PRÉDIKARINN



Allt er sístritandi

1
1Orð prédikarans, sonar Davíðs, konungs í Jerúsalem. 2Aumasti hégómi, segir prédikarinn, aumasti hégómi, allt er hégómi!

3Hvaða ávinning hefir maðurinn af öllu striti sínu, er hann streitist við undir sólinni?

4Ein kynslóðin fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu. 5Og sólin rennur upp, og sólin gengur undir og hraðar sér til samastaðar síns, þar sem hún rennur upp. 6Vindurinn gengur til suðurs og snýr sér til norðurs, hann snýr sér og snýr sér og fer aftur að hringsnúast á nýjan leik. 7Allar ár renna í sjóinn, en sjórinn verður aldrei fullur, þangað sem árnar renna, þangað halda þær ávallt áfram að renna. 8Allt er sístritandi, enginn maður fær því með orðum lýst, augað verður aldrei satt af að sjá, og eyrað verður aldrei mett af að heyra. 9Það sem hefir verið, það mun verða, og það sem gjörst hefir, það mun gjörast, og ekkert er nýtt undir sólinni. 10Sé nokkuð til, er um verði sagt: sjá, þetta er nýtt - þá hefir það orðið fyrir löngu, á tímum sem á undan oss voru. 11Forfeðranna minnast menn eigi, og ekki verður heldur eftirkomendanna, sem síðar verða uppi, minnst meðal þeirra, sem síðar verða.


Sjálf spekin er hégómi

12Ég, prédikarinn, var konungur yfir Ísrael í Jerúsalem. 13Ég lagði allan hug á að rannsaka og kynna mér með hyggni allt það, er gjörist undir himninum: Það er leiða þrautin, sem Guð hefir fengið mönnunum að þreyta sig á. 14Ég hefi séð öll verk, sem gjörast undir sólinni, og sjá: Allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi.

15Hið bogna getur ekki orðið beint, og það sem skortir verður eigi talið.

16Ég hugsaði með sjálfum mér: Sjá, ég hefi aflað mér meiri og víðtækari speki en allir þeir, er ríkt hafa yfir Jerúsalem á undan mér, og hjarta mitt hefir litið speki og þekkingu í ríkum mæli. 17Og er ég lagði allan hug á að þekkja speki og að þekkja flónsku og heimsku, þá komst ég að raun um, að einnig það var að sækjast eftir vindi.

18Því að mikilli speki er samfara mikil gremja, og sá sem eykur þekking sína, eykur kvöl sína.


Enginn ávinningur

2
1Ég sagði við sjálfan mig: Jæja þá, reyndu gleðina og njóttu gæða lífsins! En sjá, einnig það er hégómi. 2Um hláturinn sagði ég: hann er vitlaus! og um gleðina: hverju fær hún til vegar komið? 3Mér kom til hugar að gæða líkama mínum á víni - en hjarta mitt skyldi stjórna öllu viturlega - og að halda fast við heimskuna, uns ég sæi, hvað gott væri fyrir mennina að gjöra undir himninum alla ævidaga þeirra. 4Ég gjörði stórvirki: Ég reisti mér hús, ég plantaði mér víngarða, 5ég gjörði mér jurtagarða og aldingarða og gróðursetti þar alls konar aldintré, 6ég bjó mér til vatnstjarnir til þess að vökva með vaxandi viðarskóg, 7ég keypti þræla og ambáttir, og ég átti heimafædd hjú. Ég átti og meiri hjarðir nauta og sauða en allir þeir, sem verið höfðu á undan mér í Jerúsalem. 8Ég safnaði mér og silfri og gulli og fjársjóðum frá konungum og löndum, ég fékk mér söngmenn og söngkonur og það sem er yndi karlmannanna: fjölda kvenna. 9Og ég varð mikill og meiri öllum þeim, er verið höfðu í Jerúsalem á undan mér. Einnig speki mín var kyrr hjá mér. 10Og allt það sem augu mín girntust, það lét ég eftir þeim. Ég neitaði ekki hjarta mínu um nokkra gleði, því að hjarta mitt hafði ánægju af allri fyrirhöfn minni, og þetta var hlutdeild mín af allri fyrirhöfn minni.

11En er ég leit á öll verk mín, þau er hendur mínar höfðu unnið, og á þá fyrirhöfn, er ég hafði haft fyrir að gjöra þau, þá sá ég, að allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi, og að enginn ávinningur er til undir sólinni.


Spekin hefir yfirburði yfir heimskuna

12Ég sneri mér að því að virða fyrir mér speki og flónsku og heimsku, - því að hvað mun sá maður gjöra, er kemur eftir konunginn? Hann gjörir það sem menn hafa gjört fyrir löngu. - 13Þá sá ég, að spekin hefir yfirburði yfir heimskuna eins og ljósið hefir yfirburði yfir myrkrið.

14Vitur maður hefir augun í höfðinu, en heimskinginn gengur í myrkri.

Jafnframt tók ég eftir því, að eitt og hið sama kemur fram við alla. 15Og ég sagði við sjálfan mig: Hið sama sem kemur fram við heimskingjann, það kemur og fram við mig, og til hvers hefi ég þá orðið svo frábærlega vitur? Þá hugsaði ég í hjarta mínu, að einnig það væri hégómi. 16Því að menn minnast ekki hins vitra að eilífu, frekar en heimskingjans, því að allir verða þeir löngu gleymdir á komandi tímum, og deyr ekki jafnt vitur sem heimskur?


Hvað fær maðurinn fyrir allt sitt strit?

17Þá varð mér illa við lífið, því að mér mislíkaði það, er gjörist undir sólinni, því að allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi. 18Og mér varð illa við allt mitt strit, er ég streittist við undir sólinni, með því að ég verð að eftirskilja það þeim manni, er kemur eftir mig. 19Og hver veit, hvort hann verður spekingur eða heimskingi? Og þó á hann að ráða yfir öllu striti mínu, er ég hefi streitst við og viturlega með farið undir sólinni - einnig það er hégómi.

20Þá hvarf ég að því að láta hjarta mitt örvænta yfir allri þeirri mæðu, er ég hafði átt í undir sólinni. 21Því að hafi einhver unnið starf sitt með hyggindum, þekking og dugnaði, verður hann að selja það öðrum í hendur til eignar, sem ekkert hefir fyrir því haft. Einnig það er hégómi og mikið böl. 22Hvað fær þá maðurinn fyrir allt strit sitt og ástundun hjarta síns, er hann mæðist í undir sólinni? 23Því að allir dagar hans eru kvöl, og starf hans er armæða. Jafnvel á næturnar fær hjarta hans eigi hvíld. Einnig þetta er hégómi.


Lífsgleðin er Guðs gjöf

24Það er ekkert betra til með mönnum en að eta og drekka og láta sálu sína njóta fagnaðar af striti sínu. En það hefi ég séð, að einnig þetta kemur af Guðs hendi. 25Því að hver má eta eða neyta nokkurs án hans? 26Því að þeim manni, sem honum geðjast, gefur hann visku, þekking og gleði, en syndaranum fær hann það starf að safna og hrúga saman til þess að selja það þeim í hendur, er Guði geðjast. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.


Öllu er afmörkuð stund

3
1Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma.

2Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma,
að gróðursetja hefir sinn tíma og að rífa það upp,
sem gróðursett hefir verið, hefir sinn tíma,
3að deyða hefir sinn tíma og að lækna hefir sinn tíma,
að rífa niður hefir sinn tíma
og að byggja upp hefir sinn tíma,
4að gráta hefir sinn tíma og að hlæja hefir sinn tíma,
að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma,
5að kasta steinum hefir sinn tíma
og að tína saman steina hefir sinn tíma,
að faðmast hefir sinn tíma
og að halda sér frá faðmlögum hefir sinn tíma,
6að leita hefir sinn tíma og að týna hefir sinn tíma,
að geyma hefir sinn tíma og að fleygja hefir sinn tíma,
7að rífa sundur hefir sinn tíma
og að sauma saman hefir sinn tíma,
að þegja hefir sinn tíma og að tala hefir sinn tíma,
8að elska hefir sinn tíma og að hata hefir sinn tíma,
ófriður hefir sinn tíma, og friður hefir sinn tíma.
9Hvern ávinning hefir starfandinn af öllu striti sínu?

10Ég virti fyrir mér þá þraut, sem Guð hefir fengið mönnunum að þreyta sig á. 11Allt hefir hann gjört hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra, aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda.

12Ég komst að raun um, að ekkert er betra með þeim en að vera glaður og gæða sér meðan ævin endist. 13En það, að maður etur og drekkur og nýtur fagnaðar af öllu striti sínu, einnig það er Guðs gjöf.

14Ég komst að raun um, að allt, sem Guð gjörir, stendur að eilífu, við það er engu að bæta, og af því verður ekkert tekið. Guð hefir gjört það svo, til þess að menn óttuðust hann. 15Það sem er, var fyrir löngu, og það sem mun verða, hefir verið fyrir löngu, og Guð leitar aftur hins liðna.


Allt fer sömu leiðina

16Og enn fremur sá ég undir sólinni: Þar sem rétturinn átti að vera, þar var ranglæti, og þar sem réttlætið átti að vera, þar var ranglæti.

17Ég sagði við sjálfan mig: Hinn ráðvanda og hinn óguðlega mun Guð dæma, því að hann hefir sett tíma öllum hlutum og öllum gjörðum. 18Ég sagði við sjálfan mig: Það er mannanna vegna, til þess að Guð geti reynt þá, og til þess að þeir sjái, að þeir eru sjálfir ekki annað en skepnur. 19Því að örlög mannanna og örlög skepnunnar - örlög þeirra eru hin sömu: Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn, og allt hefir sama andann, og yfirburði hefir maðurinn enga fram yfir skepnuna, því að allt er hégómi.

20Allt fer sömu leiðina: Allt er af moldu komið, og allt hverfur aftur til moldar. 21Hver veit, hvort andi mannanna fer upp á við, en andi skepnunnar niður á við til jarðar?

22Þannig sá ég, að ekkert betra er til en að maðurinn gleðji sig við verk sín, því að það er hlutdeild hans. Því að hver kemur honum svo langt, að hann sjái það sem verður eftir hans dag?


Sæll er hinn óborni

4
1Og enn sá ég alla þá kúgun, sem viðgengst undir sólinni: Þarna streyma tár hinna undirokuðu, en enginn huggar þá. Af hendi kúgara sinna sæta þeir ofbeldi, en enginn huggar þá.

2Þá taldi ég hina framliðnu sæla, þá er fyrir löngu eru dánir, í samanburði við hina lifandi, þá er enn eru á lífi, 3en sælli en þessa hvora tveggja þann, sem enn er ekki til orðinn og ekki hefir séð þau vondu verk, sem framin eru undir sólinni.


Allt strit er öfund

4Og ég sá, að allt strit og dugnaður í framkvæmdum er ekki annað en öfund eins við annan. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.

5Heimskinginn spennir greipar og etur sitt eigið hold.

6Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.


Bágt er að vera einn

7Og enn sá ég hégóma undir sólinni: 8Maður stendur einn og enginn annar með honum, hann á hvorki son né bróður, og þó er enginn endir á öllu striti hans, og augu hans mettast ekki á auðlegð. En fyrir hvern er ég þá að stritast og fyrir hvern læt ég þá sál mína fara góðs á mis? Einnig þetta er hégómi og leið þraut.

9Betri eru tveir en einn, með því að þeir hafa góð laun fyrir strit sitt. 10Því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur, en vei einstæðingnum, sem fellur og enginn annar er til að reisa á fætur. 11Sömuleiðis ef tveir sofa saman, þá er þeim heitt, en sá sem er einn, hvernig getur honum hitnað? 12Og ef einhver ræðst á þann sem er einn, þá munu tveir geta veitt honum mótstöðu, og þrefaldan þráð er eigi auðvelt að slíta.


Hverfult er heimslán

13Betri er fátækur unglingur, sé hann vitur, heldur en gamall konungur, sé hann heimskur og þýðist eigi framar viðvaranir. 14Því að hann gekk út úr dýflissunni og varð konungur, þótt hann hefði fæðst snauður í ríki annars. 15Ég sá alla lifandi menn, þá er gengu undir sólinni, vera á bandi unglingsins, hins annars, þess er koma átti í hins stað. 16Enginn endir var á öllu því fólki, á öllum þeim, er hann var fyrir. Þó glöddust eftirkomendurnir ekki yfir honum. Því að einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.


Haf gát

17Haf gát á fæti þínum þegar þú gengur í Guðs hús, því að það er betra að koma þangað til þess að heyra, heldur en að heimskingjar færi sláturfórn; því að þeir vita ekkert og gjöra það sem illt er.

5
1Vertu ekki of munnhvatur, og hjarta þitt hraði sér ekki að mæla orð frammi fyrir Guði, því að Guð er á himnum, en þú á jörðu, ver því eigi margorður. 2Því að draumar koma, þar sem áhyggjurnar eru miklar, og heimskutal, þar sem mörg orð eru viðhöfð.

3Þegar þú gjörir Guði heit, þá fresta þú eigi að efna það, því að hann hefir eigi velþóknun á heimskingjum. Efn það er þú heitir. 4Betra er að þú heitir engu en að þú heitir og efnir ekki.

5Leyf eigi munni þínum að baka líkama þínum sekt og seg eigi við sendiboðann: Það var fljótfærni! Hvers vegna á Guð að reiðast tali þínu og skemma verk handa þinna? 6Því að þar sem mikið er um drauma og orð, þar er og mikill hégómi. Óttastu heldur Guð!


Það sem er gott og fagurt

7Sjáir þú hinn snauða undirokaðan og að rétti og réttlæti er rænt í héraðinu, þá furða þú þig ekki á því athæfi, því að hár vakir yfir háum og hinn hæsti yfir þeim öllum.

8Konungur, sem gefinn er fyrir jarðyrkju, er í alla staði ávinningur fyrir land.

9Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum, og sá sem elskar auðinn, hefir ekki gagn af honum. Einnig það er hégómi. 10Þar sem eigurnar vaxa, þar fjölgar og þeim er eyða þeim, og hvaða ábata hefir eigandinn af þeim annan en að horfa á þær?

11Sætur er svefninn þeim sem erfiðar, hvort sem hann etur lítið eða mikið, en offylli hins auðuga lætur hann eigi hafa frið til að sofa.

12Til er slæmt böl, sem ég hefi séð undir sólinni: auður sem eigandinn varðveitir sjálfum sér til ógæfu. 13Missist þessi auður fyrir slys, og hafi eigandinn eignast son, þá verður ekkert til handa honum. 14Eins og hann kom af móðurlífi, svo mun hann nakinn fara burt aftur eins og hann kom, og hann mun ekkert á burt hafa fyrir strit sitt, það er hann taki með sér í hendi sér.

15Einnig það er slæmt böl: Með öllu svo sem hann kom mun hann aftur fara, og hvaða ávinning hefir hann af því, að hann stritar út í veður og vind? 16Auk þess elur hann allan aldur sinn í myrkri og við sorg og mikla gremju og þjáning og reiði.

17Sjá, það sem ég hefi séð, að er gott og fagurt, það er, að maðurinn eti og drekki og njóti fagnaðar af öllu striti sínu, því er hann streitist við undir sólinni alla ævidaga sína, þá er Guð gefur honum, því að það er hlutdeild hans. 18Og þegar Guð gefur einhverjum manni ríkidæmi og auðæfi og gjörir hann færan um að njóta þess og taka hlutdeild sína og að gleðjast yfir starfi sínu, þá er og það Guðs gjöf. 19Því að slíkur maður hugsar ekki mikið um ævidaga lífs síns, meðan Guð lætur hann hafa nóg að sýsla við fögnuð hjarta síns.


Lífsgirndin seðst aldrei

6
1Til er böl, sem ég hefi séð undir sólinni, og það liggur þungt á mönnunum: 2Þegar Guð gefur einhverjum manni ríkidæmi, auðæfi og heiður, svo að hann skortir ekkert af því er hann girnist, en Guð gjörir hann ekki færan um að njóta þess, heldur nýtur annar maður þess - það er hégómi og vond þjáning.

3Þótt einhver eignaðist hundrað börn og lifði mörg ár, og ævidagar hans yrðu margir, en sál hans mettaðist ekki af gæðum og hann fengi heldur enga greftrun, þá segi ég: Ótímaburðurinn er sælli en hann. 4Því að hann er kominn í hégóma og fer burt í myrkur, og nafn hans er myrkri hulið. 5Hann hefir ekki heldur séð sólina né þekkt hana, hann hefir meiri ró en hinn.

6Og þótt hann lifi tvenn þúsund ár, en njóti einskis fagnaðar, fer ekki allt sömu leiðina?

7Allt strit mannsins er fyrir munn hans, og þó seðst girndin aldrei. 8Því að hvaða yfirburði hefir spekingurinn fram yfir heimskingjann? hvaða yfirburði hinn snauði, er kann að ganga frammi fyrir þeim sem lifa?

9Betri er sjón augnanna en reik girndarinnar. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.


Allt er ákveðið

10Það sem við ber, hefir fyrir löngu hlotið nafn sitt, og það er ákveðið, hvað menn eiga að verða, og maðurinn getur ekki deilt við þann sem honum er máttkari. 11Og þótt til séu mörg orð, sem auka hégómann - hvað er maðurinn að bættari? 12Því að hver veit, hvað gott er fyrir manninn í lífinu, alla daga hans fánýta lífs, er hann lifir sem skuggi? Því að hver segir manninum, hvað bera muni við eftir hans dag undir sólinni?


Spekiorð

7
1Betra er gott mannorð en góð ilmsmyrsl og dauðadagur betri en fæðingardagur.

2Betra er að ganga í sorgarhús en að ganga í veislusal, því að það eru endalok sérhvers manns, og sá sem lifir, hugfestir það.

3Betri er hryggð en hlátur, því að þegar andlitið er dapurt, líður hjartanu vel.

4Hjarta spekinganna er í sorgarhúsi, en hjarta heimskingjanna í gleðihúsi.

5Betra er að hlýða á ávítur viturs manns en á söng heimskra manna. 6Því að hlátur heimskingjans er eins og þegar snarkar í þyrnum undir potti. Einnig það er hégómi.

7Kúgun gjörir vitran mann að heimskingja, og mútur spilla hjartanu.

8Betri er endir máls en upphaf, betri er þolinmóður maður en þóttafullur.

9Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast, því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.

10Seg ekki: Hvernig stendur á því, að hinir fyrri dagar voru betri en þessir? Því að eigi er það af skynsemi, að þú spyr um það.

11Speki er eins góð og óðal, og ávinningur fyrir þá sem sólina líta. 12Því að spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu, en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir, að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.

13Skoða þú verk Guðs. Hver getur gjört það beint, er hann hefir gjört bogið? 14Ver þú í góðu skapi á hinum góða degi, og hugleið þetta á hinum vonda degi: Guð hefir gjört þennan alveg eins og hinn, til þess að maðurinn verði einskis vísari um það sem síðar kemur.


Ver ekki of réttlátur

15Allt hefi ég séð á mínum fánýtu ævidögum: Margur réttlátur maður ferst í réttlæti sínu, og margur guðlaus maður lifir lengi í illsku sinni.

16Ver þú ekki of réttlátur og sýn þig ekki frábærlega vitran - hví vilt þú tortíma sjálfum þér? 17Breyttu eigi of óguðlega og ver þú eigi heimskingi - hví vilt þú deyja áður en þinn tími er kominn? 18Það er gott, að þú sért fastheldinn við þetta, en sleppir þó ekki hendinni af hinu, því að sá sem óttast Guð, kemst hjá því öllu.

19Spekin veitir vitrum manni meiri kraft en tíu valdhafar, sem eru í borginni.

20Enginn réttlátur maður er til á jörðinni, er gjört hafi gott eitt og aldrei syndgað. 21Gef þú heldur ekki gaum öllum þeim orðum sem töluð eru, til þess að þú heyrir eigi þjón þinn bölva þér. 22Því að þú ert þér þess meðvitandi, að þú hefir og sjálfur oftsinnis bölvað öðrum.


Hyggindin eru hulin

23Allt þetta hefi ég rannsakað með speki. Ég hugsaði: Ég vil verða vitur, en spekin er fjarlæg mér.

24Fjarlægt er það, sem er, og djúpt, já djúpt. Hver getur fundið það?

25Ég sneri mér og beindi huga mínum að því að þekkja og rannsaka og leita visku og hygginda og að gera mér ljóst, að guðleysi er heimska og heimska vitleysa.

26Og ég fann að konan er bitrari en dauðinn, því að hún er net og hjarta hennar snara, hendur hennar fjötrar. Sá sem Guði þóknast, kemst undan henni, en syndarinn verður fanginn af henni. 27Sjá, þetta hefi ég fundið, segir prédikarinn, með því að leggja eitt við annað til þess að komast að hyggindum.

28Það sem ég hefi stöðugt leitað að, en ekki fundið, það er þetta: Einn mann af þúsundi hefi ég fundið, en konu á meðal allra þessara hefi ég ekki fundið. 29Sjá, þetta eitt hefi ég fundið, að Guð hefir skapað manninn beinan, en þeir leita margra bragða.


Orð konungs er máttugt

8
1Hver er sem spekingurinn og hver skilur þýðingu hlutanna?

Speki mannsins hýrgar andlit hans, og harkan í svipnum breytist.

2Ég segi: Varðveit þú boð konungsins, og það vegna eiðsins við Guð. 3Ver þú eigi fljótur til að ganga burt frá honum, gef þig eigi við illu málefni. Því að hann gjörir allt, sem hann vill, 4af því að konungsorð er máttugt, og hver segir við hann: Hvað gjörir þú?


Ráð Guðs er mönnum hulið

5Sá sem varðveitir skipunina, mun ekki kenna á neinu illu, og hjarta viturs manns þekkir tíma og dóm. 6Því að sérhvert fyrirtæki á sinn tíma og dóm, því að böl mannsins hvílir þungt á honum. 7Hann veit ekki, hvað verða muni, því að hver segir honum, hvernig það muni verða?

8Enginn maður ræður yfir vindinum, svo að hann geti stöðvað vindinn, og enginn maður hefir vald yfir dauðadeginum, og enginn fær sig lausan úr bardaganum, og óhæfan bjargar ekki þeim, er hana fremur.

9Allt þetta hefi ég séð, og það með því að ég veitti athygli öllu því, sem gjörist undir sólinni, þegar einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.

10Þá hefi ég séð óguðlega menn jarðaða, en þeir er gjört höfðu það sem rétt var, máttu fara burt frá hinum heilaga stað og gleymdust í borginni. Einnig það er hégómi.

11Af því að dómi yfir verkum illskunnar er ekki fullnægt þegar í stað, þá svellur mönnum móður til þess að gjöra það sem illt er. 12Syndarinn gjörir það sem illt er hundrað sinnum og verður samt gamall, þótt ég hins vegar viti, að guðhræddum mönnum, er óttast Guð, muni vel vegna. 13En hinum guðlausa mun ekki vel vegna, og hann mun ekki verða langlífur fremur en skugginn, af því að hann óttast ekki Guð.

14Það er hégómi, sem gjörist á jörðinni, að til eru réttlátir menn, sem verða fyrir því, er óguðlegir eiga skilið, og til eru óguðlegir menn, sem verða fyrir því, er réttlátir eiga skilið. Ég sagði: Einnig það er hégómi.

15Fyrir því lofaði ég gleðina, því að ekkert betra er til fyrir manninn undir sólinni en að eta og drekka og vera glaður. Og það fylgi honum í striti hans um ævidagana, sem Guð hefir gefið honum undir sólinni.

16Þegar ég lagði allan hug á að kynna mér speki og að sjá það starf, sem framið er á jörðinni - því að hvorki dag né nótt kemur manni blundur á auga - 17þá sá ég, að maðurinn getur ekki skilið til fulls allt Guðs verk, það verk sem gjörist undir sólinni, því að hversu mjög sem maðurinn gjörir sér far um að leita, fær hann þó ekki skilið það til fulls, og enda þótt spekingurinn hyggist að þekkja það, þá fær hann eigi skilið það til fulls.


Sömu örlög henda alla menn

9
1Öllu þessu veitti ég athygli, og allt þetta reyndi ég að rannsaka: Að hinir réttlátu og vitru og verk þeirra eru í hendi Guðs. Hvorki elsku né hatur veit maðurinn fyrir, allt liggur fram undan þeim. 2Allt getur alla hent, sömu örlög mæta réttlátum og óguðlegum, góðum og hreinum og óhreinum, þeim er fórnfærir og þeim er ekki fórnfærir. Hinum góða farnast eins og syndaranum, og þeim er sver eins og þeim er óttast svardaga. 3Það er ókostur við allt, sem við ber undir sólinni, að sömu örlög mæta öllum, og því fyllist hjarta mannanna illsku, og heimska ríkir í hjörtum þeirra alla ævi þeirra, og síðan liggur leiðin til hinna dauðu.

4Því að meðan maður er sameinaður öllum sem lifa, á meðan er von, því að lifandi hundur er betri en dautt ljón. 5Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist. 6Bæði elska þeirra og hatur og öfund, það er fyrir löngu farið, og þeir eiga aldrei framar hlutdeild í neinu því, sem við ber undir sólinni.

7Far því og et brauð þitt með ánægju og drekk vín þitt með glöðu hjarta, því að Guð hefir þegar lengi haft velþóknun á verkum þínum. 8Klæði þín séu ætíð hvít og höfuð þitt skorti aldrei ilmsmyrsl. 9Njót þú lífsins með þeirri konu, sem þú elskar, alla daga þíns fánýta lífs, sem hann hefir gefið þér undir sólinni, alla þína fánýtu daga, því að það er hlutdeild þín í lífinu og það sem þú fær fyrir strit þitt, sem þú streitist við undir sólinni.

10Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.


Maðurinn háður tíma og tilviljun

11Enn sá ég undir sólinni, að hinir fljótu ráða ekki yfir hlaupinu, né kapparnir yfir stríðinu, né heldur spekingarnir yfir brauðinu, né hinir hyggnu yfir auðnum, né vitsmunamennirnir yfir vinsældinni, því að tími og tilviljun mætir þeim öllum.

12Því að maðurinn þekkir ekki einu sinni sinn tíma: Eins og fiskarnir festast í hinu háskalega neti og eins og fuglarnir festast í snörunni - á líkan hátt verða mennirnir fangnir á óheillatíð, þá er hún kemur skyndilega yfir þá.


Viska fátæks manns

13Þetta sá ég einnig sem speki undir sólinni, og fannst mér mikið um: 14Einu sinni var lítil borg og fáir menn í henni. Voldugur konungur fór í móti henni og settist um hana og reisti mikil hervirki gegn henni. 15En í borginni var fátækur maður, en vitur, og hann bjargaði borginni með viturleik sínum. En enginn maður minntist þessa fátæka manns. 16Þá hugsaði ég: Viska er betri en afl, en viska fátæks manns er fyrirlitin, og orðum hans er eigi gaumur gefinn.

17Orð viturra manna, sem hlustað er á í ró, eru betri en óp valdhafans meðal heimskingjanna.

18Viska er betri en hervopn, en einn syndari spillir mörgu góðu.


Orðtök um hyggindin

10
1Dauðar flugur valda ódaun með því að hleypa ólgu í olíu smyrslarans. Ofurlítill aulaskapur er þyngri á metunum heldur en viska, heldur en sómi.

2Hjarta viturs manns stefnir á heillabraut, en hjarta heimskingjans leiðir hann í ógæfu. 3Og þegar aulinn er kominn út á veginn, brestur og á vitið, og hann segir við hvern mann, að hann sé auli.

4Ef reiði drottnarans rís í gegn þér, þá yfirgef ekki stöðu þína, því að stilling afstýrir stórum glappaskotum.

5Til er böl, sem ég hefi séð undir sólinni, nokkurs konar yfirsjón af hálfu valdhafans: 6Heimskan er sett í háu stöðurnar, en göfugmennin sitja í niðurlægingu. 7Ég sá þræla ríðandi hestum og höfðingja fótgangandi eins og þræla.

8Sá sem grefur gröf, getur fallið í hana, og þann sem rífur niður vegg, getur höggormur bitið. 9 Sá sem sprengir steina, getur meitt sig á þeim, sá sem klýfur við, getur með því stofnað sér í hættu. 10Ef öxin er orðin sljó og eggin er ekki brýnd, þá verður maðurinn að neyta því meiri orku. Það er ávinningur að undirbúa sérhvað með hagsýni.

11Ef höggormurinn bítur, af því að særingar hafa verið vanræktar, þá kemur særingamaðurinn að engu liði.

12Orð af munni viturs manns eru yndisleg, en varir heimskingjans vinna honum tjón. 13Fyrstu orðin fram úr honum eru heimska, og endir ræðu hans er ill flónska.

14Heimskinginn talar mörg orð. Og þó veit maðurinn ekki, hvað verða muni. Og hvað verða muni eftir hans dag - hver segir honum það? 15Amstur heimskingjans þreytir hann, hann ratar ekki veginn inn í borgina.

16Vei þér, land, sem hefir dreng að konungi og höfðingjar þínir setjast að áti að morgni dags!

17Sælt ert þú, land, sem hefir eðalborinn mann að konungi og höfðingjar þínir eta á réttum tíma, sér til styrkingar, en ekki til þess að verða drukknir.

18Fyrir leti síga bjálkarnir niður, og vegna iðjulausra handa lekur húsið.

19Til gleðskapar búa menn máltíðir, og vín gjörir lífið skemmtilegt og peningarnir veita allt.

20Formæl ekki konunginum, jafnvel ekki í huga þínum, og formæl ekki ríkum manni í svefnherbergjum þínum, því að fuglar loftsins kynnu að bera burt hljóðið og hinir vængjuðu að hafa orðin eftir.


Starfa meðan dagur er

11
1Varpa þú brauði þínu út á vatnið, því þegar margir dagar eru um liðnir, munt þú finna það aftur.

2Skiptu hlutanum sundur í sjö eða jafnvel átta, því að þú veist ekki, hvaða ógæfa muni koma yfir landið.

3Þegar skýin eru orðin full af vatni, hella þau regni yfir jörðina. Og þegar tré fellur til suðurs eða norðurs - á þeim stað, þar sem tréð fellur, þar liggur það kyrrt.

4Sá sem sífellt gáir að vindinum, sáir ekki, og sá sem sífellt horfir á skýin, uppsker ekki.

5Eins og þú veist ekki, hvaða veg vindurinn fer og hvernig beinin myndast í móðurkviði þungaðrar konu, eins þekkir þú heldur ekki verk Guðs, sem allt gjörir.

6Sá sæði þínu að morgni og lát hendur þínar eigi hvílast að kveldi, því að þú veist ekki, hvað muni heppnast, þetta eða hitt, eða hvort tveggja verði gott.


Æska og elli

7Indælt er ljósið, og ljúft er fyrir augun að horfa á sólina. 8Því lifi maðurinn mörg ár, þá á hann að vera glaður öll þau ár og minnast þess, að dagar myrkursins verða margir. Allt sem á eftir kemur er hégómi.

9Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín, og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast, en vit, að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm. 10Og hrind gremju burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum, því að æska og morgunroði lífsins eru hverful.

12
1Og mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: "Mér líka þau ekki" - 2áður en sólin myrkvast og ljósið og tunglið og stjörnurnar, og áður en skýin koma aftur eftir regnið - 3þá er þeir skjálfa, sem hússins geyma, og sterku mennirnir verða bognir og kvarnarstúlkurnar hafast ekki að, af því að þær eru orðnar fáar, og dimmt er orðið hjá þeim, sem líta út um gluggana, 4og dyrunum út að götunni er lokað, og hávaðinn í kvörninni minnkar, og menn fara á fætur við fuglskvak, en allir söngvarnir verða lágværir, 5þá menn eru hræddir við hæðir og sjá skelfingar á veginum, og þegar möndlutréð stendur í blóma og engispretturnar dragast áfram og kaper-ber hrífa ekki lengur, því að maðurinn fer burt til síns eilífðar-húss og grátendurnir ganga um strætið - 6áður en silfurþráðurinn slitnar og gullskálin brotnar og skjólan mölvast við lindina og hjólið brotnar við brunninn 7og moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, og andinn til Guðs, sem gaf hann.

8Aumasti hégómi, segir prédikarinn, allt er hégómi!


Niðurlag

9En auk þess sem prédikarinn var spekingur, miðlaði hann og mönnum þekkingu og rannsakaði og kynnti sér og samdi mörg spakmæli. 10Prédikarinn leitaðist við að finna fögur orð, og það sem hann hefir skrifað í einlægni, eru sannleiksorð.

11Orð spekinganna eru eins og broddar og kjarnyrðin eins og fastreknir naglar - þau eru gefin af einum hirði.

12Og enn fremur, sonur minn, þýðstu viðvaranir. Að taka saman margar bækur, á því er enginn endir, og mikil bókiðn þreytir líkamann.

13Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra. 14Því að Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.



Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997