SÍÐARA  BRÉF  PÁLS  TIL  TÍMÓTEUSAR



Þakkir og hvatningar

1
1Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú til að flytja fyrirheitið um lífið í Kristi Jesú, heilsar

2Tímóteusi, elskuðum syni sínum.

Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.

3Þakkir gjöri ég Guði, sem ég þjóna, eins og forfeður mínir, með hreinni samvisku, því að án afláts, nótt og dag, minnist ég þín í bænum mínum. 4Ég þrái að sjá þig, minnugur tára þinna, til þess að ég fyllist gleði 5er ég rifja upp fyrir mér hina hræsnislausu trú þína. Sú trú bjó fyrst í henni Lóis ömmu þinni og í henni Evnike móður þinni, og ég er sannfærður um, að hún býr líka í þér.

6Fyrir þá sök minni ég þig á að glæða hjá þér þá náðargjöf, sem Guð gaf þér við yfirlagningu handa minna. 7Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.

8Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn, né fyrir mig, bandingja hans, heldur skalt þú með mér illt þola vegna fagnaðarerindisins, svo sem Guð gefur máttinn til. 9Hann hefur frelsað oss og kallað heilagri köllun, ekki eftir verkum vorum, heldur eftir eigin ákvörðun og náð, sem oss var gefin fyrir Krist Jesú frá eilífum tímum, 10en hefur nú birst við komu frelsara vors Krists Jesú. Hann afmáði dauðann, en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu. 11Og til að boða það er ég settur prédikari, postuli og kennari.

12Fyrir þá sök líð ég og þetta. En eigi fyrirverð ég mig, því að ég veit á hvern ég trúi. Og ég er sannfærður um, að hann er þess megnugur að varðveita það, sem mér er trúað fyrir, þar til dagurinn kemur.

13Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú. 14Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda, sem í oss býr.

15Þú veist þetta, að allir Asíumenn sneru við mér bakinu. Í þeirra flokki eru þeir Fýgelus og Hermogenes.

16Drottinn veiti miskunn heimili Ónesífórusar, því að oft hressti hann mig og fyrirvarð sig ekki fyrir fjötur minn, 17heldur lét sér annt um að leita mín, þegar hann kom til Rómar og fann mig. 18Gefi Drottinn honum miskunn að finna hjá Drottni Guði á þeim degi! Og þú þekkir manna best, hve mikla þjónustu hann innti af hendi í Efesus.


Góður hermaður Krists Jesú

2
1Styrkst þú þá, sonur minn, í náðinni, sem fæst fyrir Krist Jesú. 2Og það sem þú heyrðir mig tala í margra votta viðurvist, það skalt þú fá í hendur trúum mönnum, sem líka munu færir um að kenna öðrum.

3Þú skalt og að þínu leyti illt þola, eins og góður hermaður Krists Jesú. 4Enginn hermaður bendlar sig við atvinnustörf. Þá þóknast hann ekki þeim, sem hefur tekið hann á mála. 5Og sá sem keppir í íþróttum fær ekki sigursveiginn, nema hann keppi löglega.

6Bóndinn, sem erfiðar, á fyrstur að fá sinn hlut af ávöxtunum.

7Tak eftir því, sem ég segi. Drottinn mun gefa þér skilning á öllu.

8Minnst þú Jesú Krists, hans sem risinn er upp frá dauðum, af kyni Davíðs, eins og boðað er í fagnaðarerindi mínu. 9Fyrir það líð ég illt og það jafnvel að vera í fjötrum eins og illvirki. En orð Guðs verður ekki fjötrað.

10Fyrir því þoli ég allt sakir hinna útvöldu, til þess að þeir einnig hljóti hjálpræðið, í Kristi Jesú með eilífri dýrð. 11Það orð er satt:

Ef vér höfum dáið með honum,
þá munum vér og lifa með honum.
12 Ef vér stöndum stöðugir,
þá munum vér og með honum ríkja.
Ef vér afneitum honum,
þá mun hann og afneita oss.
13 Þótt vér séum ótrúir,
þá verður hann samt trúr,
því að ekki getur hann afneitað sjálfum sér.


Hæfur verkamaður

14Minn á þetta og heit á þá fyrir augliti Guðs að eiga ekki í orðastælum til einskis gagns, áheyrendum til falls. 15Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.

16Forðast þú hinar vanheilögu hégómaræður, því að þeim, er leggja stund á þær, skilar lengra áfram í guðleysi, 17og lærdómur þeirra etur um sig eins og helbruni. Í hópi þeirra eru þeir Hýmeneus og Fíletus. 18Þeir hinir sömu hafa villst frá sannleikanum, þar sem þeir segja upprisuna þegar um garð gengna og umhverfa trú sumra manna.

19En Guðs styrki grundvöllur stendur. Hann hefur þetta innsigli: "Drottinn þekkir sína" og "hver sá, sem nefnir nafn Drottins, haldi sér frá ranglæti."

20Á stóru heimili eru ekki einungis gullker og silfurker, heldur og tréker og leirker. Sum eru til viðhafnar, önnur til óþriflegri nota. 21Sá sem fær sig hreinan gjört af slíku, mun verða ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks.

22Flý þú æskunnar girndir, en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið við þá, sem ákalla Drottin af hreinu hjarta. 23En hafna þú heimskulegum og óskynsamlegum þrætum. Þú veist, að þær leiða af sér ófrið.

24Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði, heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum, 25hógvær er hann agar þá, sem skipast í móti. Guð kynni að gefa þeim sinnaskipti, sem leiddi þá til þekkingar á sannleikanum, 26þá gætu þeir endurvitkast og losnað úr snöru djöfulsins, sem hefur veitt þá til að gjöra hans vilja.


Á síðustu dögum

3
1Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. 2Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, 3kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, 4sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. 5Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!

6Úr hópi þeirra eru mennirnir, sem smeygja sér inn á heimilin og ná á band sitt kvensniftum, sem syndum eru hlaðnar og leiðast af margvíslegum fýsnum. 7Þær eru alltaf að reyna að læra, en geta aldrei komist til þekkingar á sannleikanum. 8Eins og þeir Jannes og Jambres stóðu í gegn Móse, þannig standa og þessir menn í gegn sannleikanum. Þeir eru menn hugspilltir og óhæfir í trúnni. 9En þeim mun ekki verða ágengt, því að heimska þeirra mun verða hverjum manni augljós, eins og líka heimska hinna varð.


Staðfesta

10Þú hefur breytt eftir mér í kenningu, hegðun, ásetningi, trú, langlyndi, kærleika, þolgæði, 11í ofsóknum og þjáningum, slíkum sem fyrir mig komu í Antíokkíu, í Íkóníum og í Lýstru. Slíkar ofsóknir þoldi ég, og Drottinn frelsaði mig úr þeim öllum.

12Já, allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða. 13En vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.

14En halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. 15Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.

16Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, 17til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.


Verk trúboða

4
1Fyrir augliti Guðs og Krists Jesú, sem dæma mun lifendur og dauða, með endurkomu hans fyrir augum og ríki hans heiti ég á þig: 2Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma. Vanda um, ávíta, áminn með öllu langlyndi og fræðslu. 3Því að þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það, sem kitlar eyrun. 4Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum. 5En ver þú algáður í öllu, þol illt, gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína. 6Nú er svo komið, að mér verður fórnfært, og tíminn er kominn, að ég taki mig upp. 7Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. 8Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans.


Drottinn stóð með mér

9Reyndu að koma sem fyrst til mín, 10því að Demas hefur yfirgefið mig vegna þess að hann elskaði þennan heim. Hann er farinn til Þessaloníku. Kreskes er farinn til Galatíu og Títus til Dalmatíu. 11Lúkas er einn hjá mér.

Tak þú Markús og lát hann koma með þér, því að hann er mér þarfur til þjónustu. 12Týkíkus hef ég sent til Efesus.

13Fær þú mér, þegar þú kemur, möttulinn, sem ég skildi eftir í Tróas hjá Karpusi, og bækurnar, einkanlega skinnbækurnar.

14Alexander koparsmiður gjörði mér margt illt. Drottinn mun gjalda honum eftir verkum hans. 15Gæt þín líka fyrir honum, því að mjög stóð hann í gegn orðum vorum.

16Í fyrstu málsvörn minni kom enginn mér til aðstoðar, heldur yfirgáfu mig allir. Verði þeim það ekki tilreiknað! 17En Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft, til þess að ég yrði til að fullna prédikunina og allar þjóðir fengju að heyra. Og ég varð frelsaður úr gini ljónsins.

18Drottinn mun frelsa mig frá öllu illu og mig hólpinn leiða inn í sitt himneska ríki. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.


Kveðjur

19Heilsa þú Prisku og Akvílasi og heimili Ónesífórusar. 20Erastus varð eftir í Korintu, en Trófímus skildi ég eftir sjúkan í Míletus. 21Flýt þér að koma fyrir vetur. Evbúlus sendir þér kveðju og Púdes og Línus og Kládía og allir bræðurnir.

22Drottinn sé með þínum anda.

Náð sé með yður.



Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997