari, vér vitum, að þú talar og kennir rétt og gjörir þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika. 22Leyfist oss að gjalda keisaranum skatt eða ekki?"

23En hann merkti flærð þeirra og sagði við þá: 24"Sýnið mér denar. Hvers mynd og yfirskrift er á honum?"

Þeir sögðu: "Keisarans."

25En hann sagði við þá: "Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er."

26Og þeir gátu ekki haft neitt á orðum hans í viðurvist lýðsins, en undruðust svar hans og þögðu.


Guð lifenda

27Þá komu nokkrir saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann: 28"Meistari, Móse segir oss í ritningunum, að deyi maður kvæntur, en barnlaus, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja. 29Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu og dó barnlaus. 30Gekk þá annar bróðirinn 31og síðan hinn þriðji að eiga hana og eins allir sjö, og létu þeir engin börn eftir sig, er þeir dóu. 32Síðast dó og konan. 33Kona hvers þeirra verður hún í upprisunni? Allir sjö höfðu þeir átt hana."

34Jesús svaraði þeim: "Börn þessarar aldar kvænast og giftast, 35en þeir sem verðir þykja að fá hlutdeild í komandi veröld og upprisunni frá dauðum, kvænast hvorki né giftast. 36Þeir geta ekki heldur dáið framar, þeir eru englum jafnir og börn Guðs, enda börn upprisunnar. 37En að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt í sögunni um þyrnirunninn, er hann kallar ,Drottin Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.' 38Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir."

39Þá sögðu nokkrir fræðimannanna: "Vel mælt, meistari." 40En þeir þorðu ekki framar að spyrja hann neins.


Kristur er Drottinn

41Hann sagði við þá: "Hvernig geta menn sagt, að Kristur sé sonur Davíðs? 42Davíð segir sjálfur í sálmunum:

Drottinn sagði við minn drottin:
Set þig mér til hægri handar,
43 þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.

44Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?"


Viðvörun

45Í áheyrn alls lýðsins sagði hann við lærisveina sína: 46"Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og er ljúft að láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum. 47Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm."


Eyrir ekkjunnar

21
1Þá leit hann upp og sá auðmenn leggja gjafir sínar í fjárhirsluna. 2Hann sá og ekkju eina fátæka leggja þar tvo smápeninga. 3Þá sagði hann: "Ég segi yður með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir. 4Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína."


Ekki steinn yfir steini

5Einhverjir höfðu orð á, að helgidómurinn væri prýddur fögrum steinum og heitgjöfum. Þá sagði Jesús: 6"Þér horfið á þetta, en þeir dagar munu koma, að hér stendur ekki eftir steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."


Gætið yðar

7En þeir spurðu hann: "Meistari, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að það sé að koma fram?"

8Hann svaraði: "Varist að láta leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!' og ,Tíminn er í nánd!' Fylgið þeim ekki. 9En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara, en endirinn kemur ekki samstundis."

10Síðan sagði hann við þá: "Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, 11þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum, en ógnir og tákn mikil á himni.


Tækifæri til vitnisburðar

12En á undan öllu þessu munu menn leggja hendur á yður, ofsækja yður, færa yður fyrir samkundur og í fangelsi og draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns. 13Þetta veitir yður tækifæri til vitnisburðar. 14En festið það vel í huga að vera ekki fyrirfram að hugsa um, hvernig þér eigið að verjast, 15því ég mun gefa yður orð og visku, sem engir mótstöðumenn yðar fá staðið í gegn né hrakið. 16Jafnvel foreldrar og bræður, frændur og vinir munu framselja yður, og sumir yðar munu líflátnir. 17Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns, 18en ekki mun týnast eitt hár á höfði yðar. 19Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.


Tákn

20En þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. 21Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana. 22Því þetta eru refsingardagar, þá er allt það rætist, sem ritað er. 23Vei þeim, sem þungaðar eru, og þeim sem börn hafa á brjósti á þeim dögum, því að mikil neyð mun þá verða í landinu og reiði yfir lýð þessum. 24Þeir munu falla fyrir sverðseggjum og herleiddir verða til allra þjóða, og Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.


Mannssonurinn kemur

25Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. 26Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast. 27Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. 28En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd."


Gætið að fíkjutrénu

29Hann sagði þeim og líkingu: "Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. 30Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður, að sumarið er í nánd. 31Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.

32Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram. 33Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.


Vakið og biðjið

34Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður 35eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð. 36Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum."

37Á daginn var hann að kenna í helgidóminum, en fór og dvaldist um nætur á Olíufjallinu, sem svo er nefnt. 38Og allt fólkið kom árla á morgnana til hans í helgidóminn að hlýða á hann.


Svik Júdasar

22
1Nú fór í hönd hátíð ósýrðu brauðanna, sú er nefnist páskar. 2Og æðstu prestarnir og fræðimennirnir leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum, því að þeir voru hræddir við lýðinn.

3Þá fór Satan í Júdas, sem kallaður var Ískaríot og var í tölu þeirra tólf. 4Hann fór og ræddi við æðstu prestana og varðforingjana um það, hvernig hann skyldi framselja þeim Jesú. 5Þeir urðu glaðir við og hétu honum fé fyrir. 6Hann gekk að því og leitaði færis að framselja hann þeim, þegar fólkið væri fjarri.


Búið til páskamáltíðar

7Þegar sá dagur ósýrðu brauðanna kom, er slátra skyldi páskalambinu, 8sendi Jesús þá Pétur og Jóhannes og sagði: "Farið og búið til páskamáltíðar fyrir oss."

9Þeir sögðu við hann: "Hvar vilt þú, að við búum hana?"

10En hann sagði við þá: "Þegar þið komið inn í borgina, mætir ykkur maður, sem ber vatnsker. Fylgið honum inn þangað sem hann fer, 11og segið við húsráðandann: ,Meistarinn spyr þig: Hvar er herbergið, þar sem ég get neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum mínum?' 12Hann mun þá sýna ykkur loftsal mikinn, búinn hægindum. Hafið þar viðbúnað." 13Þeir fóru og fundu allt eins og hann hafði sagt og bjuggu til páskamáltíðar.


Heilög kvöldmáltíð

14Og er stundin var komin, gekk hann til borðs og postularnir með honum. 15Og hann sagði við þá: "Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður, áður en ég líð. 16Því ég segi yður: Eigi mun ég framar neyta hennar, fyrr en hún fullkomnast í Guðs ríki."

17Þá tók hann kaleik, gjörði þakkir og sagði: "Takið þetta og skiptið með yður. 18Því ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins, fyrr en Guðs ríki kemur."

19Og hann tók brauð, gjörði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: "Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu." 20Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: "Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.

21En sjá, hönd þess, er mig svíkur, er á borðinu hjá mér. 22Mannssonurinn fer að sönnu þá leið, sem ákveðin er, en vei þeim manni, sem því veldur, að hann verður framseldur."

23Og þeir tóku að spyrjast á um það, hver þeirra mundi verða til þess að gjöra þetta.


Hver er mestur

24Og þeir fóru að metast um, hver þeirra væri talinn mestur. 25En Jesús sagði við þá: "Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. 26En eigi sé yður svo farið, heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. 27Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.

28En þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. 29Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, 30að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.


Ég hef beðið fyrir þér

31Símon, Símon, Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti. 32En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við."

33En Símon sagði við hann: "Herra, reiðubúinn er ég að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða."

34Jesús mælti: "Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag, munt þú þrisvar hafa neitað því, að þú þekkir mig."


Það rætist, sem ritað er

35Og hann sagði við þá: "Þegar ég sendi yður út án pyngju og mals og skólausa, brast yður þá nokkuð?"

Þeir svöruðu: "Nei, ekkert."

36Þá sagði hann við þá: "En nú skal sá, er pyngju hefur, taka hana með sér og eins sá, er mal hefur, og hinn, sem ekkert á, selji yfirhöfn sína og kaupi sverð. 37Því ég segi yður, að þessi ritning á að rætast á mér: ,með illvirkjum var hann talinn.' Og nú er að fullnast það sem um mig er ritað."

38En þeir sögðu: "Herra, hér eru tvö sverð."

Og hann sagði við þá: "Það er nóg."


Í Getsemane

39Síðan fór hann út og gekk, eins og hann var vanur, til Olíufjallsins. Og lærisveinarnir fylgdu honum. 40Þegar hann kom á staðinn, sagði hann við þá: "Biðjið, að þér fallið ekki í freistni."

41Og hann vék frá þeim svo sem steinsnar, féll á kné, baðst fyrir og sagði: 42"Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji." [43Þá birtist honum engill af himni, sem styrkti hann. 44Og hann komst í dauðans angist og baðst enn ákafar fyrir, en sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.]

45Hann stóð upp frá bæn sinni, kom til lærisveinanna og fann þá sofandi, örmagna af hryggð. 46Og hann sagði við þá: "Hví sofið þér? Rísið upp og biðjið, að þér fallið ekki í freistni."


Tekinn höndum

47Meðan hann var enn að tala, kom flokkur manna, og fremstur fór einn hinna tólf, Júdas, áður nefndur. Hann gekk að Jesú til að kyssa hann. 48Jesús sagði við hann: "Júdas, svíkur þú Mannssoninn með kossi?"

49Þeir sem með honum voru, sáu að hverju fór og sögðu: "Herra, eigum vér ekki að bregða sverði?" 50Og einn þeirra hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað.

51Þá sagði Jesús: "Hér skal staðar nema." Og hann snart eyrað og læknaði hann.

52Þá sagði Jesús við æðstu prestana, varðforingja helgidómsins og öldungana, sem komnir voru á móti honum: "Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja? 53Daglega var ég með yður í helgidóminum, og þér lögðuð ekki hendur á mig. En þetta er yðar tími og máttur myrkranna."


Pétur afneitar

54En þeir tóku hann höndum og leiddu brott og fóru með hann í hús æðsta prestsins. Pétur fylgdi eftir álengdar. 55Menn höfðu kveikt eld í miðjum garðinum og sátu við hann, og Pétur settist meðal þeirra. 56En þerna nokkur sá hann sitja í bjarmanum, hvessti á hann augun og sagði: "Þessi maður var líka með honum."

57Því neitaði hann og sagði: "Kona, ég þekki hann ekki."

58Litlu síðar sá hann annar maður og sagði: "Þú ert líka einn af þeim."

En Pétur svaraði: "Nei, maður minn, það er ég ekki."

59Og að liðinni um það bil einni stund fullyrti enn annar þetta og sagði: "Víst var þessi líka með honum, enda Galíleumaður."

60Pétur mælti: "Ekki skil ég, hvað þú átt við, maður."

Og jafnskjótt sem hann sagði þetta, gól hani. 61Og Drottinn vék sér við og leit til Péturs. Þá minntist Pétur orða Drottins, er hann mælti við hann: "Áður en hani galar í dag, muntu þrisvar afneita mér." 62Og hann gekk út og grét beisklega.


Jesús hæddur

63En þeir menn, sem gættu Jesú, hæddu hann og börðu, 64huldu andlit hans og sögðu: "Spáðu nú, hver það var, sem sló þig?" 65Og marga aðra svívirðu sögðu þeir við hann.


Fyrir ráðinu

66Þegar dagur rann, kom öldungaráð lýðsins saman, bæði æðstu prestar og fræðimenn, og létu færa hann fyrir ráðsfund sinn. 67Þeir sögðu: "Ef þú ert Kristur, þá seg oss það."

En hann sagði við þá: "Þótt ég segi yður það, munuð þér ekki trúa, 68og ef ég spyr yður, svarið þér ekki. 69En upp frá þessu mun Mannssonurinn sitja til hægri handar Guðs kraftar."

70Þá spurðu þeir allir: "Ert þú þá sonur Guðs?"

Og hann sagði við þá: "Þér segið, að ég sé sá."

71En þeir sögðu: "Hvað þurfum vér nú framar vitnis við? Vér höfum sjálfir heyrt það af munni hans."


Fyrir Pílatusi

23
1Þá stóð upp allur skarinn og færði hann fyrir Pílatus. 2Þeir tóku að ákæra hann og sögðu: "Vér höfum komist að raun um, að þessi maður leiðir þjóð vora afvega, hann bannar að gjalda keisaranum skatt og segist sjálfur vera Kristur, konungur."

3Pílatus spurði hann þá: "Ert þú konungur Gyðinga?"

Jesús svaraði: "Þú segir það."

4Pílatus sagði við æðstu prestana og fólkið: "Enga sök finn ég hjá þessum manni."

5En þeir urðu því ákafari og sögðu: "Hann æsir upp lýðinn með því, sem hann kennir í allri Júdeu, hann byrjaði í Galíleu og er nú kominn hingað."


Fyrir Heródesi

6Þegar Pílatus heyrði þetta, spurði hann, hvort maðurinn væri Galílei. 7Og er hann varð þess vís, að hann var úr umdæmi Heródesar, sendi hann hann til Heródesar, er þá var og í Jerúsalem á þeim dögum.

8En Heródes varð næsta glaður, er hann sá Jesú, því hann hafði lengi langað að sjá hann, þar eð hann hafði heyrt frá honum sagt. Vænti hann nú að sjá hann gjöra eitthvert tákn. 9Hann spurði Jesú á marga vegu, en hann svaraði honum engu. 10Æðstu prestarnir og fræðimennirnir stóðu þar og ákærðu hann harðlega. 11En Heródes óvirti hann og spottaði ásamt hermönnum sínum, lagði yfir hann skínandi klæði og sendi hann aftur til Pílatusar. 12Á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir, en áður var fjandskapur með þeim.


Dæmdur til dauða

13Pílatus kallaði nú saman æðstu prestana, höfðingjana og fólkið 14og mælti við þá: "Þér hafið fært mér þennan mann og sagt hann leiða fólkið afvega. Nú hef ég yfirheyrt manninn í yðar viðurvist, en enga þá sök fundið hjá honum, er þér ákærið hann um. 15Ekki heldur Heródes, því hann sendi hann aftur til vor. Ljóst er, að hann hefur ekkert það drýgt, er dauða sé vert. 16Ætla ég því að hirta hann og láta lausan." [17En skylt var honum að gefa þeim lausan einn bandingja á hverri hátíð.]

18En þeir æptu allir: "Burt með hann, gef oss Barabbas lausan!" 19En honum hafði verið varpað í fangelsi fyrir upphlaup nokkurt, sem varð í borginni, og manndráp.

20Pílatus talaði enn til þeirra og vildi láta Jesú lausan. 21En þeir æptu á móti: "Krossfestu, krossfestu hann!"

22Í þriðja sinn sagði Pílatus við þá: "Hvað illt hefur þá þessi maður gjört? Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan."

23En þeir sóttu á með ópi miklu og heimtuðu, að hann yrði krossfestur. Og hróp þeirra tóku yfir.

24Þá ákvað Pílatus, að kröfu þeirra skyldi fullnægt. 25Hann gaf lausan þann, er þeir báðu um og varpað hafði verið í fangelsi fyrir upphlaup og manndráp, en Jesú framseldi hann, að þeir færu með hann sem þeir vildu.


Krossfestur

26Þegar þeir leiddu hann út, tóku þeir Símon nokkurn frá Kýrene, er kom utan úr sveit, og lögðu krossinn á hann, að hann bæri hann eftir Jesú.

27En honum fylgdi mikill fjöldi fólks og kvenna, er hörmuðu hann og grétu. 28Jesús sneri sér að þeim og mælti: "Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar. 29Því þeir dagar koma, er menn munu segja: Sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf, er aldrei fæddu, og þau brjóst, sem engan nærðu.

30Þá munu menn segja við fjöllin:
Hrynjið yfir oss!
og við hálsana:
Hyljið oss!

31Því að sé þetta gjört við hið græna tréð, hvað mun þá verða um hið visna?"

32Með honum voru og færðir til lífláts aðrir tveir, sem voru illvirkjar. 33Og er þeir komu til þess staðar, sem heitir Hauskúpa, krossfestu þeir hann þar og illvirkjana, annan til hægri handar, hinn til vinstri. 34Þá sagði Jesús: "Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra."

En þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér. 35Fólkið stóð og horfði á, og höfðingjarnir gjörðu gys að honum og sögðu: "Öðrum bjargaði hann, bjargi hann nú sjálfum sér, ef hann er Kristur Guðs, hinn útvaldi."

36Eins hæddu hann hermennirnir, komu og báru honum edik 37og sögðu: "Ef þú ert konungur Gyðinga, þá bjargaðu sjálfum þér."

38Yfirskrift var yfir honum: ÞESSI ER KONUNGUR GYÐINGA.

39Annar þeirra illvirkja, sem upp voru festir, hæddi hann og sagði: "Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!"

40En hinn ávítaði hann og sagði: "Hræðist þú ekki einu sinni Guð, og ert þó undir sama dómi? 41Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gjörðir okkar, en þessi hefur ekkert illt aðhafst." 42Þá sagði hann: "Jesús, minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!"

43Og Jesús sagði við hann: "Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís."


Faðir, í þínar hendur

44Og nú var nær hádegi og myrkur varð um allt land til nóns, 45því sólin missti birtu sinnar. En fortjald musterisins rifnaði sundur í miðju. 46Þá kallaði Jesús hárri röddu: "Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!" Og er hann hafði þetta mælt, gaf hann upp andann.

47Þegar hundraðshöfðinginn sá það, er við bar, vegsamaði hann Guð og sagði: "Sannarlega var þessi maður réttlátur."

48Og fólkið allt, sem komið hafði saman að horfa á, sá nú, hvað gjörðist, og barði sér á brjóst og hvarf frá. 49En vinir hans allir sem og konurnar, er fylgdu honum frá Galíleu, stóðu álengdar og horfðu á þetta.


Lagður í gröf

50Maður er nefndur Jósef. Hann var ráðsherra, góður maður og réttvís 51og hafði ekki samþykkt ráð þeirra né athæfi. Hann var frá Arímaþeu, borg í Júdeu, og vænti Guðs ríkis. 52Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú, 53tók hann síðan ofan, sveipaði línklæði og lagði í gröf, höggna í klett, og hafði þar enginn verið áður lagður. 54Það var aðfangadagur og hvíldardagurinn fór í hönd.

55Konur þær, er komið höfðu með Jesú frá Galíleu, fylgdu eftir og sáu gröfina og hvernig líkami hans var lagður. 56Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl.

Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir samkvæmt boðorðinu.


Hann er upp risinn

24
1En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið. 2Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, 3og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú. 4Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum. 5Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? 6Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu. 7Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi."

8Og þær minntust orða hans, 9sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum. 10Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu. 11En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki. 12Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið.


Vertu hjá oss

13Tveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs, sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus. 14Þeir ræddu sín á milli um allt þetta, sem gjörst hafði. 15Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. 16En augu þeirra voru svo haldin, að þeir þekktu hann ekki. 17Og hann sagði við þá: "Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?"

Þeir námu staðar, daprir í bragði, 18og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: "Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem, sem veist ekki, hvað þar hefur gjörst þessa dagana."

19Hann spurði: "Hvað þá?"

Þeir svöruðu: "Þetta um Jesú frá Nasaret, sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum lýð, 20hvernig æðstu prestar og höfðingjar vorir framseldu hann til dauðadóms og krossfestu hann. 21Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við. 22Þá hafa og konur nokkrar úr vorum hóp gjört oss forviða. Þær fóru árla til grafarinnar, 23en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust enda hafa séð engla í sýn, er sögðu hann lifa. 24Nokkrir þeirra, sem með oss voru, fóru til grafarinnar og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt, en hann sáu þeir ekki."

25Þá sagði hann við þá: "Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað! 26Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?" 27Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum.

28Þeir nálguðust nú þorpið, sem þeir ætluðu til, en hann lét sem hann vildi halda lengra. 29Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: "Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar." Og hann fór inn til að vera hjá þeim. 30Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. 31Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann, en hann hvarf þeim sjónum. 32Og þeir sögðu hvor við annan: "Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?"

33Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir þá ellefu og þá, er með þeim voru, saman komna, 34og sögðu þeir: "Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni."

35Hinir sögðu þá frá því, sem við hafði borið á veginum, og hvernig þeir höfðu þekkt hann, þegar hann braut brauðið.


Friður sé með yður

36Nú voru þeir að tala um þetta, og þá stendur hann sjálfur meðal þeirra og segir við þá: "Friður sé með yður!"

37En þeir skelfdust og urðu hræddir og hugðust sjá anda. 38Hann sagði við þá: "Hví eruð þér óttaslegnir og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta yðar? 39Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þér sjáið að ég hef."

40Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og fætur. 41Enn gátu þeir ekki trúað fyrir fögnuði og voru furðu lostnir. Þá sagði hann við þá: "Hafið þér hér nokkuð til matar?" 42Þeir fengu honum stykki af steiktum fiski, 43og hann tók það og neytti þess frammi fyrir þeim.

44Og hann sagði við þá: "Þessi er merking orða minna, sem ég talaði við yður, meðan ég var enn meðal yðar, að rætast ætti allt það, sem um mig er ritað í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum." 45Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar. 46Og hann sagði við þá: "Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, 47og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem. 48Þér eruð vottar þessa. 49Sjá, ég sendi fyrirheit föður míns yfir yður, en verið þér kyrrir í borginni, uns þér íklæðist krafti frá hæðum."


Með miklum fögnuði

50Síðan fór hann með þá út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þá. 51En það varð, meðan hann var að blessa þá, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. 52En þeir féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. 53Og þeir voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð.



Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997