NAHÚM



1
1Spádómur um Níníve. Bókin um vitrun Nahúms Elkósíta.


Dómur Guðs yfir Níníve

2Drottinn er vandlætissamur Guð og hefnari. Drottinn er hefnari og fullur gremi. Drottinn hefnir sín á mótstöðumönnum sínum og er langrækinn við óvini sína.

3Drottinn er seinn til reiði og mikill að krafti, en óhegnt lætur hann ekki.

Drottinn brunar áfram í fellibyljum og stormviðri, og skýin eru rykið undir fótum hans.

4Hann hastar á sjóinn og þurrkar hann upp, og hann lætur öll fljót þorna.

Þá fölnar Basan og Karmel, þá fölnar jurtagróðurinn á Líbanon.

5Fjöllin skjálfa fyrir honum, og hálsarnir renna sundur.

Jörðin gengur skykkjum fyrir honum, heimskringlan og allir sem á henni búa.

6Hver fær staðist gremi hans og hver fær afborið hans brennandi reiði?

Heift hans úthellist eins og eldur og björgin bresta sundur fyrir honum.

7Drottinn er góður, athvarf á degi neyðarinnar, og hann þekkir þá sem treysta honum. 8En með yfirgeisandi vatnsflóði mun hann gjörsamlega afmá Níníve, og myrkur mun ofsækja óvini hans.

9Hvað bruggið þér gegn Drottni? Hann eyðir svo, að af tekur - þrengingin mun ekki koma tvisvar.

10Þótt þeir væru samflæktir sem þyrnar og votir sem vín þeirra, þá munu þeir upp brenndir verða sem skraufþurrir hálmleggir.

11Frá þér, Níníve, út gekk sá, er hafði illt í huga gegn Drottni, sá er hafði skaðsemdar áform með höndum.

12Svo segir Drottinn: Þótt þeir komi allir með tölu og afar fjölmennir, þá skulu þeir allt að einu afmáðir verða og farast. Hafi ég auðmýkt þig, Júda, þá mun ég ekki auðmýkja þig framar. 13Og nú vil ég brjóta ok hans af þér og slíta bönd þín.

14En um þig, Níníve, mun Drottinn skipa svo fyrir: Ekkert afkvæmi skal framar koma út af nafni þínu. Ég vil eyða skurðmyndunum og steyptu líkneskjunum úr hofi guðs þíns, ég vil búa þér gröf, því að þú ert léttvæg fundin.

2
1Sjá á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, þess er friðinn kunngjörir. Hald hátíðir þínar, Júda, gjald heit þín, því að eyðandinn skal ekki framar um hjá þér fara - hann er með öllu afmáður.


Fall Níníve

2Ófriðarmaðurinn fer í móti þér, Níníve: Gæt vígisins! Horf njósnaraugum út á veginn, styrk lendarnar, safna öllum styrkleika þínum, 3því að Drottinn reisir aftur við tign Jakobs eins og tign Ísraels, því að ræningjar hafa rænt þá og skemmt gróðurkvistu þeirra.

4Skildir kappa hans eru rauðlitaðir, hermennirnir klæddir skarlatsklæðum. Vagnarnir glóa af stáli þann dag, er hann útbýr þá, og lensunum verður sveiflað. 5Vagnarnir geisa á strætunum, þeytast um torgin, þeir eru til að sjá sem blys, þeir þjóta áfram sem eldingar.

6Konungurinn heitir þá á tignarmenn sína: Þeir hrasa á göngu sinni, þeir flýta sér að múrnum, en þegar er vígþak reist.

7Hliðunum við fljótið er lokið upp og konungshöllin kemst í uppnám. 8Og drottningin verður flett klæðum og flutt burt, og þernur hennar munu andvarpa, líkast því sem dúfur kurri, og berja sér á brjóst.

9Níníve hefir verið sem vatnstjörn frá upphafi vega sinna. En þeir flýja. "Standið við, standið við!" - en enginn lítur við. 10Rænið silfri, rænið gulli! Því að hér er óþrjótandi forði, ógrynni af alls konar dýrum munum.

11Auðn, gjörauðn og aleyðing, huglaus hjörtu, riðandi kné og skjálfti í öllum mjöðmum, og allra andlit blikna.

12Hvar er nú bæli ljónanna, átthagar ungljónanna, þar sem ljónið gekk og ljónynjan og ljónshvolpurinn, án þess að nokkur styggði þau? 13Ljónið reif sundur, þar til er hvolpar þess höfðu fengið nægju sína, og drap niður handa ljónynjum sínum, fyllti hella sína bráð og bæli sín ránsfeng.

14Sjá, ég rís í gegn þér - segir Drottinn allsherjar - og læt vagna þína bálast upp í reyk, og sverðið skal eta ungljón þín. Og ég eyði herfangi þínu af jörðinni, og raust sendiboða þinna skal ekki framar heyrast.

3
1Vei hinni blóðseku borg, sem öll er full af lygum og ofríki og aldrei hættir að ræna.

2Heyr, svipusmellir! Heyr, hjólaskrölt! Hestar stökkva, vagnar þjóta! 3Riddarar geisa fram! Blikandi sverð, leiftrandi spjót! Fjöldi valfallinna manna og aragrúi af líkum, mannabúkarnir eru óteljandi, þeir hrasa um búkana.

4Vegna hins mikla lauslætis skækjunnar, hinnar fögru og fjölkunnugu, sem vélaði þjóðir með lauslæti sínu og kynstofna með töfrum sínum, 5- sjá, ég rís í gegn þér - segir Drottinn allsherjar - og ég vil bregða klæðafaldi þínum upp að framan og sýna þjóðunum nekt þína og konungsríkjunum blygðan þína. 6Ég skal kasta á þig saur og svívirða þig og láta þig verða öðrum að varnaðarvíti, 7svo að allir sem sjá þig, skulu flýja frá þér og segja:

"Níníve er í eyði lögð! Hver mun aumka hana?"

Hvar á ég að leita þeirra, sem vilji hugga þig?

8Ert þú, Níníve, betri en Nó-Ammon, sem lá við Nílkvíslarnar, umkringd af vötnum, sem hafði fljót að varnarvirki, fljót að múrvegg? 9Blálendingar voru styrkur hennar og óteljandi Egyptar, Pútmenn og Líbýumenn voru hjálparlið hennar. 10Og þó varð hún að fara í útlegð, fara burt hernumin. Ungbörn hennar voru og rotuð til dauða á öllum strætamótum. Hlutum var kastað um hina göfugustu menn í borginni og öll stórmenni hennar voru fjötrum reyrð.

11Einnig þú skalt drukkin verða og þér sortna fyrir augum, þú skalt og leita hælis fyrir óvinunum.

12Öll varnarvirki þín eru sem fíkjutré með árfíkjum. Séu þau skekin, falla fíkjurnar þeim í munn, sem þær vill eta. 13Sjá, hermenn þínir eru orðnir að konum - landshliðum þínum hefir verið lokið upp fyrir óvinum þínum, eldur eyðir slagbröndum þínum.

14Aus vatni til þess að hafa meðan á umsátinni stendur! Umbæt varnarvirki þín! Gakk út í deigulmóinn og troð leirinn, gríp til tiglmótanna! 15Þar skal eldurinn eyða þér, sverðið uppræta þig. Hann skal eyða þér eins og engisprettur, og það þótt þér fjölgi eins og grasvörgum, þótt þér fjölgi eins og átvörgum.

16Kaupmenn þínir eru fleiri en stjörnurnar á himninum, en grasvargarnir skipta hömum og fljúga burt. 17Höfðingjar þínir eru eins og átvargar, herforingjar þínir eins og sægur af engisprettum, er liggja á akurgerðunum þegar kalt er. Þegar sólin kemur upp, fljúga þær burt, enginn veit hvað af þeim verður.

18Hirðar þínir blunda, Assýríukonungur, tignarmenn þínir sofa. Menn þínir eru á víð og dreif um fjöllin, og enginn safnar þeim saman.

19Engin svíun fæst við meini þínu, sár þitt er ólæknandi. Allir þeir sem heyra fregnina um þig, klappa lof í lófa, því að hver er sá, að eigi hafi vonska þín gengið yfir hann án afláts?



Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997