NUMERI

FJÓRÐA  BÓK  MÓSE



Tekið manntal safnaðar Ísraels

1
1Drottinn talaði við Móse í Sínaí-eyðimörk, í samfundatjaldinu, á fyrsta degi annars mánaðar á öðru ári eftir brottför þeirra af Egyptalandi og mælti:

2"Takið manntal alls safnaðar Ísraelsmanna eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, alla karlmenn mann fyrir mann. 3Alla herfæra menn í Ísrael frá tvítugs aldri og þaðan af eldri skuluð þér telja eftir hersveitum þeirra, þú og Aron. 4Og með ykkur skal vera einn maður af ættkvísl hverri, og sé hann höfuð ættar sinnar.

5Þessi eru nöfn þeirra manna, er ykkur skulu aðstoða:

Af Rúben: Elísúr Sedeúrsson.

6Af Símeon: Selúmíel Súrísaddaíson.

7Af Júda: Nakson Ammínadabsson.

8Af Íssakar: Netanel Súarsson.

9Af Sebúlon: Elíab Helónsson. 10Af Jósefssonum:

Af Efraím: Elísama Ammíhúdsson.

Af Manasse: Gamlíel Pedasúrsson.

11Af Benjamín: Abídan Gídeóníson.

12Af Dan: Akíeser Ammísaddaíson.

13Af Asser: Pagíel Ókransson.

14Af Gað: Eljasaf Degúelsson.

15Af Naftalí: Akíra Enansson."

16Þessir voru tilnefndir af söfnuðinum, höfðingjar yfir ættkvíslum feðra sinna. Voru þeir höfuð Ísraels þúsunda.

17Móse og Aron tóku menn þessa, sem nafngreindir eru, 18og stefndu saman öllum söfnuðinum á fyrsta degi annars mánaðar og skrifuðu þá á ættarskrárnar eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, mann fyrir mann. 19Svo sem Drottinn hafði boðið Móse, taldi hann þá í Sínaí-eyðimörk.

20Synir Rúbens, frumgetins sonar Ísraels, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, maður fyrir mann, allir karlmenn frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 21þeir er taldir voru af ættkvísl Rúbens, voru 46.500.

22Synir Símeons, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, maður fyrir mann, allir karlmenn frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 23þeir er taldir voru af ættkvísl Símeons, voru 59.300.

24Synir Gaðs, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 25þeir er taldir voru af ættkvísl Gaðs, voru 45.650.

26Synir Júda, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 27þeir er taldir voru af ættkvísl Júda, voru 74.600.

28Synir Íssakars, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 29þeir er taldir voru af ættkvísl Íssakars, voru 54.400.

30Synir Sebúlons, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 31þeir er taldir voru af ættkvísl Sebúlons, voru 57.400. 32Synir Jósefs:

Synir Efraíms, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 33þeir er taldir voru af ættkvísl Efraíms, voru 40.500.

34Synir Manasse, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 35þeir er taldir voru af ættkvísl Manasse, voru 32.200.

36Synir Benjamíns, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 37þeir er taldir voru af ættkvísl Benjamíns, voru 35.400.

38Synir Dans, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 39þeir er taldir voru af ættkvísl Dans, voru 62.700.

40Synir Assers, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 41þeir er taldir voru af ættkvísl Assers, voru 41.500.

42Synir Naftalí, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 43þeir er taldir voru af ættkvísl Naftalí, voru 53.400.

44Þessir eru þeir, er taldir voru, sem þeir Móse, Aron og höfðingjar Ísraels töldu. Voru þeir tólf, einn fyrir hverja ættkvísl hans.

45Og allir þeir af Ísraelsmönnum, er taldir voru eftir ættum þeirra, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, voru, - 46allir þeir er taldir voru, voru 603.550. 47En levítarnir, eftir ættbálki sínum, voru eigi taldir meðal þeirra.


Hlutverk ættkvíslar Leví

48Drottinn talaði við Móse og sagði:

49"Þú skalt þó eigi telja ættkvísl Leví og eigi taka manntal þeirra meðal Ísraelsmanna. 50En þú skalt setja levítana yfir sáttmálsbúðina og yfir öll áhöld hennar og yfir allt, sem til hennar heyrir. Þeir skulu bera búðina og öll áhöld hennar, og þeir skulu þjóna að henni, og þeir skulu tjalda umhverfis búðina. 51Og er búðin tekur sig upp, skulu levítarnir taka hana niður, og þegar reisa skal búðina, skulu levítarnir setja hana upp. En komi nokkur annar þar nærri, skal hann líflátinn verða. 52Ísraelsmenn skulu tjalda hver á sínum stað í herbúðunum og hver hjá sínu merki, eftir hersveitum sínum. 53En levítarnir skulu tjalda umhverfis sáttmálsbúðina, að reiði komi eigi yfir söfnuð Ísraelsmanna. Og levítarnir skulu annast sáttmálsbúðina."

54Ísraelsmenn gjörðu svo. Þeir gjörðu í alla staði svo sem Drottinn hafði boðið Móse.


Skipan herbúðanna

2
1Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:

2"Sérhver Ísraelsmanna skal tjalda hjá merki sínu, við einkenni ættar sinnar. Skulu þeir tjalda gegnt samfundatjaldinu hringinn í kring.

3Að austanverðu, gegnt upprás sólar, skulu þeir tjalda undir merki Júda herbúða, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður Júda sona sé Nakson Ammínadabsson. 4Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 74.600.

5Næst honum skal tjalda ættkvísl Íssakars, og höfuðsmaður Íssakars sona sé Netanel Súarsson. 6Hersveit hans og taldir liðsmenn hans voru 54.400.

7Enn fremur ættkvísl Sebúlons, og höfuðsmaður Sebúlons sona sé Elíab Helónsson. 8Hersveit hans og taldir liðsmenn hans voru 57.400.

9Allir taldir liðsmenn í Júda herbúðum voru 186.400, eftir hersveitum þeirra. Skulu þeir taka sig upp fyrstir.

10Að sunnanverðu skal merki Rúbens herbúða vera, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður Rúbens sona sé Elísúr Sedeúrsson. 11Hersveit hans og taldir liðsmenn hans voru 46.500.

12Næst honum skal tjalda ættkvísl Símeons, og höfuðsmaður Símeons sona sé Selúmíel Súrísaddaíson. 13Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 59.300.

14Enn fremur ættkvísl Gaðs, og höfuðsmaður Gaðs sona sé Eljasaf Degúelsson. 15Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 45.650.

16Allir taldir liðsmenn í Rúbens herbúðum voru 151.450, eftir hersveitum þeirra. Skulu þeir taka sig upp næstir hinum fyrstu.

17Þá skal samfundatjaldið taka sig upp ásamt búðum levítanna, í miðjum hernum. Eins og þeir tjalda, svo skulu þeir taka sig upp, hver á sínum stað, eftir merkjum sínum.

18Að vestanverðu skal merki Efraíms herbúða vera, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður yfir Efraíms sonum sé Elísama Ammíhúdsson. 19Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 40.500.

20Næst honum ættkvísl Manasse, og höfuðsmaður yfir Manasse sonum sé Gamlíel Pedasúrsson. 21Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 32.200.

22Enn fremur ættkvísl Benjamíns, og höfuðsmaður yfir Benjamíns sonum sé Abídan Gídeóníson. 23Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 35.400.

24Allir taldir liðsmenn í Efraíms herbúðum voru 108.100, eftir hersveitum þeirra. Og þeir skulu hefja ferð sína hinir þriðju.

25Að norðanverðu skal merki Dans herbúða vera, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður yfir Dans sonum sé Akíeser Ammísaddaíson. 26Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 62.700.

27Næst honum tjaldi ættkvísl Assers, og höfuðsmaður yfir Assers sonum sé Pagíel Ókransson. 28Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 41.500.

29Enn fremur ættkvísl Naftalí, og höfuðsmaður yfir Naftalí sonum sé Akíra Enansson. 30Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 53.400.

31Allir taldir liðsmenn í Dans herbúðum voru 157.600. Skulu þeir hefja ferð sína síðastir, eftir merkjum sínum."

32Þessir eru taldir liðsmenn Ísraelsmanna eftir ættum þeirra. Allir taldir liðsmenn í herbúðunum eftir hersveitum þeirra voru 603.550. 33En levítarnir voru ekki taldir meðal Ísraelsmanna, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 34Og Ísraelsmenn gjörðu svo. Að öllu svo sem Drottinn hafði boðið Móse tjölduðu þeir eftir merkjum sínum og hófu ferð, hver eftir kynkvísl sinni, hjá sinni ætt.


Aronsniðjar skipaðir til prestsþjónustu

3
1Þessir voru niðjar Arons og Móse, þá er Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli. 2Þessi voru nöfn Arons sona: Nadab frumgetinn og Abíhú, Eleasar og Ítamar. 3Þessi voru nöfn Arons sona, hinna smurðu presta, sem vígðir voru til prestsþjónustu, 4en þeir Nadab og Abíhú dóu fyrir augliti Drottins, þá er þeir báru óvígðan eld fram fyrir Drottin í Sínaí-eyðimörk; en þeir áttu enga sonu. Þeir Eleasar og Ítamar þjónuðu því í prestsembætti frammi fyrir Aroni, föður sínum.


Levítar skipaðir til þjónustustarfa

5Drottinn talaði við Móse og sagði:

6"Lát þú ættkvísl Leví koma og leið þú hana fyrir Aron prest, að þeir þjóni honum. 7Þeir skulu annast það, sem annast þarf fyrir hann, og það, sem annast þarf fyrir allan söfnuðinn fyrir framan samfundatjaldið, og gegna þjónustu í búðinni. 8Og þeir skulu sjá um öll áhöld samfundatjaldsins og það, sem annast þarf fyrir Ísraelsmenn, og gegna þjónustu í búðinni. 9Og þú skalt gefa levítana Aroni og sonum hans. Þeir eru honum gefnir af Ísraelsmönnum til fullkominnar eignar. 10En Aron og sonu hans skalt þú setja til þess að annast prestsembætti, og komi óvígður maður þar nærri, skal hann líflátinn verða."

11Drottinn talaði við Móse og sagði:

12"Sjá, ég hefi tekið levítana af Ísraelsmönnum í stað allra frumburða Ísraelsmanna, þá er opna móðurlíf, og skulu levítarnir vera mín eign. 13Því að ég á alla frumburði. Á þeim degi, er ég laust alla frumburði í Egyptalandi, helgaði ég mér alla frumburði í Ísrael, bæði menn og skepnur. Mínir skulu þeir vera. Ég er Drottinn."


Manntal levíta og störf

14Drottinn talaði við Móse í Sínaí-eyðimörk og sagði:

15"Tel þú sonu Leví eftir ættum þeirra og kynkvíslum. Alla karlmenn mánaðargamla og þaðan af eldri skalt þú telja."

16Og Móse taldi þá að boði Drottins, eins og fyrir hann var lagt.

17Þessir voru synir Leví eftir nöfnum þeirra: Gerson, Kahat og Merarí.

18Þessi eru nöfn Gersons sona eftir kynkvíslum þeirra: Libní og Símeí.

19Synir Kahats eftir kynkvíslum þeirra: Amram og Jísehar, Hebron og Ússíel.

20Synir Merarí eftir kynkvíslum þeirra: Mahelí og Músí. Þessar eru kynkvíslir Leví eftir ættum þeirra.

21Til Gersons telst kynkvísl Libníta og kynkvísl Símeíta. Þessar eru kynkvíslir Gersóníta. 22Þeir er taldir voru af þeim - eftir tölu á öllum karlkyns, mánaðargömlum og þaðan af eldri - þeir er taldir voru af þeim, voru 7.500. 23Kynkvíslir Gersóníta tjölduðu að baki búðarinnar, að vestanverðu. 24Og höfuðsmaður yfir ætt Gersóníta var Eljasaf Laelsson. 25Það sem Gersons synir áttu að annast í samfundatjaldinu, var búðin og tjaldið, þakið á því og dúkbreiðan fyrir dyrum samfundatjaldsins, 26forgarðstjöldin og dúkbreiðan fyrir dyrum forgarðsins, sem liggur allt í kringum búðina og altarið, og stögin, sem þar til heyra - allt sem að því þurfti að þjóna.

27Til Kahats telst kynkvísl Amramíta, kynkvísl Jíseharíta, kynkvísl Hebróníta og kynkvísl Ússíelíta. Þessar eru kynkvíslir Kahatíta. 28Eftir tölu á öllum karlkyns, mánaðargömlum og þaðan af eldri, voru þeir 8.600 og höfðu á hendi að annast helgidóminn. 29Kynkvíslir Kahats sona tjölduðu á hlið við búðina, að sunnanverðu. 30Og ætthöfðingi yfir kynkvíslum Kahatíta var Elísafan Ússíelsson. 31Það sem þeir áttu að annast, var örkin, borðið, ljósastikan, ölturun og hin helgu áhöld, er þeir hafa við þjónustugjörðina, og dúkbreiðan og allt, sem að því þurfti að þjóna.

32Höfðingi yfir höfðingjum levítanna var Eleasar Aronsson prests. Hann hafði umsjón yfir þeim, er höfðu á hendi að annast helgidóminn.

33Til Merarí telst kynkvísl Mahelíta og kynkvísl Músíta. Þessar eru kynkvíslir Merarí. 34Og þeir er taldir voru af þeim, eftir tölu á öllum karlkyns, mánaðargömlum og þaðan af eldri, voru 6.200. 35Ætthöfðingi yfir kynkvíslum Merarí var Súríel Abíhaílsson. Tjölduðu þeir á hlið við búðina, að norðanverðu. 36Merarí sonum var falin hirðing á þiljuborðum búðarinnar, á slám hennar, stólpum og undirstöðum og öllum áhöldum hennar, og allt sem að því þurfti að þjóna, 37á stólpum forgarðsins allt í kring og undirstöðum þeirra, hælum og stögum.

38Fyrir framan búðina, að austanverðu, fyrir framan samfundatjaldið, móti upprás sólar, tjölduðu þeir Móse og Aron og synir hans, og höfðu á hendi að annast helgidóminn, það er annast þurfti fyrir Ísraelsmenn. En komi óvígður maður þar nærri, skal hann líflátinn verða.

39Allir þeir er taldir voru af levítunum, sem þeir Móse og Aron töldu eftir boði Drottins, eftir kynkvíslum þeirra - allir karlkyns, mánaðargamlir og þaðan af eldri, voru 22.000.


Levítar leysa frumburði

40Drottinn sagði við Móse:

"Tel þú alla frumburði karlkyns meðal Ísraelsmanna, mánaðargamla og þaðan af eldri, og haf þú tölu á nöfnum þeirra. 41Og þú skalt taka levítana mér til handa - ég er Drottinn - í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna, og fénað levítanna í stað allra frumburða af fénaði Ísraelsmanna."

42Móse taldi, svo sem Drottinn hafði boðið honum, alla frumburði meðal Ísraelsmanna. 43Og allir frumburðir karlkyns, eftir nafnatölu, mánaðargamlir og þaðan af eldri, þeir er taldir voru af þeim, voru 22.273.

44Drottinn talaði við Móse og sagði:

45"Tak þú levítana í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna og fénað levítanna í stað fénaðar þeirra, og skulu levítarnir vera mín eign. Ég er Drottinn. 46Og að því er snertir lausnargjald þeirra tvö hundruð sjötíu og þriggja, þeirra af frumburðum Ísraelsmanna, sem umfram eru levítana, 47þá skalt þú taka fimm sikla fyrir hvert höfuð. Eftir helgidómssikli skalt þú taka, tuttugu gerur í sikli. 48Og þú skalt fá Aroni og sonum hans féð til lausnar þeim, sem umfram eru meðal þeirra." 49Og Móse tók lausnargjaldið af þeim, er umfram voru þá, er leystir voru fyrir levítana. 50Tók hann féð af frumburðum Ísraelsmanna, eitt þúsund þrjú hundruð sextíu og fimm sikla, eftir helgidóms sikli. 51Og Móse seldi lausnargjaldið Aroni og sonum hans í hendur eftir boði Drottins, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.


Störf kynþáttar Kahats

4
1Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:

2"Takið tölu Kahats sona meðal Leví sona, eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, 3frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla herfæra menn, til þess að gegna störfum við samfundatjaldið. 4Þetta er þjónusta Kahats sona við samfundatjaldið: Hið háheilaga.

5Þegar herinn tekur sig upp, skulu þeir Aron og synir hans ganga inn og taka niður fortjaldsdúkbreiðuna og láta hana yfir sáttmálsörkina. 6Og þeir skulu leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinni og breiða yfir klæði, sem allt er gjört af bláum purpura, og setja stengurnar í.

7Yfir skoðunarbrauðaborðið skulu þeir breiða klæði af bláum purpura og setja þar á fötin, bollana, kerin og dreypifórnarskálarnar, og hið ævarandi brauð skal vera á því. 8Og yfir þetta skulu þeir breiða skarlatsklæði og leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinnum og setja stengurnar í.

9Þeir skulu taka klæði af bláum purpura og láta það yfir ljósastikuna, lampa hennar, ljósasöx og skarpönnur, og öll olíukerin, sem notuð eru við hana. 10Og þeir skulu sveipa hana og öll áhöld hennar í ábreiðu af höfrungaskinnum og leggja á börur.

11Yfir gullaltarið skulu þeir breiða klæði af bláum purpura og leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinnum og setja stengurnar í. 12Og þeir skulu taka öll áhöld þjónustugjörðarinnar, þau er höfð eru til þjónustugjörðar í helgidóminum, og sveipa þau í klæði af bláum purpura og leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinnum og leggja á börurnar. 13Og þeir skulu sópa öskunni af altarinu og breiða yfir það klæði af rauðum purpura. 14Og þeir skulu leggja á það öll áhöld þess, sem höfð eru til þjónustu á því, eldpönnurnar, soðkrókana, eldspaðana og fórnarskálarnar, öll áhöld altarisins, og skulu þeir breiða yfir það ábreiðu af höfrungaskinnum og setja stengurnar í.

15Er þeir Aron og synir hans hafa lokið því að breiða yfir helgidóminn og öll áhöld helgidómsins, þá er herinn tekur sig upp, skulu Kahats synir þessu næst koma og bera. En eigi skulu þeir koma við helgidóminn, svo að þeir deyi ekki.

Þetta er það, sem Kahats synir eiga að bera við samfundatjaldið.

16Eleasar, sonur Arons prests, skal hafa umsjón yfir olíunni til ljósastikunnar, ilmreykelsinu, hinni stöðugu matfórn og smurningarolíunni, umsjón yfir allri búðinni og öllum helgum hlutum, sem í henni eru, og áhöldum, er þar til heyra."

17Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:

18"Látið ekki kynþátt Kahatítanna upprættan verða úr levítunum, 19heldur farið með þá á þessa leið, að þeir haldi lífi og deyi ekki, er þeir nálgast Hið háheilaga: Aron og synir hans skulu ganga inn og skipa hverjum sína þjónustu og sinn burð. 20En eigi skulu þeir sjálfir ganga inn og sjá helgidóminn, jafnvel eigi eitt augnablik, svo að þeir deyi ekki."


Störf kynþáttar Gersons

21Drottinn talaði við Móse og sagði:

22"Tak þú einnig tölu Gersons sona eftir ættum þeirra, eftir kynkvíslum þeirra. 23Skalt þú telja þá frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla þá sem koma til þess að gegna herþjónustu og inna af hendi störf við samfundatjaldið.

24Þetta er þjónusta Gersóníta kynkvíslanna, það sem þeir eiga að annast og bera: 25Þeir skulu bera dúka búðarinnar og samfundatjaldið, þakið á því og ábreiðuna af höfrungaskinnum, sem utan yfir því er, og dúkbreiðuna fyrir dyrum samfundatjaldsins. 26Enn fremur forgarðstjöldin og dúkbreiðuna fyrir dyrum forgarðsins, sem liggur allt í kringum búðina og altarið, og stögin, sem þar til heyra, og öll áhöld við þjónustu þeirra. Allt sem við þetta þarf að gjöra, skulu þeir inna af hendi. 27Eftir boði Arons og sona hans skal öll þjónusta sona Gersóníta fram fara, að því er snertir allt það, er þeir eiga að bera, og allt það, er þeir eiga að annast. Og þér skuluð vísa þeim á allt, sem þeir eiga að bera, með nafni. 28Þetta er þjónusta kynkvísla Gersóníta sona við samfundatjaldið, og það, sem þeir eiga að annast, skal vera undir umsjón Ítamars, sonar Arons prests.


Störf kynþáttar Merarí

29Sonu Merarí skalt þú telja eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra. 30Skalt þú telja þá frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla þá er ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið. 31Og þetta er það, sem þeir eiga að sjá um að bera, allt það sem þeim ber að annast við samfundatjaldið: þiljuborð búðarinnar, slár hennar, stólpar og undirstöður, 32enn fremur stólpar forgarðsins allt í kring og undirstöður þeirra, hælar og stög ásamt öllum áhöldum, er til þess heyra, og öllu því, er við þetta þarf að annast. Og þér skuluð vísa þeim á öll áhöld þau, er þeir eiga að bera, með nafni. 33Þetta er þjónusta kynkvísla Merarí sona. Öll þjónusta þeirra við samfundatjaldið skal vera undir umsjón Ítamars, sonar Arons prests."


Manntal levíta

34Móse og Aron og höfðingjar safnaðarins töldu nú sonu Kahatítanna eftir kynkvíslum þeirra og eftir ættum þeirra, 35frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla þá sem ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið. 36Og þeir, er taldir voru af þeim eftir kynkvíslum þeirra, voru 2.750. 37Þetta eru þeir, er taldir voru af kynkvíslum Kahatíta, allir þeir er þjónustu gegndu við samfundatjaldið og þeir Móse og Aron töldu að boði Drottins, er Móse flutti.

38Þeir sem taldir voru af Gersons sonum eftir kynkvíslum þeirra og eftir ættum þeirra, 39frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, allir þeir sem ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið - 40þeir er taldir voru af þeim eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, voru 2.630. 41Þetta eru þeir, er taldir voru af kynkvíslum Gersons sona, allir þeir er þjónustu gegndu við samfundatjaldið og þeir Móse og Aron töldu eftir boði Drottins.

42Þeir sem taldir voru af kynkvíslum Merarí sona, eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, 43frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, allir þeir sem ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið - 44þeir er taldir voru af þeim eftir kynkvíslum þeirra, voru 3.200. 45Þetta eru þeir, er taldir voru af kynkvíslum Merarí sona og þeir Móse og Aron töldu eftir boði Drottins, er Móse flutti.

46Allir þeir er taldir voru af levítunum og þeir Móse og Aron og höfðingjar Ísraels töldu eftir kynkvíslum þeirra og eftir ættum þeirra, 47frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, allir þeir sem komu til þess að inna af hendi þjónustustörf eða burðarstörf við samfundatjaldið - 48þeir er taldir voru af þeim, voru 8.580. 49Eftir boði Drottins var þeim hverjum einum undir umsjón Móse vísað á það, er þeir áttu að annast og þeir áttu að bera. Og þeir voru taldir, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.


Lög um óhreina menn

5
1Drottinn talaði við Móse og sagði:

2"Bjóð þú Ísraelsmönnum að láta burt fara úr herbúðunum alla menn líkþráa og alla, er rennsli hafa, svo og alla þá, er saurgaðir eru af líki. 3Skuluð þér láta burt fara bæði karla og konur, þér skuluð láta þá fara út fyrir herbúðirnar, svo að þeir saurgi ekki herbúðir sínar, með því að ég bý á meðal þeirra." 4Og Ísraelsmenn gjörðu svo og létu þá fara út fyrir herbúðirnar. Eins og Drottinn hafði boðið Móse, svo gjörðu Ísraelsmenn.


Lög um bætur fyrir rangfengið fé

5Drottinn talaði við Móse og sagði: "Tala þú til Ísraelsmanna:

6Þá er karl eða kona drýgir einhverja þá synd, er menn hendir, með því að sýna sviksemi gegn Drottni, og sá hinn sami verður sekur, 7þá skulu þau játa synd sína, er þau hafa drýgt, og bæta skulu þau sekt sína fullu verði og gjalda fimmtungi meira og greiða það þeim, er þau hafa orðið sek við. 8En eigi maðurinn engan nákominn ættingja, er sektin verði greidd, þá skal sektin, er greiða skal, heyra Drottni og falla undir prest, auk friðþægingarhrútsins, sem friðþægt er með fyrir þau.

9Sérhver fórnargjöf af öllum helgigjöfum Ísraelsmanna, sem þeir færa prestinum, skal vera hans eign, 10og það sem sérhver helgar, skal vera hans eign. Það sem einhver gefur prestinum, skal vera hans eign."


Lög um prófun vegna afbrýðisemi

11Drottinn talaði við Móse og sagði: 12"Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá:

Nú gjörist kona marglát og reynist ótrú manni sínum. 13Annar maður hefir samræði við hana, en maður hennar veit eigi af. Hún verður eigi uppvís að og hefir þó saurgað sig, og engin vitni eru mót henni og hún er eigi að því staðin. 14En yfir manninn kemur afbrýðisandi, svo að hann verður hræddur um konu sína, og hún hefir saurgað sig. Eða afbrýðisandi kemur yfir mann, og hann verður hræddur um konu sína, þótt hún hafi eigi saurgað sig. 15Þá fari maðurinn með konu sína til prestsins og færi honum fórnargjöfina fyrir hana: tíunda part úr efu af byggmjöli. Eigi skal hann hella yfir það olíu né leggja reykelsiskvoðu ofan á það, því að það er afbrýðismatfórn, minningarmatfórn, sem minnir á misgjörð.

16Presturinn skal taka konuna og leiða hana fram fyrir Drottin. 17Og prestur skal taka heilagt vatn í leirker, og prestur skal taka mold af gólfi búðarinnar og láta í vatnið. 18Og prestur skal leiða konuna fram fyrir Drottin og leysa hár konunnar og fá henni í hendur minningarmatfórnina - það er afbrýðismatfórn. En á beiskjuvatninu, er bölvan veldur, skal presturinn halda.

19Prestur skal særa hana og segja við konuna: ,Hafi enginn maður hjá þér legið og hafir þú eigi saurgað þig með lauslæti í hjúskap þínum, þá verði þetta beiskjuvatn, sem bölvan veldur, þér ósaknæmt. 20En hafir þú verið lauslát í hjúskapnum og hafir þú saurgast og einhver annar en maður þinn hefir haft samræði við þig,' 21þá skal prestur láta konuna vinna bölvunarsæri, og prestur skal segja við konuna: ,Drottinn gjöri þig að bölvan og að særi meðal fólks þíns, er Drottinn lætur lendar þínar hjaðna og kvið þinn þrútna. 22Og vatn þetta, er bölvan veldur, skal fara í innyfli þín, svo að kviðurinn þrútni og lendarnar hjaðni.' Og konan skal segja: ,Amen, amen!'

23Síðan skal prestur rita formælingu þessa í bók og strjúka hana út í beiskjuvatnið, 24og hann skal láta konuna drekka beiskjuvatnið, er bölvan veldur, svo að vatnið, sem bölvan veldur, fari ofan í hana og verði að beiskju. 25Og presturinn skal taka við afbrýðismatfórninni úr hendi konunnar, og hann skal veifa matfórninni frammi fyrir Drottni og bera hana á altarið. 26Og presturinn skal taka hnefafylli af matfórninni sem ilmhluta hennar og brenna á altarinu. Síðan skal hann láta konuna drekka vatnið.

27Og þegar hann hefir látið hana drekka vatnið, þá skal svo fara, að hafi hún saurgað sig og verið manni sínum ótrú, þá skal vatnið, er bölvan veldur, fara ofan í hana og verða að beiskju, og kviður hennar þrútna og lendar hennar hjaðna, og konan skal verða að bölvan meðal fólks síns. 28En hafi konan ekki saurgað sig og sé hún hrein, þá skal það ekki saka hana, og hún mun geta fengið getnað."

29Þetta eru lögin um afbrýðisemi, þegar gift kona gjörist marglát og saurgar sig 30eða þegar afbrýðisandi kemur yfir mann og hann verður hræddur um konu sína, þá skal hann leiða konuna fram fyrir Drottin, og prestur skal með hana fara í alla staði eftir lögum þessum. 31Maðurinn skal vera sýkn saka, en konan skal bera sekt sína.


Lög um vígða menn (nasírea)

6
1Drottinn talaði við Móse og sagði: 2"Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá:

Nú vill karl eða kona vinna heit nasírea til þess að helga sig Drottni, 3þá skal hann halda sér frá víni og áfengum drykk. Hann skal hvorki drekka vínsýru né sýru úr áfengum drykk, né heldur skal hann drekka nokkurn vínberjalög, og vínber ný eða þurrkuð skal hann eigi eta. 4Allan bindindistíma sinn skal hann eigi eta neitt það, sem búið er til af vínviði, hvorki kjarna né hýði.

5Allan tíma bindindisheitis hans skal rakhnífur eigi koma á höfuð honum. Uns þeir dagar eru fullnaðir, er hann hefir helgað sig Drottni, skal hann vera heilagur. Skal hann láta höfuðhár sitt vaxa sítt.

6Alla þá stund, er hann hefir helgað sig Drottni, skal hann ekki koma nærri líki. 7Hann skal ekki saurga sig vegna föður síns, vegna móður sinnar, vegna bróður síns eða vegna systur sinnar, er þau deyja, því að helgun Guðs hans er á höfði honum. 8Allan bindindistíma sinn er hann helgaður Drottni.

9Og verði einhver maður bráðkvaddur hjá honum, svo að helgað höfuð hans saurgast, þá skal hann raka höfuð sitt á hreinsunardegi sínum. Á sjöunda degi skal hann raka það. 10Og á áttunda degi skal hann færa prestinum tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur að dyrum samfundatjaldsins. 11Og prestur skal fórna annarri í syndafórn, en hinni í brennifórn og friðþægja fyrir hann, vegna þess að hann hefir syndgast á líki. Og hann skal helga höfuð sitt samdægurs. 12Og hann skal helga sig Drottni bindindistíma sinn og færa veturgamla kind í sektarfórn, en fyrri tíminn skal ónýttur, því að helgun hans var saurguð.

13Þetta eru ákvæðin um nasíreann: Þegar bindindistími hans er liðinn, skal leiða hann að dyrum samfundatjaldsins. 14Og hann skal færa Drottni fórn sína: veturgamalt hrútlamb gallalaust í brennifórn og veturgamla gimbur gallalausa í syndafórn og hrút gallalausan í heillafórn 15og körfu með ósýrðu brauði úr fínu mjöli, kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð, ásamt matfórninni og dreypifórnunum. 16Og presturinn skal bera það fram fyrir Drottin og fórna syndafórn hans og brennifórn. 17Og hann skal fórna Drottni hrútnum í heillafórn ásamt körfunni með ósýrða brauðinu, og presturinn skal fórna matfórn hans og dreypifórn.

18Nasíreinn skal raka helgað höfuð sitt við dyr samfundatjaldsins og taka helgað höfuðhár sitt og kasta því á eldinn undir heillafórninni. 19Og prestur skal taka soðna bóginn af hrútnum og eina ósýrða köku úr körfunni og eitt ósýrt flatbrauð og fá nasíreanum það í hendur, þá er hann hefir rakað helgað hár sitt. 20Og prestur skal veifa því sem veififórn frammi fyrir Drottni. Það er heilagt og heyrir presti, ásamt bringunni, sem veifa skal, og lærinu, sem fórna skal.

Upp frá því má nasíreinn drekka vín.

21Þetta eru ákvæðin um nasírea, sem gjörir heit, um fórnargjöf hans Drottni til handa vegna helgunar hans, auk þess sem hann annars hefir efni á. Samkvæmt heitinu, sem hann hefir unnið, skal hann gjöra, eftir ákvæðunum um bindindi hans."


Blessunarorðin

22Drottinn talaði við Móse og sagði: 23"Mæl þú til Arons og sona hans og seg:

Með þessum orðum skuluð þér blessa Ísraelsmenn:

24Drottinn blessi þig og varðveiti þig!

25Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur!

26Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið!

27Þannig skulu þeir leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn, og ég mun blessa þá."


Ættarhöfðingjarnir færa gjafir

7
1Þá er Móse hafði lokið við að reisa búðina og hafði smurt hana og vígt og öll áhöld hennar og smurt og vígt altarið og öll áhöld þess, 2færðu höfuðsmenn Ísraels fórnir, foringjar fyrir ættum þeirra - það er höfuðsmenn ættkvíslanna, forstöðumenn hinna töldu, - 3og þeir færðu fórnargjöf sína fram fyrir Drottin, sex skýlisvagna og tólf naut, einn vagn fyrir hverja tvo höfuðsmenn, og naut fyrir hvern þeirra. Færðu þeir þetta fram fyrir búðina.

4Drottinn talaði við Móse og sagði:

5"Tak þú við þessu af þeim, og það sé haft til þjónustugjörðar við samfundatjaldið, og fá þú þetta levítunum, eftir því sem þjónusta hvers eins er til."

6Þá tók Móse vagnana og nautin og seldi það levítunum í hendur. 7Gersons sonum fékk hann tvo vagna og fjögur naut, eftir þjónustu þeirra. 8Og Merarí sonum fékk hann fjóra vagna og átta naut, eftir þjónustu þeirra undir umsjón Ítamars, Aronssonar prests. 9En Kahats sonum fékk hann ekkert, því að á þeim hvíldi þjónusta hinna helgu dóma. Skyldu þeir bera þá á herðum sér.


Gjafir til altarisins

10Höfuðsmennirnir færðu gjafir til vígslu altarisins daginn sem það var smurt, og þeir færðu fórnargjöf sína fram fyrir altarið.

11Þá sagði Drottinn við Móse:

"Höfuðsmennirnir skulu bera fram fórnargjafir sínar sinn daginn hver til vígslu altarisins."

12Sá er færði fórnargjöf sína fyrsta daginn, var Nakson Ammínadabsson af ættkvísl Júda.

13Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fyllt fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 14bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 15ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 16geithafur til syndafórnar, 17og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Naksons Ammínadabssonar.

18Annan daginn færði Netanel Súarsson, höfuðsmaður Íssakars, fórn sína.

19Færði hann að fórnargjöf silfurfat, 130 sikla að þyngd, silfurskál, sjötíu sikla að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 20bolla, tíu gullsikla að þyngd, fullan af reykelsi, 21ungneyti, hrút og sauðkind veturgamla til brennifórnar, 22geithafur til syndafórnar, 23og til heillafórnar tvö naut, fimm hrúta, fimm kjarnhafra og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Netanels Súarssonar.

24Þriðja daginn höfuðsmaður Sebúlons sona, Elíab Helónsson.

25Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 26bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 27ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 28geithafur til syndafórnar, 29og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Elíabs Helónssonar.

30Fjórða daginn höfuðsmaður Rúbens sona, Elísúr Sedeúrsson.

31Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 32bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 33ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 34geithafur til syndafórnar, 35og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Elísúrs Sedeúrssonar.

36Fimmta daginn höfuðsmaður Símeons sona, Selúmíel Súrísaddaíson.

37Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 38bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 39ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 40geithafur til syndafórnar, 41og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Selúmíels Súrísaddaísonar.

42Sjötta daginn höfuðsmaður Gaðs sona, Eljasaf Degúelsson.

43Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 44bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 45ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 46geithafur til syndafórnar, 47og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Eljasafs Degúelssonar.

48Sjöunda daginn höfuðsmaður Efraíms sona, Elísama Ammíhúdsson.

49Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 50bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 51ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 52geithafur til syndafórnar, 53og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Elísama Ammíhúdssonar.

54Áttunda daginn höfuðsmaður Manasse sona, Gamlíel Pedasúrsson.

55Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu til matfórnar, 56bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 57ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 58geithafur til syndafórnar, 59og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar, og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Gamlíels Pedasúrssonar.

60Níunda daginn höfuðsmaður Benjamíns sona, Abídan Gídeóníson.

61Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 62bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 63ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 64geithafur til syndafórnar, 65og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Abídans Gídeonísonar.

66Tíunda daginn höfuðsmaður Dans sona, Akíeser Ammísaddaíson.

67Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 68bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 69ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 70geithafur til syndafórnar, 71og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Akíesers Ammísaddaísonar.

72Ellefta daginn höfuðsmaður Assers sona, Pagíel Ókransson.

73Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 74bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 75ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 76geithafur til syndafórnar, 77og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Pagíels Ókranssonar.

78Tólfta daginn höfuðsmaður Naftalí sona, Akíra Enansson.

79Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 80bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 81ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 82geithafur til syndafórnar, 83og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Akíra Enanssonar.

84Þetta voru gjafirnar frá höfuðsmönnum Ísraels til vígslu altarisins daginn sem það var smurt: tólf silfurföt, tólf silfurskálar, tólf gullbollar. 85Vó hvert fat 130 sikla silfurs og hver skál sjötíu. Allt silfur ílátanna vó 2.400 sikla eftir helgidómssikli. 86Tólf gullbollar, fullir af reykelsi, hver bolli tíu siklar eftir helgidómssikli. Allt gullið í bollunum vó 120 sikla.

87Öll nautin til brennifórnarinnar voru tólf uxar, auk þess tólf hrútar, tólf sauðkindur veturgamlar, ásamt matfórninni, er þeim fylgdi, og tólf geithafrar í syndafórn. 88Og öll nautin til heillafórnarinnar voru 24 uxar, auk þess sextíu hrútar, sextíu kjarnhafrar og sextíu sauðkindur veturgamlar. Þetta voru gjafirnar til vígslu altarisins, eftir að það hafði verið smurt.

89Þegar Móse gekk inn í samfundatjaldið til þess að tala við Drottin, heyrði hann röddina tala til sín ofan af lokinu, sem er yfir sáttmálsörkinni, fram á milli kerúbanna tveggja, og hann talaði við hann.


Lampar á sjöarma ljósastiku

8
1Drottinn talaði við Móse og sagði:

2"Tala þú við Aron og seg við hann: Þá er þú setur upp lampana, skulu lamparnir sjö varpa ljósi sínu fram undan ljósastikunni." 3Og Aron gjörði svo. Hann setti lampana upp framan á ljósastikuna, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

4Þetta var smíðið á ljósastikunni: Hún var gjör af gulli með drifnu smíði, bæði stétt hennar og blóm var drifið smíði. Hafði hann gjört ljósastikuna eftir fyrirmynd þeirri, er Drottinn hafði sýnt Móse.


Levítar skildir frá og vígðir

5Drottinn talaði við Móse og sagði:

6"Skil þú levítana úr Ísraelsmönnum og hreinsa þá. 7Og þetta skalt þú við þá gjöra til þess að hreinsa þá: Stökk þú á þá syndhreinsunarvatni, og þeir skulu láta rakhníf ganga yfir allan líkama sinn og þvo klæði sín og hreinsa sig. 8Og þeir skulu taka ungneyti og matfórn, er því fylgir, fínt mjöl olíublandað, og annað ungneyti skalt þú taka í syndafórn. 9Síðan skalt þú leiða levítana fram fyrir samfundatjaldið og safna saman öllum söfnuði Ísraelsmanna. 10Og þú skalt leiða levítana fram fyrir Drottin, og Ísraelsmenn skulu leggja hendur sínar yfir þá. 11Og Aron skal helga levítana sem fórn frammi fyrir Drottni af hendi Ísraelsmanna, og skulu þeir takast á hendur að gegna þjónustu Drottins. 12En levítarnir skulu leggja hendur sínar á höfuð nautanna. Öðru skal fórna í syndafórn og hinu í brennifórn Drottni til handa til þess að friðþægja fyrir levítana. 13Og þú skalt leiða þá fram fyrir Aron og fram fyrir sonu hans og helga þá sem fórn Drottni til handa. 14Og þú skalt greina þá frá Ísraelsmönnum, svo að þeir heyri mér. 15Því næst skulu levítarnir ganga inn til þess að gegna þjónustu við samfundatjaldið, og þú skalt hreinsa þá og helga þá sem fórn, 16því að þeir eru gefnir mér til fullkominnar eignar af Ísraelsmönnum. Í stað alls þess er opnar móðurlíf, í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna hefi ég tekið þá mér til eignar, 17því að ég á alla frumburði meðal Ísraelsmanna, bæði menn og skepnur. Á þeim degi, er ég laust alla frumburði í Egyptalandi, helgaði ég mér þá. 18Og ég tók levítana í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna. 19Og ég gaf þá Aroni og sonum hans til eignar af Ísraelsmönnum, til þess að þeir gegni þjónustu fyrir Ísraelsmenn í samfundatjaldinu og til þess að þeir friðþægi fyrir Ísraelsmenn, svo að eigi komi plága yfir Ísraelsmenn, þá er Ísraelsmenn koma nærri helgidóminum."

20Móse og Aron og allur söfnuður Ísraelsmanna gjörði svo við levítana. Gjörðu Ísraelsmenn að öllu leyti svo við þá sem Drottinn hafði boðið Móse um þá.

21Levítarnir syndhreinsuðu sig og þvoðu klæði sín, og Aron helgaði þá sem fórn frammi fyrir Drottni, og Aron friðþægði fyrir þá til þess að hreinsa þá. 22Gengu levítarnir því næst inn til þess að gegna þjónustu sinni í samfundatjaldinu fyrir augliti Arons og fyrir augliti sona hans. Gjörðu þeir svo við levítana sem Drottinn hafði boðið Móse um þá.

23Drottinn talaði við Móse og sagði: 24"Þetta gildir um levítana: Frá því þeir eru tuttugu og fimm ára og þaðan af eldri skulu þeir koma til þess að gegna herþjónustu með þjónustu í samfundatjaldinu. 25En frá því þeir eru fimmtugir skulu þeir láta af þjónustunni og eigi þjóna framar. 26Þeir mega veita bræðrum sínum aðstoð í samfundatjaldinu og annast það, sem annast ber, en þjónustu skulu þeir eigi gegna. Þannig skalt þú fara með levítana, að því er kemur til sýslunar þeirra."


Páskahald

9
1Drottinn talaði við Móse í Sínaí-eyðimörk á öðru ári eftir brottför þeirra af Egyptalandi, í fyrsta mánuðinum, og sagði:

2"Ísraelsmenn skulu halda páska á tilteknum tíma. 3Á fjórtánda degi þessa mánaðar um sólsetur skuluð þér halda þá á hinum tiltekna tíma. Eftir öllum skipunum og öllum ákvæðum um þá skuluð þér halda þá."

4Móse bauð Ísraelsmönnum að halda páskana. 5Og þeir héldu páska í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins, um sólsetur, í Sínaí-eyðimörk. Ísraelsmenn gjörðu að öllu leyti svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

6En þar voru menn, er saurgast höfðu af líki framliðins manns og gátu því eigi haldið páska þennan dag. Gengu þeir fyrir Móse og Aron þennan dag 7og sögðu við hann: "Vér erum óhreinir af líki framliðins manns; hví skulum vér verða út undan og eigi mega bera fram fórnargjöf Drottins meðal Ísraelsmanna á tilteknum tíma?"

8Móse sagði við þá: "Bíðið þér, ég ætla að heyra, hvað Drottinn skipar fyrir um yður."

9Drottinn talaði við Móse og sagði:

10"Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Ef einhver meðal yðar eða meðal niðja yðar er óhreinn af líki eða hann er í langferð, þá skal hann þó halda Drottni páska. 11Á fjórtánda degi hins annars mánaðar, um sólsetur, skulu þeir halda þá; með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta páskalambið. 12Engu skulu þeir leifa af því til morguns, og ekkert bein í því skulu þeir brjóta; skulu þeir halda páska eftir öllum páskalögunum. 13En hver sem er hreinn og ekki á ferð og vanrækir að halda páska, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni, því að hann færði Drottni eigi fórnargjöf á tilteknum tíma. Sá maður skal bera synd sína. 14Nú dvelur útlendur maður hjá yður, og vill hann halda Drottni páska, skal hann þá svo gjöra sem fyrir er mælt í páskalögunum og ákvæðunum um þá. Skulu vera ein lög hjá yður bæði fyrir útlenda menn og innborna."


Ský og eldbjarmi yfir helgidóminum

15Á þeim degi, sem búðin var reist, huldi skýið búðina - sáttmálstjaldið - og um kveldið var það yfir búðinni eins og eldbjarmi allt til morguns. 16Svo var það ávallt: Skýið huldi hana um daga og eldbjarmi um nætur. 17Og í hvert sinn, er skýið hófst upp frá tjaldinu, lögðu Ísraelsmenn upp, og þar sem skýið nam staðar, þar settu Ísraelsmenn herbúðir sínar. 18Að boði Drottins lögðu Ísraelsmenn upp, og að boði Drottins settu þeir herbúðir sínar. Alla þá stund, er skýið hvíldi yfir búðinni, héldu þeir kyrru fyrir í herbúðunum.

19Þegar skýið var yfir búðinni marga daga samfleytt, gættu Ísraelsmenn skipunar Drottins og lögðu ekki upp.

20Stundum var skýið aðeins fáa daga yfir búðinni; að boði Drottins héldu þeir kyrru fyrir í herbúðunum og að boði Drottins lögðu þeir upp.

21Stundum var skýið frá kveldi allt til morguns, og er skýið hófst upp með morgninum, lögðu þeir upp, eða það var daginn og nóttina: Þegar skýið hófst, þá lögðu þeir upp. 22Eða að skýið var tvo daga eða mánuð eða lengri tíma: Þegar það var langdvölum yfir búðinni og hvíldi yfir henni, héldu Ísraelsmenn kyrru fyrir í herbúðunum og lögðu ekki upp, en er það hófst, lögðu þeir upp.

23Að boði Drottins settu þeir herbúðir sínar, og að boði Drottins lögðu þeir upp. Skipunar Drottins gættu þeir að boði Drottins, er Móse flutti.


Ákvæði um silfurlúðra

10
1Drottinn talaði við Móse og sagði:

2"Gjör þér tvo lúðra af silfri. Með drifnu smíði skalt þú gjöra þá. Skalt þú hafa þá til að kalla saman söfnuðinn og þá er herinn tekur sig upp. 3Og þegar blásið er í þá báða, skal allur söfnuðurinn koma saman hjá þér fyrir dyrum samfundatjaldsins. 4En sé eigi blásið nema í annan þeirra, þá skulu foringjarnir koma til þín, höfuðsmenn Ísraels þúsunda.

5Þegar þér blásið hvellt, skal herinn, sem tjaldar að austanverðu, leggja upp. 6Og þegar þér blásið hvellt í annan sinn, skal herinn, sem tjaldar að sunnanverðu, leggja upp. Skal blása hvellt, þegar leggja skal upp. 7En þegar safna á saman söfnuðinum, skulu þér blása, en þó eigi hvellt.

8Synir Arons, prestarnir, skulu blása í lúðrana, og skal það vera ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns.

9Þá er þér farið í stríð í landi yðar móti óvinum yðar, sem á yður herja, skuluð þér blása hvellt í lúðrana, og mun yðar minnst verða af Drottni, Guði yðar, og þér frelsaðir verða frá fjandmönnum yðar.

10Á gleðidögum yðar, á löghátíðum yðar og í mánaðarbyrjun skuluð þér og blása í lúðrana við brennifórnir yðar og heillafórnir, og skulu þeir vera yður til minningar frammi fyrir Guði yðar. Ég er Drottinn, Guð yðar."


Haldið frá Sínaí áleiðis til Kades

11Á öðru ári, í öðrum mánuðinum, á tuttugasta degi mánaðarins hófst skýið upp frá sáttmálsbúðinni. 12Tóku Ísraelsmenn sig þá upp eftir röð úr Sínaí-eyðimörk, og skýið nam staðar í Paran-eyðimörk. 13Þannig lögðu þeir upp í fyrsta skiptið að boði Drottins, er Móse flutti.

14Tók merki herbúða Júda sona sig fyrst upp eftir hersveitum þeirra, en fyrir her hans var Nakson Ammínadabsson. 15Og fyrir her ættkvíslar Íssakars sona var Netanel Súarsson. 16Og fyrir her ættkvíslar Sebúlons sona var Elíab Helónsson.

17Er búðin var ofan tekin, tóku Gersons synir og Merarí synir sig upp. Báru þeir búðina.

18Merki Rúbens herbúða tók sig upp eftir hersveitum þeirra, en fyrir her hans var Elísúr Sedeúrsson. 19Og fyrir her ættkvíslar Símeons sona var Selúmíel Súrísaddaíson. 20Og fyrir her ættkvíslar Gaðs sona var Eljasaf Degúelsson.

21Þá tóku Kahatítar sig upp. Báru þeir hina helgu dóma. En búðin skyldi sett upp, áður en þeir kæmu.

22Merki herbúða Efraíms sona tók sig upp eftir hersveitum þeirra, en fyrir her hans var Elísama Ammíhúdsson. 23Og fyrir her ættkvíslar Manasse sona var Gamlíel Pedasúrsson. 24Og fyrir her ættkvíslar Benjamíns sona var Abídan Gídeóníson.

25Merki herbúða Dans sona tók sig upp eftir hersveitum þeirra. Fór það síðast allra herbúðanna, en fyrir her hans var Akíeser Ammísaddaíson. 26Og fyrir her ættkvíslar Assers sona var Pagíel Ókransson. 27Og fyrir her ættkvíslar Naftalí sona var Akíra Enansson. 28Þessi var röðin á Ísraelsmönnum eftir hersveitum þeirra, er þeir lögðu upp.

29Þá sagði Móse við Hóbab Regúelsson Midíaníta, tengdaföður Móse: "Vér leggjum nú upp áleiðis til þess staðar, sem Drottinn hét, að hann mundi gefa oss. Kom þú með oss, og munum vér gjöra vel við þig, því að Drottinn hefir heitið Ísrael góðu."

30Hóbab svaraði: "Eigi vil ég fara, heldur mun ég halda heim í land mitt og til ættfólks míns."

31En Móse sagði: "Eigi mátt þú yfirgefa oss, af því að þú veist, hvar vér getum tjaldað í eyðimörkinni, og skalt þú vera oss sem auga. 32Og farir þú með oss og oss hlotnast þau gæði, sem Drottinn vill veita oss, þá munum vér gjöra vel við þig."

33Héldu þeir nú frá fjalli Drottins þrjár dagleiðir, en sáttmálsörk Drottins fór á undan þeim þrjár dagleiðir til þess að velja hvíldarstað handa þeim. 34Og ský Drottins var yfir þeim á daginn, er þeir tóku sig upp úr herbúðunum.

35En er örkin tók sig upp, sagði Móse: "Rís þú upp, Drottinn, svo að óvinir þínir tvístrist og fjendur þínir flýi fyrir þér." 36Og er hún nam staðar, sagði hann: "Hverf þú aftur, Drottinn, til hinna tíu þúsund þúsunda Ísraels."


Möglun lýðsins og kveinstafir

11
1Lýðurinn tók að mögla hátt gegn Drottni yfir böli sínu. Og er Drottinn heyrði það, upptendraðist reiði hans. Kviknaði þá eldur frá Drottni meðal þeirra og eyddi ysta hluta herbúðanna. 2Þá kveinaði lýðurinn fyrir Móse, og Móse bað til Drottins. Tók þá eldurinn að slokkna. 3Var staður þessi kallaður Tabera, því að eldur Drottins kviknaði meðal þeirra.

4Útlendur lýður, sem með þeim var, fylltist lysting. Tóku Ísraelsmenn þá einnig að kveina og sögðu: "Hver gefur oss nú kjöt að eta? 5Víst munum vér eftir fiskinum, sem vér átum á Egyptalandi fyrir ekki neitt, eftir agúrkunum, melónunum, graslauknum, blómlauknum og hnapplauknum. 6En nú örmagnast sála vor. Hér er alls ekki neitt, vér sjáum ekkert nema þetta manna."


Manna

7Manna var eins og kóríanderfræ og að útliti sem bedolakharpeis. 8Fólkið fór á víð og dreif og tíndi, og þeir möluðu það í handkvörnum eða steyttu það í mortéli, suðu því næst í pottum og gjörðu úr því kökur, en það var á bragðið eins og olíukökur. 9Og þegar dögg féll á nóttum yfir herbúðirnar, þá féll og manna yfir þær.


Andinn kemur yfir sjötíu öldunga Ísraels

10Móse heyrði fólkið gráta, hvern með sitt skuldalið fyrir dyrum tjalds síns. Upptendraðist þá reiði Drottins ákaflega, og féll Móse það illa.

11Móse sagði við Drottin: "Hví gjörir þú svo illa við þjón þinn, og hví hefi ég eigi fundið náð í augum þínum, að þú skulir leggja á mig byrði alls þessa fólks? 12Hefi ég gengið þungaður að öllu þessu fólki? Hefi ég borið það í heiminn, að þú skulir segja við mig: ,Ber það í faðmi þér, eins og barnfóstri ber brjóstmylking,' - inn í landið, sem þú sórst feðrum þeirra? 13Hvaðan á ég að fá kjöt til að gefa öllu þessu fólki? Því að þeir gráta fyrir mér og segja: ,Gef oss kjöt að eta!' 14Ég rís ekki einn undir öllu þessu fólki, því að það er mér of þungt. 15Og ef þú ætlar að fara svona með mig, þá deyð mig heldur hreinlega, ef ég hefi fundið náð í augum þínum, svo að ég þurfi eigi að horfa upp á ógæfu mína."

16Þá sagði Drottinn við Móse: "Safna þú mér sjötíu mönnum af öldungum Ísraels, sem þú veist að eru öldungar meðal fólksins og tilsjónarmenn þess, og skalt þú fara með þá að samfundatjaldinu, svo að þeir skipi sér þar ásamt þér. 17Og ég vil stíga niður og tala þar við þig, og ég vil taka af anda þeim, sem yfir þér er, og leggja yfir þá, svo að þeir beri með þér byrði fólksins og þú berir hana ekki einn. 18Og til fólksins skalt þú mæla: ,Helgið yður til morguns. Þá skuluð þér fá kjöt að eta. Því að þér hafið kveinað í eyru Drottins og sagt: Hver gefur oss kjöt að eta? því að vel leið oss í Egyptalandi. - Og Drottinn mun gefa yður kjöt að eta. 19Þér skuluð ekki eta það einn dag, og ekki tvo daga, og ekki fimm daga, og ekki tíu daga, og ekki tuttugu daga, 20heldur heilan mánuð, þangað til það gengur út af nösum yðar og yður býður við því, af því að þér hafið hafnað Drottni, sem meðal yðar er, og kveinað fyrir augliti hans og sagt: Hví fórum vér burt úr Egyptalandi?'"

21Þá sagði Móse: "Fólkið, sem ég er með, er sex hundruð þúsund fótgangandi manna, og þú segir: ,Ég vil gefa þeim kjöt að eta í heilan mánuð.' 22Á þá að slátra sauðum og nautum handa þeim, svo að þeim nægi? Eða á að safna saman öllum fiskum í sjónum handa þeim, svo að þeim nægi?"

23Drottinn sagði við Móse: "Er þá hönd Drottins stutt orðin? Nú skalt þú sjá, hvort orð mín koma fram við þig eða ekki."

24Móse gekk burt og bar fólkinu orð Drottins og safnaði saman sjötíu manns af öldungum fólksins og lét þá skipa sér umhverfis tjaldið. 25Og Drottinn sté niður í skýinu og talaði við hann, og hann tók af anda þeim, sem yfir honum var, og lagði hann yfir öldungana sjötíu. Og er andinn kom yfir þá, spáðu þeir, og aldrei síðan.

26Tveir menn höfðu orðið eftir í herbúðunum. Hét annar Eldad, en hinn Medad, og andinn kom yfir þá - voru þeir meðal hinna skráðu, en höfðu ekki gengið út að tjaldinu -, og þeir spáðu í herbúðunum. 27Þá kom ungmenni hlaupandi og sagði Móse og mælti: "Eldad og Medad eru að spá í herbúðunum!"

28Jósúa Núnsson, er þjónað hafði Móse frá æsku, svaraði og sagði: "Móse, herra minn, bannaðu þeim það!" 29En Móse sagði við hann: "Tekur þú upp þykkjuna fyrir mig? Ég vildi að allur lýður Drottins væri spámenn, svo að Drottinn legði anda sinn yfir þá." 30Og Móse gekk aftur í herbúðirnar, hann og öldungar Ísraels.


Lynghænur

31Þá tók að blása vindur frá Drottni, og flutti hann lynghæns frá sjónum og varp þeim yfir herbúðirnar, svo sem dagleið í allar áttir, hringinn í kringum herbúðirnar, og um tvær álnir frá jörðu. 32Og fólkið fór til allan þann dag og alla nóttina og allan daginn eftir og safnaði lynghænsum. Sá sem minnstu safnaði, safnaði tíu kómer. Og þeir breiddu þau allt í kringum herbúðirnar. 33Meðan kjötið var enn milli tanna þeirra, áður en það var upp unnið, upptendraðist reiði Drottins gegn fólkinu, og Drottinn lét þar verða mjög mikinn mannfelli meðal fólksins. 34Og staður þessi var nefndur Kibrót-hattava, því að þar grófu þeir fólkið, er fyllst hafði græðgi.

35Frá Kibrót-hattava hélt lýðurinn til Haserót, og þeir staðnæmdust í Haserót.


Mirjam verður líkþrá

12
1Mirjam og Aron mæltu í gegn Móse vegna blálensku konunnar, er hann hafði gengið að eiga, því að hann hafði gengið að eiga blálenska konu. 2Og þau sögðu: "Hefir Drottinn aðeins talað við Móse? Hefir hann ekki talað við okkur líka?" Og Drottinn heyrði það. 3En maðurinn Móse var einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.

4Þá talaði Drottinn allt í einu til Móse, Arons og Mirjam: "Farið þið þrjú til samfundatjaldsins!" Og þau gengu þangað þrjú. 5Þá sté Drottinn niður í skýstólpanum og nam staðar í tjalddyrunum og kallaði á Aron og Mirjam, og þau gengu bæði fram. 6Og hann sagði: "Heyrið orð mín! Þegar spámaður er meðal yðar, þá birtist ég honum í sýn, eða tala við hann í draumi. 7Ekki er því þannig farið um þjón minn Móse. Honum er trúað fyrir öllu húsi mínu. 8Ég tala við hann munni til munns, berlega og eigi í ráðgátum, og hann sér mynd Drottins. Og hví skirrðust þið þá eigi við að mæla í gegn þjóni mínum, í gegn Móse?"

9Reiði Drottins upptendraðist gegn þeim, og hann fór burt. 10Og skýið vék burt frá tjaldinu, og sjá, Mirjam var orðin líkþrá, hvít sem snjór.

Aron sneri sér að Mirjam, og sjá, hún var orðin líkþrá. 11Þá sagði Aron við Móse: "Æ, herra minn! Lát okkur eigi gjalda þess, að við breyttum heimskulega og syndguðum. 12Æ, lát hana eigi vera sem andvana burð, sem helmingurinn af holdinu er rotnaður á, þá er hann kemur af móðurlífi."

13Móse hrópaði til Drottins: "Æ, Guð! Gjör hana aftur heila!" 14Þá sagði Drottinn við Móse: "Ef faðir hennar hefði hrækt í andlit henni, mundi hún þá eigi hafa orðið að bera kinnroða í sjö daga? Skal hún í sjö daga vera inni byrgð utan herbúða, en eftir það má taka hana inn aftur." 15Og Mirjam var byrgð inni sjö daga fyrir utan herbúðirnar, og lýðurinn lagði ekki upp fyrr en Mirjam var aftur inn tekin.

16Eftir þetta lagði lýðurinn upp frá Haserót og setti herbúðir sínar í Paran-eyðimörk.


Könnunarleiðangur til Kanaanlands

13
1Drottinn talaði við Móse og sagði:

2"Send þú menn til að kanna Kanaanland, er ég mun gefa Ísraelsmönnum. Þér skuluð senda einn mann af ættkvísl hverri, og sé hver þeirra höfðingi meðal þeirra."

3Og Móse sendi þá úr Paran-eyðimörk að boði Drottins. Þeir menn voru allir höfuðsmenn meðal Ísraelsmanna, 4og þessi eru nöfn þeirra:

Af ættkvísl Rúbens: Sammúa Sakkúrsson.

5Af ættkvísl Símeons: Safat Hóríson.

6Af ættkvísl Júda: Kaleb Jefúnneson.

7Af ættkvísl Íssakars: Jígeal Jósefsson.

8Af ættkvísl Efraíms: Hósea Núnsson.

9Af ættkvísl Benjamíns: Paltí Rafúson.

10Af ættkvísl Sebúlons: Gaddíel Sódíson.

11Af ættkvísl Jósefs, af ættkvísl Manasse: Gaddí Súsíson.

12Af ættkvísl Dans: Ammíel Gemallíson.

13Af ættkvísl Assers: Setúr Míkaelsson.

14Af ættkvísl Naftalí: Nakbí Vofsíson.

15Af ættkvísl Gaðs: Geúel Makíson.

16Þessi eru nöfn þeirra manna, sem Móse sendi til að kanna landið. En Móse kallaði Hósea Núnsson Jósúa.

17Móse sendi þá til að kanna Kanaanland og sagði við þá: "Farið þér inn í Suðurlandið og gangið á fjöll upp 18og skoðið landið, hvernig það er, og fólkið, sem í því býr, hvort það er hraustlegt eða veiklegt, fátt eða margt, 19og hvernig landið er, sem það býr í, hvort það er gott eða illt, og hvernig bæirnir eru, sem það býr í, hvort það eru tjöld eða víggirtar borgir, 20og hvernig landið er, hvort það er feitt eða magurt, hvort þar eru skógar eða ekki. Og verið hugrakkir og komið með nokkuð af ávöxtum landsins." En þetta var á öndverðum vínberjatíma.

21Héldu þeir nú norður eftir og könnuðu landið frá Síneyðimörk allt til Rehób, þangað sem leið liggur til Hamat.

22Þeir fóru inn í Suðurlandið og komu til Hebron. Þar voru þeir Ahíman, Sesaí og Talmaí Anakssynir (en Hebron var reist sjö árum fyrr en Sóan í Egyptalandi).

23Þeir komu í Eskóldal og sniðu þar af vínviðargrein með einum vínberjaklasa og báru hann tveir á stöng milli sín, þar að auki nokkur granatepli og nokkrar fíkjur. 24Var staður þessi kallaður Eskóldalur vegna klasans, sem Ísraelsmenn skáru þar af.

25Þeir sneru aftur að fjörutíu dögum liðnum og höfðu þá kannað landið. 26Og þeir héldu heimleiðis og komu til Móse og Arons og alls safnaðar Ísraelsmanna í Paran-eyðimörk, til Kades, og sögðu þeim og öllum söfnuðinum af ferðum sínum og sýndu þeim ávöxtu landsins.

27Þeir sögðu Móse frá og mæltu: "Vér komum í landið, þangað sem þú sendir oss, og að sönnu flýtur það í mjólk og hunangi, og þetta er ávöxtur þess. 28En það er hraust þjóð, sem í landinu býr, og borgirnar eru víggirtar og stórar mjög, og Anaks sonu sáum vér þar einnig. 29Amalekítar byggja Suðurlandið, og Hetítar, Jebúsítar og Amorítar byggja fjalllendið, og Kanaanítar búa við sjóinn og meðfram Jórdan."

30Kaleb stöðvaði kurr lýðsins gegn Móse og mælti: "Förum þangað og leggjum það undir oss, því að vér munum fá unnið það." 31En þeir menn, er með honum höfðu farið, sögðu: "Oss er ofvaxið að fara mót þessari þjóð, því að hún er sterkari en vér."

32Og þeir sem kannað höfðu landið, sögðu Ísraelsmönnum illt af því og mæltu: "Landið, sem vér fórum um til þess að kanna það, er land sem etur upp íbúa sína, og allt fólkið, sem vér sáum þar, eru risavaxnir menn. 33Og vér sáum þar risa, Anakssonu, sem eru risa ættar, og vér vorum í augum sjálfra vor sem engisprettur, og eins vorum vér í þeirra augum."


Fólkið gjörir uppreisn

14
1Þá æpti allur söfnuðurinn upp yfir sig, og fólkið grét þá nótt. 2Og allir Ísraelsmenn mögluðu gegn Móse og Aroni, og allur söfnuðurinn sagði við þá: "Guð gæfi, að vér hefðum dáið í Egyptalandi eða vér hefðum dáið í þessari eyðimörk! 3Hví leiðir Drottinn oss inn í þetta land til þess að falla fyrir sverði? Konur vorar og börn munu verða að herfangi. Mun oss eigi betra að snúa aftur til Egyptalands?" 4Og þeir sögðu hver við annan: "Tökum oss foringja og hverfum aftur til Egyptalands!"

5Þá féllu þeir Móse og Aron á ásjónur sínar frammi fyrir allri samkomu safnaðar Ísraelsmanna. 6En Jósúa Núnsson og Kaleb Jefúnneson, tveir þeirra, sem kannað höfðu landið, rifu klæði sín. 7Og þeir sögðu við allan söfnuð Ísraelsmanna: "Land það, sem vér fórum um til þess að kanna það, er mesta ágætisland. 8Ef Drottinn hefir á oss velþóknun, þá mun hann flytja oss inn í þetta land og gefa oss það, landið, sem flýtur í mjólk og hunangi. 9Gjörið aðeins ekki uppreisn móti Drottni og hræðist ekki landsfólkið, því að þeir eru brauð vort. Vikin er frá þeim vörn þeirra, en Drottinn er með oss! Hræðist þá eigi!"

10Allur söfnuðurinn vildi berja þá grjóti, en þá birtist dýrð Drottins í samfundatjaldinu öllum Ísraelsmönnum.


Móse biður lýðnum miskunnar

11Drottinn sagði við Móse: "Hversu lengi mun þessi þjóð halda áfram að fyrirlíta mig, og hversu lengi munu þeir vantreysta mér, þrátt fyrir öll þau tákn, sem ég hefi gjört meðal þeirra? 12Mun ég nú slá þá með drepsótt og tortíma þeim, en þig mun ég gjöra að þjóð, meiri og voldugri en þeir eru."

13Móse sagði við Drottin: "En Egyptar hafa heyrt, að þú hafir með mætti þínum flutt þennan lýð burt frá þeim, 14og þeir hafa sagt það íbúum þessa lands. Þeir hafa heyrt, að þú, Drottinn, sért meðal þessa fólks, að þú, Drottinn, hafir birst þeim augliti til auglitis, og að ský þitt standi yfir þeim og að þú gangir fyrir þeim í skýstólpa um daga og í eldstólpa um nætur. 15Ef þú nú drepur fólk þetta sem einn mann, munu þjóðir þær, er spurnir hafa af þér haft, mæla á þessa leið: 16,Af því að Drottinn megnaði eigi að leiða þennan lýð inn í landið, sem hann hafði svarið þeim, þá slátraði hann þeim í eyðimörkinni.'

17Sýn nú mátt þinn mikinn, Drottinn minn, eins og þú hefir heitið, þá er þú sagðir: 18,Drottinn er þolinmóður og gæskuríkur, fyrirgefur misgjörðir og afbrot, en lætur þau þó eigi með öllu óhegnd, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið.' 19Fyrirgef misgjörðir þessa fólks eftir mikilli miskunn þinni og eins og þú hefir fyrirgefið þessu fólki frá Egyptalandi og hingað."

20Drottinn sagði: "Ég fyrirgef, eins og þú biður. 21En svo sannarlega sem ég lifi og öll jörðin er full af dýrð Drottins: 22Allir þeir menn, sem séð hafa dýrð mína og tákn mín, þau er ég gjörði í Egyptalandi og í eyðimörkinni, og nú hafa freistað mín tíu sinnum og óhlýðnast röddu minni, 23þeir skulu vissulega ekki sjá landið, sem ég sór feðrum þeirra. Og engir þeirra manna, sem mig hafa fyrirlitið, skulu sjá það. 24En af því að annar andi er yfir þjóni mínum Kaleb, og af því að hann hefir fylgt mér trúlega, þá vil ég leiða hann inn í landið, sem hann fór til, og niðjar hans skulu eignast það. 25En Amalekítar og Kanaanítar búa á láglendinu. Snúið við á morgun og farið í eyðimörkina leiðina til Sefhafs."


Fólkið dæmt fyrir að hafna fyrirheitna landinu

26Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði: 27"Hversu lengi á ég að umbera þennan illa lýð, sem möglar í gegn mér? Ég hefi heyrt kurr Ísraelsmanna, er þeir hafa gjört í gegn mér. 28Seg þú þeim: ,Svo sannarlega sem ég lifi - segir Drottinn -, eins og þér hafið talað í mín eyru, svo mun ég við yður gjöra. 29Í þessari eyðimörk skuluð þér dauðir hníga, allir þér, sem taldir voruð, með fullri tölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, þér sem möglað hafið í gegn mér. 30Þér skuluð vissulega ekki koma inn í landið, sem ég sór að gefa yður til bústaðar, nema Kaleb Jefúnneson og Jósúa Núnsson. 31En börn yðar, er þér sögðuð að verða mundu að herfangi, þau mun ég flytja þangað, og þau munu fá að kynnast landinu, sem þér höfnuðuð. 32En sjálfir skuluð þér dauðir hníga í þessari eyðimörk. 33Og synir yðar skulu fara með hjarðir um eyðimörkina í fjörutíu ár og gjalda fráhvarfs yðar, uns þér allir liggið dauðir í eyðimörkinni.

34Eins og þér voruð í fjörutíu daga að kanna landið, svo skuluð þér bera misgjörð yðar í fjörutíu ár, eitt ár fyrir hvern dag, og fá að reyna, hvað það er að vera yfirgefinn af mér.' 35Ég Drottinn hefi sagt: ,Sannarlega mun ég svo gjöra við allan þennan illa lýð, sem gjört hefir samblástur móti mér. Í þessari eyðimörk skulu þeir farast og þar skulu þeir deyja.'"

36Þeir menn, sem Móse hafði sent til að kanna landið og aftur hurfu og komu öllum lýðnum til að mögla móti honum með því að segja illt af landinu, - 37þeir menn, sem lastað höfðu landið, biðu bráðan bana fyrir augliti Drottins. 38En Jósúa Núnsson og Kaleb Jefúnneson lifðu eftir af þeim mönnum, sem farið höfðu að kanna landið.


Lýðurinn óhlýðnast að nýju

39Móse flutti öllum Ísraelsmönnum þessi orð. Varð fólkið þá mjög sorgbitið. 40Og þeir risu árla um morguninn og gengu upp á fjallshrygginn og sögðu: "Hér erum vér! Viljum vér nú fara til þess staðar, sem Drottinn hefir talað um, því að vér höfum syndgað!"

41Þá mælti Móse: "Hví brjótið þér boð Drottins? Það mun eigi lánast! 42Farið eigi, því að Drottinn er eigi meðal yðar, svo að þér bíðið eigi ósigur fyrir óvinum yðar. 43Amalekítar og Kanaanítar eru þar fyrir yður, og þér munuð falla fyrir sverði. Sökum þess að þér hafið snúið baki við Drottni, mun Drottinn eigi með yður vera."

44En þeir létu eigi af þrályndi sínu og fóru upp á fjallstindinn, en sáttmálsörk Drottins og Móse viku eigi úr herbúðunum. 45Þá komu Amalekítar og Kanaanítar, er á fjalli þessu bjuggu, ofan, unnu sigur á þeim og tvístruðu þeim alla leið til Horma.


Lög um fórnir og helgihald

15
1Drottinn talaði við Móse og sagði: 2"Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá:

Þegar þér komið í land það, sem ég mun gefa yður til bólfestu, 3og þér færið Drottni eldfórn, hvort heldur er brennifórn eða sláturfórn, til að efna heit eða í sjálfviljafórn eða í tilefni af löghátíðum yðar, til þess að gjöra Drottni þægilegan ilm af nautum eða sauðfénaði, 4þá skal sá, er færir Drottni fórnargjöf sína, jafnframt bera fram í matfórn einn tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við einn fjórða part úr hín af olíu. 5En af víni í dreypifórn skalt þú fórna einum fjórða parti úr hín með brennifórn eða sláturfórn með hverri sauðkind. 6Eða sé það með hrút, þá skalt þú fórna tveim tíundu pörtum úr efu af fínu mjöli, blönduðu við þriðjung hínar af olíu í matfórn, 7en af víni í dreypifórn þriðjung hínar. Skalt þú fram bera það sem þægilegan ilm Drottni til handa. 8Og þegar þú fórnar ungneyti í brennifórn eða sláturfórn til þess að efna heit eða í heillafórn Drottni til handa, 9þá skal fram bera í matfórn með ungneytinu þrjá tíundu parta úr efu af fínu mjöli, blönduðu við hálfa hín af olíu, 10en af víni skalt þú fram bera í dreypifórn hálfa hín sem eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa. 11Skal svo gjört við sérhvern uxa, sérhvern hrút, við sérhvert lamb, hvort heldur er af sauðkindum eða geitum. 12Eftir tölunni á því, sem þér fórnið, skuluð þér svo gjöra við hverja skepnu eftir tölu þeirra.

13Sérhver innborinn maður skal fara eftir þessu, þegar hann færir Drottni eldfórn þægilegs ilms. 14Og ef útlendingur dvelur um hríð meðal yðar eða einhver, sem tekið hefir sér fastan bústað meðal yðar, og hann fórnar Drottni eldfórn þægilegs ilms, þá skal hann gjöra svo sem þér gjörið. 15Að því er söfnuðinn snertir, þá skulu vera ein lög bæði fyrir yður og útlendan mann, er hjá yður dvelur. Er það ævarandi lögmál frá kyni til kyns. Fyrir Drottni gildir hið sama um útlendan mann sem um yður. 16Ein lög og einn réttur skal vera bæði fyrir yður og útlendan mann, sem með yður dvelur."

17Drottinn talaði við Móse og sagði: 18"Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá:

Þegar þér komið í land það, er ég mun leiða yður inn í, 19þá skuluð þér færa Drottni fórn, er þér etið af brauði landsins. 20Sem frumgróða af deigi yðar skuluð þér fórna köku að fórnargjöf. Eins og fórnargjöfinni af láfanum, svo skuluð þér fórna henni. 21Af frumgróðanum af deigi yðar skuluð þér gefa Drottni fórnargjöf frá kyni til kyns.

22Ef yður yfirsést og þér haldið eigi öll þessi boðorð, sem Drottinn hefir lagt fyrir Móse, 23allt það sem Drottinn hefir boðið yður fyrir munn Móse, frá þeim degi, er Drottinn bauð það og upp frá því, frá kyni til kyns, 24og ef misgjörðin er framin án þess söfnuðurinn viti af, þá skal allur söfnuðurinn fórna ungneyti í brennifórn til þægilegs ilms fyrir Drottin, ásamt matfórn og dreypifórn, er því fylgja, að réttum sið, og geithafri í syndafórn. 25Og presturinn skal friðþægja fyrir allan söfnuð Ísraelsmanna, og þeim mun fyrirgefið verða. Því að það var yfirsjón, og þeir hafa fram borið fórnargjöf sína, eldfórn Drottni til handa, svo og syndafórn sína, fram fyrir Drottin vegna yfirsjónar sinnar. 26Og öllum söfnuði Ísraelsmanna mun fyrirgefið verða, svo og útlendum manni, er meðal yðar dvelur, því að yfirsjónin féll á allan söfnuðinn.

27Ef einhver maður syndgar af vangá, skal hann fórna veturgamalli geit í syndafórn. 28Og presturinn skal frammi fyrir Drottni friðþægja fyrir þann, er yfirsjón hefir hent og syndgað hefir af vangá, til þess að friðþægja fyrir hann, og honum mun fyrirgefið verða.

29Þér skuluð hafa ein lög fyrir þann, er gjörir eitthvað af vangá, bæði fyrir mann innborinn meðal Ísraelsmanna og fyrir útlending, er dvelur meðal þeirra. 30En sá maður, er fremur eitthvað af ásetningi, hvort heldur er innborinn maður eða útlendingur, hann smánar Drottin, og skal sá maður upprættur verða úr þjóð sinni, 31því að hann hefir virt orð Drottins að vettugi og brotið boðorð hans. Slíkur maður skal vægðarlaust upprættur verða; misgjörð hans hvílir á honum."

32Meðan Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni, stóðu þeir mann að því að bera saman við á hvíldardegi. 33Og þeir sem hittu hann, þar sem hann var að bera saman viðinn, færðu hann fyrir Móse og Aron og fyrir allan söfnuðinn. 34Og þeir settu hann í varðhald, því að enginn úrskurður var til um það, hversu með hann skyldi fara. 35En Drottinn sagði við Móse: "Manninn skal af lífi taka. Allur söfnuðurinn skal berja hann grjóti fyrir utan herbúðirnar." 36Þá færði allur söfnuðurinn hann út fyrir herbúðirnar og barði hann grjóti til bana, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

37Drottinn talaði við Móse og sagði: 38"Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá, að þeir skuli gjöra sér skúfa á skaut klæða sinna, frá kyni til kyns, og festa snúru af bláum purpura við skautskúfana. 39Og það skal vera yður merkiskraut: Þegar þér horfið á það, skuluð þér minnast allra boðorða Drottins, svo að þér breytið eftir þeim og hlaupið ekki eftir fýsnum hjarta yðar né augna, en með því leiðist þér til hjáguðadýrkunar. 40Þannig skuluð þér muna öll mín boðorð og breyta eftir þeim og vera heilagir fyrir Guði yðar. 41Ég er Drottinn Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera yðar Guð. Ég er Drottinn Guð yðar."


Levítar gera uppreisn gegn prestum

16
1Kóra, sonur Jísehars, Kahats sonar, Leví sonar, gjörði uppreisn, ásamt þeim Datan og Abíram, sonum Elíabs, Pallú sonar, Rúbens sonar. 2Þeir risu upp í móti Móse og með þeim tvö hundruð og fimmtíu manns af Ísraelsmönnum. Voru það höfuðsmenn safnaðarins og fulltrúar, nafnkunnir menn.

3Þeir söfnuðust saman í gegn þeim Móse og Aroni og sögðu við þá: "Nú er nóg komið! Allur söfnuðurinn er heilagur, og Drottinn er meðal þeirra. Hví hefjið þið ykkur þá upp yfir söfnuð Drottins?"

4Er Móse heyrði þetta, féll hann fram á ásjónu sína. 5Því næst mælti hann við Kóra og allan flokk hans og sagði: "Á morgun mun Drottinn kunnugt gjöra, hver hans er og hver heilagur er og hvern hann lætur nálgast sig. Og þann sem hann kýs sér, mun hann láta nálgast sig. 6Gjörið þetta: Takið yður eldpönnur, Kóra og allur flokkur hans, 7látið eld í þær og leggið á reykelsi fyrir augliti Drottins á morgun. Og sá, sem Drottinn kýs sér, hann skal vera heilagur. Nú er nóg komið, Leví synir!"

8Móse sagði við Kóra: "Heyrið, Leví synir! 9Sýnist yður það lítils vert, að Ísraels Guð greindi yður frá söfnuði Ísraels til þess að láta yður nálgast sig, til þess að þér skylduð gegna þjónustu við búð Drottins og standa frammi fyrir söfnuðinum til að þjóna honum? 10Og hann lét þig nálgast sig og alla bræður þína, Leví sonu, með þér, og nú viljið þér einnig ná í prestsembættið! 11Fyrir því hefir þú og allur þinn flokkur gjört samblástur í gegn Drottni, því að hvað er Aron, að þér möglið í gegn honum?" 12Og Móse lét kalla þá Datan og Abíram, Elíabs sonu, en þeir svöruðu: "Eigi munum vér koma. 13Sýnist þér það lítils vert, að þú leiddir oss brott úr því landi, er flýtur í mjólk og hunangi, til þess að láta oss deyja í eyðimörkinni, úr því þú vilt einnig gjörast drottnari yfir oss? 14Þú hefir og eigi leitt oss inn í land, er flýtur í mjólk og hunangi, né gefið oss akra og víngarða til eignar. Hvort ætlar þú, að þú megir stinga augun úr mönnum þessum? Eigi munum vér koma!"

15Þá varð Móse afar reiður og sagði við Drottin: "Lít ekki við fórn þeirra! Eigi hefi ég tekið svo mikið sem asna frá þeim né gjört nokkrum þeirra mein."

16Þá sagði Móse við Kóra: "Þú og allur flokkur þinn skuluð á morgun koma fram fyrir Drottin, þú og þeir og Aron. 17Og takið hver sína eldpönnu og leggið á reykelsi og færið því næst hver sína eldpönnu fram fyrir Drottin - tvö hundruð og fimmtíu eldpönnur. Þú og Aron skuluð og hafa hver sína eldpönnu."

18Tóku þeir nú hver sína eldpönnu og létu eld í þær og lögðu á reykelsi. Og þeir námu staðar fyrir dyrum samfundatjaldsins, svo og þeir Móse og Aron. 19Og Kóra safnaði í móti þeim öllum flokki sínum fyrir dyrum samfundatjaldsins.

Þá birtist dýrð Drottins öllum söfnuðinum, 20og Drottinn talaði við þá Móse og Aron og sagði: 21"Skiljið ykkur frá þessum hóp, og mun ég á augabragði eyða þeim." 22En Móse og Aron féllu fram á ásjónur sínar og sögðu: "Guð, Guð lífsandans í öllu holdi! Hvort munt þú reiðast öllum söfnuðinum, þótt einn maður syndgi?"

23Þá talaði Drottinn við Móse og sagði: 24"Mæl þú til safnaðarins og seg: Farið burt af búðarsvæði þeirra Kóra, Datans og Abírams."

25Móse stóð upp og gekk til Datans og Abírams, og öldungar Ísraels fylgdu honum. 26Og hann talaði til safnaðarins og sagði: "Víkið burt frá tjöldum þessara óguðlegu manna, og komið ekki nærri neinu því, er þeir eiga, að þér farist eigi vegna allra synda þeirra."

27Fóru þeir þá burt af búðarsvæði þeirra Kóra, Datans og Abírams. En þeir Datan og Abíram höfðu gengið út og stóðu úti fyrir tjalddyrum sínum og konur þeirra, synir og ungbörn. 28Móse mælti þá: "Af þessu skuluð þér vita mega, að Drottinn hefir sent mig til að gjöra öll þessi verk, og að ég hefi eigi gjört þau eftir hugþótta mínum. 29Ef þessir menn deyja á sama hátt og allir menn eru vanir að deyja, og verði þeir fyrir hinu sama, sem allir menn verða fyrir, þá hefir Drottinn ekki sent mig. 30En ef Drottinn gjörir nýjan hlut og jörðin lýkur upp munni sínum og svelgir þá og allt, sem þeir eiga, svo að þeir fara lifandi niður til Heljar, þá megið þér af því marka, að þessir menn hafa smáð Drottin."

31Og er hann hafði lokið máli sínu, þá sprakk jörðin undir fótum þeirra, 32og jörðin opnaði munn sinn og svalg þá og fjölskyldur þeirra, svo og alla menn Kóra og allan fjárhlut þeirra. 33Og þeir fóru lifandi niður til Heljar og allt, sem þeir áttu, og jörðin luktist saman yfir þeim, og þeir fórust mitt úr söfnuðinum. 34En allur Ísrael, er umhverfis þá var, flýði við óp þeirra, því að þeir hugsuðu: Ella mun jörðin svelgja oss. 35Og eldur gekk út frá Drottni og eyddi þeim tvö hundruð og fimmtíu mönnum, er báru fram reykelsið.


Aðeins prestar, eigi levítar

36Drottinn talaði við Móse og sagði:

37"Seg þú Eleasar, syni Arons prests, að hann skuli taka eldpönnurnar út úr brunanum, en dreif þú eldinum langt burt, því að þær eru heilagar. 38Eldpönnur þessara syndara, sem fyrirgjört hafa lífi sínu, skulu beittar út í þunnar plötur og klætt með þeim altarið, því að þeir báru þær fram fyrir Drottin, og eru þær því heilagar. Skulu þær vera Ísraelsmönnum til tákns."

39Eleasar prestur tók eirpönnurnar, er þeir höfðu borið fram, sem brunnið höfðu, og hann beitti þær út og klæddi með þeim altarið, 40Ísraelsmönnum til minningar um það, að enginn annarlegur maður, sem eigi er af ætt Arons, má ganga fram til þess að bera reykelsi fram fyrir Drottin, að eigi fari eins fyrir honum og Kóra og flokki hans, eins og Drottinn hafði sagt honum fyrir munn Móse.


Önnur uppreisn

41Daginn eftir möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna í gegn þeim Móse og Aroni og sagði: "Þið hafið myrt lýð Drottins!" 42En er múgurinn safnaðist saman í gegn þeim Móse og Aroni, varð þeim litið til samfundatjaldsins, og sjá, skýið huldi það og dýrð Drottins birtist. 43Gengu þeir Móse og Aron þá fram fyrir samfundatjaldið.

44Drottinn talaði við Móse og sagði: 45"Víkið burt frá þessum söfnuði, og mun ég eyða honum á augabragði!" En þeir féllu fram á ásjónur sínar. 46Og Móse sagði við Aron: "Tak eldpönnuna og lát eld í hana af altarinu, legg á reykelsi og far í skyndi til safnaðarins og friðþæg fyrir hann, því að reiði er út gengin frá Drottni, plágan byrjuð."

47Aron tók hana, eins og Móse bauð, og hljóp inn í miðjan söfnuðinn, og sjá, plágan var byrjuð meðal fólksins. Og hann lagði á reykelsið og friðþægði fyrir lýðinn. 48Og er hann stóð milli hinna dauðu og hinna lifandi, þá staðnaði plágan. 49En þeir sem fórust í plágunni, voru fjórtán þúsundir og sjö hundruð, auk þeirra er fórust sökum Kóra. 50Og Aron gekk aftur til Móse að dyrum samfundatjaldsins, og var plágan stöðnuð.


Laufgaður stafur Arons

17
1Drottinn talaði við Móse og sagði:

2"Tala þú við Ísraelsmenn og fá hjá þeim tólf stafi, einn staf hjá ættkvísl hverri, hjá öllum höfuðsmönnum ættkvísla þeirra. Rita þú nafn hvers eins á staf hans. 3En nafn Arons skalt þú rita á staf Leví, því að einn stafur skal vera fyrir höfuð ættkvíslar þeirra. 4Og þú skalt leggja þá niður í samfundatjaldinu, fyrir framan sáttmálið, þar sem ég á samfundi við yður. 5Og það skal verða, að stafur þess manns, sem ég kýs, skal laufgast, að ég megi hefta kurr Ísraelsmanna, er þeir mögla í gegn yður."

6Móse talaði við Ísraelsmenn, og allir höfuðsmenn þeirra fengu honum stafi, hver höfðingi einn staf eftir ættkvíslum þeirra, tólf stafi alls, og var stafur Arons meðal stafa þeirra. 7Og Móse lagði stafina fram fyrir Drottin í sáttmálstjaldinu.

8Er Móse gekk inn í sáttmálstjaldið daginn eftir, sjá, þá var stafur Arons, stafur Levíættar, laufgaður. Voru blöð sprottin á honum, blóm sprungin út og bar hann fullvaxnar möndlur. 9Bar Móse nú alla stafina út frá augliti Drottins til allra Ísraelsmanna, svo að þeir sæju þá, og tóku þeir hver sinn staf.

10Þá sagði Drottinn við Móse: "Ber staf Arons inn aftur fram fyrir sáttmálið, að hann sé þar geymdur til tákns fyrir þá, sem óhlýðnir eru, og kurr þeirra gegn mér taki enda, ella munu þeir deyja." 11Og Móse gjörði svo, hann gjörði svo sem Drottinn bauð honum.

12En Ísraelsmenn sögðu við Móse: "Sjá, vér förumst, það er úti um oss, það er úti um oss alla! 13Hver sem kemur nærri, hver sem kemur nærri búð Drottins, týnir lífi. Munum vér þá allir farast?"


Lög um réttindi og skyldur presta og levíta

18
1Drottinn sagði við Aron:

"Þú og synir þínir og ættleggur feðra þinna með þér skulu sæta hegningu fyrir það, sem brotið er á móti helgidóminum, og þú og synir þínir með þér skuluð sæta hegningu fyrir það, sem yður verður á í prestsembætti yðar. 2Þú skalt taka með þér bræður þína, kynkvísl Leví, ættkvísl föður þíns. Þeir skulu vera þér við hönd og þjóna þér, þegar þú og synir þínir með þér eruð frammi fyrir sáttmálstjaldinu. 3Og þeir skulu gegna því, er við þarf við þína þjónustu og við þjónustu alls tjaldsins. Þó skulu þeir eigi koma nærri hinum helgu áhöldum né altarinu, ella munu þeir deyja, bæði þeir og þér. 4Og þeir skulu vera þér við hönd og annast það, sem annast þarf við samfundatjaldið, alla þjónustu við tjaldið, en eigi skal óvígður maður koma til yðar. 5En þér skuluð annast það, sem annast þarf í helgidóminum og við altarið, svo að eigi komi reiði framar yfir Ísraelsmenn. 6Og sjá, ég hefi tekið bræður yðar, levítana, úr Ísraelsmönnum sem gjöf yður til handa, sem þá, er gefnir hafa verið Drottni, til þess að gegna þjónustu við samfundatjaldið. 7En þú og synir þínir með þér skuluð annast prestsembætti yðar í öllum þeim hlutum, er varða altarið og þjónustuna fyrir innan fortjaldið, þar skuluð þér gegna þjónustu. Ég fel yður prestdóminn og veiti yður þá þjónustu að gjöf. Komi nokkur annar þar nærri, skal hann lífi týna."

8Drottinn sagði við Aron:

"Sjá, ég gef þér það, sem varðveitast á af fórnargjöfum mínum. Af öllum helgigjöfum Ísraelsmanna gef ég þér og sonum þínum þær í þeirra hlut. Er það ævinleg skyldugreiðsla.

9Þetta skal heyra þér af hinum háhelgu gjöfum, að því fráteknu, sem brenna skal: Allar fórnargjafir þeirra, bæði matfórnir, syndafórnir og sektarfórnir, er þeir færa mér í bætur. Eru þær háhelgar, og skulu heyra þér og sonum þínum. 10Þú skalt eta þær á háhelgum stað. Allt karlkyn skal eta þær. Skulu þær vera þér heilagar.

11Og þetta skal heyra þér sem fórnargjöf af öðrum gjöfum þeirra, af öllum veififórnum Ísraelsmanna: Ég gef þér þær, og sonum þínum og dætrum með þér. Er það ævinleg skyldugreiðsla. Allir hreinir menn í húsi þínu skulu eta þær.

12Allt hið besta af olíunni og allt hið besta af aldinleginum og korninu, frumgróðann af því - það er þeir gefa Drottni - það hefi ég gefið þér. 13Frumgróðinn af öllu því, er vex í landi þeirra og þeir færa Drottni, skal heyra þér. Allir hreinir menn í húsi þínu skulu eta hann. 14Sérhver hlutur bannfærður í Ísrael skal heyra þér. 15Allt það sem opnar móðurlíf, af öllu holdi, er menn færa Drottni, hvort heldur er menn eða skepnur, skal heyra þér. Þó skalt þú leysa láta frumburði manna, og frumburði óhreinna dýra skalt þú og leysa láta. 16Og að því er snertir lausnargjald þeirra, þá skalt þú láta leysa þá, úr því þeir eru mánaðargamlir, eftir mati þínu, með fimm siklum, eftir helgidómssikli, tuttugu gerur í sikli. 17En frumburði af nautum, sauðum eða geitum skalt þú ekki leysa láta. Þeir eru heilagir. Blóði þeirra skalt þú stökkva á altarið, og mörinn úr þeim skalt þú brenna sem eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa. 18En kjötið af þeim skal heyra þér. Það skal heyra þér, eins og veifibringan og hægra lærið. 19Allar fórnargjafir af helgigjöfunum, sem Ísraelsmenn færa Drottni, hefi ég gefið þér og sonum þínum og dætrum með þér. Er það ævinleg skyldugreiðsla. Það er ævinlegur sáttmáli, helgaður með salti, fyrir augliti Drottins fyrir þig og niðja þína ásamt þér."

20Drottinn sagði við Aron:

"Þú skalt ekkert óðal eignast í landi þeirra og ekki eiga hlutskipti meðal þeirra. Ég er hlutskipti þitt og óðal þitt meðal Ísraelsmanna. 21Og sjá, ég gef levítunum alla tíund í Ísrael til eignar fyrir þjónustuna, er þeir inna af hendi, þjónustuna við samfundatjaldið. 22Og Ísraelsmenn skulu eigi framar koma nærri samfundatjaldinu, svo að þeir baki sér ekki synd og deyi. 23Heldur skulu levítarnir gegna þjónustu við samfundatjaldið, og skulu sæta hegningu fyrir það, sem þeim verður á. Skal það vera ævarandi lögmál hjá yður frá kyni til kyns, en þeir skulu ekki eiga óðul meðal Ísraelsmanna. 24Því að tíund Ísraelsmanna, er þeir færa Drottni að fórnargjöf, hefi ég gefið levítunum til eignar, þess vegna hefi ég sagt þeim, að þeir skuli ekki eiga óðul meðal Ísraelsmanna."

25Drottinn talaði við Móse og sagði:

26"Þú skalt tala við levítana og segja við þá: Þegar þér meðtakið tíundina frá Ísraelsmönnum, er ég hefi gefið yður til eignar og þeir skulu greiða yður, þá skuluð þér færa Drottni fórnargjöf af henni, tíund af tíundinni. 27Og þessi fórnargjöf yðar skal reiknast yður sem væri það korn af láfanum eða gnótt úr vínþrönginni. 28Þannig skuluð og þér færa Drottni fórnargjöf af allri þeirri tíund, er þér meðtakið frá Ísraelsmönnum, og af henni skuluð þér fá Aroni presti fórnargjöf Drottins. 29Af öllu því, sem yður gefst, skuluð þér færa Drottni fórnargjöf, af öllu hinu besta af því, helgigjöfina, sem af því skal fram bera. 30Og þú skalt segja við þá: Þegar þér hafið fram borið hið besta af því, þá skal hitt reiknast levítunum sem afurðir úr láfanum eða afurðir úr vínþrönginni. 31Þér megið eta það hvar sem þér viljið, bæði þér og skyldulið yðar, því að það eru laun yðar fyrir þjónustu yðar við samfundatjaldið. 32Og þér munuð ekki baka yður synd vegna þess, ef þér fram berið hið besta af því, og þá munuð þér eigi vanhelga helgigjafir Ísraelsmanna og eigi deyja."


Lög um hreinsunarvatn

19
1Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði: 2"Þetta er ákvæði í lögmálinu, er Drottinn hefir boðið, er hann sagði:

Seg við Ísraelsmenn, að þeir skuli færa þér rauða kvígu gallalausa, sem enginn lýti hefir og ekki hefir verið leidd undir ok. 3Skuluð þér fá hana Eleasar presti, og skal því næst færa hana út fyrir herbúðirnar og slátra henni í augsýn hans. 4Og Eleasar prestur skal taka af blóði hennar með fingri sínum og stökkva sjö sinnum af blóði hennar mót framhlið samfundatjaldsins. 5Síðan skal brenna kvíguna fyrir augum hans. Skal brenna bæði húðina, kjötið og blóðið, ásamt gorinu. 6Þá skal prestur taka sedrusvið, ísópsvönd og skarlat og kasta á bálið, þar sem kvígan brennur. 7Því næst skal prestur þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar. Þó skal prestur vera óhreinn til kvelds.

8Sömuleiðis skal sá, sem brennir hana, þvo klæði sín í vatni og lauga líkama sinn í vatni. Hann skal og vera óhreinn til kvelds.

9Síðan skal einhver, sem hreinn er, safna saman öskunni af kvígunni og láta hana á hreinan stað fyrir utan herbúðirnar, svo að hún sé geymd handa söfnuði Ísraelsmanna í hreinsunarvatn. Þetta er syndafórn. 10En sá sem safnar saman öskunni af kvígunni, skal þvo klæði sín og vera óhreinn til kvelds.


Lög um lík og hreinsunarvatn

Þetta skal vera ævinlegt lögmál fyrir Ísraelsmenn og fyrir þá útlendinga, er dvelja meðal þeirra:

11Sá sem snertir lík, af hvaða manni sem vera skal, hann skal vera óhreinn sjö daga. 12Hann skal syndhreinsa sig með hreinsunarvatninu á þriðja degi og á sjöunda degi, og er þá hreinn. En ef hann syndhreinsar sig ekki á þriðja degi og á sjöunda degi, mun hann eigi hreinn verða.

13Hver sem snertir dauðan mann, lík af dauðum manni, og syndhreinsar sig ekki, hann saurgar búð Drottins, og skal sá maður upprættur verða úr Ísrael. Af því að hreinsunarvatninu var ekki stökkt á hann, er hann óhreinn. Óhreinleiki hans loðir enn við hann.

14Þetta skulu lög vera, þegar maður deyr í tjaldi:

Hver sem inn í tjaldið gengur, og hver sem í tjaldinu er, skal vera óhreinn sjö daga. 15Og hvert opið ílát, sem ekki er bundið yfir, skal vera óhreint. 16Og hver sem úti á víðavangi snertir lík af vegnum manni eða látnum manni eða mannabein eða gröf, hann skal vera óhreinn sjö daga.

17En handa þeim, er saurgað hefir sig, skal taka ösku af brenndu syndafórninni, láta hana í ker og hella yfir hana rennandi vatni. 18Síðan skal hreinn maður taka ísópsvönd, dýfa í vatnið og stökkva á tjaldið og öll ílátin og á þá menn, sem þar voru inni, svo og á þann, er snert hefir mannabein eða lík af vegnum manni eða látnum eða gröf. 19Og skal hinn hreini stökkva á hinn óhreina á þriðja degi og á sjöunda degi, og hann skal syndhreinsa hann á sjöunda degi. Því næst skal hann þvo klæði sín og lauga sig í vatni, og er hann þá hreinn að kveldi.

20En ef einhver saurgar sig og syndhreinsar sig ekki, - sá maður skal upprættur verða úr söfnuðinum, því að hann hefir saurgað helgidóm Drottins. Hreinsunarvatni hefir ekki verið stökkt á hann, hann er óhreinn. 21Skal þetta vera yður ævinlegt lögmál.

Sá sem stökkvir hreinsunarvatninu, skal þvo klæði sín, og sá sem snertir hreinsunarvatnið, skal vera óhreinn til kvelds. 22Og allt það, sem hinn óhreini snertir, skal vera óhreint, og ef maður snertir hann, skal hann vera óhreinn til kvelds."


Meríbavötn

20
1Ísraelsmenn, allur söfnuðurinn, komu í eyðimörkina Sín í fyrsta mánuðinum, og lýðurinn settist um kyrrt í Kades. Þar dó Mirjam og var þar grafin.

2Fólkið hafði ekki vatn. Söfnuðust þeir þá saman í gegn Móse og Aroni. 3Og lýðurinn þráttaði við Móse og sagði: "Guð gæfi að vér hefðum dáið, þá er bræður vorir dóu fyrir augliti Drottins. 4Hví leidduð þið söfnuð Drottins í eyðimörk þessa, að vér og fénaður vor dæjum þar? 5Hví létuð þið oss í burt fara af Egyptalandi, til þess að leiða oss í þennan vonda stað, þar sem eigi verður sáð, engar fíkjur vaxa né vínviður né granatepli, og eigi er vatn til að drekka?"

6Móse og Aron gengu þá burt frá söfnuðinum að dyrum samfundatjaldsins og féllu fram á ásjónur sínar. Birtist þeim þá dýrð Drottins.

7Drottinn talaði við Móse og sagði: 8"Tak stafinn og safna saman lýðnum, þú og Aron bróðir þinn, og mælið við klettinn í áheyrn þeirra, og mun hann vatn gefa. Og þú skalt leiða út vatn handa þeim af klettinum og gefa fólkinu og fénaði þeirra að drekka."

9Þá sótti Móse stafinn inn í helgidóminn, eins og Drottinn hafði boðið honum. 10Og Móse og Aron söfnuðu saman lýðnum við klettinn, og Móse sagði við þá: "Heyrið þér, þrjóskir menn. Hvort munum vér leiða mega vatn út af kletti þessum handa yður?" 11Síðan hóf Móse upp hönd sína og laust klettinn tveim sinnum með staf sínum. Spratt þá upp vatn mikið, svo að fólkið drakk og fénaður þeirra.

12Þá sagði Drottinn við Móse og Aron: "Fyrir því að þið trúðuð mér eigi, svo að þið helguðuð mig í augum Ísraelsmanna, þá skuluð þið eigi leiða söfnuð þennan inn í landið, sem ég hefi gefið þeim."

13Þetta eru Meríbavötn, þar sem Ísraelsmenn þráttuðu við Drottin og hann sýndi heilagleik sinn á þeim.


Edómsmenn meina frændum sínum að fara um land sitt

14Móse sendi frá Kades menn á fund Edómkonungs: "Svo mælir bróðir þinn Ísrael: Þú þekkir allar þær þrautir, er oss hafa mætt. 15Feður vorir fóru suður til Egyptalands, og vér höfum verið í Egyptalandi langa ævi og hafa Egyptar þjáð oss, sem og feður vora. 16En vér hrópuðum til Drottins, og hann heyrði bæn vora og sendi engil, og leiddi hann oss brott af Egyptalandi. Og sjá, nú erum vér í Kades, borginni við landamæri þín. 17Leyf oss að fara um land þitt. Eigi munum vér fara yfir akra né víngarða, og eigi munum vér drekka vatn úr brunnum, heldur munum vér fara Konungsveg og eigi hneigja af til hægri handar eða vinstri, þar til er vér erum komnir út úr landi þínu."

18En Edóm svaraði honum: "Eigi mátt þú fara um land mitt, ella mun ég fara í móti þér með sverði."

19Þá sögðu Ísraelsmenn við hann: "Vér munum þræða brautarveginn, og ef vér drekkum af vatni þínu, ég og fénaður minn, þá mun ég fé fyrir gjalda. Hér er eigi til meira mælst en að ég megi fara um fótgangandi."

20En hann sagði: "Eigi mátt þú fara um landið." Og Edóm fór í móti honum með miklu liði og sterkri hendi.

21Og er Edóm skoraðist undan að leyfa Ísrael yfirför um land sitt, þá sneri Ísrael af leið frá honum.


Aron deyr

22Nú lögðu þeir upp frá Kades, og Ísraelsmenn, allur söfnuðurinn, komu til fjallsins Hór. 23Og Drottinn talaði við Móse og Aron á Hórfjalli, við landamæri Edómlands, og sagði: 24"Aron skal safnast til fólks síns, því að eigi skal hann komast í það land, sem ég hefi gefið Ísraelsmönnum, af því að þið þrjóskuðust gegn skipan minni hjá Meríbavötnum. 25Tak þú Aron og Eleasar son hans og leið þá upp á Hórfjall. 26Fær þú Aron úr klæðum sínum og skrýð Eleasar son hans þeim, en Aron skal safnast til fólks síns og deyja þar."

27Móse gjörði svo sem Drottinn bauð honum, og þeir gengu upp á Hórfjall í augsýn alls fólksins. 28Og Móse færði Aron úr klæðum hans og skrýddi Eleasar son hans þeim. Og Aron dó þar á háfjallinu. Gengu þeir Móse og Eleasar þá niður af fjallinu. 29En er allt fólkið sá, að Aron var andaður, grétu allir Ísraelsmenn Aron þrjátíu daga.


Tilraun til landnáms að sunnan

21
1Er kanverski konungurinn í Arad, sem bjó í Suður-Kanaan, spurði, að Ísrael kæmi Atarím-veginn, þá réðst hann á Ísrael og hertók nokkra þeirra. 2Þá gjörði Ísrael Drottni heit og sagði: "Ef þú gefur lýð þennan á mitt vald, skal ég banni helga borgir þeirra." 3Og Drottinn heyrði raust Ísraels og seldi Kanaanítana þeim í hendur. Og þeir helguðu þá banni og borgir þeirra, og var staðurinn kallaður Horma.


Eirormur læknar

4Lögðu þeir þá upp frá Hórfjalli leiðina til Rauðahafs til þess að fara í kringum Edómland. En lýðnum féllst hugur á leiðinni.

5Og lýðurinn talaði í gegn Guði og í gegn Móse: "Hví leidduð þið oss brott af Egyptalandi, til þess að vér dæjum í eyðimörkinni. Hér er hvorki brauð né vatn, og vér erum orðnir leiðir á þessu léttmeti."

6Þá sendi Drottinn eitraða höggorma meðal lýðsins, og þeir bitu fólkið, svo að margt manna dó af Ísrael. 7Þá gekk lýðurinn til Móse og sagði: "Vér höfum syndgað, því að vér höfum talað í gegn Drottni og í gegn þér. Bið þú til Drottins, að hann taki höggormana frá oss."

Móse bað þá fyrir lýðnum. 8Og Drottinn sagði við Móse: "Gjör þér eiturorm og set hann á stöng, og það skal verða, að hver sem bitinn er og lítur á hann, skal lífi halda."

9Móse gjörði höggorm af eiri og setti á stöng. Og það varð, að ef höggormur hafði bitið einhvern og hann leit til eirormsins, þá hélt hann lífi.


Áfangastaðir á leið austur fyrir Dauðahaf

10Eftir þetta lögðu Ísraelsmenn upp og settu búðir sínar í Óbót.

11Og þeir lögðu upp frá Óbót og settu búðir sínar í Íje-Haabarím í eyðimörkinni, sem er fyrir austan Móab.

12Þaðan lögðu þeir upp og settu búðir sínar í Sered-dal.

13Þaðan lögðu þeir upp og settu búðir sínar hinum megin við Arnon, sem er í eyðimörkinni og kemur upp í landi Amoríta. Arnon skilur lönd Móabíta og Amoríta. 14Fyrir því segir svo í bókinni um bardaga Drottins:

Vaheb í Súfa og Arnondalir
15og dalahlíðarnar, er ná þangað, sem Ar liggur,
og liggja upp að löndum Móabíta.

16Þaðan héldu þeir til Beer. Það er brunnurinn, sem Drottinn talaði um við Móse: "Safna saman lýðnum, ég vil gefa þeim vatn." 17Þá söng Ísrael þetta kvæði:

Vell þú upp, brunnur! Syngið í móti honum!
18Brunnur, sem höfðingjarnir grófu
og göfugmenni þjóðarinnar holuðu innan
með veldissprota, með stöfum sínum.

Frá eyðimörkinni héldu þeir til Mattana, 19og frá Mattana til Nahalíel, og frá Nahalíel til Bamót, 20og frá Bamót í dalinn, sem liggur í Móabslandi, að Pisgatindi, sem mænir yfir öræfin.


Sigurvinningar austan Jórdanar

21Ísrael sendi menn á fund Síhons Amorítakonungs og lét segja honum: 22"Leyf mér að fara um land þitt. Eigi munum vér hneigja af út á akra né víngarða, og eigi munum vér drekka vatn úr brunnum, heldur munum vér fara Konungsveg, þar til vér erum komnir út úr landi þínu."

23En Síhon leyfði eigi Ísrael að fara um land sitt. Hann safnaði að sér öllum lýð sínum og fór í móti Ísrael inn í eyðimörkina. Og er hann kom til Jahsa, lagði hann til orustu við Ísrael. 24En Ísrael vann sigur á honum með sverðseggjum og lagði undir sig land hans frá Arnon til Jabbok, allt að Ammónítum, því að landamerki Ammóníta voru ekki auðunnin.

25Ísrael tók allar þessar borgir og settist að í öllum borgum Amoríta, í Hesbon og öllum þorpunum þar í kring.

26Hesbon var borg Síhons Amorítakonungs. Hafði hann átt í ófriði við hinn fyrri konung Móabíta og tekið frá honum allt land hans að Arnon. 27Fyrir því sögðu háðskáldin:

Komið til Hesbon!
Endurreist og grundvölluð verði borg Síhons!
28Því að eldur gekk út frá Hesbon,
logi frá borg Síhons.
Hann eyddi Ar í Móab,
lávörðum Arnonhæða.
29Vei þér, Móab!
Það er úti um þig, Kamoss lýður!
Kamos lét sonu sína verða flóttamenn
og dætur sínar herteknar verða af Síhon, Amorítakonungi.
30Vér skutum á þá.
Gjöreydd var Hesbon allt til Díbon,
og vér fórum herskildi yfir,
svo að eldurinn bálaðist upp allt til Medeba.

31Ísrael settist nú að í landi Amoríta. 32En Móse sendi njósnarmenn til Jaser, og þeir unnu hana og þorpin þar í kring og ráku burt Amorítana, sem þar bjuggu.

33Sneru þeir nú við og héldu veginn, sem liggur til Basan. En Óg, konungur í Basan, fór í móti þeim með öllu liði sínu til þess að heyja bardaga hjá Edreí. 34Þá sagði Drottinn við Móse: "Eigi skalt þú óttast hann, því að ég gef hann og lið hans allt og land hans í þínar hendur, og skalt þú svo fara með hann, eins og þú fórst með Síhon, Amorítakonung, er bjó í Hesbon." 35Og þeir felldu hann og sonu hans og allt hans lið, svo að enginn var eftir skilinn, er undan kæmist, og lögðu þeir land hans undir sig.


Saga Bíleams: (22.-24. kap.) Balak sendir eftir Bíleam spámanni

22
1Ísraelsmenn lögðu upp og settu búðir sínar á Móabsheiðum, hinumegin Jórdanar gegnt Jeríkó.

2En Balak Sippórsson sá allt það, sem Ísrael gjörði Amorítum. 3Urðu Móabítar þá næsta hræddir við lýðinn, því að hann var fjölmennur, og það stóð þeim stuggur af Ísraelsmönnum.

4Þá sögðu Móabítar við öldunga Midíansmanna: "Nú mun mannfjöldi þessi upp eta allt í kringum oss, eins og uxar eta grængresi í haga."

Balak Sippórsson var um þær mundir konungur í Móab. 5Sendi hann menn á fund Bíleams Beórssonar, til Petór, sem er við Efrat, í land samlanda sinna, til þess að sækja hann, og lét segja honum: "Sjá, þjóð nokkur er komin frá Egyptalandi. Þekur hún land allt og hefir nú tekið sér bólfestu gagnvart mér. 6Kom því og bölva þjóð þessari fyrir mig, því að hún er mér ofurefli. Vera má, að ég fái þá sigrast á henni og stökkt henni úr landi, því að ég veit, að sá er blessaður, sem þú blessar, og sá bölvaður, sem þú bölvar."

7Öldungar Móabíta og öldungar Midíansmanna fóru nú af stað og höfðu með sér spásagnarlaunin. Komu þeir til Bíleams og fluttu honum orð Balaks.

8Bíleam sagði við þá: "Verið hér í nótt, og mun ég svara yður, eftir því sem Drottinn segir mér." Og höfðingjar Móabíta voru hjá Bíleam um nóttina.

9En Guð kom til Bíleams og sagði: "Hvaða menn eru það, sem hjá þér eru?"

10Bíleam sagði við Guð: "Balak Sippórsson, konungur í Móab, hefir gjört mér þessa orðsending: 11,Sjá, þjóð nokkur er hér komin af Egyptalandi, og þekur hún landið allt. Kom því og bið henni bölbæna fyrir mig. Vera má, að ég geti þá barist við hana og stökkt henni burt.'"

12En Guð sagði við Bíleam: "Eigi skalt þú fara með þeim, og eigi skalt þú bölva þessari þjóð, því að hún er blessuð."

13Morguninn eftir reis Bíleam árla og sagði við höfðingja Balaks: "Farið heim í land yðar, því að Drottinn vill ekki leyfa mér að fara með yður." 14Og höfðingjar Móabíta héldu af stað og komu til Balaks og sögðu: "Bíleam færðist undan að fara með oss."

15Balak sendi þá enn höfðingja, fleiri og göfuglegri en þessir voru. 16Og er þeir komu á fund Bíleams, sögðu þeir við hann: "Balak Sippórsson mælir svo: ,Lát þú ekkert aftra þér frá að koma á minn fund. 17Ég vil veita þér mikla sæmd, og allt sem þú segir mér, skal ég gjöra. Kom því og bið lýð þessum bölbæna.'"

18En Bíleam svaraði og sagði við þjóna Balaks: "Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli, gæti ég samt ekki brugðið af boði Drottins, Guðs míns, hvorki í smáu né stóru. 19En verið þér nú einnig hér í nótt, að ég megi vita, hvað Drottinn enn vill við mig tala."

20Þá kom Guð til Bíleams um nóttina og sagði við hann: "Ef menn þessir eru komnir til að sækja þig, þá rís þú upp og far með þeim, og gjör þó það eitt, er ég býð þér."


Asna Bíleams

21Bíleam reis því árla um morguninn, söðlaði ösnu sína og fór með höfðingjum Móabíta. 22En reiði Guðs upptendraðist af því, að hann fór, og engill Drottins stóð í götunni fyrir honum. En hann reið ösnu sinni, og tveir sveinar hans voru með honum.

23Og er asnan sá engil Drottins standa í götunni með brugðið sverð í hendi, sneri hún af götunni og fór út á grundina, en Bíleam barði ösnuna til þess að koma henni aftur á götuna. 24Þá gekk engill Drottins í öngvegið milli víngarðanna, og var grjótgarður á báðar hliðar. 25Og er asnan sá engil Drottins, þrengdi hún sér upp að garðinum og varð fótur Bíleams í milli. Barði hann hana þá aftur.

26Þá gekk engill Drottins enn fram fyrir og nam staðar í einstigi, þar sem ekki varð vikið til hægri né vinstri. 27Og er asnan sá engil Drottins, lagðist hún undir Bíleam. Þá reiddist Bíleam og barði hana með staf sínum.

28Drottinn lauk þá upp munni ösnunnar, og hún sagði við Bíleam: "Hvað hefi ég gjört þér, er þú hefir nú barið mig þrisvar?" 29En Bíleam sagði við ösnuna: "Af því að þú hefir dregið dár að mér. Væri svo vel, að ég hefði sverð í hendi, mundi ég óðara drepa þig."

30Þá sagði asnan við Bíleam: "Er ég eigi asna þín, er þú hefir riðið alla þína ævi fram á þennan dag? Hefi ég nokkurn tíma verið vön að gjöra þér þetta?" En hann sagði: "Nei."

31Þá lauk Drottinn upp augum Bíleams, svo að hann sá engil Drottins standa í götunni með brugðið sverð í hendi, og hann laut honum og féll fram á ásjónu sína.

32En engill Drottins sagði við hann: "Hví hefir þú nú barið ösnu þína þrisvar sinnum? Sjá, það er ég, sem kominn er til að standa fyrir þér, því að þessi för er háskaleg í mínum augum. 33Asnan sá mig og vék þrisvar úr vegi fyrir mér. Hefði hún ekki vikið fyrir mér, mundi ég nú þegar hafa deytt þig, en hana mundi ég hafa látið lífi halda."

34Þá sagði Bíleam við engil Drottins: "Ég hefi syndgað, því að ég vissi ekki að þú stóðst fyrir mér á veginum. Vil ég því snúa aftur, ef þér mislíkar." 35En engill Drottins sagði við Bíleam: "Far þú með mönnunum, en ekki mátt þú tala annað en það, sem ég mun segja þér." Bíleam fór þá með höfðingjum Balaks.


Balak hittir Bíleam spámann

36Er Balak frétti að Bíleam kæmi, fór hann út í móti honum til Ír-Móab, sem liggur á landamærunum við Arnon, á ystu landamærunum. 37Og Balak sagði við Bíleam: "Sendi ég ekki menn til þín til þess að sækja þig? Hví komst þú þá ekki til mín? Mun ég eigi þess megnugur að veita þér sæmd fyrir?"

38En Bíleam sagði við Balak: "Sjá, ég er nú kominn til þín. En mun ég fá mælt nokkuð? Þau orð, sem Guð leggur mér í munn, þau mun ég mæla."


Fyrsta guðmæli Bíleams

39Bíleam fór þá með Balak, og þeir komu til Kirjat Kúsót. 40Og Balak fórnaði nautum og sauðum og sendi Bíleam og höfðingjum þeim, sem með honum voru. 41Um morguninn eftir tók Balak Bíleam með sér og fór með hann upp til fórnarhæðar Baals, en þaðan sá hann ysta hluta herbúða Ísraels.

23
1Þá mælti Bíleam við Balak: "Gjör þú mér hér sjö ölturu og fá mér hingað sjö uxa og sjö hrúta." 2Og Balak gjörði sem Bíleam sagði, og Balak og Bíleam fórnuðu uxa og hrút á altari hverju.

3Bíleam sagði við Balak: "Statt þú hér hjá brennifórn þinni, ég ætla að ganga burt. Vera má að Drottinn kunni að koma til móts við mig, en hvað sem hann birtir mér, skal ég tjá þér." Fór hann þá upp á skóglausa hæð. 4Og Guð kom til móts við Bíleam, og Bíleam sagði við hann: "Ég hefi búið sjö ölturu og fórnað uxa og hrút á hverju altari."

5Drottinn lagði þá Bíleam orð í munn og sagði: "Far þú aftur til Balaks, og mæl svo sem ég segi þér." 6Fór hann þá aftur til hans. Og sjá, hann stóð hjá brennifórn sinni og allir höfðingjar Móabs með honum. 7Flutti hann þá kvæði sitt og mælti:

Til Mesópótamíu lét Balak sækja mig,
konungur Móabs, til hinna austlægu fjalla.
"Kom þú, bölva Jakob fyrir mig,
kom þú, formæl Ísrael!"
8Hvernig má ég biðja bölbæna þeim, er Guð eigi biður bölbæna,
og hvernig má ég formæla þeim, er Drottinn eigi formælir?
9Af fjallstindinum sé ég hann,
og af hæðunum lít ég hann.
Hann er þjóðflokkur, sem býr einn sér
og telur sig eigi meðal hinna þjóðanna.
10Hver mun telja mega duft Jakobs,
og hver mun fá tölu komið á fjöld Ísraels?
Deyi önd mín dauða réttlátra
og verði endalok mín sem þeirra.

11Þá sagði Balak við Bíleam: "Hvað hefir þú gjört mér? Ég fékk þig til þess að biðja óvinum mínum bölbæna, og sjá, þú hefir margblessað þá."

12En Bíleam svaraði og sagði: "Hvort hlýt ég eigi að mæla það eitt, er Drottinn leggur mér í munn?"


Annað guðmæli Bíleams

13Þá sagði Balak við Bíleam: "Kom með mér á annan stað, þar er þú mátt sjá þá, - þó munt þú aðeins fá séð ysta hluta þeirra, alla munt þú eigi sjá þá, - og bið þeim þar bölbæna fyrir mig." 14Og hann tók hann með sér upp á Njósnarvöll, upp á Pisgatind, og reisti þar sjö ölturu og fórnaði.

15Þá mælti Bíleam við Balak: "Statt þú hér hjá brennifórn þinni, meðan ég fer þangað til móts við Guð."

16Drottinn kom til móts við Bíleam og lagði honum orð í munn og sagði: "Far þú aftur til Balaks, og mæl svo sem ég segi þér." 17Gekk hann þá til hans, og sjá, hann stóð hjá brennifórn sinni og höfðingjar Móabs með honum. Og Balak mælti við hann: "Hvað sagði Drottinn?" 18Flutti Bíleam þá kvæði sitt og mælti:

Rís þú upp, Balak, og hlýð á!
Hlusta þú á mig, Sippórs sonur!
19Guð er ekki maður, að hann ljúgi,
né sonur manns, að hann sjái sig um hönd.
Skyldi hann segja nokkuð og gjöra það eigi,
tala nokkuð og efna það eigi?
20Sjá, að blessa var mér falið,
fyrir því blessa ég og tek það eigi aftur.
21Eigi sést óheill með Jakob,
né heldur má mein líta með Ísrael.
Drottinn, Guð hans, er með honum,
og konungsfögnuður er hjá honum.
22Sá Guð, sem leiddi þá af Egyptalandi,
er honum sem horn vísundarins.
23Því að eigi er galdur með Jakob
né fjölkynngi með Ísrael.
Nú verður það eitt sagt um Jakob og Ísrael:
Hversu mikla hluti hefir Guð gjört!
24Hann er þjóðflokkur, sem rís upp eins og ljónynja
og reisir sig sem ljón,
hann leggst ekki niður fyrr en hann hefir etið bráð
og drukkið blóð veginna manna.

25Þá sagði Balak við Bíleam: "Þú skalt hvorki biðja honum bölbæna né blessa hann."

26En Bíleam svaraði og sagði við Balak: "Hefi ég ekki sagt þér: ,Allt það, sem Drottinn býður, það mun ég gjöra'?"


Þriðja guðmæli Bíleams

27Þá mælti Balak við Bíleam: "Kom þú, ég vil fara með þig á annan stað. Vera má að Guði þóknist, að þú biðjir þeim þar bölbæna fyrir mig." 28Tók Balak þá Bíleam með sér upp á Peórtind, sem mænir yfir öræfin.

29Þá mælti Bíleam við Balak: "Gjör þú mér hér sjö ölturu og fá mér hingað sjö uxa og sjö hrúta." 30Og Balak gjörði sem Bíleam mælti og fórnaði uxa og hrút á altari hverju.

24
1Þegar Bíleam sá, að það var gott í augum Guðs að blessa Ísrael, gekk hann ekki burt eins og í fyrri skiptin til að leita spáfrétta, heldur hélt á leið til eyðimerkurinnar. 2Og er Bíleam hóf upp augu sín og sá Ísrael, þar sem hann lá í herbúðum eftir kynkvíslum sínum, kom andi Guðs yfir hann. 3Flutti hann þá kvæði sitt og mælti:

Svo mælir Bíleam Beórsson,
svo mælir maðurinn, sem byrgð hefir augun.
4Svo mælir hann, sem heyrir orð Guðs,
sem sér sýn Hins Almáttuga,
hnígandi niður og með upp loknum augum:
5Hve fögur eru tjöld þín, Jakob!
bústaðir þínir, Ísrael!
6Eins og víðir árdalir,
eins og aldingarðar á fljótsbökkum,
eins og alóetré, er Drottinn hefir gróðursett,
eins og sedrustré við vötn.
7Vatn rennur úr skjólum hans,
og sáð hans hefir nægt vatn.
Konungur hans mun meiri verða en Agag,
og konungdómur hans mun verða vegsamlegur.
8Sá Guð, sem leiddi hann af Egyptalandi,
er honum sem horn vísundarins.
Hann upp etur óvinaþjóðir,
og bein þeirra brýtur hann
og nístir þá með örvum sínum.
9Hann leggst niður, hvílist sem ljón
og sem ljónynja, - hver þorir að reka hann á fætur?
Blessaður sé hver sá, sem blessar þig,
en bölvaður sé hver sá, sem bölvar þér.

10Balak reiddist þá Bíleam mjög og barði saman hnefunum og sagði við Bíleam: "Til þess að biðja bölbæna óvinum mínum kallaði ég þig, en sjá, þú hefir nú blessað þá þrem sinnum. 11Far þú því sem skjótast heim til þín! Ég hugðist veita þér mikla sæmd, en sjá, Drottinn hefir svipt þig þeirri sæmd."

12Þá sagði Bíleam við Balak: "Mælti ég eigi þegar við sendimenn þá, er þú gjörðir til mín, þessum orðum: 13,Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli, gæti ég samt ekki brugðið af boði Drottins til þess að gjöra gott eða illt eftir hugþótta mínum. Það sem Drottinn mælir, það mun ég mæla'? 14Og sjá, nú fer ég til minnar þjóðar. Kom, ég vil segja þér fyrir, hvað þessi þjóð mun gjöra þinni þjóð á komandi tímum."


Bíleam blessar Ísrael

15Flutti hann þá kvæði sitt og mælti:

Svo mælir Bíleam Beórsson,
svo mælir maðurinn, sem byrgð hefir augun.
16Svo mælir hann, sem heyrir orð Guðs
og þekkir ráð hins hæsta,
sem sér sýn Hins Almáttuga,
hnígandi niður og með upp loknum augum:
17Ég sé hann, þó eigi nú,
ég lít hann, þó eigi í nánd.
Stjarna rennur upp af Jakob,
og veldissproti rís af Ísrael.
Hann lýstur sundur þunnvangann á Móab
og hvirfilinn á öllum hávaðamönnum.
18Og Edóm mun verða þegnland
og Seír mun verða þegnland - þessir óvinir hans,
en Ísrael eykur vald sitt.
19Frá Jakob mun drottnari koma
og eyða flóttamönnum í borgunum.

20En er hann leit Amalekíta, flutti hann kvæði sitt og mælti:

Fremstur af þjóðunum er Amalek,
en að lyktum hnígur hann í valinn.

21Og er hann leit Keníta, flutti hann kvæði sitt og mælti:

Traustur er bústaður þinn,
og hreiður þitt er byggt á kletti.
22Og þó er Kain eyðingin vís.
Brátt mun Assúr flytja þig burt hernuminn.

23Og hann flutti kvæði sitt og mælti:

Vei, hver mun fá lífi haldið, er Guð lætur þetta að bera!
24Og skip koma vestan frá Kýpur,
og þau lægja Assúr og þau lægja Eber.
En hann mun og hníga í valinn.

25Síðan tók Bíleam sig upp, hélt af stað og hvarf aftur heimleiðis, og Balak fór einnig leiðar sinnar.


Ísraelsmenn falla í hjáguðadýrkun

25
1Meðan Ísrael dvaldi í Sittím, tók lýðurinn að drýgja hór með Móabs dætrum. 2Buðu þær lýðnum til fórnarmáltíða goða sinna, og lýðurinn át og tilbað goð þeirra. 3Og Ísrael hafði mök við Baal Peór. Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísrael.

4Drottinn sagði við Móse: "Tak með þér alla höfðingja lýðsins og líflát þá úti undir berum himni fyrir Drottni, svo að hin ákafa reiði Drottins hverfi í brott frá Ísrael." 5Móse sagði þá við dómarana í Ísrael: "Drepi nú hver um sig þá af sínum mönnum, er mök hafa haft við Baal Peór."

6Sjá, einn af Ísraelsmönnum kom og hafði með sér midíanska konu til bræðra sinna í augsýn Móse og alls safnaðar Ísraelsmanna, er þeir voru grátandi fyrir dyrum samfundatjaldsins. 7En er Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar prests, sá það, gekk hann fram úr söfnuðinum og tók spjót í hönd sér. 8Fór hann á eftir Ísraelsmanninum inn í svefnhýsið og lagði þau bæði í gegn, Ísraelsmanninn og konuna, gegnum kviðinn. Staðnaði þá plágan meðal Ísraelsmanna. 9En þeir sem dóu í plágunni, voru tuttugu og fjórar þúsundir.

10Drottinn talaði við Móse og sagði: 11"Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar prests, hefir bægt reiði minni frá Ísraelsmönnum með því að vandlæta meðal þeirra með mínu vandlæti. Hefi ég því eigi gjöreytt Ísraelsmönnum í vandlæti mínu. 12Seg því: ,Sjá, ég gef honum minn friðarsáttmála. 13Hann og niðjar hans eftir hann skulu hljóta sáttmála ævarandi prestdóms fyrir það, að hann vandlætti vegna Guðs síns og friðþægði fyrir Ísraelsmenn.'"

14Hinn vegni Ísraelsmaður, sá er veginn var ásamt midíönsku konunni, hét Simrí Salúson. Var hann höfðingi eins ættleggs meðal Símeoníta. 15Og midíanska konan, sem vegin var, hét Kosbí Súrsdóttir, en hann var höfðingi yfir ættstofni einum í Midían.

16Og Drottinn talaði við Móse og sagði: "Kreppið að Midíansmönnum og fellið þá, 18því að þeir hafa komið yður í krappan stað með brögðum þeim, er þeir beittu yður, bæði að því er snertir dýrkun Peórs og systur þeirra, Kosbí, dóttur midíanska höfðingjans, hennar sem vegin var, þá er plágan reið yfir sökum dýrkunar Peórs."


Manntal

26
1Eftir pláguna sagði Drottinn við Móse og Eleasar Aronsson prests: 2"Takið manntal alls safnaðar Ísraelsmanna, þeirra er tvítugir eru og þaðan af eldri, eftir ættum þeirra, allra þeirra sem vopnfærir eru í Ísrael." 3Og Móse og Eleasar prestur töldu þá á Móabsheiðum, við Jórdan gegnt Jeríkó, 4frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

Ísraelsmenn, þeir er fóru af Egyptalandi, voru:

5Rúben, frumgetinn sonur Ísraels. Synir Rúbens:

Hanok, frá honum er komin kynkvísl Hanokíta,

frá Pallú kynkvísl Pallúíta,

6frá Hesrón kynkvísl Hesróníta,

frá Karmí kynkvísl Karmíta.

7Þessar eru kynkvíslir Rúbeníta. En þeir sem taldir voru af þeim, voru 43.730.

8Synir Pallú: Elíab; 9og synir Elíabs: Nemúel, Datan og Abíram. Það voru þessir Datan og Abíram, fulltrúar safnaðarins, sem þráttuðu við Móse og við Aron í flokki Kóra, þá er þeir þráttuðu við Drottin. 10Opnaði jörðin þá munn sinn og svalg þá og Kóra, þá er flokkurinn fórst, með því að eldur eyddi tvö hundruð og fimmtíu manns, og urðu þeir til tákns. 11En synir Kóra fórust þó ekki.

12Synir Símeons, eftir kynkvíslum þeirra:

frá Nemúel er komin kynkvísl Nemúelíta,

frá Jamín kynkvísl Jamíníta,

frá Jakín kynkvísl Jakíníta,

13frá Sera kynkvísl Seraíta,

frá Sál kynkvísl Sálíta.

14Þessar eru kynkvíslir Símeoníta, 22.200.

15Synir Gaðs, eftir kynkvíslum þeirra:

frá Sefón er komin kynkvísl Sefóníta,

frá Haggí kynkvísl Haggíta,

frá Súní kynkvísl Súníta,

16frá Osní kynkvísl Osníta,

frá Erí kynkvísl Eríta,

17frá Aród kynkvísl Aródíta,

frá Arelí kynkvísl Arelíta.

18Þessar eru ættkvíslir Gaðs sona, þeir er taldir voru af þeim, 40.500.

19Synir Júda voru Ger og Ónan, en Ger og Ónan dóu í Kanaanlandi. 20Synir Júda, eftir kynkvíslum þeirra:

frá Sela er komin kynkvísl Selaníta,

frá Peres kynkvísl Peresíta,

frá Sera kynkvísl Seraíta.

21Synir Peres voru:

frá Hesrón kynkvísl Hesróníta,

frá Hamúl kynkvísl Hamúlíta.

22Þessar eru kynkvíslir Júda, þeir er taldir voru af þeim, 76.500.

23Synir Íssakars, eftir kynkvíslum þeirra:

frá Tóla er komin kynkvísl Tólaíta,

frá Púva kynkvísl Púníta,

24frá Jasjúb kynkvísl Jasjúbíta,

frá Símron kynkvísl Símroníta.

25Þessar eru kynkvíslir Íssakars, þeir er taldir voru af þeim, 64.300.

26Synir Sebúlons, eftir kynkvíslum þeirra:

frá Sered er komin kynkvísl Seredíta,

frá Elon kynkvísl Eloníta,

frá Jahleel kynkvísl Jahleelíta.

27Þessar eru kynkvíslir Sebúloníta, þeir er taldir voru af þeim, 60.500.

28Synir Jósefs, eftir kynkvíslum þeirra: Manasse og Efraím.

29Synir Manasse:

frá Makír er komin kynkvísl Makíríta, en Makír gat Gíleað,

frá Gíleað er komin kynkvísl Gíleaðíta.

30Þessir eru synir Gíleaðs:

Jeser, frá honum er komin kynkvísl Jesríta,

frá Helek kynkvísl Helekíta,

31frá Asríel kynkvísl Asríelíta,

frá Síkem kynkvísl Síkemíta,

32frá Semída kynkvísl Semídaíta,

frá Hefer kynkvísl Hefríta. 33En Selofhað sonur Hefers átti enga sonu, heldur aðeins dætur. Dætur Selofhaðs hétu Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa.

34Þessar eru kynkvíslir Manasse, og þeir sem taldir voru af þeim, 52.700.

35Þessir eru synir Efraíms, eftir kynkvíslum þeirra:

frá Sútela er komin kynkvísl Sútelaíta,

frá Beker kynkvísl Bekeríta,

frá Tahan kynkvísl Tahaníta.

36Þessir voru synir Sútela:

frá Eran kynkvísl Eraníta.

37Þessar eru kynkvíslir Efraíms sona, þeir er taldir voru af þeim, 32.500.

Þessir eru synir Jósefs eftir kynkvíslum þeirra.

38Synir Benjamíns, eftir kynkvíslum þeirra:

frá Bela er komin kynkvísl Belaíta,

frá Asbel kynkvísl Asbelíta,

frá Ahíram kynkvísl Ahíramíta,

39frá Súfam kynkvísl Súfamíta,

frá Húfam kynkvísl Húfamíta.

40Synir Bela voru Ard og Naaman,

frá Ard er komin kynkvísl Ardíta,

frá Naaman kynkvísl Naamíta.

41Þessir eru synir Benjamíns, eftir kynkvíslum þeirra, og þeir sem taldir voru af þeim, 45.600.

42Þessir eru synir Dans, eftir kynkvíslum þeirra:

frá Súham er komin kynkvísl Súhamíta. Þessar eru kynkvíslir Dans, eftir kynkvíslum þeirra.

43Allar kynkvíslir Súhamíta, þeir er taldir voru af þeim, 64.400.

44Synir Assers, eftir kynkvíslum þeirra:

frá Jímna er komin kynkvísl Jímníta,

frá Jísví kynkvísl Jísvíta,

frá Bría kynkvísl Brííta,

45frá sonum Bría:

frá Heber kynkvísl Hebríta,

frá Malkíel kynkvísl Malkíelíta.

46Dóttir Assers hét Sera.

47Þessar eru kynkvíslir Assers sona, þeir er taldir voru af þeim, 53.400.

48Synir Naftalí, eftir kynkvíslum þeirra:

frá Jahseel er komin kynkvísl Jahseelíta, frá Gúní

kynkvísl Gúníta,

49frá Jeser kynkvísl Jisríta,

frá Sillem kynkvísl Sillemíta.

50Þessar eru kynkvíslir Naftalí, eftir kynkvíslum þeirra, sem taldir voru af þeim, 45.400.

51Þetta voru þeir, sem taldir voru af Ísraelsmönnum, 601.730.

52Drottinn talaði við Móse og sagði: 53"Meðal þessara skal landinu skipta til eignar eftir nafnatölu. 54Þeirri kynkvísl, sem mannmörg er, skalt þú fá mikið land til eignar, en þeirri, sem fámenn er, lítið land til eignar. Sérhverjum skal land gefið til eignar í réttu hlutfalli við talda menn hans. 55Þó skal landinu skipt með hlutkesti, svo að þeir hljóti það til eignar eftir nöfnum ættstofnanna. 56Eftir því sem hlutkestið segir til, skal eignum skipt milli þeirra, svo sem þeir eru margir og fáir til."

57Þessir eru levítarnir, sem taldir voru, eftir kynkvíslum þeirra:

frá Gerson er komin kynkvísl Gersoníta,

frá Kahat kynkvísl Kahatíta,

frá Merarí kynkvísl Meraríta.

58Þessar eru kynkvíslir Leví:

kynkvísl Libníta,

kynkvísl Hebroníta,

kynkvísl Mahelíta,

kynkvísl Músíta,

kynkvísl Kóraíta.

Kahat gat Amram. 59Og kona Amrams hét Jókebed, dóttir Leví; fæddist hún Leví í Egyptalandi. En hún fæddi Amram þá Aron og Móse og systur þeirra Mirjam. 60Og Aroni fæddust Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar. 61En Nadab og Abíhú dóu, er þeir báru annarlegan eld fram fyrir Drottin.

62Þeir sem taldir voru af levítum, voru 23.000, allt karlkyn mánaðargamalt og þaðan af eldra. Þeir voru ekki taldir með Ísraelsmönnum, af því að þeim var eigi fengið land til eignar meðal Ísraelsmanna.

63Þetta er manntalið, sem Móse og Eleasar prestur tóku, er þeir töldu Ísraelsmenn á Móabsheiðum, við Jórdan gegnt Jeríkó. 64Enginn þeirra var á manntalinu, sem Móse og Aron prestur tóku meðal Ísraelsmanna í Sínaí-eyðimörk, 65því að Drottinn hafði sagt um þá: "Þeir skulu vissulega deyja í eyðimörkinni," enda var enginn orðinn eftir af þeim nema Kaleb Jefúnneson og Jósúa Núnsson.


Fimm systur ganga fyrir Móse

27
1Þá komu dætur Selofhaðs Heferssonar, Gíleaðssonar, Makírssonar, Manassesonar, af kynkvíslum Manasse Jósefssonar. Þær hétu Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa. 2Gengu þær fyrir Móse og Eleasar prest og fyrir höfuðsmennina og allan söfnuðinn, fyrir dyrum samfundatjaldsins, og sögðu: 3"Faðir vor dó í eyðimörkinni, og var hann þó ekki í flokki þeirra manna, er samblástur gjörðu gegn Drottni, í flokki Kóra, því að hann dó vegna sinnar eigin syndar. En hann átti enga sonu. 4Hvers vegna á nú nafn föður vors að hverfa úr ætt hans, af því að hann átti engan son? Fá oss óðal meðal bræðra föður vors."

5Móse flutti mál þeirra fyrir Drottin. 6Og Drottinn sagði við Móse: "Dætur Selofhaðs hafa rétt að mæla. 7Fá þeim óðalsland meðal bræðra föður þeirra, og þú skalt láta eignarland föður þeirra ganga til þeirra. 8En til Ísraelsmanna skalt þú mæla þessum orðum: ,Nú deyr maður og á ekki son. Skuluð þér þá láta eignarland hans ganga til dóttur hans. 9En eigi hann enga dóttur, þá skuluð þér fá bræðrum hans eignarland hans. 10En eigi hann enga bræður, þá skuluð þér fá föðurbræðrum hans eignarland hans. 11En eigi faðir hans enga bræður, þá skuluð þér fá nánasta skyldmenni hans í ættinni eignarland hans, hann skal eignast það.'" Þetta skulu lög vera með Ísraelsmönnum, svo sem Drottinn hefir boðið Móse.


Jósúa vígður til embættis

12Drottinn sagði við Móse: "Gakk þú hér upp á Abarímfjall og lít yfir landið, sem ég hefi gefið Ísraelsmönnum. 13Og er þú hefir litið það, skalt þú einnig safnast til þíns fólks, eins og Aron bróðir þinn gjörði, 14sökum þess að þið þrjóskuðust gegn skipun minni í Síneyðimörk, þá er lýðurinn möglaði og þið skylduð helga mig fyrir augum þeirra með vatninu." - Þar eru nú Meríbavötn hjá Kades í Síneyðimörk.

15En Móse talaði við Drottin og sagði: 16"Drottinn, Guð lífsandans í öllu holdi, setji mann yfir lýðinn, 17 sem gangi út fyrir þeim og gangi inn fyrir þeim, sem leiði þá út og leiði þá inn, svo að söfnuður Drottins sé eigi eins og hjörð, sem engan hirði hefir."

18Þá sagði Drottinn við Móse: "Tak þú Jósúa Núnsson, mann sem andi er í, og legg hönd þína yfir hann. 19Leið hann fyrir Eleasar prest og fram fyrir allan söfnuðinn og skipa hann í embætti í augsýn þeirra. 20Og þú skalt leggja yfir hann af tign þinni, svo að allur söfnuður Ísraelsmanna hlýði honum. 21Og hann skal ganga fyrir Eleasar prest, en Eleasar leita úrskurðar með úrím fyrir hann frammi fyrir Drottni. Að hans boði skulu þeir ganga út, og að hans boði skulu þeir ganga inn, hann og allir Ísraelsmenn með honum og allur söfnuðurinn." 22Og Móse gjörði eins og Drottinn hafði boðið honum. Tók hann Jósúa og leiddi hann fyrir Eleasar prest og fram fyrir allan söfnuðinn, 23lagði því næst hendur sínar yfir hann og skipaði hann í embætti, eins og Drottinn hafði sagt fyrir Móse.


Lög um fórnir:

1. Dagleg fórn

28
1Drottinn talaði við Móse og sagði: 2"Bjóð þú Ísraelsmönnum og seg við þá:

Þér skuluð gæta þess að færa mér á tilteknum tíma fórnargjöf mína, mat minn af eldfórnunum til þægilegs ilms, er mér ber. 3Og þú skalt segja við þá:

Þetta er eldfórnin, sem þér skuluð færa Drottni: Tvær sauðkindur veturgamlar, gallalausar, á dag í stöðuga brennifórn. 4Annarri sauðkindinni skalt þú fórna að morgni, hinni skalt þú fórna að kveldi um sólsetur, 5og tíunda parti úr efu af fínu mjöli, blönduðu við fjórðung úr hín af olíu úr steyttum olíuberjum, í matfórn. 6Er það hin stöðuga brennifórn, sem færð var undir Sínaífjalli til þægilegs ilms, sem eldfórn Drottni til handa.

7Í dreypifórn skal fylgja hverri sauðkind fjórðungur úr hín. Í helgidóminum skalt þú dreypa Drottni dreypifórn af áfengum drykk. 8Hinni sauðkindinni skalt þú fórna um sólsetur, með sömu matfórn sem um morguninn og þeirri dreypifórn, er henni fylgir, sem eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa.


2. Fórn á hvíldardegi

9Á hvíldardegi skal fórna tveim sauðkindum veturgömlum gallalausum, og tveim tíundu pörtum úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og dreypifórninni, er henni fylgir. 10Þetta er brennifórnin, sem færa skal á hverjum hvíldardegi, auk hinnar stöðugu brennifórnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgir.


3. Fórn við upphaf mánaðar

11Á fyrsta degi hvers mánaðar skuluð þér færa Drottni í brennifórn tvö ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar gallalausar, 12og þrjá tíundu parta úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn með hverju nauti, tvo tíundu parta af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn með hrútnum, 13og einn tíunda part af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn með hverri sauðkind, sem brennifórn þægilegs ilms, sem eldfórn Drottni til handa.

14Dreypifórnirnar, er þeim fylgja, skulu vera hálf hín af víni með hverju nauti, þriðjungur úr hín með hrútnum og fjórðungur úr hín með hverri sauðkind. Þetta er brennifórnin, sem fórna skal á hverjum mánuði árið um kring. 15Auk þess einn geithafur í syndafórn Drottni til handa. Skal fórna honum auk hinnar stöðugu brennifórnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgir.


4. Páskafórn

16Í fyrsta mánuðinum, á fjórtánda degi mánaðarins, eru páskar Drottins. 17Og á fimmtánda degi hins sama mánaðar er hátíð. Í sjö daga skal eta ósýrt brauð.

18Fyrsta daginn er haldin helg samkoma. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. 19Og þér skuluð færa Drottni í eldfórn, í brennifórn tvö ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar. Skuluð þér hafa þær gallalausar. 20Og í matfórn með þeim fínt mjöl, blandað við olíu. Skuluð þér fórna þremur tíundu pörtum með hverju nauti og tveimur tíundu pörtum með hrútnum. 21Einum tíunda parti skalt þú fórna með hverri þeirra sjö sauðkinda. 22Enn fremur einn hafur í syndafórn til þess að friðþægja fyrir yður.

23Þessu skuluð þér fórna, auk morgunbrennifórnarinnar, sem fram er borin í hina stöðugu brennifórn.

24Þessu skuluð þér fórna á degi hverjum í sjö daga sem eldfórnarmat þægilegs ilms Drottni til handa. Skal fórna því auk hinnar stöðugu brennifórnar og dreypifórnarinnar, er honum fylgir.

25Sjöunda daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu.


5. Fórn á viknahátíð

26Frumgróðadaginn, þegar þér færið Drottni nýja matfórn, á viknahátíð yðar, skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. 27Og í brennifórn þægilegs ilms Drottni til handa skuluð þér færa tvö ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar. 28Og í matfórn með þeim fínt mjöl, blandað við olíu, þrjá tíundu parta með hverju nauti, tvo tíundu parta með hrútnum, 29einn tíunda part með hverri þeirra sjö sauðkinda; 30einn geithafur til þess að friðþægja fyrir yður. 31Auk hinnar stöðugu brennifórnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, skuluð þér fórna þessu, ásamt dreypifórnunum, er því fylgja. Skuluð þér hafa það gallalaust.


6. Fórn á nýárshátíð

29
1Í sjöunda mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. Þann dag skal blásið í básúnur hjá yður. 2Í brennifórn til þægilegs ilms fyrir Drottin skuluð þér þá fórna einu ungneyti, einum hrút og sjö veturgömlum sauðkindum gallalausum. 3Og í matfórn með þeim fínt mjöl blandað við olíu, þrjá tíundu parta með nautinu, tvo tíundu parta með hrútnum, 4og einn tíunda part með hverri þeirra sjö sauðkinda. 5Enn fremur einn geithafur í syndafórn til þess að friðþægja fyrir yður, - 6auk tunglkomu-brennifórnarinnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og hinnar stöðugu brennifórnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og dreypifórnanna, er þeim fylgja, að réttum sið - til þægilegs ilms, sem eldfórn Drottni til handa.


7. Fórn á friðþægingardaginn

7Tíunda daginn í þessum sama sjöunda mánuði skuluð þér halda helga samkomu og fasta. Þá skuluð þér ekkert verk vinna. 8En í brennifórn skuluð þér færa Drottni til þægilegs ilms eitt ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar. Skuluð þér hafa þær gallalausar. 9Og í matfórn með þeim fínt mjöl blandað við olíu, þrjá tíundu parta með nautinu, tvo tíundu parta með hrútnum, 10einn tíunda part með hverri þeirra sjö sauðkinda. 11Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk syndafórnar til friðþægingar, og stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og dreypifórnanna, er þeim fylgja.


8. Fórn á laufskálahátíð

12Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu, heldur halda Drottni hátíð í sjö daga.

13Þér skuluð færa í brennifórn, í eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa, þrettán ungneyti, tvo hrúta og fjórtán sauðkindur veturgamlar. Skulu þær vera gallalausar. 14Og í matfórn með þeim fínt mjöl olíublandað, þrjá tíundu parta með hverju þeirra þrettán nauta, tvo tíundu parta með hvorum þeirra tveggja hrúta 15og einn tíunda part með hverri þeirra fjórtán sauðkinda. 16Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.

17Annan daginn tólf ungneyti, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar, 18og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 19Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og dreypifórnanna, er þeim fylgja.

20Þriðja daginn ellefu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar, 21og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 22Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.

23Fjórða daginn tíu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar, 24matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 25Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.

26Fimmta daginn níu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar, 27og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 28Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.

29Sjötta daginn átta naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar, 30og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 31Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnanna, er henni fylgja.

32Sjöunda daginn sjö naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar, 33og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 34Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.

35Áttunda daginn skuluð þér halda hátíðastefnu. Eigi skuluð þér vinna neina stritvinnu. 36Og þér skuluð færa í brennifórn, í eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa, eitt naut, einn hrút og sjö veturgamlar sauðkindur gallalausar, 37matfórn og dreypifórnir með nautinu, hrútnum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 38Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.

39Þessu skuluð þér fórna Drottni á löghátíðum yðar, auk heitfórna yðar og sjálfviljafórna, hvort heldur eru brennifórnir, matfórnir, dreypifórnir eða heillafórnir."

40Og Móse lagði að öllu leyti svo fyrir Ísraelsmenn sem Drottinn hafði boðið honum.


Lög um heit og eiða

30
1Móse talaði við höfuðsmenn ættkvísla Ísraelsmanna á þessa leið: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið.

2Nú gjörir maður Drottni heit eða vinnur eið að því að leggja á sig bindindi, og skal hann þá eigi bregða orði sínu. Hann skal að öllu leyti svo gjöra sem hann hefir talað.

3Ef kona gjörir Drottni heit og leggur á sig bindindi, meðan hún er í æsku í föðurhúsum, 4og faðir hennar veit af heitinu eða bindindinu, er hún hefir á sig lagt, en segir ekkert við hana, þá skulu öll heit hennar standa og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt. 5En ef faðir hennar bannar henni jafnskjótt sem hann fær vitneskju um það, þá skulu öll heit hennar ógild vera og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt, og Drottinn mun fyrirgefa henni, af því að faðir hennar bannaði henni. 6En giftist hún, og heit hvíla á henni og óvarlega töluð orð, er hún hefir bundið sig með, 7og maður hennar heyrir það og segir ekkert við hana, þá skulu heit hennar standa og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt. 8En ef maður hennar bannar henni jafnskjótt sem hann fær vitneskju um, ógildir hann heitið, sem á henni hvílir, og óvarkárnisorðin, er hún hefir bundið sig með, og Drottinn mun fyrirgefa henni.

9Heit ekkju eða konu brottrekinnar - allt sem hún hefir bundist, er skuldbindandi fyrir hana. 10En gjöri hún heit í húsi manns síns eða leggi á sig bindindi með eiði, 11og maður hennar heyrir það og segir ekkert við hana og bannar henni ekki, þá skulu öll heit hennar standa og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt. 12En ef maður hennar ógildir jafnskjótt og hann fær vitneskju um, þá skal allt, sem komið hefir yfir varir hennar, ógilt vera, hvort heldur eru heit eða bindindisskuldbinding. Maður hennar hefir ógilt það, og Drottinn mun fyrirgefa henni.

13Sérhvert heit og sérhvern skuldbindingareið um að fasta getur maður hennar staðfest eða ógilt. 14En ef maður hennar segir alls ekkert við hana dag eftir dag, þá staðfestir hann öll heit hennar eða allar þær skuldbindingar, er á henni hvíla. Hann hefir staðfest þær með því að segja ekkert við hana, þá er hann fékk vitneskju um það. 15En ef hann ógildir þær eftir að hann hefir fengið vitneskju um, þá tekur hann á sig misgjörð hennar."

16Þetta eru þau ákvæði, er Drottinn bauð Móse að gilda skyldu milli manns og konu, milli föður og dóttur, meðan hún er í æsku og í föðurhúsum.


Heilagt stríð gegn Midíanítum

31
1Drottinn talaði við Móse og sagði: 2"Hefn þú Ísraelsmanna á Midíanítum. Eftir það skalt þú safnast til þíns fólks."

3Móse talaði við lýðinn og sagði: "Hervæðið menn af yður til herfarar, og skulu þeir fara á móti Midíansmönnum til þess að koma fram hefnd Drottins á Midíansmönnum. 4Skuluð þér senda þúsund manns af ættkvísl hverri af öllum ættkvíslum Ísraels til herfararinnar."

5Voru þá látnir til af þúsundum Ísraels þúsund af ættkvísl hverri, tólf þúsund herbúinna manna. 6Og Móse sendi þá, þúsund manns af ættkvísl hverri, til herfarar, og með þeim Pínehas, son Eleasars prests, og hafði hann með sér hin helgu áhöld og hvellilúðrana. 7Og þeir börðust við Midíansmenn, eins og Drottinn hafði boðið Móse, og drápu alla karlmenn. 8Þeir drápu og konunga Midíansmanna, auk annarra, er þeir felldu: Eví, Rekem, Súr, Húr og Reba, fimm konunga Midíansmanna. Bíleam Beórsson drápu þeir og með sverði.

9Ísraelsmenn tóku að herfangi konur Midíansmanna og börn þeirra og rændu öllum eykjum þeirra, öllum fénaði þeirra og öllum eigum þeirra. 10En þeir lögðu eld í allar borgir þeirra, sem þeir bjuggu í, og í allar tjaldbúðir þeirra. 11Og þeir tóku allt ránsféð og allt herfangið, bæði menn og skepnur, 12og færðu Móse og Eleasar presti og söfnuði Ísraelsmanna hið hertekna fólk, herfangið og ránsféð í herbúðirnar, til Móabsheiða, sem eru við Jórdan gegnt Jeríkó.

13Móse og Eleasar prestur og allir höfuðsmenn safnaðarins gengu í móti þeim út fyrir herbúðirnar. 14 Reiddist Móse þá hersveitarforingjunum, bæði þeim er settir voru yfir þúsundir og þeim er settir voru yfir hundruð og komu úr leiðangrinum, 15og sagði við þá: "Gáfuð þér öllum konum líf? 16Sjá, það voru einmitt þær, sem urðu tilefni til þess, að Ísraelsmenn að ráði Bíleams sýndu Drottni ótrúmennsku vegna Peórs, svo að plágan kom yfir söfnuð Drottins. 17Drepið því öll piltbörn. Drepið og allar þær konur, er samræði hafa átt við karlmann, 18en látið öll stúlkubörn, er eigi hafa átt samræði við karlmann, lifa handa yður. 19En sjálfir skuluð þér hafast við fyrir utan herbúðirnar í sjö daga. Hver sem drepið hefir mann og hver sem snert hefir veginn mann, þér skuluð syndhreinsa yður á þriðja degi og sjöunda degi, svo og þeir, er þér hafið tekið að herfangi. 20Þér skuluð og syndhreinsa allan klæðnað, alla hluti af skinni gjörva, allt sem gjört er úr geitahárum, svo og öll tréílát."

21Og Eleasar prestur sagði við hermennina, er gengið höfðu í bardagann: "Þetta er ákvæði í lögmálinu, er Drottinn hefir boðið Móse. 22En láta skuluð þér gull, silfur, eir, járn, tin og blý, 23allt sem eld þolir, ganga í gegnum eld, og er það þá hreint. Þó skal það enn syndhreinsað með hreinsunarvatni. En allt sem eigi þolir eld, skuluð þér láta ganga í gegnum vatn. 24Og þér skuluð þvo klæði yðar á sjöunda degi, og eruð þá hreinir. Eftir það megið þér koma í herbúðirnar."

25Drottinn talaði við Móse og sagði: 26"Tel þú herfangið, bæði menn og skepnur, þú og Eleasar prestur og ætthöfðingjar safnaðarins, 27og skipt þú herfanginu til helminga milli þeirra, er vopnaviðskiptin áttu, þeirra er í leiðangurinn fóru, og alls safnaðarins. 28Og þú skalt taka í skattgjald Drottni til handa af bardagamönnunum, þeim er í leiðangurinn fóru, eina sál af hverjum fimm hundruðum - af mönnum, nautgripum, ösnum og smáfénaði. 29Takið það af þeirra helmingi, og skalt þú fá það Eleasar presti sem fórnargjöf Drottni til handa. 30En af helmingi Ísraelsmanna skalt þú taka frá eina af hverjum fimmtíu - af mönnum, nautgripum, ösnum og smáfénaði, af öllum skepnum, og fá levítunum, sem annast búð Drottins."

31Og Móse og Eleasar prestur gjörðu eins og Drottinn hafði boðið Móse. 32En herfangið - það sem eftir var af ránsfé því, er herfólkið hafði rænt - voru 675.000 af sauðfénaði, 3372.000 af nautgripum 34og 61.000 asnar, 35og alls 32.000 konur er eigi höfðu átt samræði við karlmann. 36En helmingshlutur þeirra, er í leiðangurinn fóru, var að tölu 337.500 af sauðfénaði, 37og skattgjaldið til handa Drottni af sauðfénaðinum var 675, 38af nautgripum 36.000, og skattgjaldið af þeim Drottni til handa 72, 39asnarnir 30.500, og skattgjaldið af þeim Drottni til handa 61, 40og mennirnir 16.000, og skattgjaldið af þeim Drottni til handa 32 sálir.

41Móse fékk Eleasar presti fórnarskattgjaldið Drottni til handa, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 42Og af helmingnum, er Ísraelsmenn fengu og Móse skipti frá hermönnunum - 43en í hluta safnaðarins kom: af sauðfénaði 337.500, 44af nautgripum 36.000, 45af ösnum 30.500 46og af mönnum 16.000, - 47af helmingnum, er Ísraelsmenn fengu, tók Móse frá einn af hverjum fimmtíu, bæði af mönnum og skepnum, og fékk levítunum, er annast búð Drottins, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

48Höfuðsmennirnir yfir þúsundum hersins, fyrirliðarnir fyrir þúsundunum og fyrirliðarnir fyrir hundruðunum, gengu nú fram fyrir Móse 49og sögðu við Móse: "Vér þjónar þínir höfum talið bardagamennina, er vér áttum yfir að ráða, og vér söknum eigi neins af þeim. 50Fyrir því færum vér Drottni að fórnargjöf hver það, er hann hefir komist yfir af gullgripum: armhringa, armbönd, fingurgull, eyrnagull og hálsmen, til þess að friðþægja fyrir sálir vorar fyrir Drottni."

51Þeir Móse og Eleasar tóku við gullinu af þeim. Var það alls konar listasmíði. 52En gullið, sem þeir færðu Drottni að fórnargjöf, var alls 16.750 siklar, og var það frá fyrirliðunum fyrir þúsundunum og frá fyrirliðunum fyrir hundruðunum. 53Hermennirnir höfðu rænt hver handa sér. 54Og þeir Móse og Eleasar prestur tóku við gullinu af fyrirliðunum fyrir þúsundunum og hundruðunum og færðu það í samfundatjaldið, Ísraelsmönnum til minningar frammi fyrir Drottni.


Ættkvíslir Rúbens og Gaðs og hálf ættkvísl Manasse setjast að austan Jórdanar

32
1Synir Rúbens og synir Gaðs áttu mikið kvikfé og mjög vænt, og er þeir litu Jaserland og Gíleaðland, sáu þeir að það var gott búfjárland. 2Synir Gaðs og synir Rúbens komu þá og sögðu við þá Móse og Eleasar prest og höfuðsmenn safnaðarins á þessa leið: 3"Atarót, Díbon, Jaser, Nimra, Hesbon, Eleale, Sebam, Nebó og Beón, 4landið, sem Drottinn vann fyrir söfnuði Ísraels, er búfjárland gott, og þjónar þínir eiga búfé." 5Og þeir sögðu: "Ef vér höfum fundið náð í augum þínum, þá fái þjónar þínir land þetta til eignar. Far eigi með oss yfir Jórdan."

6Þá sagði Móse við sonu Gaðs og sonu Rúbens: "Eiga bræður yðar að fara í hernað, en þér setjast hér að? 7Hví teljið þér hug úr Ísraelsmönnum að fara yfir um, inn í landið, sem Drottinn hefir gefið þeim? 8Svo gjörðu og feður yðar, þá er ég sendi þá frá Kades Barnea til að skoða landið. 9Þeir fóru alla leið norður í Eskóldal og skoðuðu landið, en töldu svo hug úr Ísraelsmönnum, að þeir vildu ekki fara inn í landið, sem Drottinn hafði gefið þeim. 10Þann dag upptendraðist reiði Drottins, svo að hann sór og sagði: 11,Þeir menn, er fóru af Egyptalandi tvítugir og þaðan af eldri, skulu ekki fá að sjá landið, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, því að þeir hafa ekki fylgt mér trúlega, 12nema Kaleb Jefúnneson Kenissíti og Jósúa Núnsson, því að þeir hafa trúlega fylgt Drottni.' 13Og reiði Drottins upptendraðist gegn Ísrael og hann lét þá reika um eyðimörkina í fjörutíu ár, þar til er öll sú kynslóð var liðin undir lok, er gjört hafði það, sem illt var fyrir augliti Drottins. 14Og sjá, nú hafið þér risið upp í stað feðra yðar, þér afsprengi syndugra manna, til þess að gjöra hina brennandi reiði Drottins gegn Ísrael enn þá meiri. 15Ef þér snúið yður frá honum, þá mun hann láta þá reika enn lengur um eyðimörkina, og þér munuð steypa öllum þessum lýð í glötun."

16Þeir gengu til hans og sögðu: "Vér viljum byggja hér fjárbyrgi fyrir búsmala vorn og bæi handa börnum vorum. 17En sjálfir munum vér fara vígbúnir fyrir Ísraelsmönnum, þar til er vér höfum komið þeim á sinn stað. En börn vor skulu búa í víggirtum borgum, sökum íbúa landsins. 18Eigi munum vér snúa heim aftur fyrr en Ísraelsmenn hafa hlotið hver sinn erfðahlut. 19Vér munum eigi taka eignarland með þeim þar hinumegin Jórdanar, því að vér höfum hlotið til eignar landið hér austanmegin Jórdanar."

20Þá sagði Móse við þá: "Ef þér viljið gjöra þetta, ef þér viljið búast til bardaga fyrir augliti Drottins, 21og ef sérhver vígbúinn maður meðal yðar fer yfir Jórdan fyrir augliti Drottins, uns hann hefir rekið óvini sína burt frá sér, 22og þér snúið ekki aftur fyrr en landið er undirokað fyrir augliti Drottins, þá skuluð þér vera sýknir saka fyrir Drottni og fyrir Ísrael, og land þetta skal verða yðar eign fyrir augliti Drottins. 23En ef þér gjörið eigi svo, sjá, þá syndgið þér gegn Drottni, og þér munuð fá að kenna á synd yðar, er yður mun í koll koma. 24Byggið yður bæi handa börnum yðar og byrgi handa fé yðar, og gjörið svo sem þér hafið látið um mælt."

25Þá sögðu synir Gaðs og synir Rúbens við Móse: "Þjónar þínir munu gjöra eins og þú býður, herra. 26Börn vor, konur vorar, fénaður vor og allir eykir vorir skulu verða eftir hér í bæjunum í Gíleað. 27En þjónar þínir skulu fara yfir um, allir þeir sem herbúnir eru, fyrir augliti Drottins til hernaðar, eins og þú býður, herra."

28Og Móse gaf Eleasar presti, Jósúa Núnssyni og ætthöfðingjum Ísraelsmanna skipun um þá 29og sagði við þá: "Ef synir Gaðs og synir Rúbens, allir þeir sem vígbúnir eru, fara með yður yfir Jórdan til hernaðar fyrir augliti Drottins og þér undirokið landið, þá gefið þeim Gíleaðland til eignar. 30En ef þeir fara eigi vígbúnir yfir um með yður, þá skulu þeir fá eignarlönd með yður í Kanaanlandi."

31Synir Gaðs og synir Rúbens svöruðu og sögðu: "Það sem Drottinn hefir sagt þjónum þínum, það viljum vér gjöra. 32Vér viljum fara yfir um vígbúnir fyrir augliti Drottins, inn í Kanaanland, en óðalseign vor skal vera fyrir handan Jórdan."

33Þá fékk Móse þeim sonum Gaðs, sonum Rúbens og hálfri ættkvísl Manasse Jósefssonar konungsríki Síhons Amorítakonungs og konungsríki Ógs, konungs í Basan, landið og borgirnar í því, ásamt umhverfunum, borgir landsins allt í kring.

34Þá reistu synir Gaðs Díbon, Atarót, Aróer, 35Aterót Sófan, Jaser, Jogbeha, 36Bet Nimra og Bet Haran. Voru það víggirtar borgir og fjárbyrgi.

37Synir Rúbens reistu Hesbon, Eleale, Kirjataím, 38Nebó, Baal Meon, með breyttu nafni, og Síbma, og þeir gáfu borgunum, er þeir reistu, ný nöfn.

39Synir Makírs Manassesonar fóru til Gíleað og unnu það og ráku burt Amoríta, sem þar voru. 40Og Móse fékk Makír Manassesyni Gíleað, og festi hann þar byggð. 41En Jaír, sonur Manasse, fór og vann þorp þeirra og nefndi það Jaírs-þorp. 42Og Nóba fór og vann Kenat og borgirnar þar umhverfis og nefndi það Nóba eftir nafni sínu.


Skrá um áfangastaði Ísraelsmanna

33
1Þessir voru áfangar Ísraelsmanna, er þeir fóru af Egyptalandi, hver hersveit fyrir sig, undir forystu þeirra Móse og Arons. 2Móse færði í letur að boði Drottins staðina, sem þeir lögðu upp frá, eftir áföngum þeirra, og þessir voru áfangar þeirra frá einum áfangastað til annars:

3Þeir lögðu upp frá Ramses í fyrsta mánuðinum, á fimmtánda degi hins fyrsta mánaðar. Daginn eftir páska lögðu Ísraelsmenn af stað óhikað, að Egyptum öllum ásjáandi, 4meðan Egyptar voru að jarða alla frumburðina, er Drottinn hafði fyrir þeim deytt, og Drottinn hafði látið refsidóma ganga yfir goð þeirra.

5Ísraelsmenn lögðu upp frá Ramses og settu búðir sínar í Súkkót.

6Þeir lögðu upp frá Súkkót og settu búðir sínar í Etam, þar sem eyðimörkina þrýtur.

7Þeir lögðu upp frá Etam og sneru leið sinni til Pí-Hakírót, sem er fyrir austan Baal Sefón, og settu búðir sínar fyrir austan Mígdól.

8Þeir lögðu upp frá Pí-Hakírót og fóru þvert yfir hafið inn í eyðimörkina. Og þeir fóru þriggja daga leið í Etameyðimörk og settu búðir sínar í Mara.

9Þeir lögðu upp frá Mara og komu til Elím. En í Elím voru tólf vatnslindir og sjötíu pálmaviðir. Þar settu þeir búðir sínar.

10Þeir lögðu upp frá Elím og settu búðir sínar við Sefhafið.

11Þeir lögðu upp frá Sefhafinu og settu búðir sínar í Síneyðimörk.

12Þeir lögðu upp frá Síneyðimörk og settu búðir sínar í Dofka.

13Þeir lögðu upp frá Dofka og settu búðir sínar í Alús.

14Þeir lögðu upp frá Alús og settu búðir sínar í Refídím. Þar hafði lýðurinn ekki vatn að drekka.

15Þeir lögðu upp frá Refídím og settu búðir sínar í Sínaí-eyðimörk.

16Þeir lögðu upp frá Sínaí-eyðimörk og settu búðir sínar í Kibrót-hattava.

17Þeir lögðu upp frá Kibrót-hattava og settu búðir sínar í Haserót.

18Þeir lögðu upp frá Haserót og settu búðir sínar í Ritma.

19Þeir lögðu upp frá Ritma og settu búðir sínar í Rimmón Peres.

20Þeir lögðu upp frá Rimmón Peres og settu búðir sínar í Líbna.

21Þeir lögðu upp frá Líbna og settu búðir sínar í Ríssa.

22Þeir lögðu upp frá Ríssa og settu búðir sínar í Kehelata.

23Þeir lögðu upp frá Kehelata og settu búðir sínar á Seferfjalli.

24Þeir lögðu upp frá Seferfjalli og settu búðir sínar í Harada.

25Þeir lögðu upp frá Harada og settu búðir sínar í Makhelót.

26Þeir lögðu upp frá Makhelót og settu búðir sínar í Tahat.

27Þeir lögðu upp frá Tahat og settu búðir sínar í Tera.

28Þeir lögðu upp frá Tera og settu búðir sínar í Mitka.

29Þeir lögðu upp frá Mitka og settu búðir sínar í Hasmóna.

30Þeir lögðu upp frá Hasmóna og settu búðir sínar í Móserót.

31Þeir lögðu upp frá Móserót og settu búðir sínar í Bene Jaakan.

32Þeir lögðu upp frá Bene Jaakan og settu búðir sínar í Hór Haggiðgað.

33Þeir lögðu upp frá Hór Haggiðgað og settu búðir sínar í Jotbata.

34Þeir lögðu upp frá Jotbata og settu búðir sínar í Abróna.

35Þeir lögðu upp frá Abróna og settu búðir sínar í Esjón Geber.

36Þeir lögðu upp frá Esjón Geber og settu búðir sínar í Síneyðimörk, það er Kades.

37Þeir lögðu upp frá Kades og settu búðir sínar á Hórfjalli, á landamærum Edómlands. 38Og Aron prestur fór að boði Drottins upp á Hórfjall og andaðist þar á fertugasta ári eftir brottför Ísraelsmanna af Egyptalandi, í fimmta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins. 39Aron var hundrað tuttugu og þriggja ára, þegar hann andaðist á Hórfjalli. 40Og Kanaanítinn, konungurinn í Arad, sem bjó í suðurhluta Kanaanlands, spurði komu Ísraelsmanna.

41Þeir lögðu upp frá Hórfjalli og settu búðir sínar í Salmóna.

42Þeir lögðu upp frá Salmóna og settu búðir sínar í Fúnón.

43Þeir lögðu upp frá Fúnón og settu búðir sínar í Óbót.

44Þeir lögðu upp frá Óbót og settu búðir sínar í Íje Haabarím, Móabslandi.

45Þeir lögðu upp frá Íjím og settu búðir sínar í Díbon Gað.

46Þeir lögðu upp frá Díbon Gað og settu búðir sínar í Almón Díblataím.

47Þeir lögðu upp frá Almón Díblataím og settu búðir sínar í Abarímfjöllum, fyrir austan Nebó.

48Þeir lögðu upp frá Abarímfjöllum og settu búðir sínar á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó. 49Settu þeir búðir sínar við Jórdan frá Bet Hajesímót til Abel Hasittím á Móabsheiðum.


Skipting fyrirheitna landsins

50Drottinn talaði við Móse á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó, og sagði: 51"Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér eruð komnir yfir um Jórdan inn í Kanaanland, 52skuluð þér stökkva burt undan yður öllum íbúum landsins og eyða öllum myndasteinum þeirra, þér skuluð og eyða öllum steyptum goðalíkneskjum þeirra og leggja fórnarhæðir þeirra í eyði. 53Og þér skuluð kasta eign yðar á landið og festa byggð í því, því að yður hefi ég gefið landið til eignar. 54Og þér skuluð fá erfðahluti í landinu eftir hlutkesti, hver ættkvísl fyrir sig. Þeirri ættkvísl, sem mannmörg er, skuluð þér fá mikinn erfðahlut, en þeirri, sem fámenn er, skuluð þér fá lítinn erfðahlut. Þar sem hlutur hvers eins fellur, það skal verða hans, eftir kynkvíslum feðra yðar skuluð þér fá það í erfðahlut. 55En ef þér stökkvið ekki íbúum landsins burt undan yður, þá munu þeir af þeim, er þér skiljið eftir, verða þyrnar í augum yðar og broddar í síðum yðar, og þeir munu veita yður þungar búsifjar í landinu, sem þér búið í, 56og þá mun svo fara, að ég mun gjöra svo við yður sem ég hafði fyrirhugað að gjöra við þá."

34
1Drottinn talaði við Móse og sagði: 2"Bjóð þú Ísraelsmönnum og seg við þá: Þegar þér komið inn í Kanaanland, þá skal það vera landið, sem þér hljótið til eignar, Kanaanland til ystu ummerkja.

3Suðurhliðin skal vera: frá Síneyðimörk meðfram Edóm. Og austurendi suðurtakmarkanna skal vera suðurendi Dauðahafs. 4Þaðan skulu takmörkin liggja í boga fyrir sunnan Sporðdrekaskarð og ná yfir til Sín og endir þeirra vera fyrir sunnan Kades Barnea. Skulu þau liggja til Hasar Addar og ná yfir til Asmón. 5Frá Asmón skulu takmörkin liggja í boga til Egyptalandsár og alla leið til sjávar.

6Að vesturtakmörkum skuluð þér hafa hafið mikla; þetta skulu vera vesturtakmörkin.

7Norðurtakmörkin skulu vera þessi: Frá hafinu mikla skuluð þér taka stefnu á Hórfjall. 8Frá Hórfjalli skuluð þér taka stefnu þangað sem leið liggur til Hamat, og þaðan alla leið til Sedad. 9Skulu takmörkin ná til Sífrón og enda í Hasar Enan. Þetta skulu vera landamerki yðar að norðanverðu.

10Að austanverðu skuluð þér setja merkjalínuna frá Hasar Enan til Sefam. 11En frá Sefam skulu landamerkin liggja suður til Ribla, fyrir austan Aín. Þaðan skulu landamerkin liggja niður eftir og nema við fjallhrygginn fyrir austan Genesaretvatn. 12Og landamerkin skulu liggja niður með Jórdan og enda við Dauðahafið.

Þessi skulu merki vera lands yðar hringinn í kring."

13Og Móse bauð Ísraelsmönnum og sagði: "Þetta er landið, sem þér skuluð fá til eignar með hlutkesti og Drottinn bauð að gefa níu ættkvíslunum og hálfri. 14Því að ættkvísl Rúbens sona, hver ætt fyrir sig, og ættkvísl Gaðs sona, hver ætt fyrir sig, og hálf ættkvísl Manasse hafa fengið sinn eignarhluta. 15Tvær ættkvíslirnar og hálf hafa fengið sinn eignarhluta hinumegin Jórdanar, gegnt Jeríkó, austanmegin."

16Drottinn talaði við Móse og sagði: 17"Þessi eru nöfn þeirra manna, er skipta skulu landinu milli yðar: Eleasar prestur og Jósúa Núnsson 18og einn höfðingi af ættkvísl hverri til að skipta landinu, 19og þessi eru nöfn þeirra:

af ættkvísl Júda: Kaleb Jefúnneson,

20af ættkvísl Símeons sona: Samúel Ammíhúdsson,

21af ættkvísl Benjamíns: Elídad Kislónsson,

22af ættkvísl Dans sona: Búkí Joglíson höfðingi,

23af sonum Jósefs: af ættkvísl Manasse sona: Hanníel Efóðsson höfðingi,

24af ættkvísl Efraíms sona: Kemúel Siftansson höfðingi;

25af ættkvísl Sebúlons sona: Elísafan Parnaksson höfðingi,

26af ættkvísl Íssakars sona: Paltíel Asansson höfðingi,

27af ættkvísl Assers sona: Akíhúð Selómíson höfðingi,

28af ættkvísl Naftalí sona: Pedahel Ammíhúdsson höfðingi."

29Þessir voru þeir, er Drottinn bauð að skipta skyldu landeignum milli Ísraelsmanna í Kanaanlandi.


Levítaborgirnar

35
1Drottinn talaði við Móse á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó, og sagði: 2"Bjóð þú Ísraelsmönnum, að þeir fái levítunum borgir til íbúðar af óðalseignum sínum, og til beitar skuluð þér fá þeim landið kringum borgirnar. 3Og borgirnar skulu vera þeim til íbúðar, og beitilandið, er undir þær liggur, skal vera fyrir gripi þeirra, fénað þeirra og allar aðrar skepnur þeirra. 4Og beitilandið hjá borgunum, er þér fáið levítunum, skal vera þúsund álnir út frá borgarveggnum hringinn í kring. 5Og fyrir utan borgina skuluð þér mæla austurhliðina tvö þúsund álnir, suðurhliðina tvö þúsund álnir, vesturhliðina tvö þúsund álnir og norðurhliðina tvö þúsund álnir, en borgin sjálf sé í miðju. Þetta beitiland í kringum borgirnar skulu þeir fá. 6Og að því er kemur til borganna, er þér eigið að fá levítunum, þá skuluð þér láta af hendi griðastaðina sex, til þess að þangað megi flýja menn, er víg hafa unnið, en auk þeirra skuluð þér fá þeim fjörutíu og tvær borgir. 7Borgirnar, er þér fáið levítunum, skulu vera fjörutíu og átta borgir alls, ásamt með beitilandi því, er undir þær liggur. 8Og að því er kemur til borganna, er þér eigið að láta af óðali Ísraelsmanna, þá skuluð þér láta mannmörgu ættkvíslirnar leggja til fleiri, en hinar fámennu færri. Hver einn skal fá levítunum af borgum sínum í réttu hlutfalli við erfðahlut þann, er hann hefir fengið."


Lög um griðastaði

9Drottinn talaði við Móse og sagði: 10"Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér eruð komnir yfir um Jórdan inn í Kanaanland, 11þá veljið yður haganlegar borgir. Skulu það vera yður griðastaðir, að þangað megi flýja vegendur, þeir er óviljandi hafa orðið manni að bana.

12Borgirnar skulu vera yður hæli fyrir hefnanda, svo að vegandinn týni eigi lífi áður en hann hefir komið fyrir dóm safnaðarins. 13En griðastaðirnir, sem þér látið af hendi, skulu vera sex. 14Skuluð þér láta þrjár borgir hinumegin Jórdanar og þrjár borgir í Kanaanlandi. Griðastaðir skulu þær vera. 15Skulu þessar sex borgir vera griðastaðir bæði fyrir Ísraelsmenn og dvalarmenn og hjábýlinga meðal yðar, svo að þangað megi flýja hver sá, er orðið hefir manni að bana óviljandi.

16Hafi hann lostið hann með járntóli, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari, og manndrápara skal vissulega af lífi taka. 17Hafi hann lostið hann með stein í hendi, er getur orðið manni að bana, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari; manndrápara skal vissulega af lífi taka. 18Eða hafi hann lostið hann með trétól í hendi, er getur orðið manni að bana, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari; manndrápara skal vissulega af lífi taka. 19Hefndarmaðurinn skal drepa vegandann, hann skal drepa hann, ef hann hittir hann. 20Og hrindi hann honum af hatri eða kasti í hann af ásetningi, svo að hann bíður bana af, 21eða ljósti hann af fjandskap með hendinni, svo að hann bíður bana af, þá skal sá, er laust hann, vissulega líflátinn verða; hann er manndrápari. Hefndarmaðurinn skal drepa vegandann, þegar hann hittir hann.

22En hafi hann hrundið honum óvart, en eigi af fjandskap, eða kastað í hann einhverju verkfæri, þó eigi af ásettu ráði, 23eða hann kastar til hans steini, sem getur orðið manni að bana, án þess að sjá hann, svo að hann bíður bana af, og var þó ekki óvinur hans og ætlaði ekki að gjöra honum mein, 24þá dæmi söfnuðurinn milli vegandans og hefndarmannsins eftir lögum þessum. 25Og söfnuðurinn skal forða veganda undan hefndarmanninum og söfnuðurinn skal láta flytja hann aftur í griðastað þann, er hann hafði flúið í, og skal hann dvelja þar uns æðsti presturinn deyr, sem smurður hefur verið með heilagri olíu.

26En ef vegandi fer út fyrir landamerki griðastaðar þess, er hann hefir í flúið, 27og hefndarmaður hittir hann fyrir utan landamerki griðastaðar hans, og hefndarmaður vegur veganda, þá er hann eigi blóðsekur. 28Því að vegandi skal dvelja í griðastað sínum uns æðsti prestur deyr, en eftir dauða æðsta prests má hann hverfa aftur til óðalslands síns.

29Þetta skulu vera lög hjá yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.

30Nú drepur einhver mann, og skal þá manndráparann af lífi taka eftir framburði votta. Þó má ekki kveða upp dauðadóm yfir manni eftir framburði eins vitnis. 31Og eigi skuluð þér taka bætur fyrir líf manndrápara, sem er dauðasekur, heldur skal hann af lífi tekinn verða. 32Eigi skuluð þér heldur leyfa manni að leysa sig með fébótum undan því að flýja í griðastað sinn, heldur megi hverfa aftur og búa í landinu áður en prestur deyr. 33Og þér skuluð eigi vanhelga landið, sem þér eruð í, því að blóðið vanhelgar landið, og landið fær eigi friðþæging fyrir það blóð, sem úthellt er í því, nema með blóði þess, sem úthellti því. 34Og þú skalt ekki saurga landið, sem þér búið í, með því að ég bý í því. Ég, Drottinn, bý meðal Ísraelsmanna."


Fimm systur og erfðaréttur kvenna

36
1Ætthöfðingjarnir af kynkvísl Gíleaðs sona, Makírssonar, Manassesonar, af kynkvíslum Jósefs sona, gengu fram og töluðu fyrir augliti Móse og fyrir augliti höfuðsmannanna, ætthöfðingja Ísraelsmanna, 2og sögðu: "Drottinn hefir boðið þér, herra, að fá Ísraelsmönnum landið til eignar með hlutkesti. Þér var og, herra, boðið af Drottni að fá eignarhluta Selofhaðs bróður vors dætrum hans í hendur. 3Giftist þær nú einhverjum af sonum annarra ættkvísla Ísraelsmanna, þá tekst erfð þeirra af erfð feðra vorra og bætist við erfð þess ættleggs, er þær giftast í, og tekst þannig af erfðahluta vorum. 4Og þegar fagnaðarár Ísraelsmanna kemur, þá verður erfð þeirra bætt við erfð þess ættleggs, er þær giftast í, og erfð þeirra tekst af erfð ættleggs feðra vorra."

5Þá gaf Móse Ísraelsmönnum svofelld fyrirmæli að boði Drottins: "Ættleggur Jósefs sona hefir rétt að mæla!

6Þetta eru fyrirmæli Drottins um dætur Selofhaðs: Þær mega giftast hverjum sem þær vilja; aðeins skulu þær giftast einhverjum úr föðurætt sinni, 7svo að erfð Ísraelsmanna gangi eigi frá einum ættlegg til annars, heldur skulu allir Ísraelsmenn halda fast í erfð föðurættar sinnar.

8Sérhver dóttir af ættkvíslum Ísraelsmanna, er erfð hlýtur, skal giftast í föðurætt sína, svo að hver Ísraelsmanna erfi föðurleifð sína 9og erfð gangi eigi frá einum ættlegg til annars, heldur skulu allir ættleggir Ísraelsmanna halda fast í erfð sína."

10Dætur Selofhaðs gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse, 11og giftust þær Mahla, Tirsa, Hogla, Milka og Nóa, dætur Selofhaðs, sonum föðurbræðra sinna. 12Giftust þær mönnum af kynkvísl sona Manasse Jósefssonar, og varð erfð þeirra kyrr í ættlegg föðurættar þeirra.

13Þetta eru skipanir þær og ákvæði, er Drottinn setti Ísraelsmönnum og Móse flutti þeim á Móabsheiðum við Jórdan gegnt Jeríkó.



Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997